Bréfið

Þá er búið að kenna mér hvernig á að klippa og afrita og hér hafið þið bréfið:

Ég er viss um að allir eru fyrir löngu orðnir hundleiðir á símafyrirtækjum
og þeirri vitleysu sem þeir standa fyrir. Það eina sem maður getur gert er
að fylgjast vel með. Við höfum í þónokkurn tíma verið í viðskiptum við það
sem áður var HIVE, nú TAL, og svo sem líkað vel. Vorum með heimasíma og
ADSL hjá þeim og var tilboðið sem þeir buðu upp á nokkuð gott. Við vorum
hins vegar ekki með ótakmarkað niðurhal og af reikningum að dæma virðist
svo vera að við höfum halað meiru niður en við borguðum fyrir í hverjum
einasta mánuði í meira en ár. Og aldrei nokkurn tíma létu þeir okkur vita.
Í desember á síðasta ári borguðum við 7000 kr. aukalega og aldrei hringja
þeir til að láta vita hversu langt farið hefur verið yfir niðurhalsmörkin.

Því miður áttuðum við okkur ekki á þessu fyrr en eftir á (maður skammast
sín fyrir að hafa verið svona sofandi). Við héldum ekki að við værum að
hala neinu niður og fylgdumst því ekkert sérstaklega með þessu. Er það
kannski líka niðurhal að opna netið yfir höfuð?

Tal bauð okkur svo nýtt tilboð um daginn: ótakmarkað niðurhal, 8 mb hraði
og fast gjald fyrir heimasíma (getum talað að vild í heimasíma, gjald
alltaf það sama). Ég marg spurði hvort reikningurinn í framtíðinni myndi
þá hljóða upp á þessar 5990 kr. sem þeir buðu okkur. Svarið var já. Raunin
varð önnur, reikningurinn var hærri. Ég talaði við þjónustufulltrúa í dag og krafðist skýringa. Sagði hann mér þá að ég þyrfti að borga 190 tryggingagjald á rádernum. Sagðist ég ósátt við að mér hefði aldrei verið
sagt það þrátt fyrir ítrekaðar spurningar mínar um verðið áður. Hann sagði
að við værum líka að borga 190 krónur í seðilgjald en hann gæti fellt það
niður ef við vildum láta taka upphæðina beint út af kretidkortinu um hver
mánaðamót. Ég sagði honum að þannig hefði fyrirkomulagið verið frá
upphafi og hvort þeir hefðu kannski verið að rukka okkur um þessa fjárhæð
allan þennan tíma þrátt fyrir það? Því gat hann ekki svarað. Ég lét hann
hafa kreditkortanúmerið aftur, bað um rétta upphæð tilboðsins og sagðist
myndu láta vita af þessum viðskiptaháttum þeirra.

Tilboðið hljóðar upp á 6180 krónur, ekki 5990 krónur, og mun ég fylgjast
með þessu í framtíðinni. Þetta er kannski ekki beint okur en alveg hreint
dæmigert fyrir það hvernig sífellt er verið að reyna að svindla á manni.

Díana

ps. ég veit ekki af hverju bréfið kemur svona asnaleg út á blogginu, þið ættuð nú samt að geta lesið það


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jæja Díana! Hvar hefur þú alið mannin síðustu daga? Við söknum þín... og kjaftavaðalsins ;) til hammó með birtinguna á bréfinu þínu! Bara orðin celeb! Sjáumst eftir helgi!

Gyða 4.7.2008 kl. 11:49

2 identicon

Já Gyðan mín, sakna ykkar líka. Þurfti aðeins að láta krukka í mig og hef verið að jafna mig síðan. Þegar götin eru gróin, sem verður væntanlega eftir helgi mæti ég galvösk! Hlakka til að sjá ykkur, dr

Díana Rós 4.7.2008 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband