Nístingskuldi

Mikið asskoti er kallt. Ég er frekar heitfeng og get aldrei verið í meiru en bómullarbol undir kápunni, get því miður ekki notað þykku, flottu peysurnar mínar án þess að svitinn leki af mér. Undanfarna daga hefur mér hins vegar verið hrollkalt. Á morgun ætla ég í ullarermarnar mínar undir kápuna. Þær eru skotheldar og hannaðar fyrir íslenska veðráttu.

Rakel hefur þróað með sér tvöfalda efrivör sökum mikils kulda. Hún er með svaðalegan varaþurrk sem skánar ekki við það að hún sleikir endalaust út um. Hún er líka með rauðan þurrkublett í sitthvorri kinn og er eins og lítill snjóengill.

'Takk' sagði hún þegar ég smellti á hana kossi eftir að hafa sótt hana í leikskólann. 'Takk fyrir hvað?' spurði ég. 'Fyrir að kyssa mig' sagði molinn. Það mætti halda að maður gerði þetta svo sjaldan að þörf væri á að þakka manni sérstaklega fyrir atlotin. Annars held ég að hún sé bara svona hrikalega vel upp alin. Þetta er einhvers konar reflexi .... Takk 

Ég keypti snjóþotu handa henni á sunnudaginn og nú fær hún far með henni  á leikskólann og heim aftur. Þvílik gleði, þvílik ánægja. Það þarf ekki mikið til þess að gleðja lítil barnshjörtu. Svo skríkir hún af kátinu og hlær sínum dillandi hlátri, rauðklædd á grænni snjóþotu. Hamingjusama krílið mitt.

Annars er ég frekar andlaus þessa dagana. Það gerir hækkandi sól eins og áður sagði (í síðustu færslu). En það er kannski ágætis tilbreyting að hafa færslurnar stuttar.

Hef líka verið að skoða hin ýmsu blogg. Það eru allir svo sjúklega fyndnir eitthvað. Og ég sem tek mig og lífið svo alvarlega. Þarf að vinna í húmornum. Ég man þá daga þegar ég var hryllilega fyndin.

Hryllilega fyndin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ skvís.  Þú ert ekkert ófyndnari en hver annar hehe.  Ég hef allavegana óskaplega gaman af að lesa bloggið þitt.  Bíð alltaf spennt eftir nýrri færslu frá þér

Bestu kveðjur til ykkar í kuldanum ...frá vorinu í Englandi  Múhahaha

Arna

Arna 1.2.2008 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband