Bloggfærslur mánaðarins, október 2013
8.10.2013 | 09:30
Sjáðu Maddit, það snjóar!
Það er ekki annað hægt en að hlæja upphátt yfir einlægri gleði systra yfir snjónum. Vaknaði við að úfinn rauðhærður kollur reif upp hurðina á svefnherberginu og hvíslaði: Mammí, það er snjór!
Hún var svo spennt þegar hún klæddi sig í snjóbuxurnar. "Á ég ekki að fara í kuldaskónum", vildi hún vita og talaði við sjálfa sig af einskærri gleði þegar hún tróð sér í skóna: "Já, svona á þetta vera, flott, alveg passlegir, rosalega fínir." Hún var svo falleg þegar hún var að leggja af stað, með stóra fjólubláa húfu sem passar svo vel við litarhaftið, rauðir lokkar gægðust undan húfunni, silfurhringirnir í eyrunum dilluðu sér í takt við kæti hennar þegar hún smellti á mig kossi: "Bless gull", sagði ég og horfði á eftir stórar barninu mínu sem nær mér upp að höku og segir það hverjum sem heyra vill.
Röskva hékk í gluggakistunni og horfði hissa út. "Ég er ekki með kuldagallann, hann er á leikskólanum, ég fór út í honum í gær af því að það var skítkalt", blaðraði hún óðamála. Hún var aldrei þessu vant rösk við að koma sér í útifötin og sætti sig við að fara í ullarsokka ofan í kuldaskóna og flísbuxur, gerði enga athugasemd við það að ég væri ekki flísbuxum, búin að tilkynna mér út í hið óendanlega að hún vilji vera klædd eins og ég, vera eins og ég, ja fyrir utan það að hún vill vera krúnurökuð eins og amma Alla.
Við vorum samt eitthvað svo lengi, snerumst í hringi og þvældumst hvor fyrir annarri. "Við erum búnar að missa af strætó Röskva", sagði ég mæðulega en henni fannst það lítið mál og sagði með birtu í röddinni: "Við tökum bara næsta mammí!" Og hvað með það þótt ég komi svolítið seint í vinnuna! Rétt hjá henni. Ákvað að fara samt strax út og gefa henni góðan tíma til að leika í snjónum á leiðinni. Og eins og ég vissi þurfti hún sífellt að vera að stoppa og talaði í tómum upphrópunum:
"Ég er að borða snjóinn!" Og svo skóf hún skítugan snjóinn af handriðinu upp í sig.
"Æ, hann er svo skítugur þessi snjór Röskva mín" reyndi að ég að segja henni eins og svo oft áður.
"Ég VIL vera veik!" svaraði hún og augun ljómu þegar hún fór niður á hnén til að ná meiri snjó upp í sig.
"Klaki!" hrópaði hún og tók upp lítinn klaka sem hafði myndast í drullugu fótspori.
"Namm!" sagði hún þegar drulluklakinn bráðnaði á tungunni.
"Væri ekki fyndið ef það væri snjór á þakinu á strætó, ha, væri það ekki rosalega fyndið?" Og sem hún hló þegar hún sá snjóinn á þakinu á strætó. Drepfyndið alveg.
"Sjáðu, þetta eru eins og skíði!" sagði hún glöð og dró lappirnar í snjónum svo allur snjór heimsins safnaðist ofan á skóna.
Svo sátum við rjóðar í kinnum í strætó og borðuðum vínber.
Merkilegt hvað það er gott þegar kona hefur losað sig að mestu við kvíðann sem hefur setið svo lengi í maganum eins og grjót. Sama þótt kvíðinn minnki meiðir hann mig því að brúnirnar á grjótinu er alltaf hvassar og rífa í mig að innan. En ég hef verið að slípa steininn og stundum hverfur hann alveg og þá er eins og ég sé með dúnmjúkt ský í maganum. Nýfallinn snjó.
Ég hlæ upphátt.
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar