Áhyggjuefni

Sá að Hlífin var farin að hafa áhyggjur af bloggleysi enda sjaldan sem ég tek mér svona langar pásur frá blogginu. Yfirleitt er það þannig að því duglegri sem ég er að læra, þeim mun minni tíma hef ég til að blogga en núna er það ekki ástæðan fyrir 4 blogglausum dögum heldur svæsin vöðvabólga.

Án gríns.

Eftir að ég greindist fyrst með brjósklosið og fór í langa meðferð hjá hnykkjara, hef ég verið nokkuð góð. Ég er aldrei góð eins og einstaklingur með heilbrigt bak en ekki krónískt kvalin og með klemmdar taugar. Síðastliðin tvö ár hefur bakið farið versnandi og styttra liðið milli tíma hjá hnykkjaranum (fór alltaf á svona 8-12 mánaða fresti en núna er ég orðin slæm aftur eftir þrjá).

Ég fór í október áður en við mamma fórum til Madridar en samt fór ég alveg í bakinu úti. Leið eins og aumingja, lang yngst í hópnum og labbaði eins og hölt, ef ekki soðin og steikt, hæna, og þurfti sífellt að hvíla mig. Var marga daga að jafna mig þegar ég kom heim. Hef eiginlega ekkert náð mér og er mjög slæm núna. Eins og síðast (í október) er ég komin með hræðilega vöðvabólgu með. Þegar mér er orðið svona illt í bakinu fer ég beita því hræðilega vitlaust og sef öll pinnstíf. Af því leiðir að ég fæ svo svæsna vöðvabólgu að ég get hreinlega ekki hugsað.

Í gær reyndi ég að opna flösku (af ferskum safa sem ég og Hrund bjuggum til-verð að monta mig af atorkunni). Ég gat ekki opnað flöskuna en fékk hræðilegt tak í vinsti öxlina og vöðvana þar þegar ég reyndi. Ég öskraði af sársauka og hræddi líftóruna úr elsku Siljus sem sat hjá mér við matarborðið. Óttasleginn strauk hún hendur mínar og sagði: Mamma er vöknuð núna (hún svaf á sínu græna eyra), við skulum ná í hana, hún skal opna bara, hún skal gera það.

Allan gærdaginn starði ég út í loftið með verkefni fyrir framan mig, ófær um að hugsa. Bruddi ibúfen og leið eins og ég væri lasin. Hrund nuddaði mig á sunnudaginn og í fyrrkvöld líka en það hafði engin áhrif. Varð líka ekki mikið úr nuddinu í fyrrakvöld. Um leið og Hrund snerti vöðvana byrjaði ég að veina. Hún spurði mig kalt: Ætlarðu að láta svona allan tímann (og ég gat ekki snúið mér til þess að sjá framan í hana og veit því ekki hvort hún var að grínast eða er bara svona kaldrifjuð)? Ég beit því á jaxlinn en gafst upp eftir nokkar mínútur.

Allavega, þetta var rosa löng og leiðinleg útskýring á bloggpásu.

Annars var rómó ferðin okkar Hrundar yndisleg. Laugardagurinn var pottþétt fyrsti vordagur og við kyrnur nutum góðs af. Loksins, loksins gátum við brunað eitthvað út úr bænum á nýja bílnum. Vorum enga stund á Stokkseyri, fengum okkur göngutúr í fjörunni og borðuðum nesti, fórum á Draugasafnið og létum hræða okkur, kíktum á Veiðisafnið sem var svakalegt og fórum út að borða. Gistiheimilið var mjög fínt og höfðum við staðinn út af fyrir okkur þar sem við vorum einu gestirnir. Eftir humarinn röltum við á gistiheimilið og horfðum á Friends (vorum að kaupa okkur flakkara og tókum hann með, vei, vei). Fengum okkur egg og beikon í morgunmat daginn eftir og vorum komnar í bæinn rétt fyrir þrjú. Náðum í ljúflinginn til tengdó og fórum til mömmu þar sem Rakel fór út að leika, Hrund að lesa blöð og ég að elda kjúkling og baka köku. Enduðum svo kvöldið aftur á Friends (maður verður húkt). Yndisleg helgi. 

Þetta er hundleiðinlegur pistill. Andinn situr fastur í vöðvabólgunni. Er að fara til hnykkjara á eftir, vonandi verður andinn, líkaminn og skapið betra á morgun.

Hasta luego. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Úff, áhyggjurnar voru réttmætar!

ógeðslegt að vera með svona mikla vöðvabólgu.

Hlíf 12.3.2008 kl. 12:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband