Sól í sinni

Ég er svo hamingjusöm eitthvað í dag. Er það nú oftast en þið vitið hvernig þetta er, dagar eru misgóðir.

Fórum með stubbulínu til læknis í morgun til að láta hlusta hana og skoða í eyrun. Eitthvað sem við vöndum okkur á að gera í hvert skipti sem hún varð veik þegar hún var lítil. Það var oftast þannig að ef hún fékk kvef fór það niður í lungu og stundum fékk hún eyrnabólgu. Það gladdi hjörtu okkar því óskaplega þegar læknirinn sagði hana stálhrausta fyrir utan þennan vírus sem hún er með. Þarf ekkert að fá pensillínviðbjóð. Húrra!

Pabbi hennar er vanur að taka hana á mánudögum eftir mömmuhelgar og skila henni morguninn eftir. Þar sem hún var svona veik síðastliðinn mánudag vildum við bara hafa hana heima og hjúkra henni. Hann tekur hana því einum degi fyrr þessa pabbahelgi, kemur eftir vinnu á eftir og fer með Rakel til mömmu sinnar. Hún verður svo hjá henni á morgun, enginn leikskóli þessa vikuna. Vonandi nær hún að hrista þetta af sér um helgina. Hún er að verða brjáluð á inniveru.

Ótrúlegt hvað ég hef náð að læra þótt ég hafi verið með hana heima. Fór í próf áðan og gekk ágætlega. Þarf bara ekkert að læra fyrr en á morgun. Ætla allavega ekki að gera það. Er uppgefin.

Að áeggjan Sprundarinnar neyddi ég sjálfa mig til að slaka á í gær, sleppa hendinni  af lærdómnum og skella mér á frænkukvöld. Þar var ótrúlega gaman. Fórum í meirháttar skemmtilegan menningartúr um miðbæinn með Birnu Þórðar og enduðum svo á Tapasbarnum.

Fór í umræðutíma í gær og var í hóp með sama strák (og annarri stelpu) og venjulega. Það er nú ekki í frásögur færandi nema af því að mig dreymdi svo fáránlegan draum um hann í nótt. Ætla ekkert að útlista hann fyrir ykkur. Hann var nú ekkert dónalegur samt, mest fyndin. Við skulum bara segja að í draumnum vissi hann ekki að ég ætti konu og var allt í einu orðinn ber að ofan. Ég kunni alls ekki að meta þetta. Það er samt ekkert að marka mig, strákurinn er gullfallegur. Þegar ég sagði honum sem var klæddi hann sig bara aftur í bolinn og hélt áfram að horfa á video með okkur Hrund.

Fór áðan í bakaríið í Glæsibæ að kaupa brauð handa stelpunum mínum og fyrir utan stóð ungur strákur og spilaði á harmonikku. Ég hélt hann væri enn einn aumingjans Rúmeninn að reyna að sjá fyrir sér en allt í einu heilsar hann mér á spænsku. Hann var þess fullviss að ég talaði spænsku. Sem ég geri. Vildi vita hvert hann gæti farið til að sækja um leyfi til að standa og spila. Ég hélt ekki að það væri hægt og laug því að honum. Hrund sagði mér svo að hægt væri að sækja um leyfi en það þyrfti að borga skatt af því. Efa að þessi ungi strákur eða nokkur annar sem vinnur fyrir sér á þennan hátt hafi efni á því að borga skatt. Mig langaði mest að bjóða spanjólanum heim í súpu. Það er svo hryllilega kalt úti.

 Ískyggileg þögn lagðist yfir íbúðina áðan. Rakel hlaut að vera að gera eitthvað af sér. Hún þegir alltaf á meðan. 'Hvað ertu að gera?' kallaði mamma hennar. 'Ég veit það ekki' gargaði hún örg. Stuttu seina heyrðist dynkur, væl í henni og hún kom fram til að láta mig kyssa á meiddið. Litli klifurköttur. Hún sagði stólinn hafa rekist í sig og ég sagði hann ansi dónalegan að dirfast það. Eftir að ég hafði huggað hana sagðist hún tilbúin til að leika sér aftur við stólinn.

Hrund er að reyna að taka undarlegar myndir af mér. 'Má ég sjá brjóstaskoruna' biður hún. Nei. Það máttu ekki. Farðu eitthvert annað að leika þér.

Best að fara að gefa þessum börnum að borða áður en þær slasa sig. Fyrst:

Mér finnst gaman þegar Hrund kemur á móti mér í dyrunum þegar ég kem heim. Þetta er eins og að eiga lítinn sætan hund sem alltaf tekur þér fagnandi. Og svo lítið ljón sem kemur aftan að þér, stekkur á þig og neitar að sleppa. Það myndi vera rauðhaus.

Mér er illa við sprunguna sem er í framrúðunni á bílnum okkar. Hrund segist aldrei hafa fengið stein í rúðuna upp á heiði nema með mér. Hún horfði á mig illu auga þegar hún sagði þetta. Ég neita að bera ábyrgð á þessum steinum. Fengum stein í rúðuna í fyrra. Skiptum um rúðu. Aftur núna um daginn. Höfum ekki enn skipt um rúðu. Erum í afneitun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hey, ég hef líka séð þennan strák, hélt líka að hann væri Rúmeninn og brá ekkert smá þegar að hann sagði Hola! við mig. Heyrðu, Jói ákvað að prufa að vera með áskrift af fjölvarpinu og núna er ég að horfa á argentínskan þátt um tangó á spænsku sjónvarpsstöðinni TVE. Mjög gaman, en hræðilegt að vita af þessari stöð þegar líða fer að PRÓFUM.

Besos! 

Tinna Rós 22.11.2007 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband