ÚTILEGA

Þetta er svolítið æst fyrirsögn, ég veit. Ég er nú frekar æst að eðlisfari en núna er ég bara svo spennt og glöð. Við erum alveg að fara í útilegu og Rakel telur niður dagana. Spyr sífellt hvenær við förum og þegar ég sagði henni í dag að amma Alla ætti afmæli og við ætluðum út að borða með henni eftir leikskóla spurði hún vongóð: 'Ætlum við að taka ferðatösku?'

Í fyrra þegar við Sprundin fórum í okkar fyrstu útilegu með krílið áttum við ekkert útilegudót. Tengdó bjargaði okkur um allt og vorum við í tjaldi frá henni, með stóla, borð, svefnpoka, lukt, prímus, grill og so videre. Við ákváðum í sumar að kaupa eitthvað pínulítið og biðja svo um rest í jólagjöf eða kaupa sjálfar þegar við ættum meiri pening. Við erum hins vegar eiginlega búnar að kaupa allt nema svefnpoka og pottasett fyrir prímusinn og það í tveimur hollum. Eigum núna uppblásnar dýnur, stóla fyrir okkur allar, borð, tvær luktir, prímus (sem mamma gaf okkur), ferðagasgrill, kælitösku sem gengur fyrir rafmagni og ég veit ekki hvað og hvað. Eigum líka plastdiska í þremur stærðum og sér uppþvottabursta og bala til að vaska upp í. Keyptum líka útilegukveikjara og hitabolla handa okkur Hrund. Þetta er svakalegt. Og við erum að springa úr gleði. Málið er nefnilega að í fyrsta skipti síðan síðasta sumar eigum við einhvern pening. Svo við ákváðum að leyfa okkur þetta. Og við eigum samt eftir fyrir kreppuna.

 Hallelúja.

Tek það fram að við þurfum ekki meiri þægindi. Ég læt ekki sjá mig í neinu fellihýsi eða þvíumlíku sem ég kann ekki að nefna. Þau þægindi sem við viljum eru dýnur, borð og stólar og svo er voða gott og gaman að hafa ferðagasgrill með í för.

Annars á mi madre afmæli í dag. 55 ára og á besta aldri. Kraftimikil, fríð og fönguleg. Klár, hnyttin og blíð. Mesta kjarnakona sem ég hef kynnst. Við börnin hennar, gríslingar þrír, eigum bestu mömmuna.

Ok. Búin að monta mig af mömmu og dóti. Vil bara koma því að að við þjáumst ekki af neinni dótagræðgi. Það er bara svo gaman að eiga svona sjálfur. Gerir okkur svo fullorðnar og að enn meiri fjölskyldu.

Oh, ég er svo fullorðin.

Hrund finnst hún líka fullorðin. Þegar við fórum út að borða með Rósu og Gesti á laugardaginn síðasta sagði hún einmitt:' Við bara úti að borða með öðru pari, ógisslega fullorðnar.'

Þótt ég sé orðin 25 (sem er auðvitað kornungt) þá verð ég stundum steinhissa þegar ég man skyndilega að ég á bíl og hús og barn og konu sem ég er trúlofuð.

Jösses.

Ekki það að ég fíli það ekki í tætlur.

Er farin að fá mér súrmjólk og múslí. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hafið það rosagott í útileigu og til hamingju með múttu:) Bið að heilsa allri familíunni.

Katla 25.6.2008 kl. 13:14

2 identicon

Er farin að sakna ykkar stelpnanna svoldið mikið. Vona að ég nái að sjá litlu kerlinguna mína áður en hún fer til pabba síns. Eitthvað  annað en ipod sem þið viljið fá frá Ameríkunni??? Og skilaðu kveðju til mömmu þinnar til hamingju með afmælið...Kossar og knús frá Ömmu Sillu í Ameríku.

Tengó í Ameríkunni 26.6.2008 kl. 17:41

3 identicon

Söknum þín líka. Fór með Hrund í gær heim til þín að fá lánað svefnpoka og pottasett (eins og þú sérð í færslunni eigum við nú allt annað!) og það var svo skrítið að hafa þar enga Sillu til að taka á móti manni. Fiskrarnir hennar Katrínar skíta svo mikið og þú ert miklu betri félagsskapur. Við værum alveg til í nærbuxur og þá í stærð L svo þær nái örugglega yfir botninn. Einnig þunna svarta sokka, fyrir mig í stærð í 38 og Hrund í 40. Hrund var eitthvað að tala um buxur í vinnuna sem og peysu (ég spurði hana hvort hún ætlaði þá að fara í gegnum fataskápinn sinn og losa sig við allt það sem hún notar ekki, hann er troðfullur) og þá á hún við einhverjar íþróttabuxur eða liprar buxur sem gott er að pússa í og svona. Svo var hún til í hlíraboli, enga fancy, bara einhverja síða og þægilega.Svo voru það bolir og buxur á Rakel, með eins litlu áprentuðu letri og mögulegt er.Þú mátt líka alveg kaupa fílakaramellur í fríhöfninni og DVD mynd með Múmínálfunum og leikna mynd með Línu Langsokk (allt nema 'Vetur í Múmíndal' og 'Lína Langsokkur á ferð og flugi').

Ef það var eitthvað meira þá man ég það ekki og það hefur sig. Þú nærð pottþétt að hitta Rakel áður en hún fer til pabba síns, hún fer ekki fyrr en á föstudeginum á þá bara yfir helgi. Við stefnum á heimsókn á miðvikudaginn eftir að þú kemur.

Hlökkum til að sjá þig, knús og kossar.

dr 27.6.2008 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband