21.5.2008 | 23:37
Lukka
Við komumst nú aldrei í Grasagarðinn á mánudaginn þar sem það var farið að dropa þegar við komum út og þar sem skjótt skipast veður í lofti hér á landi og því allt eins von á úrhelli ákváðum við að Jói Fel væri betri kostur. Rakel hjólaði með elegans niður í Holtagarða. Fór samviskusamlega af hjólinu og dröslaði því yfir litlar götur og hélt í Bjarndísarhönd yfir Sæbrautarbrjálæðið og leyfði mér náðarsamlegast að sjá um hjólið.
Barnið er samt svo fyndið á hjólinu. Hún er að venjast hjálpardekkjunum og lafir ekki lengur öll á annarri hliðinni. Hins vegar gleymir hún stundum hvernig á að bremsa og tekur þríhjólsstælinn á þetta: lyftir fótunum af pedulunum og ætlar að draga þær eftir jörðinni til að stoppa sig. Það er hins vegar hægara sagt en gert þar sem hún nær ekki svo glatt niður í götuna þegar hún situr á hnakknum. 'Bremsaðu Rakel, bremsaðu, þú verður að bremsa' er setning sem ég hef sagt oft undanfarna daga. Oftar en ekki kastar hún fótunum upp í loftið og horfir svo upp í loftið líka. Ég hef ekki hugmynd um af hverju hún starir upp í himininn þegar hún þykist vera að bremsa. Kannski er hún að ákalla guð. Inn á milli æfum við okkur og hún bremsar með stæl. Þegar á reynir panikerar hún og stoppar því ekkki fyrr en ég rykki í hjólið eða það, og hún með því, lendir á einhverju, til dæmis vegg. Hún hefur nú sloppið ómeidd hingað til og ég er bara ótrúlega stolt af tröllabarninu mínu.
Við komumst til Jóa og fengum okkur brauð og safa. Rakel borðaði sitt brauð, gleypti það í sig væri nær lagi. 'Ére búin, takk fyrir mig, södd, má ég fara' bað hún og fékk leyfi mitt til að fara út og kíkja á hjólið sem stóð við innganginn. Næsta klukkutímann var hún úti og klappaði hjólinu og strauk því, talaði við það, safnaði þurrkuðum ánamöðkum og mosa eða guð má vita hverju í körfuna framan á því og mátaði sig á hnakknum. Hún kom inn og þáði kanilsnúð en borðaði hann auðvitað úti. Sem betur fór var ekki rigning því hún hefði aldrei tekið það í mál að vera inni. Hún hafði ekki einu sinni tíma til að drekka kókómjólkina sína og þá er mikið sagt því rauðhaus hefur alltaf tíma til að þamba.
Við Bjarndís höfðum það því náðugt og spjölluðum þangaði til tími var kominn til að hjóla heim aftur.
Rakel lék sér á meðan ég eldaði bestu súpu í heimi (hógværðin alveg að drepa mig) og gerði eplaköku með aðstoð Bjarndísar. Einar Ernir sonur hennar, ári yngri en Rakel, kom svo í heimsókn eftir leikskólann og krílinn smullu strax saman. Við Bjarndís sjáum fyrir okkur hjónaband.
Þegar Hrund kom heim úr vinnunni var orðið aðeins of glatt á hjalla inni í barnaherbergi svo hún var rekin út að leika með börnin. Hún nýtti tímann til að bera á svalahúsgögnin okkar. Eða ég hélt að hún ætlaði að gera það. Núna eru þau í 50 pörtum upp á verkstæði hjá henni því hún ætlar að pússa þau og ég veit ekki hvað áður en hún bæsar. Ekkert hálfkák.
Við gæddum okkur því næst á súpu og enduðu börnin saman í baði áður en pabbi Einars kom að sækja hann. Þau voru svoooo sææææt. Tveir litlir, næpuhvítir, saklausir, englakroppar að busla. Ég og Bjarndís héngum yfir þeim og dáðumst að þeim og vorum alveg að kafna úr ást og stolti.
Kvöldinu eyddum við Hrund og Bjarndís í að spila og borða eplaköku og ís. Næsti hittingur á að vera á laugardaginn. Við Hrund ætlum svona einu sinni að horfa á Evróvisjon, grilla með Bjarndísi og skemmta okkur.
Í gær fór ég á fund með Jóhannesi Gísla, konu frá Orðabókinni og svo öðrum umsækjanda. Það kom nú í ljós að ég og hinn umsækjandinn (kona) höfðum báðar augastað á verkefni Jóhannesar og Haralds sem felst í að lesa bréf frá 19. öld og slá þau stafrétt inn. Hljómar kannski leiðinlega en þessi bréf eru algjör gullnáma og svo langaði mig líka að prófa eitthvað öðruvísi en ég var að gera í fyrra. Það endaði með því að Jóhannes kastaði upp á hver fengi það verkefni (aumingja konan á Orðabókinni með verkefni sem hvorug hafði sérstakan áhuga á). Ég leyfði konunni að velja og valdi hún skjaldarmerkið. Ég hef aldrei kastað upp á neitt í lífi mínu og var að vonum spennt. Upp komu FISKARNIR. Ég fékk þá vinnu sem mig langaði í. Jeij!
Það væri reyndar fínt að fá að byrja í henni bráðum. Fór á fund með Haraldi í dag sem er ekki í frásögur færandi. Hann er hins vegar ekki alveg tilbúinn, ætlar að hafa samband í næstu viku og á von á því að ég geti byrjað að vinna þá. Vona að ég geti byrjað á mánudaginn...
Fór eftir fundinn í hádegismat niðri í bæ með mömmunni. Fengum okkur ís í eftirrétt og svo las ég blöðin, drakk kaffi og truflaði mömmu áður en ég tók strætó heim og náði í krílið mitt.
Þreif hér nær allt hátt og lágt, Hrund ætlar að klára að renna yfir gólfinn á morgun. Ég sagði að hún mætti alveg fara snemma til mömmu sinnar að smíða, ég skyldi sjá um Rakel. Það er ekki nóg að vinna við þetta, nauðsynlegt að smíða líka að minnsta kosti þrjú kvöld í viku
Skil það svo sem. Ég vil helst elda á hverjum degi. Ekki alltaf samt. Í gær borðuðum við pizzu. Það var reyndar ótrúlega krúttlegt þar sem klukkan var orðin frekar margt og við ákváðum að hafa það kósý og borða inn í stofu. Rakel fékk litla borðið sitt og stólinn inní stofu og svo horfðum við allar á Emil í Kattholti. Rakel var mjög niðursokkin í myndina og átti í mesta basli með að borða (minnist þess reyndar ekki að hún hafi nokkur tíma borðað fyrir framan sjónvarp áður svo það er kannski ekki skrítið). Hún hitti ekki upp í sig, gleymdi að borða pizzuna og borðaði bara kartöflubáta með tómatsósu sem var á endanum komin út á kinn og upp á enni, framan á alla blússuna hennar, út af disknum, á borðið og á Paddingtondiskamottuna. Hún er bara sætust.
Við skelltum henni í bað og horfðum svo á undankeppnina í Evróvisjon (til þess að vera inni í þessu á laugardaginn, kannski skemmtilegra þannig). Rakel sá nokkur lög, þar á meðal steikta lagið frá Bosníu-Hers. Hún kom akkúrat inn í stofu þegar það lag var í spilun og sagði kát: Hey, sérru álfinn!' og átti við karlkynssöngvara lagsins. Ég og Hrund krumpuðumst af hlátri.
Jæja, ætla að halda áfram að horfa á Friends og njóta þess að vera í fríi.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:54 | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.