Vagnaspekúlasjónir

Ég er svo mikið að pæla í vagninum og því að láta krílin sofa úti :12: Ég hef aldrei skilið þetta fyrirbæri, að láta lítil börn sofa úti í kulda (skil alveg af hverju það var gert hér áður fyrr) þótt ég hafi alveg gert mér grein fyrir því að sum sofa hreinlega betur þegar þau eru dúðuð og svona.

Rakel vildi aldrei sofa í vagni og svaf eins og engillinn sem hún er inni. Ég hef bara aldrei verið neitt að troða Röskvu út í vagn, hefur bara fundist hún of mikið peð og verið of stressuð einhvern veginn. Þarf auðvitað alltaf að skutla henni út í vagn til að ná í Rakel á leikskólann en hef svo tekið burðarrúmið inn þegar við erum allar komnar heim.

Hún hefur alveg sofið ágætlega í vagninum, er stundum smá stund að sofna og vaknar gjarnan ef ég stoppa en svo hefur sko orðið breyting á. Prófaði að láta hana vera áfram úti í vagninum (hún var úti í garði og svo var ég með barnapíutæki í vagninum) eftir að við komum heim úr leikskólanum og hún svaf í þrjá tíma! Og hefur gert hvern einasta dag í þessari viku. Hún fer út í vagn um þrjú og sefur í þrjá tíma.

Sem er gott og blessað nema að mér líður ekkert vel með þetta. Ég myndi helst vilja að hún svæfi bara inni en hún bara sefur ekki langa blundi inni. Gæti alveg tekið 4 ofurstutta blundi til þrjú og ég er sko búin að lesa Draumaland (bók með svefnráðgjöf) og prófa allt sem mér dettur í hug til að reyna að fá hana til að sofa lengri blundi en ekkert gengur. EKKERT. Þegar líður á daginn öskrar hún bara út í eitt af þreytu svo vagninn hefur alveg bjargað okkur.

Ég vil bara ekki að hún geti bara sofið í vagninum, hún verður að geta sofið inni líka. Og svo hef ég áhyggjur af því að hún andi að sér köldu lofti sem ertir lungun, hún hefur verið stífluð alla morgna síðan hún fór að sofa úti. Mér finnst eðlilegt að setja hana út í vagn því að það er alveg normið í samfélaginu en á sama tíma finnst mér það alveg klikkað. Álíka klikkað og að fara í útilegu á þessum árstíma og láta fjölskylduna sofa í tjaldi ...
 
Ég, sem hef aldrei fílað þennan útisvefn barna (og ekkert okkar systkinanna svaf úti t.d.), þarf nú að éta allar stóru yfirlýsingarnar ofan í mig. Ég er kannski fáviti en ég hélt í alvöru að þetta væri spurning um vana og ef ég vendi Röskvu á að sofa alltaf inni þá bara fílaði hún það. En nei. Hún má samt eiga það að hún sofnar sjálf klukkan níu á kvöldin og sefur í 12 klukkutíma meða einni drykkjupásu. En hún er stundum eins og lítið skrímsli á daginn. Fallegasta og sköllóttasta skrímslið í bænum auðvitað en mér finnst hrikalegt að barnið gargi bara á mig úr þreytu en sofi svo samt bara í 20 mín.
 
En mér sýnist á öllu að ég hafi fætt af mér vagnabarn, trúi þessu varla. Prófaði að láta hana sofa í vagninum inni áðan og hún sofnaði strax en svaf bara í hálftíma. Reyndi að rugga henni aftur í svefn en það gekk ekki. Svo drakk hún, fékk hreina bleiu og ég skutlaði henni út í vagn. Hún var smá stund að sofna og vaknaði og grenjaði smá eftir hálftíma en sofnaði svo aftur. Og sefur enn, búin að sofa í tvo tíma.

Ég á ekki til orð.
 
Fíla þetta ekki og fíla á sama tíma. 
 
En núna er vagnabarnið vaknað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Litla krílið bara strax farið að testa mammí sína og fyrirfram ákveðnar hugmyndir hennar! Vonandi vorar bara snemma og þá getur hún sofið úti án þess að stíflast!

:)

Gyða 30.1.2010 kl. 15:06

2 identicon

Sæl Díana og til hamingju með Aðalbjörgu Röskvu. Ég held að hluti af því að börn sofa betur úti í vagni sé að vera svona þétt innpökuð en inni er erfitt að pakka þeim svona þétt án þess að þeim verði of heitt. Hins vegar held ég líka að það sé bara gott fyrir þau að sofa úti, njóttu bara tímans vel á meðan:-)

Harpa Oddnýjarmamma 30.1.2010 kl. 21:28

3 identicon

Ég hef ekki hugmynd um af hverju börn sofa betur úti í vagni en inni en hér á Íslandi er þetta eitt af forréttindum okkar. Við erum með hreint loft og það er enginn að ræna börnum hér á Íslandi. Og svo héld ég að það sé ein af ástæðunum fyrir því hvað flest íslensk börn eru hraust. Rakel var undantekning á reglunni...hún var svo forvitin að hún mátti bara ekkert vera að því að sofa þegar hún var sett í vagn. Hún reyndar svaf úti fyrstu mánuðina en um leið og fór að sumra var draumurinn úti. Ég mæli samt ekkert með því að setja börn út í 10 stiga frost. Og mér finnst gott að þú sjálf tókst þessa ákvörðun. Mæður eiga að fá að ráða því hvernig þær meðhöndla afkvæmi sín og þó við ömmurnar þykjumst stundum vita betur þá eigum við ekki að taka fram fyrir hendurnar á mömmunum. Gangi þér vel með VAGNABARNIÐ þitt Díana mín. She

Silla 31.1.2010 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband