Súkkulaðikaka

Ég bara fæ ekki nóg af henni, súkkulaðiköku það er að segja.

Röskvan er í svefnæfingabúðum. Vorum byrjaðar (og næstum búnar) að færa háttatímann hennar frá 2 á nóttunni til 9 á kvöldin þegar hún fór skyndilega að láta voðalega illa á kvöldin. Vona að það sé að mestu yfirstaðið núna og þessi kveisa farin til langtíburtistan. Hún er sem sagt farin að sofa um 9 en yfirleitt mótmælir hún því hressilega að vera lögð í rúmið eða það gengur sæmó að svæfa en hún vaknar eftir klukkutíma og mótmælir þá (stundum er það nú samt loftið að angra hana). Hrund hefur verið að leggja hana, hún hefur betra úthald en ég í að liggja hjá henni og taka við orginu. Á meðan stika ég um gólf inn í stofu og óska þess að gráturinn hætti. Vonandi bara nokkur kvöld í það að hún fari sátt að sofa.

Það gengur vel (eða svona ...) að gefa brjóstið, hún fær það svona 2-3, einu sinni á nóttunni og einu sinni til tvisvar á morgnanna. Svo drekkur hún brjóstamjólk úr pelanum eins og enginn sé morgundagurinn og hún er algjör svelgur stelpan. Ég bara sé hana fitna og finn alveg þegar ég held á henni að hún er að þyngjast. Frábært. Svo er það kannski bara ímyndum og kemur í ljós í 3 mánaða skoðun að hún heldur sinni kúrfu og þyngist lítið. Kemur í ljós í næstu viku.

Rakelin er heima í dag með hor heimsins í nös og hósta. Var með hita í gær svo hún er bara að dúllast með mér og Röskvunni. Röskva svaf aldrei þessu vant langan dúr fyrir hádegi (kannski er prógrammið að virka) svo ég náði að þrífa, elda handa Rakel og ýmislegt fleira. Er ekki vön að hafa svona tíma þar sem Röskvu finnst yfirleitt óþarfi að sofa svo ég nýt hans í botn þótt ég eyði honum í að skola úr kúkableium og brjóta þvott.

Fórum í okkar fyrstu bæjarferð allar fjórar á sunnudaginn. Létum ekki bandvitlaust veður stoppa okkar og lokaðar búðir á Laugaveginum, skelltum pinklum, vagni og börnum í bílinn og brunuðum niður í  bæ. Fórum í Eymundsson og skoðuðum bækur og geisladiska, löbbuðum niður á Tjörn og gáfum fiðurfénu í skítakulda og drukkum kakó og átum kleinur á kaffihúsi á meðan Röskvan svaf á sínu græna í vagninum. Enduðum daginn í kjúlla hjá mömmu. Yndislegt alveg hreint.

Annars er ég bara að njóta þess að hafa smá tíma fyrir sjálfa mig á kvöldin núna þegar Röskva fer svona snemma að sofa. Voða ljúft að sitja í sófanum í náttkjól, brjóta þvott og horfa á sjónvarp með öðru og fylgjast með Sprundinni að læra með hinu. Fá mér kannski súkkulaðiköku og ískalda mjólk og dæsa yfir bumbunni sem neitar að fara (súkkulaðikökubumba). Njóta þess að þurfa ekkert að læra heima og lesa Harry Potter.

Langar óskaplega til Svíþjóðar í sumar en veit ekki hvort ég get doblað Hrundina. Rakel langar líka mikið. Getum ekki beðið eftir því að fara í útilegu með ungana og á Malarrif.

Sprundin er komin heim. Hlakka alltaf til að tala við einhvern fullorðinn eftir daginn ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband