Þriðjudagur

Mér datt bara engin önnur fyrirsögn í hug ...

Það var gott að fá Sprundina heim í gær. Hún kom færandi hendi heim úr skólanum, með rjúkandi heitar pizzur og lék svo við Rakel eftir matinn á meðan ég lærði. Einasta konan mín lét svo renna í bað fyrir mig (já, aftur) og kveikti á kertum og ég lá svo í vatninu í hátt í tvo tíma og las fyrir spænskuprófið.  Fékk veitingar og allt, þær mæðgur færðu mér heitt kakó og súkkulaði. Algjör lúxus. Þegar ég kom úr baði var Hrund búin að leggja Rakel og ég plataði hana til að nudda mig. Við fengum okkur svo kvöldkaffi (allt of mikið af því, skoðuðum bumburnar okkar á eftir og fannst þær hafa stækkað) og skriðum upp í rúm. Svona eiga kvöld að vera. Myrkur, kertaljós og seríuljós (búnar að hengja eina upp í stofugluggann), barnarhrotur berast innan úr herbergi og þú í fanginu á þinni heittelskaðri, nýböðuð og nudduð.  

Rakel er enn lasin. Vaknaði með hita í morgun og hóstinn er ennþá jafn slæmur. Hún er nú sæmilega hress fyrir því. Ég minnist þess nú ekki að hún hafi nokkurn tíma verið neitt sérstaklega óhress þótt hún væri lasin. Fyrsta árið sitt var hún veik heima í þriðju hverri viku að minnsta kosti og alltaf með hósta, astma, kvef eða eyrnabólgu. Hún fór svo að skána eftir eins árs og hefur verið stálhraust síðan hún var eins og hálfs, 7-9-13. En ekki einu sinni þegar hún var peð var hún mjög vansæl með hita. Það var aðallega hóstinn sem reif í litla bringu og lítinn háls og þá grét hún stundum af kvölum. Til þess að hún sé kyrr og móki þarf hún að vera með allavega 39 stiga hita. Orkubolti.

Krílið svaf samt til níu, skreið þá upp í til mín og sofnaði aftur í 45 mín. Hún borðaði vel í morgunmatnum og sat svo inn í stofu og las upphátt fyrir mig úr öllum Einar Áskels bókunum sínum á meðan ég lærði fyrir próf. Það gekk ótrúlega vel hjá mér. Eins og ég hef sagt áður hef ég þróað með mér þann hæfileika að geta útilokað hljóð. Þannig gat ég lært allan síðasta vetur á meðan hún horfði á barnatímann eða var í baði (og Hrund var í kvöldskólanum). Hún fékk svo að horfa á Dýrin í Hálsaskógi (hvað gerði ég án þessarar pössunarpíu) og á meðan sat  ég inn í eldhúsi og lærði. 

Gormurinn lagði sig svo aðeins eftir hádegismat. Gott að hvíla sig þótt maður sofni ekki. Hún söng fyrir sjálfa sig í hátt í klukkutíma á meðan ég kláraði að læra. Núna er hún að leika sér með fingrabrúðurnar sem ég keypti í Madrid. Svo stillt og góð.

Ég veit hins vegar ekkert hvað ég á af mér að gera. Er endalaust slöpp, skil ekki hvað er að mér. Myndi helst vilja skríða upp í rúm en það er nú ekki í boði. Búin að læra fyrir próf, ekkert uppvask, þvoði í gær, búin að búa um. Ætlaði að vera svo dugleg og hlusta á tímann sem ég missti af í gær en hann er ekki kominn inn á netið. Það er tími í forna málinu akkúrat núna svo ekki kemur hann inn á netið strax og ég get eiginleg ekki gert verkefni 10 (síðasta verkefnið, halelúja) fyrr en ég er búin að horfa á tímann. Og ég get eiginlega ekki gert leikritagreininguna sem ég á að skila í næstu viku fyrr en ég er búin að hlust á tímann sem var í bókmenntafræði í gær og hefur ekki enn verið settur á netið. Á ég að vera aðgerðarlaus bara eða?

Hugvísindastofnunarpakkasendingarráðgátan er ráðin. Ég skrifaði mig víst (pottþétt vegna múgæsings) á einhvern lista í einhverjum tíma og sagðist vilja verða áskrifandi að Ritinu. Fékk hina pésana í kaupbæti. Talaði við indæla konu í gær sem gaf mér upp ekki svo indælt ársverð fyrir Ritið. Reyndi að ná í hana áðan til þess að segja henni að mér þætti vænt um ef ég mætti bara sleppa þessu. Og skila þessum ritum sem ég fékk send. Það svaraði enginn. 

Ekki meira núna nema:

Mér er mjög vel við sængina mína og koddann minn og svefnherbergið mitt og þögn og ró og hvíld og svefn ... ég er svo þreytt ...

Mér er illa við að skila ekki verkefnum í skólanum. Það gerðist nú reyndar í fyrsta skipti núna í dag síðan ég byrjaði í háskólanum. Hef annars alltaf skilað öllum verkefnum í öllum námskeiðum. En ég náði ekki að klára verkefnið í forna málinu fyrir daginn í dag þar sem ég var veik í síðustu viku og Rakel núna og bara eitthvað. Bara náði því ekki. Hræðilegt. Það gildir reyndar bara 3% af lokaeinkunn eða svo en alveg sama. Hræðilegt. 

ps. Rakel kom inní stofu rétt í þessu og bað um að fá að hlusta á tónlist. Dró svo geisladisk með amerískum jólalögum út úr hillunni. Í fyrsta lagi veit ég ekki hvernig jólatónlist af þessu tagi komst inn í mitt hús, ekki alveg minn tebolli, í öðru lagi er eitthvað súrrealískt við að horfa á veika barnið með hor og úfið hár dansa um stofuna á ullarbrókunum sínum og innleggsinniskónum og með klút um hálsinn. Á ég þetta litla lukkutröll? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband