Afmæliafmæli

Hef bara ekki komist til að skrifa, öll helgin fór í gleði og glaum. Við Sprundin brunuðum í Ríkið á föstudagskvöldið og svo til mömmu. Vorum þar að dúlla okkur við skattaskýrslu og ekki skrítið að við skulum hafa þurft að fá okkur nokkra bjóra við þá iðju. Kom nefnilega í ljós að í íbúðalánin okkar eru í dag tveimur milljónum hærri en þegar við tókum þau sökum verðbólgu. Og það þrátt fyrir að við höfum borgað tæpar 800000 krónur á síðasta ári í afborganir. Og eitthvað svipað árið 2006. Maður verður svo fjandi frústreraður.

Allavega. Með nokkra bjóra í malla ákváðum við spúsan að skella okkur niður í bæ. Hittum Kötlu og Arnar kærastann hennar og fórum á Hressó þar sem Tryggvi frændi bættist í hópinn. Þetta varð hið skemmtilegasta djamm. Dönsuðum og dönsuðum á Hressó og svo á Apótekinu og ég skemmti mér vægast sagt konunglega.

Á laugardaginn vaknaði ég og ákvað að vera ekkert þunn. Fékk mér ristað brauð og saft og rölti svo til mömmu að ná í bílinn. Það var góður 20 mínútna göngutúr og ég hresstist öll við. Þegar ég kom heim var fallega konan mín vöknuð og sat í stofunni með gítar og söng sinni englaröddu. Hún söng fyrir mig meðan ég fór í sturtu og tók mig til og þegar hún var klár kom mamma og náði í okkur og keyrði okkur heim til sín þar sem afmælisveislan átti að eiga sér stað (það komust ekki allir við borðstofuborðið mitt). Við lögðum á borð og snurfusuðum og skelltum spænska saltfisksréttinum sem ég hafði undirbúið kvöldið áður í ofninn. Gestirnir komu um sjö og skáluðu með mér í freyðivíni. Maturinn var gómsætur, gjafirnar mína frábærar, vínið og bjórinn góður og samræður stórskemmtilegar. Ég hef ekki skemmt mér svona vel í háa herrans tíð, ef nokkurn tíma. Þetta var æði.  Um eitt var vínið búið og Einar og mamma komin heim. Við héldum þá til Rósu frænku og Gests þar sem margir kassar af bjór biðu okkar. Við spiluðum á spil og gítar, drukkum örugglega allan bjórinn í heiminum, hlógum og spjölluðum. Tryggvi, Katla og Davíð fóru í bæinn milli tvö og þrjú og við Hrund skakklöppuðumst heim um fjögur, að ég held, ánægðar með að vera bara í Skipasundinu (þar sem Rósa og Gestur búa líka).

Ég var ekki hress þegar ég vaknaði á hádegi en hafði það samt gott það sem eftir lifði dags. Borðaði núðlur með chilli og horfði á Friends og lagði mig svo þangaði til litli ljósgeislinn minn kom heim. Hrund skrapp svo út og kom heim með spólur og meiri sterkar núðlur. Það má með sanni segja að hún hafi gefið mér alla sína ást og athygli undanarið (ekki að hún geri það ekki yfirleitt en afmælisstelpuna mig hefur hún virkilega trítað).

Í dag bauð mamma mér í afmælishádegisverð og núna er við stelpurnar mína hér hjá mömmu í pizzuveislu. Ég er svo glöð og sæl að ég snerti varla jörðina.

 Takk allir sem hafa glaðst með mér. Þetta stórafmæli mitt hefur sannarlega verið eftirminnilegt. Og eftir rúma tvo tíma verð ég formlega orðin 25 ára.

Hasta luego.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með daginn skvís

Arna 31.3.2008 kl. 18:53

2 identicon

Til hamingju með 25 ára afmælið kæra tengdadóttir. Luv ya. Tengdamúmmsan.

Tengdó 31.3.2008 kl. 20:12

3 identicon

Nú get ég sagt til hamingju. hehe. loksins. Til hamingju:)

Hlíf 1.4.2008 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband