Nei

Ég segi nei við fyrirsögn.

Hrund náði í krílið eftir vinnu á föstudag. Barnið talaði að sjálfsögðu látlaust alla leiðina heim. Tók það fram að hún hefði ekki fengið nammi, ekki sett það í vasann og ekki borðað það. Aumingja barnið veit að nammi er ekki í boði fyrir hana (nema í undantekningartilvikum) í stelpukotinu. Ég hef nú reynt að segja henni að hjá pabba ráði pabbi og þar sé í lagi að borða smá nammi ef hún man að bursta tennurnar vel. Barnið tók líka fram við mömmu sína að Karíus og  Baktus kæmu í tennurnar ef hún borðaði nammi. (Ekkert má maður segja, barnið fær það á heilann hvort sem það er kuldaboli, Karíus og Baktus eða eitthvað annað.) Og af orðum þess að dæma er barnið kom með nóg af þeim köllum: 'Karíus og Baktus eru bara hálfvitar'. Þar hafið þið það.

Rauðhaus var mjög ör þann tíma sem hún var hjá okkur. Það reyndist henni mjög erfitt að setja sig inn í heimilislífið og þær reglur sem því fylgja eftir langan tíma hjá pabba sínum. Ég og Hrund vorum komnar með ógeð af okkur sjálfum, endalaust eitthvað að röfla. Krílið mitt var bara ekki alveg eins og hún á að sér að vera. En ég skil það, hún er bara lítið barn og verður jafn rugluð á lífinu og aðrir. T. d. ég.

Þrátt fyrir það skemmtum við okkur vel. Fórum út að borða á Ítalíu á föstudaginn og Rakel fékk kúluís á eftir. Vildi endilega piparmyntukúlu og át hana alla þótt henni þætti bragðið augljóslega nokkuð skrítið. Hún sofnaði fast og svaf eins og engillinn sem hún er. Köngulóarfóbían hennar virðist þó vera að færa sig eitthvað upp á skaftið og núna er hún farin að fá köngulóarmartraðir. Ég vaknaði um miðja nótt við það að strumpur stóð við rúmstokkinn og sagði með kökkinn í hálsinum: 'Mammí, mammí mín, það er könguló'. Hún fékk mömmuknús og skreið aðeins upp í stóra rúm. Tilkynnti svo stuttu seinna að köngulóin væri farin og að hún væri tilbúin til að fara inn í sitt rúm. Svaf svo þar til hálf ellefu (fór að sofa klukkan hálf níu).

Um morguninn fékk Rakel að hjálpa mömmu sinni að gera kaffi handa mér sem er mesta sport í heimi. Á meðan hvíslaði hún og neyddi mömmu sína til að gera slíkt hið sama. Hún var viss um að ég væri sofandi og vildi ekki vekja mig þessi elska.

Við horfðum svo allar á Múmínálfana sem hún hafði fengið að 'kaupa' (hún skilur ekki hugtakið leigja) í sjoppunni kvöldið áður. Eftir þá tókum við okkur til og fórum niður í Nauthólsvík. Greyið stelpan hélt að við værum að fara að hitta afa Douglas. Hún hefur aldrei baðað sig svona úti (fyrir utan sund) nema úti í Svíþjóð hjá honum. Þrátt fyrir fjarveru afans skemmti hún sér konunglega. Hlýddi engu sem við sögðum og svaraði öllu með nei-i en það skríkti í henni af kátínu þar sem hún henti sér til sunds, renndi sér í rennibrautinni eða hljóp um ströndina. Bjarndís og Einar Ernir komu þegar leið á daginn og Rakel og Einar eyddu klukktíma í að renna sér á rassinum (eða maganum eða andlitinu, get svo svarið það) niður einhvern hól.

Það var svangt, 'fyst' (þyrst) og þreytt barn sem pabbinn kom að sækja. En að mér sýndist kátt og glatt. Þegar hún kemur frá honum á fimmtudaginn ætla ég að vera þolinmóð og gefa henni aðlögunartíma áður en ég minni á þær reglur sem gilda. Stundum finnst mér ég ömurleg mamma og stundum mjög góð. Yfirleitt reyni ég bara að gera mitt besta og vona að það dugi til.

Við Hrund opnuðum bjór (trúið þið þessu?) eftir að skottan var farin. Svefn sótti að Hrund og á meðan hún lagði sig drakk ég bjór, hlustaði á The Knife (mér varð svo hugsað til þín elsku Oddný mín, manstu?) í botni (sem virtist ekki trufla Hrund hið minnsta) og bara var einhverf. Hrund skreiddist á lappir og fór svo niður í bæ að hitta vinkonur sínar. Ég var ekki tilbúin að fara (klukkan eitt um nótt) og eyddi þremur tímum í að blogga, lesa blogg, hlusta á ipodinn í botni (ég hef örugglega skemmt í mér heyrnina) og taka myndir af sjálfri mér. Fór loks eftir þetta allt (eða um fjögur) niður í bæ. Eins og ég sagði í fyrri bloggum hef ég bara verið týnd í naflanum á sjálfri mér.

Hrund fór austur í gær að hitta pabba sinn og ég talaði í símann allt kvöldið. Fyrst í tvo tíma við Oddnýju og svo í tæpan einn og hálfan við Kötlu. Það var bara mjög gott og nauðsynlegt.

Ég er að vona að naflaskoðun minni sé lokið. Ég er hreinlega komin með svo mikið ógeð af sjálfri mér að ég hefst ekki við í eigin návist.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Greyið Rakel, kóngulóarmartraðir eru ógeðslegar.

Hlíf 22.7.2008 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband