10.5.2008 | 21:48
Pæling
Datt inn á síðu áðan þar sem verið var að ræða réttindi samkynhneigðra. Það er bæði vont og gott að lesa svona umræður. Það er yndislegt hvað það eru margir sem fagna hvers kyns mannréttindum, hvort sem það er konum, samkynhneigðum, börnum eða öðrum til handa. Svo er alltaf erfitt að lesa það neikvæða. Það er sama hvað maður brynjar sig, manni er aldrei alveg sama.
Það var til dæmis verið að tala um tæknisæðingu og tækinfrjóvgun en samkynhneigðir öðluðust réttindi til þess nýta sér aðstoð Art Medica fyrir tveimur árum. Umræðan byrjaði á því að einhver stelpa sagðist glöð yfir þessum áfangasigri samkynhneigðra en hafði jafnframt áhyggjur af því að biðlistar lengdust og framlög ríkisins yrðu ekki aukin í samræmi við afspurn svo niðurgreiðsla tæknisæðingar og glasa- og tæknifrjóvgunar minnkaði.
Eins og margir bentu á þá felst jafnrétti ekki í því að taka rétt frá einhverjum og gefa hann einhverjum öðrum heldur er markmiðið af fólk hafi jöfn réttindi. Réttindi okkar samkynhneigðra eru ekki á kostnað gagnkynhneigðra.
Sumum fannst að samkynhneigðir ættu vera á eftir gagnkynhneigðum á biðlista þar sem lesbíur eigi ekki við eiginlegt frjósemisvandamál að stríða. Við lessurnar gætum eignast börn á 'eðlilegan máta' og því væri það ekki ófrjósemi sem hrjáði okkur heldur reðurleysi. Lesbíur gætu leitað utan sambandsins, sofið hjá karlamanni og orðið óléttar.
Ef karlmenn í sambandi eru með slappa sundkappa geta þeirra konur líka leitað utan sambandsins, sofið hjá karlmanni og orðið óléttar. Þetta er því sama dæmið. Auk þess geta konur, burtséð frá því hvort þær eru gagnkynhneigðar eða samkynhneigðar, verið ófrjóar og því þurft aðstoð til þess að verða óléttar.
Tæknisæðing, tæknifrjóvgun og glasafjóvgun er fyrir þá sem þurfa aðstoð við að geta barn. Það þarf ekkert að skilgreina ástæðurnar að baki: er konan ófrjó, er karlinn ófrjór, eru þau bæði ófrjó, eru það lesbíur sem um ræðir? Það er ekki skilyrði fyrir því að fá aðstoð að þurfa fyrst að leita utan sambandsins að sæði.
Af hverju ættu lesbíur eitthvað frekar að vilja sofa hjá einhverjum öðrum en maka sínum?
Svo var rætt um það að lesbíur hafi sjálfar valið sér sína 'ófrjósemi'.
Stendur fólk enn þá í þeirri trú að kynhneigð sé eitthvað sem þú velur?
Það getur vel verið að stundum sé í tísku að vera hommi, fara í sleik við vinkonu sína á djamminu eða þá að það þyki spennandi og dulúðugt að vera tvíkynhneigður.
Þetta er ekki spurning um hvort fólk 'getur hugsað sér' að sofa hjá fólki af sama kyni. Ok, ef það getur hugsað sér það og jafnvel notið þess þá er það gott mál. Endilega láta sér líða vel. En erum við svo kynlífsfixeruð að við höldum að það eitt dugi til þess að byggja upp samband?
Það er ekki málið hvort þú getur það heldur hvort þig langar. Spurningin er hvort þú getur ímyndað þér að vera í sambandi með manneskju af sama kyni án þess að hafa kynlíf sem einhvern útgangspunkt. Langar þig, (ef við gefum okkur að þú, lesandi góður, sért kona), að koma heim og taka utan um konuna þína. Langar þig að leiða hana niður Laugaveginn þar sem þú snertir varla jörðina af monti yfir þinni heittelskuðu. Sérðu fyrir þér að deila öllum þínum sorgum og gleði með konunni þinni. Langar þig að eignast börn með henni. Langar þig að eiga framtíð með henni.
?
Ef svo er, þá myndi ég segja að þú værir lesbía. Og þar sem þú værir lesbía langaði þig væntanlega að stunda kynlíf með konunni þinni svo það kæmi af sjálfu sér.
Og þú myndir ekki girnast karlmenn. Og þú myndir gráta allan tímann ef þú þyrftir að sofa hjá karlmanni til að geta konunni þinni barn.
Ég fyrir minn part á erfitt með að trúa því að fólk velji það að vera samkynhneigt. Fólki er afneitað af fjölskyldum sínum, verður fyrir daglegum fordómum, er í minnihlutahóp og gæti sumstaðar týnt lífi sínu fyrir að laðast að fólki af sama kyni. Er það aðlaðandi hugmynd?
Ég valdi það ekki að vera samkynhneigð þótt ég sé hamingjusöm í dag, sátt við sjálfa mig og lífið og myndi aldrei breyta nokkrum hlut gæfist mér tækifæri til þess. Ekki hvað mig varðar. Hins vegar á ég dagbækur frá unglingsárum, þeim árum þar sem mig fór fyrst að gruna að ég væri lesbía, og sálarangistin er svo mikil að ég finn aftur til við lesturinn. Ég gat ekki hugsað mér að vera samkynhneigð, vildi frekar deyja. Þrátt fyrir að vera alin upp hjá fordómalausri og umburðarlyndri mömmu voru skilboð samfélagsins önnur en hennar: ef þú þarft að vera með svona vesen og vera samkynhneigð þá munum við gera þér lífið leitt. Fordómar geta verið svo duldir.
Ég valdi það ekki að vaka í billjón nætur og hugsa um það sem mér fannst þá ömurlegt hlutskipti. Ég valdi það ekki að hrífast af vinkonu minni og hata sjálfa mig fyrir það, ég valdi það ekki að kveljast og þjást af óvissu yfir því hvernig fjölskyldan myndi bregðast við, að geta aldrei verið alveg viss um hver viðbrögð þeirra yrðu (sem voru í öllum tilfellum góð, ég á svo yndislega fjölskyldu), ég valdi það ekki að geta kannski aldrei sagt föðurfjölskyldunni minni frá ástinni í lífi mínu því ég veit ekki hvernig kaþólikkar í Nicaragua bregðast við samkynhneigð innan fjölskyldunnar, ég valdi það ekki að geta ekki átt börn með 'eðlilegum' hætti, ég valdi það ekki að neyða Rakelina mín til að skera sig úr af því að hún á tvær mömmur (og get ekki annað en vonað að viðbrögðin við því verði áfram jafn góð og þau hafa verið hingað til), ég valdi það ekki að verða bráð klámiðnaðarins þar sem kynlíf tveggja kvenna selst eins og heitar lummur, ég valdi það ekki verða sífellt fyrir áreiti á djamminu af kynóðum karlmönnun sem bera enga virðingu fyrir einu né neinu (auðvitað eru ekki allir slæmir, langt í frá) og neyðast til þess að sleppa að dansa við konuna mína og kyssa hana vilji ég fá að vera í friði. Og ég valdi ekki hundrað atriði í viðbót.
Ég valdi það að leyfa mér að elska og lifa frjáls. Ég valdi það að vera stolt af konunni minni og sjálfri mér og öllu því sem við höfum afrekað saman.
Allt fyrir ástina sagði Páll Óskar.
Ég vil ekki láta skilgreina allt líf mitt út frá kynhneigð minni.
Ég er ekki hér til að lúskra á gagnkynhneigðu fólki og taka eitthvað frá þeim. Þetta er ekki keppni.
Elskum friðinn elskurnar mínar.
Gleðjumst yfir hverju kraftaverkabarni burtséð frá því hvers kyns foreldrar eru. Efumst aldrei um þrána að baki. Réttmæta þrá.
Er samkynhneigð eitthvað vandamál?
Það finnst mér ekki.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:10 | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.