Klikk

Kona er orðin pínu klikk á svefnleysi. Málið er að kona verður svo vön því að vera alltaf þreytt að hún hættir að fatta hversu aðframkomin hún er.

Í gær mótaði ég þessa bloggfærslu í huganum og hún var helvíti skemmtileg. Ég man hins vegar ekki lengur hvað ég ætlaði að skrifa annað en að ég væri þreytt. Og það var eitthvað fleira á dagskrá.

Ég er í yndislegum októbermömmuhóp. Ég get seint lýst því hvað stelpurnar í honum eru frábærar. Við höfum fylgst að síðan við urðum óléttar og náum óvenju vel saman. Bæði spjöllum við á netinu og svo hittumst við reglulega, með börnin og án þeirra. Dýrka þessa gellur. Ein vitnaði í svefnráðgjafa um daginn sem sagði, eins og ég hér að ofan, að foreldar hættu að gera sér grein fyrir því hversu þreyttir þeir í raun væru. Það er svo langt síðan ég hef sofið af einhverju viti. Ég svaf illa á meðgöngunni og svo fylgja vökunætur litlum ungum. Röskva hefur svo sem ekki verið  neitt svakalegt svefnkeis en hún hefur tekið sín slæmu tímabil og sefur nær aldrei heila nótt án þess að vakna. Ég hef kannski fengið tvær til þrjár þannig síðan hún fæddist. Ég komst aldrei upp á lagið með að leggja mig á daginn þegar ég var heima því það var tíminn sem Röskva var með eilíft svefnvesen. Þegar hún svo loksins svaf þurfti ég að mjólka mig, fara í sturtu, borða, vaska upp eða þá bara slappa aðeins af og kíkja í tölvuna og eiga smáááá tíma fyrir sjálfa mig. Og þá var hún vöknuð eða ég þurfti út á svalir að gefa snuð og segja henni að halda áfram að sofa.

Þetta er allt í góðu og ég er ekki beint að kvarta (sem kona má nú alveg öðru hvoru), ég er bara orðin vanvita af þreytu. Við Hrund erum duglegar að vakna sama um helgar og sinna stelpunum, borða allar morgunmat saman eða drekka morgunkaffið og spjalla þegar Röskva sefur og Rakel er hjá pabba sínum. Ég held við neyðumst til að setja svefn þarna inn í svona á meðan Röskva er svona lítil. Allt í lagi að vakna einhverja morgna saman en aðra verður að reyna að bæta sér upp smá svefn og lúra einhverja auka tvo tíma.

Sérstaklega þar sem ég er farin að þjást af einkennum svefnleysis sem svefnráðgjafinn útlistaði fyrir vinkonu minni: Gleymsku, depurð eða sleni og á fáránlega erfitt með að orða setningar. Það hefur víst verið gerð rannsókn á örþreyttum konum sem halda að þær séu ekkert þjakaðar af svefnleysi en þreytan birtist á þennan hátt. Við Hrund vorum einmitt að tala um um daginn hvað ég væri orðin gleymin. Ég sem mundi að Rakel átti tíma hjá tannlækni marga mánuði fram í tímann, ég skrifaði aldrei læknsiheimsóknir hjá mér, mundi öll símanúmer og var með tossamiða í Bónus mér til halds og trausts en leit varla á hann. Núna man ég EKKERT. Ekki hvað dagur er, hvað ég ætlaði að segja, hvað ég var að fara að ná í, hvenær ég á að mæta til hnykkjarans, ekki hvað byggingarna á Háskólasvæðinu heita (þótt ég hafi verið í þessum skóla síðan 2006 og margoft verið í tilteknum byggingum), hvað ég ætlaði að hafa í kvöldmatinn, hvað ég ætlaði að kaupa, hvað ég heiti ....

Og ég kem ekki út úr mér óbakaðri setningu eins og ég sagði við Hrund í gær og meinti óbjagaðari. Ég rugla stöfum inni í orðum, man ekki orðatiltæki, hvenær á að nota ufsilon og hreinlega stama oft þegar ég er að reyna að tjá mig.

Verst er hvað þráðurinn í mér er stuttur þegar ég er svona þreytt og það er stundum eins og einhver sé með loftbor á fullu inn í höfðinu á mér þegar stelpurnar taka á taugarnar. Stundum er ég alveg að fara að grenja því ég hef ekki orku til að takast á við aðstæðurnar. Og stundum er ég með hjartslátt í höfðinu allan daginn og lít út eins og ég hafi ekki gert annað undanfarið en djamma af mér rassgatið.

Á kvöldin hnígum við Hrund niður í sófann, klukkan orðin níu, stelpurnar komnar í bólið og nauðsynlegustu heimilsverkum lokið. Klukkutími í að ég ætti að fara sofa. Klukkutími á dag fyrir sjálfa mig. Ég þarf að fara í sturtu, mjólka mig, taka til nesti í vinnuna. Núna ætti ég að vera farin að sofa. Horfi á einn þátt í sjónvarpinu, kíki í tölvuna eða les pínulítið. Klukkan orðin hálf ellefu eða ellefu, ef ég fer út á kaffihús verður hún jafnvel tólf og ég trúi því ekki að klukkan sé í alvöru hálf sjö eða korter í sjö þegar krílus vaknar, eiturhress þrátt fyrir að hafa vælt á mig nokkrum sinnum um nóttina.

Ég er hins vegar alsæl þegar ég kveð litla ljósið mitt á morgnana, konuna og svo rauðhausinn minn á leikskólanum. Geri mér grein fyrir því hvað ég er einstaklega heppin og hamingjusöm.

Ég man bara ekki neitt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hahaha... var að lesa sumar og sól færsluna. Er svo innilega í sama pakka! Byrjaði að vinna á mán og finnst nánast að ég hafi himinn höndum tekið! Hvílíkt frelsi! Hvílíkt sjálfstæði! Líður eins og aðalpersónunni í þáttaröð um unga, súper-konu á framabraut (svona næstum því). Gamn að þú sért að njóta þín líka!

Dagmar 20.6.2010 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband