Stutt

Ekki það að ég sé þekkt fyrir að skrifa stuttar færslur. Ég er hins vegar stutt í annan endann og að jafnaði er ansi stuttur í mér þráðurinn.

Að sum leyti er ég algjör latina. Ég hef t.d. latinovöxtinn frá föðurfjölskyldunni, fitan sest jafnt á allan líkamann og þar af leiðir að mjaðmir og brjóst auka umfang sitt heldur betur þegar ég fitna. Hef sjaldan orðið eins hissa og í mið-Ameríku þegar ég komst að því að karlmönnum fannst ég kynbomba. Ég fór út grindhoruð og fannst ég flott, fitnaði um 10 kíló og þótti fyrst þá ómótstæðileg þarna úti. Í fyrstu skiptin sem flautað var á eftir mér eða verkamennirnir hættu að vinna og slökktu á útvarpinu til að geta kallað til mín, snéri ég mér í hringi til að athuga hvern verið væri að flauta á og kalla til. Ég varð steinhissa og glöð með að einhverjum þætti ég flott þótt mér þætti ekki áreitið með tímanum heldur leiðinlegt. Var sífellt með spólgraða gaura utan í mér á djamminu sem vissu ekki að ég var skotin í stelpunni sem ég var að dansa við. Gekk meira að segja svo langt að tía Mary, föðursystir mín, barði einhverja stráka með handtöskunni þegar við vorum á gangi í Nicaragua. Hún átti ekki orð yfir þessum tittlingum.

Allavega. Þetta var kannski eins og lofræða um sjálfa mig en átti ekki að vera það. Vöxtur minn á bara svo miklu betur heima þar en hér. Næst vil ég nefna tónlist. Ég ólst upp við salsa, marenge, cumbia og allt það. Alveg frá því að ég var baun í bumbu og mun það alltaf vera mín uppáhaldstónlist og minn uppáhaldsdans. Sem minnir mig á að ég verð að fara að skella mér í Alþjóðahúsið að dansa salsa.

Svo er það fjölskylduformið. Ég hefði átt, og ætti, að búa með stórfjölskyldunni, öll undir sama þaki. Ég vil hafa eril, ys og þys, tónlist, matarlykt og hlátur þegar ég kem heim. Ég vil elda í stórum pottum og skammta á tíu diska, mat og allri minni ást. Ég fer ósjaldan til mömmu og elda þar, geri í raun allt það sama og ég væri að gera heima, elda og sé um barnið. Mér finnst frekar leiðinlegt að elda bara ofan í mig og Rakel og okkur finnst báðum miklu skemmtilegra að vera innan um fólk. Sprundin fílar þetta líka í tætlur, stingur oft upp á að við förum til mömmu vitleysings (þú ert vitleysingur, það er það sem ég elska mest við þig, auk þess er ég alveg eins og þú) þar sem ég elda ofan í allt liðið og mala af ánægju á meðan.

Fórum einmitt til mömmu á föstudagskvöldið, Hrund að verða vitlaus af kommóðusmíði sem virðist engan enda ætla að taka og ég í spennufalli eftir próf. Það er ekkert eins græðandi fyrir sálina og góður matur eldaður af alúð og hlý og mjúk fjölskylda.

Rakel fékk að fara í heimsókn til mömmu á laugardag þar sem við Hrund þurftum að læra. Rakel var búin að lýsa því yfir að hún ætlaði ein þangað, fyrst akandi en þegar við sögðum það af og frá þá hélt hún því fram að hún gæti gengið þangað. Við fengum nú að keyra hana á endanum og tylla okkur til þess að fá okkur ristað brauð og kaffi áður en við fórum að læra. Komum svo aftur um kvöldmatarleytið og fengum gott í kroppinn hjá mömmu og í leið smá pásu frá lærdómnum. Ég var eiginlega alveg sprunginn eftir daginn og þar sem ég hafði verið svo dugleg tók ég því rólega um kvöldið.

Á sunnudaginn var svo komið að hinni ömmunni að fá barnið í heimsókn og var það að sjálfsögðu líf og fjör. Hrund náði í Rakel um fimm og ég mokaði grjónagraut og flatkökum með hangikjöti í liðið. Við Sprundin lærðum svo aðeins eftir að baunin var komin í bólið og svo lufsaðist ég upp í rúm. Er aldrei eins þreytt og í prófum.

Fékk mér magic áðan og fannst það ekki duga til. Fékk mér því grænt orkute í von um að geta haldið mér vakandi. Þar sem ég drekk yfirleitt jurtate gleymdi ég mér alveg þegar ég var að búa græna teið til. Mokaði jafn miklu og venjulega í tesíuna og lét það bíða í hátt í tíu mín. Þá var það hins vegar orðið viðbjóðslega beiskt og ódrekkandi svo ég þurfti að bæta slatta af vatni út í. Þegar ég fæ mér te úr valhumli (eða er það ekki humli???), blóðbergi eða brenninetlu set ég eina góða teskeið í síuna og læt bíða í minnst tíu mínútur. Það gerir maður víst ekki við venjulegt te.

Ég neyðist víst til að halda áfram að læra. Þarf svoleiðis að pína mig til að lesa fyrir þessa hljóðkerfisfræði. Mér finnst hljóðfræði fín en heimspeki hljóðkerfisfræðinnar höfðar ekki til mín. Ég vil eitt rétt svar, ef ég þarf að velta hlutunum fyrir mér fram og til baka á prófi næ ég ekki að klára það.

Hrund er ekki enn búin með kommóðun. Fer í tvö próf í dag og ætlar að smíða þess á milli. Það er ekki víst að hún nái þessu sem þýðir að við fáum enga pengina, engin námslán. Prófálagið veldur því að ég brest sífellt í grát. Fór að háskæla í gær þegar við vorum að tala um þessa kommóðu sem bæ ðe vei veldur mér martröðum. Hrund þurfti að taka mig í fangið og sussa og bía og lofa mér því að allt yrði í lagi.

Ég meika ekki svona peningaáhyggjur. Það er alltaf eitthvað svakalegt að gerast þegar ég er í prófum.

En það er víst lífið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband