Eitt það besta í heimi ...

... er að skrifa ljóð. Eða það finnst mér. Ég á ógrynni af ljóðum á lausum blöðum út um allt, í tugum dagbóka, í ljóðabókinni minni og í höfðinu. Eins og ljóð yfirleitt, eru þau einstaklega sjálfhverf og endurspegla líðan mína og hugsanir í það og það skiptið. Sá sem vill kynnast mér allri, öllu því sem ég hef til að bera, mínum kostum og göllum, ætti að lesa ljóðin mín. Það væri hins vegar kannski hægara sagt en gert þar sem ég leyfi ekki öllum að lesa þau. Ansi væri ég þá allsber eitthvað. Þegar ljóðabókin kom út leið mér á tímabili eins og ég hefði verið húðflett. Nú myndu allir sjá hvað ég væri klikkuð. Hvað var ég að pæla að sýna fólki allar mínar myrkustu hugsanir. Og hvað ef fólk áttaði sig á því hver manneskjan var sem ég orti um af svo miklum hita. Hvað ef þessi manneskja kæmist að því hún væri eldurinn sem stöðugt logaði í mér.

?

Ég var 18 ára og einstaklega dramatísk. Ég komst yfir þetta og leið ágætlega eftir að hafa verið afhjúpuð (að mér fannst, það var ekki eins og allir í heiminum hefðu lesið bókina).

Ég á ljóðum líf mitt að launa. Og það meina ég bókstaflega. Hefði ég ekki haft hæfileikann til að færa hugsanir mínar í orð hefðu mörg augnablik í lífi mínu verið mér ofviða. Erfiðustu árin mín á ég erfitt með að muna og lengi vel vildi ég ekki muna þau. Fyrir ekki svo löngu áttaði ég mig á því að ég gæti aldrei litið almennilega fram á við fyrr en ég tækist á við fortíðina. Fyrir mig virkar ekki sú aðferð að gleyma. Ég verð að muna og læra að vera sátt við allt það sem ég hef gert, þær ákvarðanir sem ég tók og fyrst og fremst verð ég að sætta mig við þetta kjánastrik sem ég var svo lengi vel. Það hefst ekkert upp úr því að hata sjálfan sig annað eymd.

Ég týndi til öll ljóð sem ég fann frá þessu tímabili og mikið lifandis skelfingar ósköp fannst mér erfitt að vera manneskja. Sérstaklega sú sem ég var. Sum ljóðin eru svo háðsk og kaldhæðin að mér varð hverft við. En sú aðferð mín að sjá spaugilegu hliðarnar á lífinu, þótt kaldhæðnar væru, fleytti mér áfram.

Í seinni tíð er bjartara yfir ljóðunum mínum. Ljóðin mín um barnið mitt einasta eru svo uppfull af gleði og ást að það hlýtur að duga öllum heiminum. Hin ótalmörgu ljóð sem ég samdi til Sprundarinnar minnar í tilhugalífinu sýna lífið sem hún kveikti í mér á ný eftir að mér hafði fundist svo lengi að ég hefði misst það frá mér.

Það var einhver ástæða fyrir því að ég byrjaði að skrifa um þetta en hún er löngu gleymd.

Með aldrinum finnst mér aðeins auðveldara að vera manneskja. Kannski af því að ég hef lært það (og er enn að læra) og er orðin aðeins betri í því.

Ég held ég hafi bara haft allt of mikinn tíma til að hugsa á meðan barnið hefur verið hjá pabba sínum og undanfarna daga hefur mér fundist pínu erfitt að vera manneskja.

Þegar ég verð stór held ég bara að ég verði flott manneskja.

ps. Ég held að það sé of mikið að hafa heilsuhorn á hverjum degi. Bara allt of mikið af upplýsingum fyrir fólk líka. Ætla því að hafa það nokkrum sinnum í viku. Er ekki búin að ákveða hversu oft enn þá. Ég get hins vegar sagt ykkur í dag að ljóð hafa einstök áhrif á geðheilsuna.

Annars kemur mömmugullið heim á eftir og verður yfir nótt. Við mömmurnar ætlum bara að knúsast í henni, ekki fara í neinar heimsóknir eða neitt heldur njóta þess að vera fjölskylda.

pps. Í dag held ég að sólin í sinninu sé risin upp frá dauðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þegar maður kynnist þér jafn seint og ég gerði, þá getur maður ekki ímyndað sér að þú hafir einhvern tíman verið "kjánstrik" og ekki jafn heilsteypt og þú virðist vera í dag.

Ég skrifaði líka dramatísk ljóð á unglingsárunum. Ekki mörg ... og mjög hallærisleg. Myndi held ég deyja ef einhver sæi þau. En mér finnst ógeðslega töff að þið skylduð gefa út ljóðabók þegar þið voruð 18. Mjög töff

Hlíf 18.7.2008 kl. 11:54

2 identicon

Við vorum og erum enn ógesslega töff!

inam 18.7.2008 kl. 12:06

3 identicon

Já Inam, ætlum við höfum ekki bara verið nokkuð töff. Við erum allavega svaka flottar í Veru, ýkt horaðar og þunglyndar en samt svo uppfullar orku. Átt þú sjónvarpsþáttinn sem við vorum í? Það væri rosalegt að horfa á viðtalið aftur.

Er svo ekki farinn að koma tími á næstu bók?

dr 18.7.2008 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband