Engin grá hár samt

Nei, ég er ekki farin að grána. En líður samt bara eins og öldungi þessa dagana. Var lasin fyrra hluta síðustu viku og komst því ekki í ræktina og eftir svakalegar vinnutarnir og margra klukkutíma setu á óbakvænum stólum Hámu var ég alveg farin í bakinu. Það er fáránlegt að vera 25 ára og hökta um sökum bakverkja. Reyndar var enn þá fáránlegra að vera tvítug og geta ekki klætt mig sjálf sökum bakverkja. En sumst. Komst ekkert í ræktina seinni hluta vikunnar út af brjósklosinu og kom mér ekki einu sinni í afró á mánudaginn síðastliðinn. Í gær fórum við fjölskyldan svo í sund, bæði er Rakel búin að biðja um það 100x og svo er ég enn þá svo slæm í bakinu að ég get ekkert skoppað.

Ég fæ reyndar heilmikla hreyfingu út úr því að hlaupa í strætó. Ég er einhvern veginn alltaf alveg að missa af honum. Í gær var ég alveg að missa af honum. Fattaði þá að ég hafði gleymt að fara með flíspeysuna hennar Rakelar á leikskólann. Vildi ekki eyða tíma í það að ná í skólatöskuna á leiðinni til baka frá leikskólanum svo ég hljóp eins hratt og gat með hana á bakinu út í leikskóla. Á leiðinni til baka fattaði ég að ég hafði gleymt veskinu mínu og þar sem ég ætlaði að kaupa spænskubók í skólanum varð ég að ná í það. Ég hefði því ekki þurft að hlaupa með töskuna sem hafði ekki góð áhrif á mitt auma bak. Ég var bara þrjár mínútur að hlaupa á leikskólann og til baka og tvær mínútur í viðbót að hlaupa upp að ná í veskið og út á strætóstöð. Þetta hlýtur að vera eitthvað met. Og djöfull var ég sveitt þegar ég lokskins settist niður í strætó. Ég sem var nýkomin úr sturtu. Og þetta er ekkert einsdæmi, ég er alltaf hlaupandi um með töskuna á bakinu, löðursveitt og blótandi.

En aftur að sundinu. Sem ég fór í. ÉG. Sem get ekki hugsað mér að annað fólk sjái spikið mitt. Mér finnst reyndar voða gott að sjá svona illa, þá sé ég fólkið í kringum mig í móðu. Og svo er gott þegar það er svona dimmt og plús að fara á veturnar því þá er mun minna af fólki en á sumrin. Og ég bara synti og fílaði það í tætlur. Gott að fá öðruvísi hreyfingu en venjulega. Og Rakel var á fullu allan tímann og talaði og skríkti stanslaust af tómri gleði. Lét sig hafa það í kuldanum að fara tvisvar í rennibrautina. Var reyndar orðin alveg frosin þegar við fórum aðeins í pottinn og gufu. Fengum okkur svo pulsu á eftir. Æ, þetta var svo gott.

Það er svo fyndið með hana Rakel. Eins og hún er mikill gaur, veltir sér í drullu, leikur sér bara við stráka, dundar sér með bíla og turtles og dýrkar Spiderman, þá er hún svooooo mikil stelpa. Það er oft pínu erfitt að fara með henni í sturtu því hún vill vita hvað allt er á líkama mæðra sinna, af hverju það er þarna, til hvers og af hverju hún sé ekki með svona. Við matarborðið í fyrradag fór hún skyndilega að athuga hvort það væru komin hár undir hendurnar á henni. Hún er að bíða eftir að þau komi svo hún megi raka þau með rakvélinni minni. Hún er pínu svekkt yfir því að vera ekki með brjóst, bara vörtur eins og hún segir, og bíður spennt eftir unglingsárunum (ég og mamma hennar hins vegar ekki svo mikið). Hún vill helst fá svitasprey og kókosolíu og hárnæringu og gel í hárið þó hún sætti sig nú við þá skýringu mína að það sé svo góð lykt af henni að hún þurfi ekki að vera að bæta neinni á sig. Hún fær nú stundum samt að maka á sig kókosolíu krúttið.

Um daginn þegar hún og mamma hennar voru að koma úr sturtu vildi hún fá að vita tilgang alls sem má finna í tveimur bastkörfum inni á baði. Hrund taldi upp þangaði til hana brast þolinmæði og sagðist ekki vita hvað þetta væri. Rakel skildi það nú vel: 'Já, ég skil, ég má ekki vita það.' Kom svo fram til mín og sagðist hafa séð oddísprey. Oddísprey? Það endaði með því að hún dró mig inn á bað þar sem Hrundin stóð og hristist úr hlátri. Rakel átti þá við bodysprey, einu ólífrænu hreinlætisvöruna sem við eigum og sú sem vekur mestan áhuga hennar. 'Má, ég fá svona oddípsrey bað barnið' og ég spreyjaði út í loftið einhverjum metra frá henni. En hún var sátt. Er líka farin að greiða sér sjálf eftir sturtu og vandar sig ekkert smá. Tekur líka stundum snúninga fyrir framan spegilinn og sveiflar hárinu til. Gaurinn minn er ekki lengur bara gaur!

En núna verð ég að fara að lesa heimildirnar fyrir ritgerðina mína. Ég ætlaði ekkert að blogga.

Helgin nálgast. Ég segi ekki meir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hehe... litlu krílin og skemmtilega forvitnin þeirra! Eins og þegar litla systir Nonna, þá 5 ára gömul, kleip mig í brjóstið og spurði hvort að ég væri með börn þarna! hahaha :)

Gyða 22.10.2008 kl. 11:41

2 identicon

Vá skil þetta með bakverkinn, ég á nefninlega við slíkan verk að stríða þessa daganna. Hugsaðu þér, ég skjögra um öll skökk og skæld með samnemendum mínum sem eru fæstir komnir yfir tvítugt. Hringdu fljótlega, ég sakna þín.

Oddný 23.10.2008 kl. 22:11

3 identicon

Díana....núna er ég orðin friends med Oddný og Hrund á smettisskruddunni, mér segir svo hugur að þú sért ekki búin að búa þér til prófíl. Þegar þú lest þetta comment þá held ég að þú ættir að búa þér til eins og eitt stykki prófíl!

inam 24.10.2008 kl. 07:01

4 identicon

Það er nú meira hvað það er gaman að lesa hjá þér Díana. Og sögurnar af skruddunni eru alveg dásamlegar. Mér finnst ég oft vera að lesa smásögur þegar ég les hjá þér. Spurning með að gefa líka út smásögur í viðbót við ljóðabókina...

Gunnsan 24.10.2008 kl. 11:19

5 Smámynd: Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva

Inam: Veistu ég skil bara ekki sum orðin sem þú notar. Ég skil ekki snúrumál og ekki tölvumál. Knús á þig samt.

Gunnsan: Takk Það væri nú algjör draumur að gefa út smásagnasafn. Mig dreymir eiginlega um það alla daga, veit ekki eftir hverju ég er að bíða. Trúnni á sjálfa mig kannski.

Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva, 24.10.2008 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband