Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
2.1.2014 | 15:28
Góðan daginn!
Mig svíður í augun af þreytu.
Vorum með Tinnakrútt í pössun í nótt og tvíbbarnir sváfu saman í Rakelarrúmi eftir að Röskva var búin að taka smá dramakast. Þau skiptast á að taka þau, Röskva og Tinni, en eru svo kurteis að taka þau bara heima hjá sér en ekki í næturgistingu hjá öðrum. Tinni tók víst trylling heima hjá sér síðast þegar Röskva gisti hjá honum. Þau höfnuðu fyrirkomulagi okkar Hrundar um að annað gisti í efri koju og hitt í neðri, vildu bæði sofa uppi og allt í lagi með það en svo þurftu þau aðeins að þræta um hver ætti að sofa næst veggnum og hver ekki. Röskva vildi alls ekki sofa við vegginn, handviss um að Tinni mundi þurfa að pissa um nótt og traðka hana niður við að brölta niður úr rúminu. Ég var að vona að hann mundi bara nota stigann í stað þess að nota Röskvu sem stökkpall og henda sér í öfuga átt og beint á veginn en hún taldi það af og frá. Hrund samdi við krílin og sat á stól á meðan þau sofnuðu, Tinni vildi ekki vera einn með Röskvu sagði hann, enda vanur að sofa með mér og Röskvu í hjónarúminu og Hrund hefur þá sofið í sófanum svo þetta var nýtt og betra kerfi, og þurfti Hrund sér til halds og trausts. Þau sofnuðu á endanum, ekkert rosa þreytt þótt ég hefði reynt að þreyta þau og frysta í sundi fyrr um daginn.
Ég fór of seint að sofa, enda búin að snúa sólarrhingnum við. Í mínu gömlukonutilfelli er það ekkert rosalegt, var að fara að sofa um eitt, tvö og vakna svona tíu, ellefu. Mér fannst það samt geðveikt. Rokkaði feitt. Aldrei þreytt. Bara útsofin. Svona er þetta þegar börnin eldast. Reyndi samt að vera skynsöm og fara ekki of seint í rúmið í gær en gerði ekki annað en stara upp í loft. Hefði frekar átt að horfa á annan þátt af Brúnni og fara svo upp í rúm eins og ég var að hugsa um. Rakelin var í okkar rúmi því að þannig var pláss fyrir alla í rúmum og var hún ekki lítið kát með það. Hún sofnaði allt of seint. Búin að snúa sólarrhingnum við eins og aðrir fjölskyldumeðlimir. Og það var ekki séns í helvíti að sofna fyrir hrotum í barninum, ég sver það. Reyndi að laga hana og ýta og pota og lyfta höfði og kodda en ekkert breyttist. Fór inn í herbergi tvíbbanna og lagðist í neðri kojuna sem er í raun bara frekar þunn dýna. Gott fyrir bakið en ég get ekki sofnað á bakinu og mjöðmin á mér var á góðri leið með að mynda holu í parketið undir dýnunni þegar ég reyndi að koma mér fyrir. Lítið pláss fyrir alls kyns púðum og böngsum og dótaríi. Fannst ég rétt vera búin að festa svefn um þrjú þegar ég vakna við að Röskva lafir niður úr efri koju og heimtar að fá að vita hvað ég sé að gera þarna. Man hreinlega ekki hverju ég svaraði en hún var sátt og hætti að lafa og fór aftur að sofa.
Sofnaði aftur. Eftir langa bið. Vaknaði. Ákvað að færa mig. Leit á klukku. Sjitturinn, hún var strax orðin sjö. Skreið upp í rúm til Rakelar svo ég þyrfti ekki að segja neitt um það að ég hefði þurft að færa mig vegna hrota í henni, hún er svo mikið gull. Hrökk upp klukkustund síðar við að Röskva reif upp hurðina og var mjög misboðið yfir því að hafa rekið höfuðið í. Ég lyfti sænginn upp og bauð henni í hlýjuna og kyssti á stuttklipptan kollin. Hún hélt nú ekki. Náði því eftir smá stund að hún var fokvond út í mig fyrir að hafa fært mig, hef örugglega lofað henni í nótt að fara ekki fet. Svo sagðist hún vilja sofa hjá Tinna og rigsaði út úr herberginu. Ég fór á eftir henni en hún vildi ekkert að ég væri neitt að breiða ofan á hana, bað mig bara að loka hurðinni. Tókst samt að vekja Tinna. Og Rakel.
Klukkan var hvort sem er 8 og tími til að fara á fætur. Og það sem þau skinu skrært svona dauðþreytt, sólargeislarnir þrír, þau flissuðu og léku sér og klæddu sig og borðuðu og ég gat skóflað þeim þremur út í bíl og keyrt hvert á sinn staðinn og var mætt í vinnu fyrir tíu.
En mig svíður í augun.
Hlakka til að fara heim og borða fisk og faðma sófann og stelpurnar mínar allar. Eyddi kaffinu í mínu í að blogga og bráðum get ég farið heim. Held að allir sofni snemma í kvöld.
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.1.2014 kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2013 | 09:30
Sjáðu Maddit, það snjóar!
Það er ekki annað hægt en að hlæja upphátt yfir einlægri gleði systra yfir snjónum. Vaknaði við að úfinn rauðhærður kollur reif upp hurðina á svefnherberginu og hvíslaði: Mammí, það er snjór!
Hún var svo spennt þegar hún klæddi sig í snjóbuxurnar. "Á ég ekki að fara í kuldaskónum", vildi hún vita og talaði við sjálfa sig af einskærri gleði þegar hún tróð sér í skóna: "Já, svona á þetta vera, flott, alveg passlegir, rosalega fínir." Hún var svo falleg þegar hún var að leggja af stað, með stóra fjólubláa húfu sem passar svo vel við litarhaftið, rauðir lokkar gægðust undan húfunni, silfurhringirnir í eyrunum dilluðu sér í takt við kæti hennar þegar hún smellti á mig kossi: "Bless gull", sagði ég og horfði á eftir stórar barninu mínu sem nær mér upp að höku og segir það hverjum sem heyra vill.
Röskva hékk í gluggakistunni og horfði hissa út. "Ég er ekki með kuldagallann, hann er á leikskólanum, ég fór út í honum í gær af því að það var skítkalt", blaðraði hún óðamála. Hún var aldrei þessu vant rösk við að koma sér í útifötin og sætti sig við að fara í ullarsokka ofan í kuldaskóna og flísbuxur, gerði enga athugasemd við það að ég væri ekki flísbuxum, búin að tilkynna mér út í hið óendanlega að hún vilji vera klædd eins og ég, vera eins og ég, ja fyrir utan það að hún vill vera krúnurökuð eins og amma Alla.
Við vorum samt eitthvað svo lengi, snerumst í hringi og þvældumst hvor fyrir annarri. "Við erum búnar að missa af strætó Röskva", sagði ég mæðulega en henni fannst það lítið mál og sagði með birtu í röddinni: "Við tökum bara næsta mammí!" Og hvað með það þótt ég komi svolítið seint í vinnuna! Rétt hjá henni. Ákvað að fara samt strax út og gefa henni góðan tíma til að leika í snjónum á leiðinni. Og eins og ég vissi þurfti hún sífellt að vera að stoppa og talaði í tómum upphrópunum:
"Ég er að borða snjóinn!" Og svo skóf hún skítugan snjóinn af handriðinu upp í sig.
"Æ, hann er svo skítugur þessi snjór Röskva mín" reyndi að ég að segja henni eins og svo oft áður.
"Ég VIL vera veik!" svaraði hún og augun ljómu þegar hún fór niður á hnén til að ná meiri snjó upp í sig.
"Klaki!" hrópaði hún og tók upp lítinn klaka sem hafði myndast í drullugu fótspori.
"Namm!" sagði hún þegar drulluklakinn bráðnaði á tungunni.
"Væri ekki fyndið ef það væri snjór á þakinu á strætó, ha, væri það ekki rosalega fyndið?" Og sem hún hló þegar hún sá snjóinn á þakinu á strætó. Drepfyndið alveg.
"Sjáðu, þetta eru eins og skíði!" sagði hún glöð og dró lappirnar í snjónum svo allur snjór heimsins safnaðist ofan á skóna.
Svo sátum við rjóðar í kinnum í strætó og borðuðum vínber.
Merkilegt hvað það er gott þegar kona hefur losað sig að mestu við kvíðann sem hefur setið svo lengi í maganum eins og grjót. Sama þótt kvíðinn minnki meiðir hann mig því að brúnirnar á grjótinu er alltaf hvassar og rífa í mig að innan. En ég hef verið að slípa steininn og stundum hverfur hann alveg og þá er eins og ég sé með dúnmjúkt ský í maganum. Nýfallinn snjó.
Ég hlæ upphátt.
12.7.2013 | 10:43
Ég heiti Díana Rós og ég ...
Ég sat við skrifborðið mitt í vinnunni í gær og hlustaði á mælsku eins þingmannanna. Átta mig allt í einu á því að ég er farin að brosa út í annað og lít upp af skjánum og út um gluggann. Sólin var farin að brosa og ég með.
Hver brosir ekki þegar sólin skín? Eitt sinn var ég þess ekki megnug. Myrkrið átti mig. Það var hjúpur utan um mig, eins og seigfljótandi tjara. Eins og ég sagði um þunglyndið í ljóðabók okkar Inam og Önnu fannst mér þunglyndið stundum loða við mig eins og kusk á frönskum rennilás.
Það eru svo margir þættir úr lífi mínu sem fléttast saman, mynda kaðal sem ég óttaðist eitt sinn að mundi verða að snöru um háls mér. Fyrst og fremst var þetta þó í höfðinu á mér, eitthvað óútskýranlegt sem byrjaði sem hugsun, rann niður eftir hálsinum og settist á brjóstið á mér svo ég átti erfitt með andardrátt. Ég gerði allt sem ég gat til að ná andanum en ég notaði ekki réttar leiðir og sársaukinn var óbærilegur. Ég reyndi að púsla mér saman, fannst ég rangur biti í púsluspili, vissi ekki að ég var réttur biti í öðru púsli.
Suma daga barðist ég við þykka tjöruna, tókst að þynna hana á bletti, mynda glugga á milli mín og heimsins en ég gat aðeins horft út, ég komst ekki út.
Ég ber með mér leifar fyrra lífs, inni í mér og utan á mér, ör, sem ég stend fólk stundum að því að vera að horfa á og ég fyllist svo mikilli skömm.
Skömmin er verra en allt. Verra en að geta ekki andað, verra en að sjá ekki út. Með hana hangandi um hálsinn verð ég aldrei frjáls.
Ég vil ekki skilgreina mig út frá kynhneigð, út frá því hvernig mér leið einu sinni, út frá því hvort ég hef alltaf verið heilbrigð eða einu sinni veik, út frá því hvernig ég var veik, út frá örum. Eiginlega vil ég alls ekki skilgreina mig. Ég vil bara vera sátt við mig og fær um að gleðjast. Sem er ekkert bara.
Allt sem ég hef gert, sem ég hef upplifað, sem hefur komið fyrir mig, er hluti af mér. Rétt eins og slit á maga, mjöðmum og kálfum er merki þess að ég hafi einu sinni verið með barn inni í mér eru önnur ör merki þess að líf mitt hafi verið rússíbani. Ég hef steypst niður á 100 km hraða, ég hef brotlent og ég hef náð hæstu hæðum. Og ég er þakklát fyrir það því að það hefur kennt mér svo mikið. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir mig að losa mig við skömmina. Ég þarf ekki að skammast mín fyrir að hafa ekki alltaf getað plumað mig í lífinu. Ég á að vera stolt af mér fyrir að gera það svo vel núna.
Það er í raun ekki svo langt síðan mér tókst að brjótast úr fjötrunum, rífa af mér tjöruhaminn og brenna hann á báli. Í raun ekki svo langt síðan mér fannst veggir þrengja að mér ef var í sama herbergi og matur. Ekki svo langt síðan ég áttaði mig á því að ég ber ábyrgð á eigin hamingju og get gert allt sem ég vil.
Ég hekla frá mér púkana í höfðinu. Verð eitt með vindinum þegar ég skokka. Loka augunum þegar ég dansa zumba. Brosi til mín í speglinum. Hræðist það ekki þótt kvíðinn sæki að mér með öllu því sem fylgir honum því að ég er sterkari. "Þú ert alveg einstök, Díana mín", sagði amma gamla við mig um daginn og ég leyfði hrósinu að gæla við mig, kitla á mér vangann og með sjálfstraustinu sem ég hef byggt upp gat ég svarað: "Já, takk fyrir það."
Ég heiti Díana Rós og ég var með átröskun og var mjög þunglynd og kvíðin, hvort sem kom nú á undan og á eftir. Ég mun alltaf bera þess merki en ég vil ekki skammast mín fyrir að vera breysk. Núorðið veit ég hvað er ég og minn persónuleiki og hvað eru leifar af veikindunum. Ég losa mig við það sem ég kæri mig ekki um.
Ég gæti aldrei lært neitt væri ég fullkomin svo ég forðast það eins og heitan eldinn. Núna. Gerði það ekki áður. Ég læt mig dreyma, læt draumana rætast, gleðist yfir hverju sem mér dettur í hug, þræði hamingjuaugnablikin eins og perlur á band. Tek af mér skömmina og hengi perlurnar um hálsinn í staðinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2013 | 14:56
Aðalbjörg Röskva veltir hlutunum fyrir sér
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2013 | 11:41
Gleðigjafi
Rauðhausinn minn er mikill gleðigjafi og skín svo skært í lífi mínu. Ég er hennar klettur, hún er þess fullviss að ég viti allt og kunni og setji hún eitthvað ætt upp í sig er hún á því að ég hafi búið það til frá grunni. Ekki slæmt að vera á þessum stalli hjá henni þótt ég standi nú varla undir þessu.
Nú er mini-unlingurinn minn farinn að vera einn heima frá 16 á daginn og hefur það verið þannig í allan vetur. Hún gengur heim úr frístund og er með miða með símanúmerum á töflunni heima ef hún þarf að hringja. Hefur fengið vinsamleg tilmæli um að hringja fyrst í vinnusímann og bara í gemsann ef ég svara ekki í hann og ef það er mikilvægt því að það er svo dýrt að hringja úr heimasíma í gemsa.
Rakel finnst gaman að tala við mig í símann. Eða það hlýtur að vera miðað við hvað hún hringir oft í mig út af ekki neinu. Auðvitað þarf að skipuleggja hinu ýmsu vinahittinga og ég kann vel að meta að hún beri allt slíkt undir mig. Önnur símtöl er algjöra tilgangslaus og fáránlega fyndin:
"Hæ ástin".
"Hæ mammí. Þetta er Rakel."
"Já, hæ elskan."
"Ég ætlaði bara að segja þér að buxurnar mínr blotnuðu í skólanum."
"Já, ok. Og fórstu ekki bara í aukabuxurnar?"
"Jú."
"Flott."
"Já."
"Ætlaðirðu að spyrja mig að einhverju?"
"Neeeeei. Bara segja þér þetta."
"Takk fyrir það. Bless."
"Bless."
Þessi samtöl voru líka sjúklega fyndin:
"Hæ ástin."
"Hæ mammí. Þetta er Rakel.
"Já, ég vissi það elskan."
"Ég skar mig."
"Æ, æ, á hverju skarstu þig?"
"Á blaði."
"Ok. Er þetta nokkuð mjög alvarlegt?"
"Það blæðir."
"Viltu ekki bara setja plástur á skurðinn, veistu ekki hvar plásturinn er?"
"Jú."
"Ok, settu plástur og við sjáumst á eftir."
Fimm mínútum seinna hringdi hún aftur:
"Ég finn ekki plásturinn."
Ég reyndi að lýsa staðsetningu hans fyrir henni en hún gat ómögulega fundið hann.
"Settu bara eldhúsbréf utan um puttann og svo finn ég plásturinn þegar ég kem heim."
"Ok."
Þessi samtöl áttu sér stað rétt áður en ég lagði af stað að sækja Röskvu. Sem ég renni upp að leikskólanum hringir farsíminn.
"Hvað nú elskan?"
"Hæ mammí. Þetta er Rakel." (Ég veit!)
"Það blæðir enn þá."
Nú varið aðeins farið að síga í mig þar sem ég reyndi að losa af mér bílbeltið, orðin of sein að sækja Röskvu út af þessu puttadrama,
"Og hvað viltu að ég geri vinan, ég er alveg að koma heim en getið lítið gert núna."
"Ég vildi bara segja þér það."
"Ok, ég kem heim eftir fimm mínútur. Hættu núna að hringja í mig."
"Ok, bless".
Í gær var hún búin að hringja af því að hún vildi fara í heimsókn til drengs sem ég veit ekkert hver er. Ég heimtaði að fá að tala við foreldra hans og hún ætlaði að hringja í drenginn og biðja þá að hringja í mig. Eins og venjulega var ég að verða of sein að sækja Röskvu og hljóp út stuttu eftir þetta símtal. Þegar ég er að hlaupa niður stigann að stimpilklukkunni heyri ég að vinnusíminn hringir, datt í hug að þetta væri Rakel en hafði ekki tíma til að svara. Svo hringir farsíminn:
"Hæ ástin mín."
"Hæ mammí, þetta er Rakel."
Gud i himmelen. Ég verð að fara að útskýra undur númerabirtist fyrir Rakel sem heldur greinilega að ég svari alltaf með "hæ ástin" í símann burtséð frá því hver það er en ekki einmitt af því að ég VEIT að þetta er hún.
"-", þegir hún í símann.
"Ætlaðirðu að segja mér eitthvað, ég svolítið að drífa mig að sækja Röskvu."
"Já. Veistu hvað?
"Nei."
"Ég fann krabba í fjöruferðinni."
"Frábært"
"Ég tók þá með mér heim."
"Voru þeir dauðir?"
"Nei."
"Ertu með lifandi krabba heima? Hvar eru þeir?
"Á skrifborðinu mínu."
"Ertu með lifandi krabba á skrifborðinu þínu, Rakel Silja?"
"Jááá. En hann er í svona, æ, hvað heitir það aftur, oh ég man ekki hvað það heitir.
"Í hverju???"
"Æ, svona, já, boxi!"
"Viltu setja þá út."
"Á svalirnar eða?"
"Já, já, fínt. Þú veist samt að krabbar drepast ef maður tekur þá úr fjörunni."
"Ó"
"Því miður."
"En það er samt svona sjóvatn hjá þeim í boxinu."
"Það heitir sjór. En það er samt ekki nóg."
"Ó."
"Rakel, hringdirðu í farsímann minn til að spyrja mig að einhverju?"
"Neeeeei. Ég ætlaði bara að segja þér frá kröbbunum."
"Og hvað með strákinn sem þú ætlaðir að leika við."
"Nei, hann getur ekki hitt mig. Bless mammí."
"Bless Rakel."
Þessi símtöl auðga líf mittt. Unginn hafði svo miklar áhyggjur af kröbbunum að hún spurði mömmu sína hvort þær gætu ekki farið með þá niður í fjöru. "Ég vil ekki taka áhættuna á því að þeir deyi og bíða þar til á morgun svo það er best að þú farir bara með þá niður í fjöru og sleppir þeim á eftir mamma." Sem hún og gerði.
Krúttrass.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.6.2013 | 11:04
Hugleiðingar
Ég á svo sterka minningu um eldri litla bróður minn, hann Simon. Hann hefur verið um 2-3 ára, ég 10 ára, og ég var í heimsókn hjá pabba í Svíþjóð. Á þessum tíma bjó pabbi og barnsmóðir hans með Simon í sama hverfi. Stuttu eftir að ég vaknaði rölti ég yfir til Simonar, ég fékk ekki nóg af honum. Ég var svo snemma í því, óþolinmóð að vanda, að mamma hans var rétt að klæða hann í fötin. Ég man hvað mér fannst merkilegt að hann skyldi ekki fara í nærskyrtu heldur bara beint í stuttermabolinn, á kalda Íslandi var sjaldan veður til að sleppa nærfötunum. Hann var svo fallegt barn. Kaffibrúnn í sænska sumrinu, með þykku varirnar frá mömmu sinni og litinn frá pabba. Hárið, sem seinna varð snarhrokkið, var tinnusvart og stuttklippt, augun dökkbrún, næstum svört, þar sem hann horfði upp til mín og brosti.
Við fórum tvö út í sólina. Sátum á stéttinni og sleiktum íspinna. Sólin vermdi mig inn að hjarta, ég var svo heppin, átti eina systur á Íslandi og einn bróður í Svþjóð. Þegar ég horfði á hann vissi ég að það var mitt hlutverk að vernda hann, vissi að ég mundi gera allt fyrir hann. Hann var með fæðingarblett á kálfanum, hann var heitfengur og hreyfði sig stanslaust þannig að svitaperlur mynduðust á litla andlitinu, hann var með pínulítið skakkt bros. Höndin hans var svo ólík hendi litlu systur, hún var þykk, fingurnir stuttir, lófinn hlýr í mínum.
Nei, þetta er ekki minningargrein um hann, Simon er sprellilfandi, en hann er samt horfinn mér. Við höfum átt ótal stundir saman með pabba, hann kom í heimsókn til Ísland, hann spurði sífellt um Röskvu, systurdóttur sína, við gátum baktalað pabba og hlegið að honum á sama tíma, hann hefur líka farið til Nicaragua og hitt ömmu og afa, skoðað rætur sínar, við sendum hvort öðru skilaboð á Facebook og ég skoðaði myndir af honum á veggnum hans; sama brosið, sömu augun, svo dökkur og óendanlega myndalegur, sá pabba í honum eins og ég sé stundum pabba í mér.
En svo hvarf hann. Hætti á Facebook, hætti að tala við pabba og snérist gegn honum. Tók svo margar rangar ákvarðanir og er nú horfinn í einhvern heim sem ég er ekki hluti af, með fólki sem hefur engan áhuga á að vernda hann eða þykir vænt um hann eins og mér.
Ég hitti hann síðast 2008. Hann hefur aldrei hitt Röskvu, hún skilur ekki hver þetta er á myndinni inni í svefnherbergi, hvernig getur mammí átt bróður sem hún hefur aldrei hitt?
Ég hitti hann fyrst í janúar 1992, þá var hann hvítvoðungur í plastkassa á sjúkrahúsi í Svíþjóð. Ég fékk að upplifa fyrsta dagana hans með honum, man þegar hjúkkan tók blóðprufu úr hælnum og hann öskraði svo mikið að mig langaði mest að taka hann í fangið og hlaupa með hann út, hugga hann.
Þegar pabbi sagði mér að hann væri hættur að tala við sig leyfði ég mér að vona að það breyttist, hann var unglingur í uppreisn. Svo var hann næstum dáinn eftir hnífsstungu í partýi. Mér fannst ég svo vanmáttug á Íslandi, reyndi að spyrja hvernig hann hefði það og hann sagðist hafa það svo fínt. Ég trúði honum ekki. Við spjölluðum áfram þótt hann hefði klippt á öll tengsl við pabba en í fyrra lokað hann Fésinu sínu og núna hef ég engin tök á því að tala við hann. Hann hefur komið þannig fram við pabba ég efast um að það muni nokkurn tíma gróa um heilt á milli þeirra.
Við pabbi tölum oft um Simon. Gerðum það meira áður þegar við vorum bæði örvingluð, skildum þetta ekki, söknuðum hans. Höfum varla orku í það núna, það er of sárt.
Ég skrifa þetta af því að ég verð að sætta mig við að ég mun kannski aldrei tala við hann aftur. Ég óttast á hverjum degi að fá símtal frá pabba um að hann sé allur, þannig lífi lifir hann núna. Held ég,
Svo langt síðan ég heyrði röddina hans. Enn þá lengra síðan ég tók utan um hann. Hann er svo hávaxinn, örugglega tæpum 30 cm stærri en ég. Stóri litli bróðir minn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.5.2013 | 09:21
Í morgunsárið
Ég svaf svo illa í fyrranótt. Það var svo heitt í svefnherberginu. Ég bylti mér. Hrund bylti sér. Röskva bylti sér (já, hún er alltaf upp í, hefur vljað vera eins nálægt mæðrum sínum og hún getur síðan hún var bara mállaus angi). Hrund var heitt. Röskvu var heitt og þegar henni er heitt blossar exemkláðinn upp og hún klóraði sér svo drundi í herberginu. Enginn sofandi en samt ekki vakandi. Eftir tveggja tíma andvöku flúði ég inn í sófa og svaf þar með þunnt teppi ofan á mér.
Var svo þreytt í gær og drakk allt kaffi í heiminum. "Það er svo mikil vinna að vera mamma að það er ótrúlegt að maður fái ekki borgað fyrir það," sagði ég við Rósu frænku þar sem ég var búin að rífa hálfa geymsluna fram á gang og leitaði löðursveitt að dóti sem ég ætlaði að láta hana hafa fyrir Óskar, litla erfðaprinsinn hennar. Auðvitað fæ ég þetta borgað, stelpurnar mínar eru bestar í heiminum en þið skiljið hvað ég á við. Eintóm yfirvinna og næturvaktir í móðurhlutverkinu.
Sumst. Mikið að gera. Tók að mér prófarkalestur í aukavinnu til að safna fyrir Lególandi í ágúst. Var á svo miklum þönum í gær; vinna, Bónus, sækja barn, taka við símtölum frá Rakel sem var að plana vinahittinga, taka upp úr pokum, reyna að gera pastasalat á meðan ég tók mig til fyrir ræktina. Gleymdum eggjunum í suðu á eldavélinni. Skar smá grænmeti, þau til að setja í þvottavél, reif saman dót handa Rósu frænku og Óskari, hrærði í potti, skipulagði pökkun fyrir skátaútilegu Rakelar í huganum, planaði vinnu kvöldsins og svitnaði. Þetta var of mikið. Ákvað að sleppa zumbanu (sem ég geri aldrei) og láta mér duga skokk í gær og skokk í dag. Fann hvernig slaknaði aðeins á vöðvunum. Tók eggjapottinn af hellunni, kláraði að skera grænmetið, gat pufast í geymslunni og fundið dót og þar sem ég reif nánast allt út úr geymslunni fann ég loksins stóran plastkassa með yfirhöfnum sem ég hef gert dauðaleit að mörgum sinnum síðan við fluttum í fyrra.
Tróð í uppþvottavél og þvottavél eftir matinn og rauk út í aukavinnuna. Hvergi betra en að vera hjá mömmu til að fá frið og ró.
Svalinn í svefnherberginu þegar ég kom heim var dásamlegur. Þegar mér tókst loks að slökkva á huganum sem alltaf er á yfirsnúningi féll ég í djúpan svefn. Minnist þess óljóst að hafa snoozað í morgun. Heyrði sönginn í kettinum sem mjálmaði viðþolslaus af hungri en gat ekki brugðist við. Sængin var svöl við bert hörundið. Röskvan tottaði snuðið við hliðina á mér og andardráttur Hrundar var afslappaður og svæfandi. Fannst ég heyra skarkala frammi og vissi að það var stóra stelpan mín að taka sig til fyrir skólann, hún vaknar sjálf á morgnana, svo dugleg.
Tókst svo með herkjum að að rísa upp við dogg klukkan 8 og brá frekar mikið þegar ég leit á klukkuna. Leit inn í herbergi Rakelar sem svaf vært á sínu græna eyra og var alls ekkert að taka sig til fyrir skólann. Það fór þokulúður af stað í höfðinu á mér. Við sváfum allar yfir okkur. Og stelpurnar mínar fara hreinlega í bakkgír þegar þær eru beðnar um að flýta sér.
Rakel þurfti að rífa sig úr fötunum þegar hún var loksins komin í þau til að skoða hvað stóð aftan á stuttermabolnum hennar.
Röskva neitaði að taka af sér hettuna svo ég gæti greitt henni.
Þegar ég leit inn á bað stóð Rakel við vaskinn og starði tómum augun á tannkrem sem henni hafði tekist að sprauta á hendurnar á sér og út um allan vask.
Milli þess sem ég gargaði inn í svefnherbergi á Hrund að vakna henti ég íþróttafötum ofan í tösku, gerði kaffi, rak á eftir stelpunum og svitnaði.
Var orðin svo buguð þegar Rakel var loks lögð af stað í skólann að Röskva bað mig vinsamlegast um að fara ekki að gráta. Þá hafði hún skammað mig fyrir að laga innleggið í skónum hennar af því að hún ætlaði að gera það. Hún neitaði að leyfa mér að hjálpa sér að hneppa peysunni sinni og dútlaði við það eins og enginn væri morgundagurinn. Ja, eða vinnuskylda hjá mér. Leyfði mér að hneppa einni tölu þegar hún sá að ég var að fá taugaáfall.
Við mægður kvöddum Sprundina og þegar ég ætlaði að smella á hana kossi tók hún mig í faðminn. Hann er alltaf svo hlýr. Svo kunnulegur. Svo sefandi. "Ég elska þig. Ég elska þig svo mikið", sagði hún og tók um leið burt allt stressið.
Ég er með sveigjanlegan vinnutíma. Note to self.
55 mínútum eftir að ég vaknaði var ég mætt í vinnuna. Ekki slæmt. Nú er það bara vinna í 8 tíma, skokk í hádeginu, sækja barn, kaupa gúmmítúttur fyrir hitt barnið, elda, pakka fyrir skátaútilegu, pakka fyrir Röskvu sem er að fara í pössun á morgun, ganga frá, setja í vél, vinna aukavinnu. Og sofa. Ekki málið.
3.3.2012 | 08:35
Hugsað og skrifað
Ég hef sagt og skrifað það áður að mér finnst hamingjan standa saman af augnablikum og ef maður er heppinn og lætur ekkert standa í veginum fyrir sér er hægt að fanga þessi augnablik. Þegar ég var yngri átti ég erfitt með að sjá þessi augnablik eða hafði ekki orkuna til að safna þeim. Núna hef ég æft mig og er orðin ansi fær í því. Ég er líka orðin miklu betri í því að byrja ekki að ofanda og finna skelfinguna heltaka mig þegar augnablikin eru ekki þung af hamingju. Áður fyrr þýddi það oft að eitthvað verra var í vændum, það gerði mín eigin geðheilsa og var oft eitthvað sem ég hafði ákveðið og rættist þess vegna. Núna veit ég að þau eru aðeins brautir sem tengja hamingjuaugnablikin saman og alls ekkert hræðileg. Ég hef líka endurskilgreint hamingjuna á mínum eigin forsendum, ég hef alls ekki gert neinar málamiðlanir, bara leyft mér að njóta lífsins meira og er þess vegna hamingjusamari:
Þegar ég fer í sund með Röskvu virðist ég alltaf á einhverjum tímpunkti enda með annað brjóstið úti. Oftast tek ég fljótt eftir því. Það gerðist síðast á fimmtudaginn og þegar ég áttaði mig á því að brjóstið hafði brotist út hallaði ég höfðinu aftur og skellihló svo dátt og lengi að ég fann úðann setjast á andlit mitt. Er eitthvað betra en að eiga lítinn fjörkálf sem blár um munninn spriklar í kringum þig í vatninu. Drekkur svo mikið vatn að hún er ælu næst inn á milli. Svo þrjósk að hún vill alls ekki að ég haldi í sig en nær samt ekki að halda sér alveg á floti. Þess vegna stekkur hún á mig inn á milli og rígheldur í sundbolinn minn, frelsar brjóstin og upplifir sig örugga. Það er góð tilfinngin að vera hennar skjól.
Í morgu vaknaði fyrst ungi yngri og lá tuldrandi við hlið mér í smá stund og raðaði böngsum og dúkkum ofan á andlitinu á mér. Stuttu seinna vaknaði ungi eldri og þær systur fóru saman á klósettið. Annað kemur auðvitað ekki til greina fyrir Röskvu. Eftir það fóru þær inn í herbergið sitt, lokuðu á eftir sér og fóru að leika. Þessar yndislegu systur eru mínar, þær rífast stundum svo mikið og eru svo þverar að mig langar til að ganga út en inn á milli gera þær það sem gerir mig ó svo glaða. Leika sér saman.
Konan mín hefur breyst mikið eftir að ég kynntist henni. Kannski vegna þess að mér hefur á einhvern hátt tekist að hafa góð áhrif á hana. Mest, held ég, vegna þess að við stelpurnar hennar gerum hana glaða og gleðin blæs manni í brjóst lífsvilja og kraft. Hún hefur komið sjálfri sér og fólkinu sínu á óvart, fyrst og fremst með því að öðlast trú á sjálfa sig, hitt höfum við alltaf vitað, að henni væru allir vegir færir. Yfirleitt má ég ekki af Sprundinni minni sjá, tíminn sem við höfum saman eftir vinnu og þegar börnin eru sofnuð er svo lítill. Hún er í árshátíðarnefnd í vinnunni þessa dagana og á eftir verður árshátíð skemmtilega fólksins haldin. Hún hefur verið nokkuð mikið í burtu og mér finnst ég varla hafa séð hana síðan á miðvikudaginn. Þegar hún kom svo heim í gærkvöldi í sínum ljóta pollagalla frá Reykjavíkurborg með bros á vör fann ég hvernig mér hitnaði allri. Ég hef unnið fyrir þessari konu, hún er mín ef ég fer vel með hana, mig og okkur. Og brosið var ætlað mér.
Í dag á amma mín Rósa afmæli. Hin amma mín hefur alltaf búið úti í Nicaragua og ég aðeins hitta hana tvisvar sinnum. Amma Rósa hefur sinnt sínu hlutverki sem tvöföld amma með mestu ágætum. Ég hef getað talað við hana um allt og hún hefur aldrei dæmt mig. Hún, og elsku afi minn sem nú er farinn, hafa alltaf verið mér svo mikilvæg. Og ég þeim. Það er gott.
Í apríl mun ég keyra á draumbílnum mínum í draumhúsið mitt með draumafjölskyldunni minni. Stundum finnst mér það of gott til að vera satt. En af hverju ætti það að vera það? Ég, og við Hrund seinna saman, hef unnið að þessu hörðum höndum og verið svo heppin að fá fullt af hjálp. Það er ekkert betra í heiminum en að finna sterkt fyrir því að eiga sér bakland. Það er ómetanlegt.
Hlín Agnarsdóttir, góð vinkonu mömmu, skrifaði einu sinni bók sem heitir Að láta lífið rætast (ég vona að sé ekki að fara með neina vitleysu, einhvern veginn hefur þessi frasi allavega orðið til og sest að í mér). Hamingjan felst einmitt í því að láta lífið rætast, allavega fyrir mér. Ég get ekki skrifað lista yfir það sem mér finnst hamingjan vera, aðeins liðin augnablik sem gerðu mig hamingjusaman. Þetta gefur mér fresli til að vera hamingjusöm núna, eins og einhvern vitrari en ég sagði er hamingjan ekki áfangastaður, hún er ferðlag. Og ég held áfram á mínum hamingjuaugnabliksveiðum.
Ég held áfram í væmninni, þannig er það bara.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2012 | 09:29
Nýju lífi blásið í bloggið
Það er komin tími til að ég byrji að skrifa aftur, verð að halda mér við. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi, það eru meiriháttar forréttindi. Ég elska öll börnin á deildinni minni, finn svo sterkt hvað ég ber hag þeirra fyrir brjósti, hversu vel ég þekki þau, hvað þau krefjast mikils af mér og gefa mér mikið til baka. Þau gefa mér eitthvað sem er miklu betra en D-vítamín og sólarljós, gleðipillur og svefn. Þau eru hlýr vindur í hári mínu, vorilmur í lofti, sláttur í hjartanu. Þetta er auðvitað hrikalega væmið en jafn satt fyrir því. Launin eru í engu samræmi við vinnuna sem ég vinn á hverjum degi, stundum er ég aðframkomin, frekar af andlegu álagi en líkamlegu. Ég ætti að vinna með heyrnahlífar því hávaðinn er alltaf svo mikill og ég ætti að fá tíma til að skreppa út í hádeginu og fá mér mat að eigin vali því ekki fæ ég borgað fyrir að borða með börnunum. En skilaboðin eru þau að við eigum að vera ánægð með molana sem við fáum frá borginni og halda kjafti. Ég mun seint halda kjafti og ég mun seint sætta mig við launin en ég hlakka til að fara í vinnuna. Hlakka til.
Ég barðist í náminu öll þess ár, já ég á auðvelt með að læra og já mér fannst yfirleitt alveg þrælgaman. En ég var með börn allan þann tíma sem ég var í námi, fjölskyldu sem ég þurfti og vildi sinna og ég var alltaf með fjárhagsáhyggjur. Ég var svo þreytt og svo þreytt þegar ég kláraði síðasta sumar en ánægð með sjálfa mig. Ég fékk samt enga vinnu, kreppa, niðurskurður og allt það, þrátt fyrir að þeir væru hæstánægðir með mig á Mogganum í starfsnáminu var enga vinnu að fá. Ég kippti í alla spotta sem ég sá og skilaði inn nokkrum umsóknum en ekkert. Ég gat ekki hugsað mér að vera atvinnulaus, við vorum líka búnar að bíða svo lengi eftir því að eiga möguleika á því að kaupa nýrri bíl og stækka við okkur. Ég var glöð og leið daginn sem ég fékk vinnuna á leikskólanum. Þetta var ekki það sem ég ætlaði að gera eftir mastersnám en ég gat samt ekki hugsað mér betri vinnu.
Á hverjum degi kvelst ég yfir þeirri tilhugsun að ég hafi farið í vitlaust nám ef svo má segja. Ég var svo lengi að ákveða hvort ég ætti að fara í leikskólakennarann en valdi íslenskuna. Núna óska ég þess að hafa tekið aðra ákvörðun en samt vildi ég ekki hafa misst af því að læra allt sem ég hef lært í háskólanum. Mikið svakalega er gaman að læra um íslenskuna og vinna með hana.
Þessa dagana er ég að reyna að hugsa mig ekki í hel. Reyna frekar að njóta þess góða lífs sem ég lifi og leyfa mér að finnast gaman í vinnunni. Mér finnst bara svo oft eins og fólki finnist að ég ætti að vera að gera eitthvað betra, eitthvað betur launað. En ég bókstaflega elska vinnuna mína, það verður seint metið til fjár. Það er ótrúlega skemmtilegt að koma heim og ræða vinnuna við Hrund, við lifum sama lífi á daginn, rétt eins og þegar við komum heim. Við deilum ástríðunni, þreytunni, vonleysinu yfir lélegum launum og voninni sem er fólgin í öllum barnsandlitunum sem taka á móti okkur á morgnana.
Mig langar að vera annan vetur á leikskólanum. Ég fór í gegnum allar síður sem mér datt í hug um daginn í leit að störfum en það er ekkert að fá. Enn þá allavega. Ég ætla að hafa augun opin áfram en ég ætla að hætta að liggja í rúminu á kvöldin og stara á vegginn með kvíða yfir því að ég "ætti" (hvar eru íslensku gæsalappirnar?) að vera að gera eitthvað annað. Ég ætla að standa með minni ákvörðun og halda áfram að hlakka til á hverjum degi. Halda skrifunum við með bloggblaðri.
Kannski tek ég kennsluréttindin einn daginn. Kannski verð ég blaðamaður. Kannski ritstjóri. Kannski læt ég drauminn rætast og skrifa smásagnasafn.
Eftir að hafa gengið í gegnum erfiða tíma þegar ég var yngri þar sem ég barðist við að halda við einhverjum örlitlum lífsneista, einhverri löngun til að virkilega lifa, er ég þakklát fyrir að hafa aldrei gefist upp á að blása í glæðurnar því þessa dagana brennur inni í mér bál. Laun erfiðisins eru Hrund og stelpurnar mínar. Og við Hrund erum að láta okkar drauma rætast. Draumar sem rætast í raunveruleikanum er alltaf öðruvísi en þeir sem sveima um í höfðinu, þeir aðlaga sig lífinu sem við lífum og rætast oft á annan hátt en við áttum von á. Sem þýðir ekki að draumurinn hafi ekki ræst, þvert á móti. Í vor mun ég standa í stóra eldhúsinu í draumaíbúðinni og baka með stelpunum, búa til guacamole eins og pabbinn minn kenndi mér að gera, ná mér í einn kaldan á eftir og sama hvað ég er að stússa þá get ég sett í uppþvottavélina á eftir. JESS! Sprundin getur sett upp verkstæði í bílskúrnum og hlúð þar að áhugamálum sínum og hæfileikum. Þegar ég vil stundarfrið get ég fleygt mér í sófann í bókaherberginu í kjallarnum og horfið í heim bókanna. Stelpurnar hlaupa milli herbergjanna og klaga hvor aðra, báðar með sérherbergi. Og ég ætla að njóta sólarinnar í garðinum.
Er hægt að biðja um meira?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2010 | 14:25
Trú og trúboð
Verður nokkuð allt vitlaust ef ég set þetta hérna inn ... Nei, nei.
Hvað finnst ykkur um ályktunina um samskipti leik-og grunnskóla við trúfélög sem meirihluti Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar (eða fulltrúar í því) hefur lagt fram?
Bara svona að velta þessu fyrir mér. Sjálf er ég trúuð en ég vil ekkert með kirkjuna hafa og vil ekki sjá trúboð í skólum og leikskólum. Ég vil fá að sjá um trúaruppeldi barna minna sjálf. Þetta stuðar Hrund líka mikið enda er hún trúlaus með öllu. Ég var mjög lengi að komast að því hvort ég tryði og á hvað ég tryði og ákvað í framhaldi af því að segja mig úr Þjóðkirkjunni. Svo er þetta alltaf að þróast. Ég hætti að biðja bænir með Rakel og ætla ekki að kenna Röskvu neinar og svo signi ég þær ekki lengur, kyssi þær á ennið í staðinn og lít á það sem alla þá vernd sem ég get boðið þeim. Mér finnst allt í lagi að þær læri bænir við Hrund ætlum ekki hafa það sem hluta af kvöldrútínu að fara með þær. Við getum alveg beðið saman um styrk eða gott til handa góða fólki en þá verður það með okkar eigin orðum. Annaðhvort iðka ég trúarbrögð eða ekki og ég ætla ekki að gera það. Ég vil auðvitað fyrir allan muni að börnin mín læri um allt milli himins og jarðar en ég vil bara að það sé ljóst að sumir trúi einhverju og aðrir öðru, það er ekkert eitt réttara en annað.
Rakel er algjörlega heilaþvegin af trúboðinu sem fór fram í leikskólanum hennar og við mamma hennar vorum hreinlega of seinar að kippa henni út úr þessu öllu. Kona er svo vön þessu. Svo er auðvitað glatað að maður þurfi að gera það. Vera heima með barnið því það er það eina í stöðunni ef maður vill ekki að það fari í kirkju. Svo kom líka prestur sem talaði um Jesú og ég veit ekki hvað, ýmislegt bara sem ég trúi ekki á.
Ég vil ekkert endilega að dætur mínar trúi því sem ég trúi eða verði trúlausar. Ég vil bara að þær fái fresli til að velja sjálfar og mér finnst þær ekki fá það eins og staðan er í dag.
Ég vil heldur ekki leggja af jólaball og jólaföndur og svoleiðis en ég vil ekki hafa jólahelgileik þar sem Rakel leikur Jesúbarnið. Hún má (og ég vil það) gjarnan læra um guð og jésu og kristni yfir höfuð og hvaða áhrif hún hefur haft á menningu okkar og hvað hún spilar stórt hlutverk, ég vil bara ekki að trúin sé boðuð umfram aðrar.
Ég var svo roooosalega lengi að móta mér mínar eigin skoðanir og þær eru enn í mótun. Við Hrund vorum t.d. að pæla í gær hvað við ættum að gera með aðventukransinn þar sem hann vísar beint í trú. Ég vil gjarnan hafa hann áfram og við getum gefið honum þá merkingu sem við viljum, niðurtalning í jólin, hátíð ljóssins fyrir okkur. Það er oft svo erfitt að greina á milli menningarlegrar hefðar og trúar ...
Ég ólst alls ekki upp við neitt trúaruppeldi þótt amma hafi kennt mér bænir og svona. Ég lærði hins vegar óhemju mikið af kristinfræði, fékk gefins Nýja testamentið, fór í kirkju, hlustað margoft á presta í skólanum og fór í fermingarfræðslu á skólatíma. Sem sagt ólst upp í kristinni trú og var heillengi að brjótast út úr viðjum vanans.
Ég veit bara að ég verð pirrandi mamman í skólanum og leikskólanum ef þetta heldur svona áfram, get ekki sætt mig við kirkjuferðir og þvíumlíkt. Ekki frekar en að börnunum sé gefið snakk og ís þrjá daga í röð þegar það er afmæli í leikskólanum, vil bara ekki láta taka fram fyrir hendurnar á mér.
Efast ekki um að margir séu ósammála og það er líka allt í fína:)
Vinir og fjölskylda | Breytt 21.10.2010 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar