Í alvöru talað

Í gær, allt of seint um nótt, lágum við spúsan undir dúnsængum og vorum að stikna. Stormurinn barði gluggann að utan og ekki séns að opna hann án þess að gardínan færi á flug og skelltist utan í gluggakarminn með tilheyrandi látum.

Við vorum búnar að knúsast. Knús án nokkurra orða, upp í rúmi fyrir svefninn er það besta. Sé alltaf fyrir mér tvo hesta að nudda höfðum og hálsum saman. Konan hafði komið sér fyrir eins nálægt mér og hún gat og fékk að liggja þar nokkra stund þar til líkaminn kallaði á sitt rými og hún neyddist til að færa sig yfir á sinn kodda. Ég get sjaldan sofnað með einhvern ofan í mér, hvort sem það er hundurin hennar Inam, lítill rauðhaus með kaldar tær eða rjómahvíta konan mín (fleiri eru ekki svo mikið að reyna að koma sér fyrir í hálsakotinu mínu).

Við liggjum báðar á vinstri hlið og hlustum á vindinn. Frekar vakandi eftir knús og spjall (ok einræðu frá mér). Ég finn að brækurnar eru að trufla mig, einhvers staðar er eitthvað ekki eins og það á að vera og þar sem ég ligg með báðar hendur undir vanga bið ég mjúka konu:

'Ertu til í að laga aðeins nærbuxurnar mínar'

Konan verður við bóninni og það ekki í fyrsta skipti, lagar strenginn á bakinu og eitthvað fleira. Á meðan ég nýt klórsins sem ég fæ á bakið í kaupbæti hugsa ég mér að nánara geti fólk líklega ekki verið. Lagandi nærbuxur hvors annars. Það var góð tilfinning.

Annars náði ég í Gyðuna mína klukkan hálf sjö í gær og skilaði henni um hálf tvö. Allan tímann töluðum við út í eitt. Ég drakk fyrsta kaffibollann í viku og varð svo ör að ég fann sterka löngun til þess að taka nokkur spor á kaffihúsinu. Dillaði í stað þess fæti ótt og títt og sveiflaði höndum til þess að leggja áherslu á mál mitt. Við höfðum ekki hist í viku og soguðum félagsskap hvor annarrar í okkur.

'Mér finnst frábært hvað þú talar mikið' sagði Gyðan og mér þótti vænt um það. Gyða hefur alltaf verið eins og sól í lífi mínu, skinið skært á mig síðan ég kynntist henni, fyllt daga mína birtu og yl og verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu. Vinkonuást er sko ekki síðri en önnur ást.

Í svefnrofunum í gær fann ég fyrir heitri hendi Sprundarinnar á mjöðminni á mér, elsku snertidýrið mitt sem getur ekki sofnað án þess að koma einhvers staðar við mig. Ég fylltist svo miklum friði og hugsaði um hvað ég væri heppin. Ég datt í lukkupottinn þegar ég kynntist Oddnýju minni og hélt ekki að ég yrði svo heppinn tvisvar í viðbót. Þrjá sálufélaga á ég. Einn dökkhærðan á Akueyri, svo óralangt í burtu, einn bundinn mér á marga vegu við hlið mér í rúminu og svo þann ljóshærða með síða hárið í Vesturbænum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

elsku elsku!!  

Gyða 13.2.2009 kl. 12:24

2 identicon

Það er alveg ótrúlegt Díana mín hvað þú skrifar fallega. Það er sko ekki öllum gefið. Það kemur líka svo vel fram í því hvernig þú skrifar hvernig þér líður og líka hvaða mann þú hefur að geyma. Þú ert falleg að utan sem innan. Og Hrundin mín og Rakelin mín eru í góðum höndum hjá þér og þú hjá þeim. Mér þykir ósköp vænt um ykkur allar. She

Tengdó 14.2.2009 kl. 11:01

3 identicon

á ykkur báðar hérna fyrir ofan

dr 14.2.2009 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband