Páskafrí!

Við erum búnar að vera ansi athafnasamar á þessum bæ undanfarna daga. Ég fíla það bara alveg í tætlur þar sem ég vil helst alltaf vera að gera eitthvað.

 Eins og áður sagði vorum við í mat hjá tengdó á sunnudagskvöldið. Á mánudaginn fórum við þangað aftur, í það sinnið til að fara í pottinn. Í gær vorum við svo heima hjá mömmu. Á undan þessu öllu var Rakel búin að vera frá fimmtudegi til sunnudags hjá pabba sínum í fermingaveislu og látum. Það er því búið að vera brjálað fjör hjá unganum. Reyndar svo mikið að hún var alveg búin á því í gær. Tók að minnsta kosti fimm grátköst fyrir svefninn, bæði vegna þreytu og vegna þess að mömmur hennar ávítuðu hana (Blush)fyrir að velta sér upp úr drullu í leikskólanum, fara úr stígvélunum og nota innleggin sem skóflu til að moka ofan í stígvélin (einhvern veginn svona var sagan hennar Rakelar og er þetta öruggleg rétt, sérstaklega miðað við útganginn á barninu sem er venjulega slæmur en hefur undanfarna daga verið að gera okkur Hrund KLIKKAÐAR).

Litla lúsin svaf svo mjög órólega, var sífellt að emja eitthvað upp úr svefni um kvöldið, vaknaði tvisvar um nóttina og vissi ekkert hvað var að sér og endaði svo með því að ná ekki á klósettið snemma um morguninn og pissa því undir. Hún var grátklökk þegar hún tilkynnti okkur um hálf sjö í morgun að nærbuxurnar væru blautar og náttkjóllinn og allt rúmið líka og að hún vildi fara úr fötunum. Við skiptum á rúmi og barni en þar sem sængin var blaut var rauðhaus settur í miðjuna í stóra rúmi þar sem húns svaf eins og prinsessa til hálf níu. Mömmurnar húktu á sitthvorri brík og ældu næstum af þreytu þegar vekjaraklukkan hringdi.

Við ákváðum að Rakelitan þyrfti sérstaka umhyggju og athygli í dag. Eftir morgunmat og lýsi fór hún  í gula peysu og pils og hélt á gulan dag á leikskólanum. Rölti í úðanum með litla lófa í sitthvorri mömmuhendi. Við Sprundin fórum heim og þvoðum pissudótið, horfðum aðeins á L-word og töldum dósir og fórum svo og náðum í Rakel í hádeginu. Við fórum í Svínabúðina (Bónus) til að kaupa inn fyrir páskana og fékk Rakel að setja nær hvern hlut í kerruna og taka þá aftur upp á kassanum. Henni finnst alltaf toppurinn að fá að hjálpa og ljómaði eins og sól í heiði. Við röltum líka yfir í Hagkaup til að kaupa lífrænt hlaup (eða þannig: enginn viðbættur sykur eða aukaefni, bara ávaxtasykur og allt náttúrulegt). Vorum dágóða stund í dótadeildinni þar sem okkur Hrund langaði til að kaupa eitthvað smáræði í viðbót í páskaeggið.(Rakel fær pappapáskaegg). Ég rak augun í Hello Kitty dúkkur (pínkulitlar og ekki Barbie viðbjóður) og við Hrund veltum fyrir okkur hvort við ættum ekki einu sinni að kaupa dúkku handa stelpunni. Við sýndum Rakel dúkkuna sem leit snöggt á hana og sagði: 'Þetta er bara einhver dúkka' og henti sér svo á bólakaf í körfuna með plastdýrunum. Við enduðum því á að kaupa lítinn plasthest og allar ánægðar með það.

Þegar heim var komið hjálpaði Rakel að sjálfsögðu við að taka vörur upp úr pokum og ganga frá þeim og svo fórum við á Sorpu þar sem Rakel fékk að henda hverri einustu krukku og dagblöðum og fara með dósirnar. Hún snerti varla jörðina af gleði.

Að þessu loknu fórum við aftur heim, Rakel fór að horfa á Línu Langsokk og við Hrund gerðum páskahreingerningu. Rakel fékk svo að setja allt páskaskrautið upp og elda kakósúpu með mér.

Núna situr hún böðuð í fanginu á mömmu sinni og hlýðir á lestur bókanna sem hún valdi sér fyrir svefninn.

Vonandi náðum við næra í henni sálartetrið og láta henni líða vel með sjálfa sig, okkur og lífið. Kannski hún sofi eins og engillinn sem hún er.

Fjölskylduafmælisboð á mogun. Búin að gera hummus og túnfiskssalat. Svo er það eggjasalat, vöfflur og heitt súkkulaði sem ég geri á morgun. Og Sprundin skreppur út í Jóa Fel og kaupir eitthvað gott brauð. Mmmm.

Ætla að knúsa barnið mitt núna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband