Dauf augu?

Er hægt að skrifa fyrir daufum augum eins og hægt er að tala fyrir daufum eyrum?

Stundum efast ég allavega um að nokkur lesi þetta blogg. Eiginlega soldið asnaleg að halda úti dagbók á netinu sem kannski enginn les. En ég má ekki vera of hörð við ykkur, mér sýnist nú að slatti af fólki líti hér við á hverjum degi. Þð megið samt alveg kommenta meira.

Annars hef ég engan tíma akkúrat núna til að vera að þessu. Ég er í auga hvirfilbylsins eins og stendur. Forna málið myndi vera bylurinn og það er spurning hvort ég komist lífs af.

Afmælið fór ofsa vel fram. Allir glaðir og ánægðir. Gestirnir komu í þremur hollum, fyrst mín fjölskylda, svo Hrundar og síðast vinkonur okkar. Síðustu gestirnir fóru um hálf ellefu (Rakel var nú reyndar löngu sofnuð þá) svo þetta var ellefu tíma veisla. Rakel var í essinu sínu og sýndi engin merki um þreytu. Fékk helling af bókum og fötum og litum og tónlist og hljóðfærum og perlum ogégveitekkihvað. Fékk líka traktor og plastkýr frá mömmu og lá mest allt afmælið í gólfinu og baulaði og burraði.

Hrund bakaði köku og var að springa úr stolti. Við skreyttum svo afraksturinn og ætluðum varla að tíma að éta hann, kakan var svo flott.

Rakel talar stanslaust um litla bróður sinn sem fer bráðum að fæðast. Í hvaða legi hann er veit ég ekki. Pabbi hennar hringdi í gær og spurði hvort það væri eitthvað sem við vildum segja honum, einhver bróðir á leiðinni? Ekki svo gott. Barnið var því yfir sig hrifið þegar Títa vinkona mætti með Júníönu, sex mánaða dóttur sína. Rakel ætlaði að éta hana, knúsaði hana og kyssti, kallaði hana HANN Júlíus og vildi endilega fá hann til að leika við sig inn í herbergi. Þetta er í annað skiptið sem Rakel er í kringum svona lítið barn og það er stórkostlegt að fylgjast með þessu. Greinilegt að hún þráir systkini.

Laugardagurinn var kærkomið frí. Vaknaði snemma á sunnudag og fór til mömmu að læra. Stelpurnar mínar komu svo þangað í mat og Rakel fór í bað með nýja baðdótið, myndir og sápuliti til að lita þær með. Eftir kvöldmat fóru Hrund og Rakel að tygja (hvernig í ósköpunum er þetta skrifað? svona verður maður heiladauður af lærdómi) sig og ástin litla koma með skóna mína til þess að tryggja það að ég kæmi nú með þeim. Þegar ég sagði að ég gæti ekki komið, ég yrði að læra, henti hún þeim aftur í gólfið, yggldi sig og sagðist reið við mig af því að ég vildi ekki koma með þeim. Hún skilur ekkert í því að ég skuli alltaf láta mig hverfa, spyr sífellt um mig og er öskuvond yfir því að ég vilji ekkert með hana hafa. Heldur hún. Sagði svo við mömmu sína að ég væri leiðinleg. Mamma hennar hefur verið í því að reyna að útskýra fyrir henni að mig langi til að vera með þeim en geti það ekki. Tóninn er eitthvað farinn að breytast hjá litla skinninu. Núna setur hún upp sorgarsvip og þylur: 'Aumingja mammí, greyið mammí, getur ekki verið með okkur, þarf bara að læralæralæralæra.'

Hún fór svo til pabba síns í gær og kom eldsnemma í morgun. Afmælisstelpan, orðin þriggja ára. Við Hrund gáfum henni okkar gjöf, litaspil, lottó og Blómin á þakinu. Sátum flötum beinum í holinu og náðum að spila einu sinni áður en Rakel fór á leikskólann. Í kjól og með ís handa krökkunum. Alveg í skýjunum.

Er búin í bókmenntafræðiprófinu. Gat svarað öllu, hversu vel ég gerði það kemur í ljós. Er svo, eins og áður sagði, að rembast við að berja hljóðskiptaraðir og stofna inn í hausinn á mér. Er búin að gera ógrynni af töflum til að auðvelda mér að skilja og muna, hvenær ég ætla að hafa tíma til að læra þetta allt utan að veit ég ekki. Hvað ef ég fell? Er að reyna að hugsa eins og Oddný vinkona segir að ég eigi að gera: Ef ég fell tek ég bara prófið aftur. Get hins vegar ekki hugsað svo langt. Hef aldrei kviðið prófi eins mikið.

Erum búnar að kaupa jólatré. Rauðhærði jólaálfurinn var með í för og bíður spenntur eftir að fá að skreyta. Trúi ekki að jólin séu handan við hornið og ég að spá í hvernig einhver helvítis rótarsérhljóð voru aftur í forneskju. Ég bið um grið.

Annars horfði ég á breska heimildarmynd um aðstæður kvenna í Afganistann í gær. Hefur maður efni á því að kvarta?

Guð i himmelen. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komment komment komment

Alltaf gaman að lesa bloggið þitt skvís

Arna 18.12.2007 kl. 15:58

2 identicon

Og já, ef þig langar að lesa blogg (ekki bara skrifa) endilega kíktu á mig 123.is/arnastjarna

Ég er samt ekki svona selfe centered eins og þetta komment gefur til kynna hehe  

Kv. Arna

p.s. flott jólakort frá þér/ykkur

Arna 19.12.2007 kl. 14:36

3 identicon

Já þetta lítur út eins og ég sé einhver stalker, en svo er ekki.  Mundi bara allt í einu eftir laginu Ó Jesú bróðir besti... Spurning hvort það sé bróðirinn sem Rakel er að fara að fá, hann fæðist jú á jólunum

En ég ætla að reyna að hemja mig núna og hætta að kommenta við þessa færslu ...bíð bara eftir næstu hehe

Arna Óskarsdóttir 19.12.2007 kl. 19:07

4 identicon

Ég elskaði Blómin á þakinu og þráði það heitast að það yxu blóm á mínu þaki:) Fyrir utan náttúrulega það að eignast lítið systkini, sem var æðsta ósk mín alla barnæskuna, svo ég skil Rakel vel:)

Þú skrifar ekki fyrir daufum eyrum. Bloggið þitt er æðislegt. Ótrúlega skemmtilegt og VEL SKRIFAÐ. Svo er líka gaman hvað þú skrifar oft:)

(ojj. nú fæ ég erfitt reiknisdæmi, vanalega fæ ég eitthvað auðvelt, eins og: hvað er einn plús ellefu) 

Hlíf 21.12.2007 kl. 01:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband