Kósý

Það er nú ansi kósý veður. Mammar er örg yfir skítaveðráttu. Ég er hins vegar ekki svo ósátt. Finnst fínt að losna aðeins við rigningu. Get náð í barn á leikskólann ekki skítahaug og barnið er meira að segja ennþá í sömu fötunum, ekki aukafötum (eins og þegar það rignir, krakkinn liggur í pollunum, ég er viss um að hún drekkur vatnið úr þeim líka). Svo er yndislegt að vera úti ef maður er rétt klæddur. Tala nú ekki um hversu notalegt það er að keyra um á kagganum og hlusta á tónlist. Ljúfa líf, ljúfa líf, du, du, du (ég hlusta nú samt ekki á þetta lag með Páli Óskari, helst hlusta ég á salsa sem pabbi hefur sent mér).

Var rétt í þessu að prenta út stundaskrána mína svo ég geti fest hana á ísskápinn heima. Sá þá að búið var að bæta við verkefnatímum í forna málinu á mánudögum. ÞAÐ VAR EINI DAGURINN SEM ÉG VAR EKKI Í SKÓLANUM. OOOOHHHH. Og hann er klukkan þrjú. Ég næ ekkert að koma hingað í tíma og taka svo strætó heim og vera komin fyrir hálf fimm að sækja Rakel á leikskólann.

 Nei, bíddu. Þetta er ennþá verra. Þetta er eini dagurinn í vikunni sem Hrund er búin snemma svo við ætluðum að nýta tækifærið og fara í fyrra fallinu í ræktina. Þá er ekki svona mikið stress að borða kvöldmat og baða Rakel og koma henni í rúmið þegar við komum heim. OOOHHHH. Á síðustu önn var ég alltaf í spæsku á þeim tíma sem verkefnatímarnir voru. Skrópaði einu sinni í spænsku til að sjá hvort ég væri að missa af einhverju. Svo var nú ekki. Sjáum hvað setur. Þoli ekki svona óþolandi truflanir á mínum heilugu plönum.

Annað skemmtilegra. Njótum þess munaðar við hjónkyrnur að vera á tveimur bílum þessa vikuna. Tengdó og co. ætla að taka gamla skrjóðinn svo það liggur ekkert þannig á að koma honum til skila. Við höfum nátla engan veginn efni á því að borga bensín á tvo bíla svo við ætlum að fara með bílinn til þeirra í næstu viku. Ætlum fyrst að fara með nýja á verkstæði og láta smyrja hann og skipta um tímareim. Getum þá verið á hinum á meðan. Þvílíkur lúxus. Vona bara að bensínið verði ekki búið á honum fyrir þann tíma ...

Við Sprundin fórum í heimsókn á Bákarborg í gær (leikskólann hennar Rakelar). Það er foreldravika svo þeir mega koma og fylgjast með börnunum í leik og starfi. Við vildum endilega sjá Rakelituna í útiveru svo við vorum mættar rétt um tvö. Hún var í einu horni garðsins. Eina rauðklædda stelpan í fimm manna strákahóp. Hún dró stóðið á eftir sér til að sýna okkur. Þau stóðu svo öll í hæfilegri fjarlægð og mældu okkur út. Strákarnir virtust vera með á hreinu hverjar við værum. 'Þetta er mamma þín og þetta er mammí þín'. Ótrúlega krúttlegt. Svo innilega fordómalaust og einlægt. Vonandi verður þessum krílum aldrei kennt neitt annað en það sé eðlilegt að eiga tvær mömmur.

Rakel ýtti svo Stefáni Steinari og Daníel Dúa í áttina til okkar. Bestu vinum sínum. Þeir einu sem hún talar um. Algjörir gaura. Formleg kynning átti sér stað og svo snéri Rakel sér aftur að sínum háskaleikjum. Hún og stóðið príluðu upp á eitthvað hulið snjó og hoppuðu niður. Rakel fór svo að príla í kastalanum og henti sér fram af brúnni með látum. Skellihló og borðaði snjó. Hún er mest útikelling sem ég veit um. Fórum svo með henni inn, fylgdumst með söngstund, drukkum með þeim og vorum látnar vera með í leik í dúkkukróknum. Rakel var alsæl og glöð með mömmurnar sínar.

Þegar heim kom tókum við svakalega stórhreingerningu. Höfum bara rennt yfir gólf og þurrkað létt af síðan um jólin svo það var kominn tími á þetta. Á meðan sat Rakel nýböðuð inn í stofu og perlaði og hlustaði á Karíus og Baktus og Pétur og úlfinn. Fórum svo til mömmu og borðuðum þar lasagnað sem ég eldaði í fyrradag. Bjó til skammt sem dugði ofan í mig, Hrund og Rakel í eitt skipti og svo ofan í okkkur aftur sem og mömmu og co. Veit ekki alveg hvað ég var að pæla. Reyndar í fyrsta skipti sem ég elda lasagna með kjötfarsi (bætti reyndar fullt af grænmeti út í) og þó ég segi sjálf frá var það ótrúlega gómsætt.

Hrund má ekki gera baðskáp fyrir mömmu af einhverjum ástæðum sem eru of flóknar til að ég skilji þær. Hefur eitthvað með dýpt og mælingar að gera. Í staðinn ætlar hún að gera kommóðu handa Elísabetu Rós. Ég kom því á framfæri að þetta væri stúdentsgjöfin gefin þremur árum fyrir tímann. Það er hins vegar ansi súrt að hafa ekki pláss fyrir húsgögnin sem Sprundin smíðar í skólanum. Höfum komið fyrir barstól (notaður sem blómastandur fyrst og svo færður inn í herbergi eftir að skápurinn kom), skápur (eins og kemur fram hér á undan) og lítið borð. Það kemst ekki meira fyrir. En konan á auðvitað eftir að fjöldaframleiða þetta í framtíðinni svo það þarf eigi að örvænta.

Var í tíma í menningu og sögu rómönsku Ameríku áðan. Gud i himmelen hvað þetta er skemmtilegt og áhugvert. Það spillir ekki fyrir að þekkja marga staðina sem talað er um af því að maður hefur verið þar. Mig langar svo aftur ...

Ég á að vera að læra. Það sést á lengd færslunnar. Skemmtilegra að blogga en læra.

Best ég fari samt og sinni hljóðfræðinni. Hasta luego.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá, þú ert búin að vera ekkert smá dugleg að skrifa. Frábært! Ég er ekki búin að kíkja hingað í nokkra daga, þannig að það var fínt að setjast uppí sófa með lappann í kjöltunni og lesa blogg litlahússins. Er alveg uppgefin eftir daginn, var í tímum til 18:30.

Heyrðu, er Stefán að kenna menningu og sögu RA? Hann var alltaf svo hress. Ég hef aldrei haft kennara sem blótar jafn mikið og hann, og þá ekta mexikóst blót.

Besos! 

Tinna Rós 18.1.2008 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband