Smá mont

Æ, nú verð ég bara að monta mig pínu, er bara svooo glöð. Rakel Tanja frænka mín, forkunnarfagra og feikna klára (enda skyld mér) var að senda mér tölvupóst. Játaði þar á sig að lesa bloggið mitt og finnast skrifin æði. Játaði líka að hafa notað ljóð, sem ég skrifaði á bloggið einhvern tímann, í íslenskutíma í Kennaraháskólanum, sem dæmi um órímað ljóð án stuðla og höfuðstafa. Kennarinn var svona líka hrifinn af ljóðinu og vildi vita allt um mig og vildi að frænka mín kær skilaði því til mín að ég þyrfti nauðsynlega að gefa út ljóðabók. Vei, vei. Þetta er kannski ágætt spark í rassinn því ég á haug af ljóðum heima, alveg nóg í bók, og er bara að bíða eftir trúnni á sjálfa mig því þá ætla ég að sjóða saman eitt stykki bók og reyna að gefa hana út. Mér finnst bara svo gaman þegar fólk hrósar mér fyrir skrifin mín því þau eru mér hjartans mál og mér eins nauðsynleg og að draga andann. Eruði ekki stolt af mér?  

Annars fór ég í afró í gær og mikið svaðalega var það gaman. Núna eru allar konurnar og stelpurnar sem byrjuðu af krafti í átaki í september búnar að gefast upp og aðeins hardcore lið á borð við sjálfa mig eftir. Loksins er því hægt að gera flóknari spor og dansa meira í stað þess að eyða öllum tímanum í að kenna örfá spor þeim sem eru nýjar (sjitt, geðveikt hrokafull eitthvað). Trommarinn var veikur í gær svo núna reyndi fyrst á að dansa eftir tónlist sem er mun erfiðara. Það er erfiðara að finna taktinn og skipta um hreyfingu á réttum tíma. Ég upplifði algleymi og brjálaða nostalgíu. Það er svo gaman að dansa og þessi tegund af tónlist rifjaði upp svo margar góðar minningar. Mi papito á vini frá hinum ýmsu heimshornum og ég man eftir nokkrum frá Vestur-Afríku síðan ég var krakki. Ég var krúttibolla og skemmtileg og þeir dýrkuðu mig jafn mikið og pabbi. Og gáfu mér jafn mikið af tónlist og hann. Ég get svo svarið það að sum lögin sem við hlustuðum á í gær á ég á 20 ára gömlum kasettum heima.

Tónlist hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og ég hlustaði ekki á neitt nema salsa (og hina ýmsu afrísku tónlist) þangað til ég var að verða 12 ára. Mamma er fædd í vitlausri heimsálfu, talar spænsku eins vel og móðurtunguna, verður svört í sólinni sem hún fær aldrei nóg af og veit ekkert eins skemmtilegt og að hlusta á og dansa við salsa. Ef hún hlustaði á tónlist þegar ég var lítil var það salsa á kasettum sem hún kom með heim frá Svíðþjóð. Þegar ég var hjá pabba á sumrin vaknaði ég og sofnaði við salsa. Við hlustuðum á tónlist allan daginn og byrjuðum morgnana á því að taka smá dans. Pabba lyfti mér upp á háhest og ég upplifði taktinn í hreyfingum hans. Hann dró fram dillið í mínum hálf-latinomjöðmum og snéri mér í hringi um alla stofuna. Við vorum berfætt, hann með sínar dökku krullur og ég með mínar ljósbrúnu. Þessar stundir eru meðal þeirra sem ég held mest upp á.

Pabbi gaf mér hárautt kasettutæki í afmælisgjöf þegar ég var fimm ára. Þá gat ég byrjað að hlusta á mínar eigin kasettur í mínu eigin tæki. Í mörg ár (þangað til ég uppgötvaði, Blur, útvarp og geislaspilara) byrjaði ég alla laugardags og sunnudagsmorgna á því að koma tækinu fyrir uppi í rúmi og hlusta á mitt salsa á meðan ég las frá mér allt vit eða dúllaði mér eitthvað. Þótt tónlistarsmekkur minn hafi orðið þróaðri með árunum lifi ég ekki af heila viku án þess að dansa smá salsa og hlusta á smá salsa. Kasetturnar frá pabba hafa orðið að geisladiskum og ég á heilan haug af þeim. Nú er það ég sem tek rauðhausinn minn í fangið svo hún geti upplifað taktinn í gegnum mig. Og það sem henni finnst það gaman.

Og þetta mun vera ástæðan fyrir því að ég kann engin íslensk dægurlög. Það var einfaldlega ekki hlustað á þetta heima hjá mér. Þau lög sem ég kann hef ég lært eftir að ég varð tvítug. Oddný og Hrund hafa stundum misst andlitið yfir mér þegar við höfum verið að spila á gítar og syngja og ég kann ekki rass í bala. Og finnst flest lögin bara alveg hundleiðinleg.

Það er bara svo sérstök tilfinning að alast upp við einhverja eina ákveðna tegund af tónlist, hún verður hluti af þér. Ég get ekki einu sinni lýst fyrir ykkur kikkinu sem fylgdi því að fara í fyrsta skipti til Nicaragua og dansa salsa við föðurbróður minn. Þetta var bara eins og að koma heim.

Ég er sko Íslendingur í húð og hár en ég er ekki minni latina fyrir vikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hlakka til ad lesa naestu ljodabok fra ter skvis   Glugga reglulega i ryk og hef alltaf jafn gaman af.   ...og va'a Blur, tad vekur upp minningar

Stay stong

Arna

Arna 30.10.2008 kl. 14:45

2 identicon

Þú ert æði Díana mín. Haltu bara áfram að vera þú. Og blogga og blogga. Meir' í dag en í gær....Get alveg skilið þennan tónlista áhuga. Get ekki hugsað mér lífið án tónlistar.  Og spila á gítar og syngja !!!!!! Eigum vð að ræða það eitthvað.

Gunnsa 31.10.2008 kl. 00:00

3 identicon

Svaka stolt! Það eru miklir hæfileikar þarna, hlakka til að lesa ljóðabókina þegar hún kemur :)

úff... ég minnist þess nú bara með hryllingi þegar ég neyddist til að dansa salsa í fyrsta skiptið við einhvern sveittasta muchacho sem ég hef augum litið! Aldrei hefur mér liðið jafnmikið eins og kartöflupoka! Ég öfunda þig af rythmanum :)

Gyða 31.10.2008 kl. 09:27

4 identicon

omg ég er svo taktlaus og stíf að það hálfa væri nóg. Vildi að ég hefði smá latínórythma í mér. Allir latino muchachoarnir sem reyndu að dansa við mig í Madrid svitnuðu mjög mikið, af áreynslunni við að reyna að láta mig hreyfast eðlilega.

Sammála um að það er miklu erfiðara að dansa afró við tónlist heldur en trommurnar. Mér finnst miklu skemmtilegra með trommunum, þó að tónlistin sé reyndar ágætis tilbreyting. Hlakka til að mæta aftur í afró þegar ég næ mér upp úr þessum veikindum. Ekki enn orðin góð.

Hlíf 31.10.2008 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband