Jólasnjór

Já, hann er hér fyrir utan snjórinn þvert á allar spár. Lætur ekkert segja sér fyrir verkum.

Þessi jól hafa verið einstaklega vel heppnuð. Maður lærir með árunum hvað hentar sinni fjölskyldu best og eftir að hafa gert þrjár tilraunir með Hrund tókst sú fjórða með eindæmum vel. 

Þorláksmessu hef ég þegar lýst. Á aðfangadag dúlluðum við okkur fyrir hádegi og fórum svo í spjall og kósýheit til tengdó og vorum þar fram eftir degi. Að verða þrjú var húsmóðirin komin í mig með látum og ég þurfti að komast heim í eldhúsið mitt, setja á mig elsku bestu svuntuna og byrja. Mægður brölluðu ýmislegt á meðan ég bjó til guacamole og salat og skellti ógrynni af sítrónukjúlla í ofn. Við Hrund vorum svo sammála um það ekkert væri eins jólalegt og að hlusta á jólin hringd inn og hafa svo gaulið í kórnum og prestinum í bakgrunni þegar snætt er. Maturinn var ljúffengur, aldrei verið betri.

Mamma, Valur og systkini komu eftir uppvask og opnuðu með okkur pakkaflóðið. Þá byrjaði ég allt í einu að finna fyrir hálsbólgu. Þegar búið var að opna pakkana var ég orðin lasin. Þetta var í fyrsta skipti sem ég slakaði á síðan í nóvember og greinilegt að við það brustu allar varnir líkamans og hann hreinlega gafst upp. Ég var búin að banna honum að vera með vesen svo lengi og nú gat hann ekki meir. Ég er hins vegar mjög fegin að vera veik núna en hafa ekki verið það í prófunum. Takk líkami.

Anywho. Ég fékk fimm yndislegar bækur, æðislegt sjal frá tengdó, eyrnalokka og legghlífar frá Rakel (nú get ég hætt að stela Hrundar), rós handa Rósinni frá Hlíf og prjónavettlinga, alveg eins og ég óskaði mér, frá Gyðu, pasmínu frá ömmu og krúttaragjafir frá Kötlu og Oddnýju. Pabbi gaf mér hálsmen og stuttermaboli keypta í Ástralíu og Nicaragua. Svo fengum við Hrund líka gjafir saman, púsl og spil og rúmföt og peninga og eldhúsdót. Ég held ég sé ekki að gleyma neinu en ef svo er, afsakið mig. Hausinn er fullur af kvefi.

Við Hrund eyddum deginum í gær í að gera ekki neitt sem var ó svo ljúft. Rakel fór til pabba síns svo við þurftum engum að sinna nema okkur sjálfum.

Ég píndi mig á fætur og í sturtu áðan sem er samt það versta sem ég veit þegar ég er lasin. Erum að fara í boð til tengdó en þangað koma mamma og co. Gerðum það sama í fyrra og það var ekkert smá gaman.

Best að fara að koma svefnpurkunni með ljósa hárið á fætur.

Muna að taka með snýtubréf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband