Dugleg

Klukkan hálf sex var ég búin. Að gera allt sem ég taldi upp áðan og töluvert meira til. Var rétt búin að skúra þegar Sprundin kom heim.

Váááá. Sagði hún þegar hún leit í kringum sig. Hangkjötsilmur og sápuangan í loftinu. Allir hlutir á sínum stað. Jólaljósin fallegri en nokkru sinni. Kátur krakki, fjörugur páfagaukur og ein sveitt kona.

Hrund tók utan um mig og sagði:

Guð var að vanda sig þegar hann gerði þig.

Þótt hvorug okkar trúi því að guð hafi skapað okkur var þetta yndislega fallega sagt.

Eftir súpu og brauð fór ég í sjóðheitt bað með birkisafa og vöðvaslakandi baðsalti og las á meðan Hrund vaskaði upp og þær mæðgur pökkuðu inn gjöfum. Við spiluðum svo músaspilið hennar Rakelar og skemmtum okkur konunglega við það. Eftir sturtu hjá mæðgum skreið ég upp í rúm til Rakelar og las las las. Ætlaði svo aldrei að komast upp úr rúminu og þurfti að kalla á Hrund og fá hana til að hjálpa mér. Mitt brjósklosbak samþykkir það nefnilega ekki að ég taki til í næstum sex tíma. Og hvað þá ef það felur í sér að ryksjúga og skúra. Núna sit ég því hér í sófanum hrein og strokin og dauð í bakinu með hitaboka við bakið og axlirnar til að reyna að koma í veg fyrir að ég fái tak í bakið.

Sprundin náði í hitapokann og grjónapokann og kom öllu haganlega fyrir.

'Ætlar þú að gera þetta fyrir mig' spurði ég hana

'Auðvitað, ertu ekki að farast í bakinu' svaraði hún

'Jú. Takk. Ég pakka þá bara inn einni gjöf á meðan'

'Nei'

'Nei?'

'Nei'

'Hvað á ég þa að gera' vildi ég vita.

'Ekkert'

'Ekkert?'

'Ekkert'

 

Núna er ég því að reyna að gera ekkert. Hrund segir að ég sé glötuð í að slaka á. Og það mun vera rétt. Þótt ég geti ekki rétt úr mér þá finnst mér endilega að ég eigi að gera eitthvað.

En ég að slaka á svo ég ætla að reyna að gera eins og mér er sagt.

Hrund er að setja hreint á rúmið.

Hangikjöt, piparkökur, mandarínur, negulnaglar, greni. Saman er af þessu heimsins besti ilmur. Sérstaklega í bland við sápulykt af hreinum kroppum og gólfum og rúmfötum.

Ummmm.

Óska ykkur þess yndislega ilms og góðra stunda með familíunni. Þurfum ekkert meira held ég.

Gleðleg jólin!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband