Hó Hó Hó

Gleðileg jól elskurnar mínar! Hef ekkert nennt að skrifa af augljósum jólaástæðum enda tæpast nokkur nennt af lesa af sömu ástæðum.

Smá yfirlit fyrir ykkur. Sprundin var að sjálfsögðu miður sín yfir að hafa verið svona rotuð og lofaði því að bæta mér drottninguna upp. Ég skildi hana eftir meðvitundarlausa og fór til ömmu í kaffi. Hitti þar fyrir mömmu og co og við áttum notalega stund. Þegar ég kom heim var loks lífsmark með Hrundinni sem var með kryppu af samviskubiti. Við kveiktum á kertum og pökkuðum inn gjöfum og horfðum með öðru auganu á væmnar jólamyndir í sjónvarpinu. 

Rakelita kom heim upp úr hádegi á Þorláksmessu og við drifum okkur í laufabrauðsútskurð hjá mömmu. Rakel hefur algera snilligáfu í þessum forna sið. Hef aldrei séð kökur lafa saman þegar búið er að skera þær í hel. Veit nú ekki hvernig gekk að steikja þær því aldrei þessu vant var ég ekki með mömmu í því heldur dreif mig með stelpunum mínum í Jólaþorpið í Hafnarfirði. Tókum einn stuttan hring í þorpinu og héldum svo niður í bæ. Settum Rakel í kerruna og pökkuðum henni inn. Kerruna notaði ég sem göngugrind þar sem ég var í fáránlegum skóm og rann niður allar brekkur. Vorum það snemma í því að bærinn var ekki troðinn. Náðum að kaupa tvær síðbúnar jólagjafir og náðum svo í skottið á friðargöngunni. Borðuðum kvöldmat á Red Chilli og eftir það var Rakel svo full orku að hún söng, dansaði og hljóp alla leiðina upp aftur í bílinn. Við komum svo seint heim að hún var ekki sofnuð fyrr en 10. 

Ég vaknaði fyrst á aðfangadagsmorgun. Kveikti á öllum seríum, fékk mér kaffi og naut kyrrðarinnar. Fannst ég heyra í Rakel og rauk inn til hennar með látum. Hún var þá enn steinsofandi en vaknaði við lætin í mér. Enda kominn tími til, klukkan orðin ellefu. Hef aldrei nokkurn tíma vitað þriggja ára barn sem sefur svona lengi. Hrund kúrði aðeins lengur á meðan við Rakel fengum okkur morgunmat. Hún horfði aðeins á barnatímann og fór svo í jólabað og við kyrnurnar þar á eftir. Fólk leit svo inn með gjafir og eftir það var tími til kominn að elda risasvínið sem átti að vera í jólamatinn. Kallarnir komu svo upp úr fjögur og maturinn var tilbúinn á slaginu sex. Hrund brúnaði meira að segja kartöflur og ég veit ekki hvað. Eftir að hafa staðið yfir pottunum allan daginn var ég komin með kjötklígju og átti erfitt með að koma matnum niður. En það skipti nú engu. Rakel gleypti í sig matinn og vildi svo byrja að opna. Við helltum því upp á kaffi, drógum fram konfekt og hófumst handa.

Rakel fékk að sjálfsögðu allan heiminn. Fullt af fötum og bókum sem er gott og blessað, lest (ótrúlega flott, tréteinar sem maður púslar saman, sérvalið af okkur Hrund fyrir ömmu) og að sjálfsögðu eldhúsið frá mömmum sínum (stórt úr plasti, alveg hreint geggjað). Rakel ætlaði hins vegar að missa sig yfir litlum plasstyttum af múmínálfunum. Það er svo fyndið hvernig ein gjöf stendur alltaf upp úr hjá henni. Og það er ekkert endilega sú stærsta.

Barnið hvarf svo inn í herbergi að leika sér. Kom rétt aðeins fram til að skófla í sig ís. Af mikilli skyldurækni held ég. 'Má ég fara og leika mér núna?' spurði hún um leið og hún renndi niður síðasta bitanum. Að sjálfsögðu.

Karlarnir voru uppgefnir af öllu pakkaflóðinu og því sem því tilheyrir og héldu heim um tíu. Þá svaf Rakel á sínu græna eyra í grænu bangsanáttfötunum sínum. Þá fyrst höfðum við Hrund tíma til að klára að opna okkar gjafir. Ég fékk svo falleg gull. Og heilar sex bækur sem er met. Hefur ekki verið svona mikið síðan ég var krakki. Jeij!

Á jóladag var okkur boðið í heim til tengdó ásamt mömmu og systkinum mínum. Vorum að prófa þetta í fyrsta skipti, okkur langaði svo að hafa alla sem okkur þykir vænt um á sama stað. Þetta gekk vonum framar. Okkar beið þvílíkt veisluhlaðborð og eftir átið fóru allir að spila. Líka Rakel sem brussaðist um allt og ruglaði öllu. Krúsímús. Veislan stóð í sex tíma og við Hrund snertum ekki jörðina af gleði þegar við héldum heim.

Í gær fórum við með Rakel til pabba síns og svo var ég formlega orðin drottning dagsins. Við Sprundin fórum á Gráa köttinn og fengum okkur hádegismat. Tókum svo göngutúr í kringum tjörnina og stoppuðum aðeins í Ráðhúsinu til að skoða ljósmyndasýningu. Fórum svo í þrjúbíó í lúxussalnum í Smárabíó. Sáum The Golden Compass sem var alveg hreint fyrirtak. Eftir bío náðum við okkur í burritos á Culiacan (held ég að það heiti) og leigðum okkur Home Alone eitt og tvö. Rakel kom heim um átta og við lásum bókina 'Sjóræningjar skipta ekki um bleyjur' sem var alveg sjúklega fyndin. Eftir að engillinn var sofnaður hófumst við Hrund handa við glápið og Sprundin nuddaði mig. Alveg yndislegt.

Við erum boðnar í hangikjöt til mömmu á eftir og á morgun er jólaball fyrir starfsfólk Alþingis sem við ætlum að sjálfsögðu að mæta á. Eftir það verður haldið til ömmu í smá hitting svo það er nóg að gera.

Rakel situr nýböðuð og spariklædd og horfit á Bubba byggir. Sprundin sefur með nýju dúnsængina sína, sem ég og mamma gáfum henni í gjólagjöf, inni í rúmi. Ég sit í yndislega náttsloppnum sem ég fékk í jólagjöf frá ömmu (Hrund fékk líka og við höfum varla farið úr þeim) og er að hugsa um að skella mér í sturtu og sápa mig og skrúbba mig með öllu því sem við Hrund fengum um jólin.

Náði næstum að kremja barnið mitt í hel í nótt. Rakel kemur sjaldan upp í á nóttinni. Bara á morgnana þegar hún er vöknuð, þá skríður hún upp í til okkar smá stund áður en það er kominn tími til að fara á fætur. Í nótt hefur hún komið upp í án þess að við Sprundin yrðum varar við það því annars hefðum við farið með hana aftur í sitt rúm. Yfirleitt get ég alls ekki sofið með þennan bröltbolta upp í hjá mér. Á það líka til að ýta við henni í svefni þar sem ég held oft að þetta sé Sprundin á góðri leið með að knúsa mig í hel. Rakel verður yfirleitt sármóðguð og gargar á mig að hún verði þá bara hjá mömmu. Leggst svo ofan á hana og sefur þar. Hrund rumskar að sjálfsögðu ekki. Enginn í heiminum sefur fastar en hún. En allavega. Í nótt hefur Rakel sumst skriðið upp í og ekki einu sinni ég rumskað.

Ég vaknaði hins vegar við það um hálf sjö að hann var farinn að hvessa og gardínan slóst af miklu afli í gluggakarminn (erum með trérimlagardínur sem eiga það til að vera með mikil læti). Ég reisti mig við til að loka glugganum en sem ég ætla að leggjast aftur finn ég að Hrund hefur plantað hendinni þvert yfir allt mitt svefnpláss. Ég ýtti henni í burtu (ógesslega leiðinleg, ég veit, það tók mig allt fyrsta árið okkar Hrundar að venja mig við að hafa einhvern hjá mér í rúminu, hvað þá einhvern sem vildi knúsa mig og vera utan í mér, er orðin miklu betri núna og sef ömurlega ef Hrund er ekki hjá mér) og lagðist niður. Ofna á litlu barnahandleggina hennar Rakelar og höfuðið á henni. Heyrði bælt 'ÁÁÁIII'´og færði mig. Þarna lá litli engillinn í holunni milli okkar Hrundar og með höfuðið á koddanum mínum. Ég hafði ekki brjóst í mér að reka hana í rúmið sitt eftir þessa meðferð á henni svo ég leyfði henni að vera. Hún hins vegar mjakaði sér sár yfir á koddann til mömmu sinnar. Fyrirgefðu Rakel mín!

Er búin að pakka niður spilum sem við ætlum að taka með til mömmu. Rakel elskar að spila. Pakkaði líka útifötum fyrir Rakel í poka og ætla sjálf að taka með mér kraftgalla. Það er tími til kominn að við Rakel missum okkur í snjónum.

Það verður að hlúa að barninu í sér. 

ps. Það er ótrúlega fyndið hvernig fólk lætur vel að hvort öðru. Eins og við Hrund til dæmis. Ef ég er ekki með gleraugun finnst okkur svo fela andlitin í hálskoti hvor annarrar og eitthvað þannig og þetta minnir mann á hest og önnur dýr þegar þau eru að knúsast. Ég sagði einmitt við mömmu að við værum nátla dýr og alveg eins og önnur dýr eða að mestu. Við erum bara dýr með skeinipappír. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilega hátíð sömuleiðis elsku Díana og fjölskylda!  Hafið það rosa gott yfir áramótin og sjáumst svo sem fyrst eftir áramótin :)

Stuðkveðja,

Tinna  

Tinna Rós 30.12.2007 kl. 19:46

2 identicon

Snjóhúsið sem þú byggðir fyrir Rakel með ærinni fyrirhöfn stendur enn (að mestu leyti), síðasta dag ársins eftir úrhelli og veðurdjöfulgang í marga daga að því er mér finnst. Það hlýtur að teljast vel smíðað vetrarhús, rétt eins og þú sért að læra burðarþolsfræði snjókristalla en ekki um ermur og yate.

Flugeldasalar lofa góðu veðri í kvöld, sé ekki hvernig það fær ræst eins og veðrið er nú, verði þá bara inni að horfa enda ekki hálft gaman að skjóta flugeldum án Rakelar. Vona að það verði vel passað upp á hana, þetta óhrædda barn sem sér ekki þessar hættur sem stöðugt er verið að vara hana við. Gleðilegt ár elsku krútt öll  ...

madre/suegra 

aró 31.12.2007 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband