Snillingur

'Manstu' spurði Rakel mömmu sína. Hrund var þá nýbúin að biðja hana að vera ekki að fikta í öllum sköpuðum hlut í Smáralindinni.

'Man ég hvað' spurði mamman.

'Þegar þú varst lítil'

'Já, svona eitthvað allavega' hélt Hrund.

'Hugsaðu málið' sagði þá Rakel.

Kannski Hrund þurfi að fara að rifja upp hvernig var að vera lítill og handóður. En hvernig í ósköpunum  barninu datt í hug að segja þetta veit ég ekki. Hún er algjör snillingur. Henni var allavega ekki bannað meir. Mamma hennar var of upptekin við að hlæja.

Ég var ekki með, aldrei þessu vant, af ástæðum sem ég mun brátt koma að.

Oddný vinkona kom í bæinn á fimmtudaginn og fengum við Hrund mömmu til að passa svo við gætum heimsótt hana og Kötlu á föstudagskvöldið. Hrund átti ekki að vera í skólanum daginn eftir svo við ætluðum að fara allar þrjár, Skipasundstelpurnar, í íþróttaskólann. Fyrir misskilning hélt ég að þetta yrði eina skiptið sem Hrund kæmist (komst að því heima hjá Kötlu að það var misskilningur) og ætlaði því ekkert með stelpunum á djammið. Þeim tókst nú að plata mig samt til að fá mér bjór og sannfærðu mig um að Rakel yrði ekki sködduð á sálinni þótt ég færi ekki með henni og Hrund í fimleikana þrátt fyrir loforð um það að við myndum allar fara (sem er toppurinn).

Ég drakk þrjá bjóra og stóð varla í lappirnar. Við Hrund fórum heim, hún til að taka við af mömmu og ég til að skipta um föt og fá mömmu til að skutla mér niður í bæ til stelpnanna. Það eina sem ég gat hugsað mér var hins vegar að fara að sofa, mér leið hörmulega og eins og áður sagði var ég algjörlega á sneplunum af þessum þremur bjórum.

Ég svaf líka illa, vaknaði klukkan sjö (af hverju, af hverju, af hverju) og dormaði þangað til klukkan hennar Hrundar hringdi, tími til kominn að búa sig undir fimleikana. Ég ákvað að þar sem ég hafði beilað á bestu vinkonum mínum ætlaði ég ekki að beila á barninu mínu, skreið fram úr, í föt og með þeim í hoppið og skoppið. Enn þá leið mér viðbjóðslega. Eins og ég hefði skotið heila tekílaflösku kvöldið áður.

Eftir hoppið (úff, mér var svo flökurt) náðum við okkur í pizzu (megavika) og svo fékk ég að skríða upp í rúm (takk, elsku besta kona í heimi) en Hrund og Rakel fóru í heimsókn til tengdó. Var það með henni sem þær fóru í Smáralind og Rakel lét út úr sér fyrrnefnt gullkorn. Á meðan svaf ég órólegum svefni, þjáð af magaverk og svitaköstum. Ég hef bara aldrei vitað annað eins.

Við fórum svo til mömmu seinnipartinn, ég náhvít í framan og enn illa haldin en stelpurnar mínar hressar og kátar. Ég og mamma elduðum guðdómlegan saltfiskrétt sem ég er að hugsa um að hafa í afmælinu mínu. Vorum svo þarna fram eftir kvöldi og höfðum það gott.

Í dag er konudagur. Sögðum Rakel það í morgun sem var viss um að það væri líka barnadagur. Við héldum því upp á konu-og barnadag. Fengum okkur djús gerðan í nýju safapressunni, fórum niður í bæ í góða veðrinu og gáfum öndunum brauð og fengum okkur í svanginn á kaffihúsi. Við enduðum svo í Gerðubergi í heimi Sigrúnar Eldjárn. Fórum í heimsókn til Málfríðar og mömmu hennar, fengum að keyra skordýrabílinn þeirra, prófa eldflaug og sáum tölvuskrímslið. Ótrúlegt stuð. Náðum okkur í Múmínálfanna út á videoleigu, fórum heim og allar í sunnudagsbað og sitjum núna ilmandi upp í sófa og horfum. Svona á þetta að vera.

Ég er sem sagt búin að ákveða hvernig ég ætla að haga afmælisveisluhöldum. Ætla að hafa fjölskyldukaffi helgina fyrir afmælið mitt (fólk kemur þá í páska- og afmælisboð) og bjóða svo vinum í mat 29. mars. Hugsa að konan sé með eitthvað surprise um daginn (hefur venjulega verið æði) svo ég er að hugsa um að byrja á því að fara til mömmu og búa saltfiskréttinn til, hafa það gott með Hrund yfir daginn og bjóða svo vinunum heim til mömmu (kem ekki svona mörgum fyrir við matarborðið heima hjá mér) um sjö. Er bara farin að hlakka til. 

Í síðustu færslu skrifaði ég 'skyldi' í einu af þremur tilfellum með 'y'. Mjög skrítið þar sem ég veit að orðið er skrifað með 'y'. Ég skammast mín. 

Annars líður tíminn svo hratt. Febrúar að verða búinn, önnin hálfnuð, farið að birta, ég að verða 25, bráðum kemur sumar ...

Konunni minni finnst ég flottust í heimi og barnið mitt elskar mig skilyrðislaust. Gerist ekki betra. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hugsaðu málið! bíddu eruð þið vissar um að barnið sé bara 3 ára? Þetta er snilld: manstu, manstu, manstu ...

mamma/tengdó/amma alla 24.2.2008 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband