Uppfærsla

Það var orðið, takk fyrir þýðinguna tengdó. Eins gott að ég þurfti ekki að hugsa eða ná mér í orðabók.

Bjarndís vinkona ruglaðist á dögum og var að vinna í gær svo matarboðið bíður betri tíma, stefnum á mánudag í staðinn. Hún hefur pantað rótsterka grænmetissúpu hjá mér og hef ég hugsað mér að verða við þeirri bón hennar. Rakel og Einar, strákurinn hennar, fá þá eigin súpu þar sem chillíinu verður sleppt. Svo ætla ég að hafa eplaköku úr speltdegi og hrásykri og lífrænum eplum í eftirrétt. Það er sjúklega gott að nota spelt hveiti og hrásykur í svona köku. Prófaði það í fyrsta skipti um daginn heima hjá mömmu og það var borðað í þögn. Kannski stunið af nautn öðru hverju. Meira að segja Rakel bað um meira en það gerir hún nær aldrei, hún lætur sér alltaf mjög lítinn skammt af öllu sætu duga. 

Ég naut þess að vera í fríi í gær. Kona í vinnu og barn á leikskóla. Vaskaði upp og bjó um rúmið en lét annars heimilisstörf vera. Eftir vinnu hjá sér fór Hrund fór og náði í miðana á sinfoníutónleikana sem við erum að fara á á eftir og ég hófst handa við eldamennsku með Rakelina sönglandi inn í herbergi. Syngjandi barn er hamingjusamt barn og mikið óskaplega er hún dóttir mín alltaf kát og glöð.

Eins og oft hefur komið fram veit ég fátt skemmtilegra en að elda. Eini matreiðsluþátturinn sem ég hef gaman af er þátturinn hennar Nigellu. Hún eldar af svo mikilli ástríðu, hún getur verið eldfljót og hún lítur út fyrir að borða matinn sinn, ekki bara elda hann handa öðrum.

Í gær upplifði ég mig eins og Nigellu þar sem ég náði á tæpum klukkutíma að steikja kjúkling og skella honum í olíu, kryddi og sítrónu inn í ofn, sjóða villihrísgrjón, vaska allt upp eftir eldamennskuna, búa til salat, leggja á borð, sjóða rababara, þeyta egg og hrásykur, skella þessu í form og inn í ofn, setja matinn á borðið og kalla svo á stelpurnar mínar í mat. I am a superwoman. Hrund er alltaf jafn gáttuð á mér.

Kannski ég sé ofvirk.

Við borðuðum gómsætan sítrónukjúkling, salat og grjón, fórum allar í sturtu (Erum með svo fínt system, önnur byrjar í sturtu og tekur barnið með sér, hin tekur skrúbbað barnið úr sturtunni, þerrar það, greiðir því, makar á það kókosolíu og treður í nærskyrtu. Sú fyrri er þá búin í sturtu og leyfir þeirri seinna að komast að.) og fengum okkur svo rababarapæ, súkkulaðiís og fersk jarðarber. Namminamm.

Ég leyfði þreytta verkamanninum að sofa aðeins í morgun og dundaði mér við að búa til appelsínusafa úr girnilegu, lífrænu appelsínunum mínum. Við Rakel borðuðum morgunmat, hún horfði á sjónvarpið og ég þvoði eina vél og dundaði mér í tölvunni. Við knúsuðum svo Hrund þar til hún neyddist til að vakna.

Hún skrapp til mömmu með hina umræddu kommóðu sem hún smíðaði en Elísabet Rós ætlar að geyma hana inni í herberginu sínu þar til við hjónakyrnur erum komnar í stærra húsnæði. Rakel leikur ljón inni í herberginu sínu með tilheyrandi hljóðum. Við vorum svo að hugsa um að fá okkur hádegismat á Á næstu grösum og svo er það Maxímús Músíkús og sinfoníuhljómsveitin klukkan tvö.

Svo er ég auðvitað farin að hlakka til að elda á eftir. Ætla að hafa safaríkar svínalundir með beikoni, lauk, sveppum og döðlum. Og baka þetta allt í ofni í einhverri góðri sósu. Ég nota nú aldrei rjóma í matargerð en hugsa að ég búi til eitthvað úr sýrðum rjóma, kotasælu og kannski smá rjómaosti eða kaffirjóma. Hugsa að ég hafi svo ávexti í eftirrétt.

Ég vil alltaf eiga full af ávöxtum. Núna eru þrjár ávaxtaskálar á borðinu: fjögur lífræn epli, tvö mangó, fullt af bönunum, jarðarber, vínber, græn epli og svo ein lárpera. Í morgun voru þar líka átta lífrænar appelsínur. Rakel kom í gær á meðan ég var að elda og tíndi vínber af grein og stakk í munn. Svona vil ég einmitt hafa það, vil að hún venjist því að borða fullt af ávöxtum og komist auðveldlega í þá sjálf. Þess vegna er tilvalið að þvo vínber og hafa þau í skál þar sem hún nær í þau. Og best ef ávextirnir eru lífrænir svo hún geti borðað t.d. epli með hýðinu.

Auðvitað er nauðsynlegt að eiga líka alltaf fullt af grænmet. Ég þekki fá börn sem þarf að biðja um klára ekki allt salatið sitt fyrst heldur borða líka eitthvað af matnum. Svoleiðis er hún fullkomna dóttir mín, raðar í sig öllu grænmeti af bestu lyst.

Æ, mig langar bara í svona risa búr eins og Nigella á. 'Einn daginn' sagði Sprundin við mig í gær þegar ég deildi þessum draum með henni. Það held ég nú, búr og bókaherbergi fyrir mig, bílskúr fyrir Hrund og stór garður fyrir okkur allar.

Annar er allt að skýrast með vinnuna. Sá sem átti að boða mig á fund var bara að drukkna í vinnu go búinn að gleyma þessu. Ég sendi því Jóhannesi Gísla sem ég vann fyrir síðasta sumar póst og hann fór strax að vinna í þessu. Og þetta var nú meira ruglið. Fyrst kom í ljós að í staðinn fyrir að við værum þrjár um þrjú verkefni þá vorum við þrjár um tvö verkefni. Svo kom í ljós að ein stelpnanna var búin að ráða sig í aðra vinnu svo það endar kannski með því að við verðum tvær með of mikla vinnu. Ég fæ allavega eins mikla vinnu og ég vil en hef hugsað mér að taka samtals fjögurra vikna frí, eitthvað með Sprundinni (ef það er mögulegt, kannski allavega langar helgar og ein vika á Malarrifi) og eitthvað bara með rauðhaus. Svo verð ég að öllum líkindum að vinna aftur fyrir Jóhannes Gísla, í þetta skipti við að lesa gömul bréf og slá þau inn og er ég bara mjög sátt við það. Jóhannes er voða fínn karl og fínt að fá að prófa annað verkefni en í fyrra.

Jæja, best ég fari að klæða mig og Rakel. Hún er orðin eitthvað eirðarlaus, búin að koma mörgum sinnum inn í stofu og gefa mér að 'borða' og láta mig klappa hestinum sínum.

Góða helgi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg væri ég til í að vera með vott af þessum eldamennskuhæfileikum. Ég tel mig elda þegar ég sýð hrísgrjón og set útá þau jógúrt og soja. Væri ekki tilvalið að þú myndir vera með svona uppskriftarhorn...hehe Annars bið ég vel að heilsa dísunum tveimur og the mútts!

inam 17.5.2008 kl. 16:33

2 identicon

heyrðu, litla snúllan "mín" (þ.e. 3ja ára dóttir systur minnar) fór líka á Maxímus Músíkus í gær.... og kom svo í pössun til mín. Talaði ekki um annað, ég sver það, algjörlega heilluð:)

Skemmti Rakelita sér jafn vel?

Gott að vinnan er komin á hreint.

Hlíf 18.5.2008 kl. 16:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband