Örsnöggt

Er svo óendanlega þreytt. Hef verið að læra á milljón þar sem ég er að fara til Madridar með mömmu 22. október. Í þeirri viku er einmitt mjög mikilvægur tími í bókmenntafræði, próf í báðum spænskuáföngunum, ritgerðarskil og verkefnaskil í spænsku. Hvurslags vika er þetta eiginlega. Fyrir utan að gera það þarf ég að lesa fyrir tímana fram í tímann og gera verkefni í forna málinu. Þau fylgja mér eins og skugginn. Sem betur er verkefnavika í næstu viku sem þýðir engir tímar. Sá hins vegar fram á það að ég myndi ekki komast yfir allt sem ég þarf að gera svo ég hef verið að rembast við að gera eitthvað í því undanfarnar tvær vikur. Með hinum heimalærdómnum og lífinu sjálfu er erfitt að koma því að. En allt í lagi. Minns er að fara til útlanda!!!

Á hins vegar eftir að sakna stelpnanna minna mikið. Hrund kvíðir þeim verkefnum sem hún þarf að taka að sér þegar ég er í burtu. Eins og t.d. að elda ofan í barnið og velja föt á hana í leikskólann (ég bað vinsamlegast um að fá að taka að mér það hlutverk að klæða barnið um leið og mér fannst það við hæfi. Það er um leið og við fluttum inn saman. Gat ekki hugsað mér að fara með barnið til dagmömmu klædda eins og ég veit ekki hvað. Blessuð Sprundin. Skilur ekki mikilvægi þess að klæða sig í stíl). Og hundrað hlutir í viðbót. Ansi margt sem Díana súperkona sér um. En það á allt eftir að ganga vel. Hrund æfði sig til dæmis í morgun að greiða Rakel. Sá ekki afraksturinn þar sem ég var farin en er viss um að það tókst vel til.

Eins og ég segi. Er þreytt á sál og líkama. Í fyrradag var Rakelita líka þreytt á sál og líkama. Við fórum því í heimaföt þegar við komum heim af leikskólanum, upp í sófa og undir sæng, knúsuðumst, kysstumst og héldum lestrarmaraþon. Létum svo Sprundina sjá um að töfra fram pítur og með því í kvöldmat, vaska upp, brjóta þvott og baða okkur (reyndar baðaði ég mig sjálf en H baðaði gorminn). Mjög notalegt og kærkomið.

En núna bíður mín ljóðgreining. Ekki verkefni í forna málinu aldrei þessu vant. Er búin með það. Enn ein örsagan í safnið þar á ferð. Fékk reyndar 2,5 af þremur í einkunn um daginn. Örsögur mínar virðast hafa eitthvað sannleiksgildi þrátt fyrir allt.

Ætli það sé ekki við hæfi að setja eitt ljóð frá mér í færsluna. Líður akkúrat svona núna:

 

Ef ég syndi stanslaust móti straumnum

fæ ég harðsperrur í handleggina

ef ég læt mig fljóta með honum

verður mér bumbult

ef ég stend í stað

verð ég ein eftir 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elska þetta ljóð, vandinn við að vera manneskja í hnotskurn. Hreifst af Kynlegum kvistum og ætlaði að skrifa athugasemd þar en eins og hattarinn í Lísu í Undralandi er ég alltaf of sein, of sein ... Fer ekki á milli mála að Rakelita er ómótstæðileg englastúlka okkur send.

mútta/amma alla/tengdó 12.10.2007 kl. 18:56

2 identicon

Hlakka til að lesa næstu ljóðabók frá þér.  Sýnist á öllu að þú sért vel á veg komin  

Arna 13.10.2007 kl. 12:37

3 identicon

Ég öfunda þig af að vera að fara til Madrídar... Ég væri sko alveg til í að vera í þínum sporum. Þó að ég hafi verið þarna í 5 mánuði get ég samt ekki gefið þér nein ráð um hvað þú eigir að sjá eða gera... eina sem ég man eftir eru staðir eins og búðin mín og kebabstaðurinn og skólinn og nokkrir barir...

Hlíf 14.10.2007 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband