Nýju lífi blásið í bloggið

Það er komin tími til að ég byrji að skrifa aftur, verð að halda mér við. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi, það eru meiriháttar forréttindi. Ég elska öll börnin á deildinni minni, finn svo sterkt hvað ég ber hag þeirra fyrir brjósti, hversu vel ég þekki þau, hvað þau krefjast mikils af mér og gefa mér mikið til baka. Þau gefa mér eitthvað sem er miklu betra en D-vítamín og sólarljós, gleðipillur og svefn. Þau eru hlýr vindur í hári mínu, vorilmur í lofti, sláttur í hjartanu. Þetta er auðvitað hrikalega væmið en jafn satt fyrir því. Launin eru í engu samræmi við vinnuna sem ég vinn á hverjum degi, stundum er ég aðframkomin, frekar af andlegu álagi en líkamlegu. Ég ætti að vinna með heyrnahlífar því hávaðinn er alltaf svo mikill og ég ætti að fá tíma til að skreppa út í hádeginu og fá mér mat að eigin vali því ekki fæ ég borgað fyrir að borða með börnunum. En skilaboðin eru þau að við eigum að vera ánægð með molana sem við fáum frá borginni og halda kjafti. Ég mun seint halda kjafti og ég mun seint sætta mig við launin en ég hlakka til að fara í vinnuna. Hlakka til.

Ég barðist í náminu öll þess ár, já ég á auðvelt með að læra og já mér fannst yfirleitt alveg þrælgaman. En ég var með börn allan þann tíma sem ég var í námi, fjölskyldu sem ég þurfti og vildi sinna og ég var alltaf með fjárhagsáhyggjur. Ég var svo þreytt og svo þreytt þegar ég kláraði síðasta sumar en ánægð með sjálfa mig. Ég fékk samt enga vinnu, kreppa, niðurskurður og allt það, þrátt fyrir að þeir væru hæstánægðir með mig á Mogganum í starfsnáminu var enga vinnu að fá. Ég kippti í alla spotta sem ég sá og skilaði inn nokkrum umsóknum en ekkert. Ég gat ekki hugsað mér að vera atvinnulaus, við vorum líka búnar að bíða svo lengi eftir því að eiga möguleika á því að kaupa nýrri bíl og stækka við okkur. Ég var glöð og leið daginn sem ég fékk vinnuna á leikskólanum. Þetta var ekki það sem ég ætlaði að gera eftir mastersnám en ég gat samt ekki hugsað mér betri vinnu.

Á hverjum degi kvelst ég yfir þeirri tilhugsun að ég hafi farið í vitlaust nám ef svo má segja. Ég var svo lengi að ákveða hvort ég ætti að fara í leikskólakennarann en valdi íslenskuna. Núna óska ég þess að hafa tekið aðra ákvörðun en samt vildi ég ekki hafa misst af því að læra allt sem ég hef lært í háskólanum. Mikið svakalega er gaman að læra um íslenskuna og vinna með hana.

Þessa dagana er ég að reyna að hugsa mig ekki í hel. Reyna frekar að njóta þess góða lífs sem ég lifi og leyfa mér að finnast gaman í vinnunni. Mér finnst bara svo oft eins og fólki finnist að ég ætti að vera að gera eitthvað betra, eitthvað betur launað. En ég bókstaflega elska vinnuna mína, það verður seint metið til fjár. Það er ótrúlega skemmtilegt að koma heim og ræða vinnuna við Hrund, við lifum sama lífi á daginn, rétt eins og þegar við komum heim. Við deilum ástríðunni, þreytunni, vonleysinu yfir lélegum launum og voninni sem er fólgin í öllum barnsandlitunum sem taka á móti okkur á morgnana.

Mig langar að vera annan vetur á leikskólanum. Ég fór í gegnum allar síður sem mér datt í hug um daginn í leit að störfum en það er ekkert að fá. Enn þá allavega. Ég ætla að hafa augun opin áfram en ég ætla að hætta að liggja í rúminu á kvöldin og stara á vegginn með kvíða yfir því að ég "ætti" (hvar eru íslensku gæsalappirnar?) að vera að gera eitthvað annað. Ég ætla að standa með minni ákvörðun og halda áfram að hlakka til á hverjum degi. Halda skrifunum við með bloggblaðri.

Kannski tek ég kennsluréttindin einn daginn. Kannski verð ég blaðamaður. Kannski ritstjóri. Kannski læt ég drauminn rætast og skrifa smásagnasafn.

Eftir að hafa gengið í gegnum erfiða tíma þegar ég var yngri þar sem ég barðist við að halda við einhverjum örlitlum lífsneista, einhverri löngun til að virkilega lifa, er ég þakklát fyrir að hafa aldrei gefist upp á að blása í glæðurnar því þessa dagana brennur inni í mér bál. Laun erfiðisins eru Hrund og stelpurnar mínar. Og við Hrund erum að láta okkar drauma rætast. Draumar sem rætast í raunveruleikanum er alltaf öðruvísi en þeir sem sveima um í höfðinu, þeir aðlaga sig lífinu sem við lífum og rætast oft á annan hátt en við áttum von á. Sem þýðir ekki að draumurinn hafi ekki ræst, þvert á móti. Í vor mun ég standa í stóra eldhúsinu í draumaíbúðinni og baka með stelpunum, búa til guacamole eins og pabbinn minn kenndi mér að gera, ná mér í einn kaldan á eftir og sama hvað ég er að stússa þá get ég sett í uppþvottavélina á eftir. JESS! Sprundin getur sett upp verkstæði í bílskúrnum og hlúð þar að áhugamálum sínum og hæfileikum. Þegar ég vil stundarfrið get ég fleygt mér í sófann í bókaherberginu í kjallarnum og horfið í heim bókanna. Stelpurnar hlaupa milli herbergjanna og klaga hvor aðra, báðar með sérherbergi. Og ég ætla að njóta sólarinnar í garðinum.

Er hægt að biðja um meira?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf gaman að lesa bloggið þitt :)  Og þegar smásagnaritið þitt kemur út panta ég eintak :)

Arna 25.2.2012 kl. 11:16

2 identicon

Veit ekki hvað varð um nafnið mitt í athugasemdinni hér fyrir ofan, en læt það koma hér.

kv. Arna :)

Arna 25.2.2012 kl. 11:18

3 identicon

Það verður aldrei af þér tekið Díana mín að þú ert góður penni. Og yfirleitt þegar ég les eitthvað sem þú hefur skrifað hrærir það hjarta mitt...ég fæ kökk í hálsinn og oftar en ekki tár í augun. Kannski er það bara vegna þess að ég á svo mikið í ykkur stelpunum

Silla tengdó 25.2.2012 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband