Við erum ...

... dugnaðarforkar við kyrnurnar. Hrund ofurnámsmaður er búin að klára eitt námskeiðið í skólanum. Búin með borðið sem hún átti að gera svo framvegis er hún í fríi á föstudögum. Hún var því heima með mér í gær í veikindum mínum og við sátum undir sæng og horfðum á spólu. Barnið var á leikskólanum, mátti að sjálfsögðu ekki missa af göngutúr um hverfið með liðinu. Var svaka spennt þegar ég sagði henni hvað væri á dagskrá: 'Verð ég í skikkju?' spurði hún. Ég sagðist halda að hún yrði í pollagalla í rigningunni.

Eftir parkódín, kaffi og sturtu lagði ég í Ikea með stelpunum mínum, það var að duga eða drepast og gefa veikindunum langt nef. Keyptum nýtt fatahengi og skóstand, skóskáp, jóladót og fleira dúllerí. Rakel fékk að fara í barnagæsluna í Ikea í klukkutíma. Þegar við komum að ná í hana var hún að horfa á sjónvarpið. Skil bara ekki af hverju það þarf að vera sjónvarp í öllum svona gæslum. Þar sem við brunuðum í gegnum búðina sáum við hana fyrir okkar sæla í boltalandinu, ekki á rassinum fyrir framan sjónvarpið. Það verður bara að fá fólk sem treystir sér til að passa börn sem hreyfa sig. Fríka allir út ef þau sitja ekki á rassinum eða? Þar sem hún er ekki orðin þriggja ára þurfti ég að sannfæra strákinn í gæslunni um að leyfa henni að vera. Get ekki séð að barnið verði eitthvað öðruvísi eftir mánuð þegar það er orðið þriggja. Hann spurði mig hvort hún væri enn með bleyju. Nei, hún er ekki með bleyju. Hún verður þriggja eftir mánuð, hvað er þetta manneskja.

Eftir glápið hljóp hún með okkur um búðina. Prílaði upp á allt sem hægt var, tók spretti um lagerinn og söng eins hátt og hún gat. Hún er samt ótrúlega meðfærileg barnið ef maður leyfir henni bara að vera með pínu læti sem er eðlilegt fyrir lífsglaða fjörkálfa. Og ef mömmurnar kveða 'komdu niður', 'passaðu þig', 'ekki sleikja þetta' og 'stattu upp úr gólfinu' þá hlýðir hún yfirleitt alltaf. Það er það sem skiptir máli.

Hæstánægðar með kaupin brunuðum við heim og hófumst handa. Settum saman, boruðum, fórum með dót upp á loft, röðuðum, endurskipulögðum og fengum okkur bjór eins og alvöru verkamenn. Þetta var eftir að við lánuðum Rakel til ömmu Sillu. Við erum ábyrgar.

Hringdum svo í mömmu klukkan hálf tólf um kvöldið og heimtuðum að hún kæmi að sjá. Þá var öllu lokið og við að springa úr gleði og stolti. Mamma kom í náttsloppnum og með Einsa bró undir handleggnum. Þeim fannst svaka flott eins og þig getið lesið í kommentinu frá mömmu við síðustu færslu. Það er nátla svakalega kósý hjá okkur.

Í morgun vakti ég svo konuna mína með kaffi. Ef hún er mjög þreytt tekur góðan hálftíma að vekja hana. Hún spjallar þó um heima og geima á meðan. Upp úr svefni. Ég spurði hana hvort hún vildi ekki kaffi. Nei takk, hún vildi ekki gaffal. Kaffi ítrekaði ég, viltu kaffi. Nei takk, hún vildi ekki gaffal í kaffið. Ég gafst upp og náði í kaffið. Sagði við hana að það væri náttborðinu. Ég vil fá Spidermanbollan minn sagði manneskjan þá. Ég sagði hana ekki eiga neinn slíkan og bað hana að opna augun. Hún sagðist ekki geta það, það myndi rigna inn í þau. Þá sagði ég mjööög hátt og hvellt og með mikilli ákveðni í röddinn: Hrund!!! Hún vaknaði.

Við tókum það. Tókum það bara. Allar jólagjafirnar í höfn. Keyptum meira að segja líka fyrir báðar ömmurnar og aðra langömmuna handa Rakel. Djöfull erum við öflugar.

Við náðum svo í gríslinginn til ömmu sinnar og ég eldaði dýrindis mat á meðan Hrund baðaði Rakel. Hún fékk kósýbað: ljósin slökkt og bara kertljós. Ég skellti svo matnum í ofninn og þá var Sprundin búin að láta renna í bað fyrir mig, kveikja á öllum kertum sem við eigum og skreyta baðherbergið með þeim. Yndislegt. Meðan maturinn mallaði lét ég þreytuna líða úr mér.

Núna er hin óstöðvandi Hrund að pússa eldhúsinnréttinguna hjá mömmu sinni. Mamma og Einsi bró voru að mæta vopnuð Þristum og við erum að fara á horfa á Harry Potter. Á morgun er piparkökubakstur og skreyting heima hjá mömmu og Skipasundsstelpurnar svaka spenntar.

Hins vegar er ég ennþá veik. Dónalegt að leyfa mér ekki að vera frísk.

Og:

Mér er mjög vel við Harry Potter. Veit hreinlega ekki hvað það er. Tók mig langan tíma að lesa allar bækurnar en drakk hverja í mig um leið og ég byrjaði á henni. Eitthvað við myndirnar hrífur mig og Hrund segir að enginn á jörðinni hafi horft á myndirnar jafn oft og ég. Ég á fyrstu fjórar og vonast eftir fimmtu í jólagjöf.

Mér líkar ekki að ákveðnar manneskjur í ákveðnum þætti (íslenskum og leiðinlegum) skuli vera með þágufallssýki. Eins og þátturinn sé ekki nógu slæmur fyrir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verð greinilega að fara að kíkja í heimsókn og sjá allar breytingarnar. Takk fyrir lánið á Dundý í gærkvöldi. Bara nokkuð efnileg í slípingum. Sammála Ömmul Öllu að þið eruð fullkominn þríhyrningur og eigið trúlega eftir að verða sexhyrningur. Vil bara fá nógu mörg barnabörn sem verða jafnvel upp alin og Rakelítan.

Og hvaða þáttur er þetta sem þú ert að tala um. Ég vinn með einum sem er með "sé" sýki. Segir iðulega: "Ef ég sé ekki kominn þá....." Alveg makalaus ansk.....

Amma Silla 

Amma Silla 18.11.2007 kl. 17:07

2 Smámynd: Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva

Þátturinn er Laugardagslögin. Þau brotabrot sem ég hef séð úr þessum makalaust leiðinlega þætti hafa ekki glatt mitt íslensku hjarta. Stjórnandinn er með þágufallssýki. En það vissi maður svo sem úr Kastljósinu. Geri þær kröfur að fullorðið fólk tali almennilega íslensku í ríkisjónavarpinu og hananú!

Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva, 19.11.2007 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband