Freytt

Já, ég er heldur freytt (eins og rauðhaus segir) í dag. Þið vorkennið mér kannski ekkert þar sem ég er að fara í frí en hvað manneskja með barn hvílir sig og sefur út í fríi? Ég og Sprund erum aldrei eins þreyttar og í fríum.

Vinnufamilían fór á Esjuna í gær. Þetta er ekki grín. Loksins hef ég fundið einhvern sem vill ganga eitthvað með mér. Mikið svakalega fór ég samt í taugarnar á sjálfri mér þar sem klöngraðist upp. Spikið hristist, maginn dúaði og rassinn öðlaðist sjálfstæðan vilja fyrir utan það að hægja á mér. Það eina sem fór ekki í taugarnar á mér voru brjóstin enda vel reyrð undir íþróttatoppnum. (Sem bæ ðe vei er ógisslega fleginn. Af hverju í ósköpunum keypti ég mér fleginn íþróttatopp? En asnalegt. Ég hlýt innst inni að vera svona heilluð af eigin brjóstaskoru. Ég sem óskaði þess hér á árum áður að vera flatbrjósta.) Síðast þegar ég lagði í þetta fjall var ég létt sem lauf og blés varla úr nös enda í dúndurformi. Núna var annað upp á teningnum og á meðan svitinn lak niður andlit mitt og bak stóð ég á öskrinu inn í mér. Ég hljómaði í mínu eigin höfði líkt og snarbilaði austur-evrópski leikfimikennarinn minn í Melaskóla (sem var rekinn eftir að strákur í bekknum mínum drukknaði næstum því í sundi, brjálæðingurinn kenndi okkur nebla líka sund): 'Koma soooo! Ekki hætta! Ekki vera auuuuumingi! Ertu FÁVITI?' Ég var bara skíthrædd við sjálfa mig og gerði eins og mér var skipað. Enda enginn aumingi.

Vitur kona sagði mér eitt sinn að lífshamingja mín ylti á því að ég kæmi vel fram við sjálfa mig. Hún sagði mér að koma eins fram við mig og ég kæmi fram við barnið mitt. Aldrei nokkurn tíma myndi ég öskra svona á rauðhaus. Ég er greinilega ekki góð í þessu.

Við höfðum ætlað okkur upp að steini en komumst ekki alla leið vegna hnausþykkrar þoku. Áðum í staðinn og drukkum kakó og spjölluðum. Höfum hér með ákveðið að fara aftur í ágúst sem er bara frábært.

Rauðhaus kemur heim á eftir og ég er að vinna í því að setja mig í mömmugírinn. Ekki það að það eru engin handtök eins æfð hjá mér og þau sem umönnun barnsins krefst: Skeina, skera, mata, þurrka, fæða, klæða, greiða, strjúka, klappa, knúsa, breiða ofan á, kyssa, þvo og þrífa. Stelpurnar í vinnunni buðu mér að hita mig upp með því að skamma þær aðeins. Nei, djöfull er það það leiðinlegasta sem ég geri. Og þar með talið að ryksjúga. Held ég sleppi því í vinnunni.

Það verður ljúft að fara í frí. Ekki það að mér finnst ég rétt byrjuð að vinna. Þetta hefur bara verið yndislegt sumar. Núna þegar allar vinkonur mínar eru út í rassagati er kærkomið að eignast nýja vini. Stelpurnar í vinnunni eru þeir skemmtilegustu og mestu ljúflingar sem ég hef hitt lengi. Og Sprundin veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Konan hennar sem aldrei hefur þurft neinn tíma fyrir sjálfa sig og hefur á köflum verið svo necia (þurfandi) að hún hefur verið að kæfa hana (þ. e. Sprundina) talar allt í einu látlaust um vinnuna og vinina, fer á vinnudjömm og í göngur og skemmtir sér konunglega.

Ekki það að mér hafi leiðst áður. Ég var alveg sátt. Ég hins vegar fattaði ekki að ég gæti alveg verið að skemmta enn þá meira. Mér fannst bara svo yndislegt að eignast fjölskyldu, lítinn rauðhaus og mjúka konu, fallegt heimili og fjölskyldulíf, að ég gaf mig alla. Þreif og eldaði, hugsaði um konuna og barnið og lærði þess á milli. Ég fílaði það í botn og hef alveg hugsað mér að gera það áfram. Það er bara svo mikilvægt að eiga sér fleiri en eitt líf. Það er frábært að vera mamma og kærasta en ég verð líka að vera bara Díana Rós. Vona bara að Sprundin mín átti sig á því og skilji að hún er mér ekkert minna dýrmæt þótt ég sé hætt að vera svona necia. Við vorum reyndar að ræða þetta um daginn og vorum alveg sammála um að það væri kominn tími til að vera kannski aðeins meira sundur og með vinum okkar. Það að eiga maka af sama kyni getur skapað mjög sérstakar aðstæður. Það verður óneitanlega þannig að þið eigið sömu vinina og eins skemmtilegt og það er verður að passa það aðeins. Það er svo mikilvægt fyrir fólk í sambandi að eiga sína vini sem og sameiginlega.

Og þá er ég búin að koma þessum hugleiðingum frá mér.

Allavega held ég að við Sprundin höfum gott af því að fara í sumarfrí og hnoðast hvor í annarri og auðvitað afkvæminu.

Ég blogga svo bara þegar ég er búin að vera viku á Malarrifi eða jafn vel ekkert fyrr en eftir hringferðina.

Já, já, já. Ég ætla að vera dugleg við að vera betri við sjálfa mig. Ég get þetta. No hay clavo.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

já... þú varst nú pínu móðguð yfir að við buðum þér bara að skamma okkur og við vitum alveg að það er ekki það eina sem þú gerir við barnið þitt!! Ég kunni bara ekki við að bjóða þér að snýta mér eða mata mig... það hefði verið pínu weird ;)

Gyða 24.7.2008 kl. 14:38

2 identicon

Haha, já, Gyða það hefði verið fyndið.

En hérna: Ég var líka í flegnum íþróttatoppi. Ég hef hins vegar alltaf verið hugfanginn af eigin brjóstaskoru. Nema þegar ég var fjórtán. Þá fannst mér brjóstaskorur álíka ósmekklegar og rassaskorur sem gægjast upp úr gallabuxum.

En mér fannst þú svífa léttfætt upp Esjuna á meðan ég mjakaðist upp eins og feitur snigill. Kannski er ég þessi alræmdi spánarsnigill...

Hlíf 24.7.2008 kl. 15:07

3 identicon

oh ég er nýbúin að uppgötva hvað esjugangan er skemmtileg... verst að ég er að fara út, annars hefði ég pottþétt viljað draga þig með mer einn daginn:)

Hafið það nú rosalega gott í fríinu dömurnar mínar og ég hlakka mikið til að hitta ykkur þegar þið komið til baka.

ps. leikfimikennarinn er ennþá með stöðuna....

Katla 25.7.2008 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband