Þannig er það

Ég verð bara að segja að ...

 

Ég get verið myrkfælin

þótt ljósir punktar

séu á leiðinni

 

Þið sem hafið glímt við þunglyndi vitið að sá sjúkdómur er ekki rökréttur. Þú stendur ekki upp úr rúminu á morgnana og hristir af þér vanlíðanina heldur finnurðu kvíðahnútinn vaxa í maganum um leið og þú opnar augun. Þú byrjar daginn með tárin í augunum en eftir smá stund kemstu í þinn trans, dofin, dauð, alveg sama, því aðeins þannig kemstu í gegnum daginn. Suma daga tekurðu þátt í lífinu, þá ertu líklega nýstigin upp úr svörtu holunni. Aðra daga veistu varla hvað þú heitir því þokan í höfðinu er svo þykk og blóðið í æðunum svo þykkt að þú færð ekki nóg súrefni og átt erfitt með andadrátt. Þú getur alveg átt þér gott heimili og fjölskyldu, ágætis líf alveg hreint, og samt verið svona endalaust myrkfælin. Þú ræður ekki við það.

Sem betur fer fer ég sjaldan ofan í holuna lengur. Og hún er alls ekki það slæm. Ekki eftir að ég lærði að takast á við hana. Þunglyndið mitt var eins hjá konunni í bókinni 'Konan í köflótta stólnum', það var regla á því.  Einn hringur var þrjár vikur, ein vika ofan í holunni, ein vika þegar ég var á leiðinni upp og ein vika sem ég var hátt hærra hæst uppi þangað til ég féll aftur með skelli. Ég lærði að hræðast ekki holuna heldur hugsa minn gang í henni, ég komst ekki hjá henni svo ég varð að hætta að vera hrædd við hana.

Með allskonar hjálp náði ég að vinna mig út úr því versta. En ég er enn þá oft myrkfælin. Bara stutt í einu sem betur fer.

 

Ég verð líka að segja að ...

 

Hjá mér leiddust átröskunin og þunglyndið hönd í hönd. Ég var löngu byrjuð í átröskun áður en ég varð þunglynd, ég var bara peð þegar ég byrjaði að hata spegilmynd mína. Þunglyndið kom seinna. Ég man meira að segja eftir því. Það var þegar ég var að byrja annað árið í menntaskóla held ég, frekar en það fyrsta. Myrkrið skall á mér viku áður með svo miklum þunga að ég varð að leggjast í rúmið. Svo bara lá ég þar og grét frá mér allt vit og hafði ekki hugmynd um af hverju. Sem betur fer vissi ég ekki að það var bara byrjunin. Ég hafði grennt mig svo mikið um sumarið og seinna þennan vetur var ég orðin mjótt strik, þunglyndið sá sér leik á borði, ég gat engan veginn borið þunga þess og það átti mig alla í töluverðan tíma eftir þetta. Það var alltaf til staðar, horfði á mig útundan sér ef ég stóð mig vel, grennti mig, henti sér á mig ef ég stóð mig illa, lét undan öskrinu á mat í höfðinu.

Ég er svo glöð yfir að vera laus við verstu vanlíðanina. Því þegar þú ert virkilega veikur sérðu ekkert þessa ljósu punkta sem eru til staðar og þú borðar ekki þótt þú vitir innst inni að þú ert á góðri leið með að kála þér.

Það er svo mikið ljós í lífi mínu og ég er svo glöð yfir að geta notið þess, það er yfirleitt ekki svo erfitt að kveikja þegar myrkrið fer að kvelja mig.

Ég losna hins vegar aldrei við þetta öskur úr höfðinu sem segir mér að matur sé vondur. Ég ímynda mér oft að ég sé eins og alkarnir, hætt að drekka en langar alltaf í, þess vegna má ég ekki fá mér. Málið er að ég verð að fá mér. Ef ég hætti alveg að borða dey ég. Og hvað gerist þegar alkinn drekkur? Það fer allt í rugl.

Ég er ekki að biðja um algjöra stjórn yfir mat, ég reyndi einu sinni að öðlast hana og það endaði með ósköpum. Ég vil bara losna við óttann við hann og kunna að umgangast hann.

Þegar ég verð stór ætla ég svo sannarlega að lifa í sátt og samlyndi við sjálfa mig. Ég vinn að því markmiði á hverjum degi. Og ég verð að losa mig við skömmina því mér finnst þunglyndið og átröskuninn einhvern veginn gera mig að verri manneskju, að aumingja, að klikkhaus. Og þess vegna hef ég átt svo erfitt með að tala um þetta. En ég má ekki hugsa svona. Ég verð að muna að ég er þvert á móti sterk. Ótrúlega sterk. Því ég barðist við þetta og berst við þetta á hverjum degi. Ég hrasa svo oft og meiði mig mismikið en ég stend alltaf upp aftur, sama hversu lemstruð ég er, sama hversu vont það er. 

Fyrir mig, fyrir ykkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku frænka, ég veit hvað þú ert að fara.

þú ert ekki verri manneskja fyrir að hafa barist við þessa sjúkdóma, heldur ertu mikið meiri manneskja en allir aðrir fyrir það eitt að viðurkenna og lifa með því að hafa barist við þá.

ást.

R.Tanja 8.12.2008 kl. 14:51

2 identicon

Takk, það er svo gott þegar einhver skilur mann. En um leið sárt því oftast hefur þessi einhver skilning á þessu af því að hann hefur gengið í gegnum það sama og það óska ég engum.

Ég hugsa til þín og það er gott að vita af þér þarna úti.

Knús og kossar,

dr 

dr 8.12.2008 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva
Díana Rós og Hrund og dæturnar Rakel og Röskva
Hér skráir Díana Rós fyrir hönd litlu fjölskyldunnar hinar ýmsu athafnir hennar og deilir með ykkur sögum úr stelpukotinu þeirra í Skipasundi

Myndaalbúm

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 56516

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband