Frí

Ég er enn þá í fríi og það er unaðslegt. Sérstaklega eftir að allt komst á hreint með vinnuna. Er að fara á fund á morgun og byrja líklega á fimmtudaginn.

Laugardagurinn var notalegur. Skemmtum okkur allar konunglega á Maxímús. Rakel sat kyrr í fanginu á mér allan tímann og var alveg heilluð. Mér finnst þetta frábært framlag og mætti gera þetta oftar. Ég myndi fara með Rakel á alla svona barnatónleika sem í boði væru. Mér, og Hrund reyndar líka, finnst tónlistaruppeldi svo mikilvægt. Mín 12 ár í píanói hafa hjálpað mér á hundrað vegu í lífinu fyrir utan hvað það er gaman að kunna á hljóðfæri. Ein helsta ástæðan fyrir því að við Hrund erum að mennta okkur er til að geta boðið barninu okkar upp á tónlistarnám og íþróttaiðkun. Svo er auðvitað nauðsynlegt að læra og víkka sjóndeildarhringinn.

Það er aldrei að vita nema Rakel verði lítill píanósnillingur. Eða gítarsnillingur. Eða söngsnillingur. Eða spunasnillingur. Eða fótboltasnillingur. Auðvitað þarf hún ekkert að vera snillingur, ég meina það ekki þannig en krílið mitt elskar að glamra á gítarinn hennar mömmu sinnar og láta okkur syngja með, spilar alltaf á píanóið heima hjá mömmu minni (elsku fína píanóið 'mitt' sem var keypt þegar égnvar átta ára svo ég gæti spilað) og syngur frumsamin lög í takt við glamrið, hún sparkar boltum hér um allt hús og heldur fyrir okkur marga spuna á hverjum degi. Það síðastnefnda finnst mér eiginlega skemmtilegast. Hún sönglar bókstaflega allan daginn og semur textana um leið, tekur jafn vel nokkur dansspor. Það er guðdómlegt.

Við fengum okkur kakó og kaffi og brauð og kökur á kaffihúsinu í Þjóðminjasafninu og skoðuðum ljósmyndasýninguna á neðri hæðinni áður en við héldum heim. Svo bara borðuðum við góðan mat og ávaxtasalat á eftir og höfðum það gott.

Í gær dúlluðum við okkur á náttfötunum fyrir hádegi og gæddum okkur svo á nýrri útgáfu minni af Costa Rica pönnsum sem eru að sjálfsögðu með speltu hveiti og agave sýrópi. Hrund fór svo til mömmu sinnar að smíða og tók Rakel með sér. Á meðan Hrund smíðaði dúkkuhúsgögn og Rakel lék sér út í garði fór ég með mömmu í Ikea að útrétta. Stelpurnar komu svo til mömmu seinni partinn og vorum við þar í mat og kósýheitum fram að háttatíma.

Rakelin svaf til hálf tíu í morgun. Kannski ekki skrítið þar sem hún vaknaði rétt um sex í gærmorgun, mér til mikillar mæðu. Hún pissaði og ég skóflaði henni aftur upp í rúmið sitt og sagði henni að það væri engan veginn kominn morgun. Rúmlega sjö heyrði ég enn í henni bröltið, játaði mig sigraði og fór á fætur. Þar sem hún er almennt hin mesta svefnpurka var hún að vonum dauðþreytt í gær.

Ég leyfði rauðhaus að ráða hvort hún færi í leikskólann eða væri í fríi með mér. Hún er algjör leikskólakerling en valdi það þó í þetta skiptið að vera heima. Við fengum okkur morgunmat og hún horfði á Bangsímon á meðan ég setti saman rúmfatageymslu. Var að verða gjörsamlega klikkuð og hætt að finnast hún svona sniðug eins og í búðinni. Ég kom henni saman á þrjóskunni einni saman og er ansi stolt af mér. Yfirleitt tekst mér að skrúfa allt vitlaust saman og skera mig á skrúfu áður en ég treð þessum Ikeapúsluspilum saman .Í þetta skiptið hélt ég mig við að blóta öllu og öllum í sand og ösku og vona að Bangsímon í hungangsleit hafi haldið athygli barnsins frá því sjónarspili. 

Núna er Rakel komin í pils og mussu þar sem við erum búnar að ákveða að það muni ekki rigna. Bjarndís er á leiðinni og ætlum við að leyfa Rakel að hjóla niður í Grasagarð á nýja hjólinu sínu og fá okkur hádegismat þar. Svo er það grænmetissúpa og tilheyrandi í kvöld.

Ó, ég gleymdi. Mamma gaf mér þriggja hnífa sett í gær og einnig svona hníf með tveimur sveigðum brúnum sem er tilvalinn til að saxa krydd og annað mjög smátt. Ég borgaði henni tvær krónur fyrir herlegheitin eins og maður á að gera (ég meina að borga fyrir hnífa svo þeir færi þér ekki ólukku) og núna þarf ég bara að fara aftur í Ikea og kaupa stálplötu til að festa á vegginn svo ég geti fest hnífana þar á því ekki komast þeir í mitt aumingjalega hnífastatíf.

Mig klæjar í fingurna eftir að byrja að elda súpuna og saxa og skera og malla og krydda og smakka ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband