21.3.2009 | 10:23
Sítrónur og krydd
Eldhúsið ilmaði af kryddi og ólvíuolíu í gær. Ég var að elda kjúkling eins og mér er einni er lagið. Þegar ég kreisti sítrónu yfir hann áður en ég skellti honum í ofninn bar anganin með sér myndir af pabba. Þegar ég var lítil hjá pabba í Svíþjóð vaknaði ég yfirleitt við koss frá honum og nýþvegnar og blautar krullurnar hans í andltinu. Á meðan ég skottaðist um á náttkjólnum gerði pabbi armbeygjur og magaæfingar við dynjandi salsatónlist og greip mig gjarnan með í dans. Við fengum okkur heimabakaðar bollur með osti og tómat úti á svölum og plönuðum daginn.
Við hjóluðum yfirleitt eitthvað, ósjaldan með kaldan mat í nesti og sænska saft og mér fannst alltaf eins og engispretturnar tifuðu mér og sumrinu til heiðurs.
Mér fannst alltaf svo gott við pabba að hann var með brúna húð eins og ég og sama hrokkna hárið. Með honum skar ég mig aldrei úr.
Á kvöldin svamlaði ég í baðkarinu á meðan pabbi dansaði í eldhúsinu og söng og töfraði fram dýrindis mat. Sítónur og krydd var eitthvað sem var alltaf notað og er enn þá besta lykt sem ég veit.
Pabbi leyfði mér alltaf að smakka í eldhúsinu og kenndi mér að dást að matnum á hverju eldunarstigi hans. Sýndi mér hvernig ferskt og safríkt kjöt átti að líta út og lykta, kenndi mér nöfnin á kryddunum sem hann notaði og hvað krydd hentaði hvaða tegund af kjöti og svo elduðum við það af ástríðu og skoðuðum það reglulega til að sjá hvernig eldunin gengi hjá okkur. Við smökkuðum og bragðbættum og urðum svo þyrst að við kreistum sítrónur og appelsínur í könnu og drukkum til að slökkva þorstann.
Þegar maturinn var kominn á diskinn þótti mér vænt um hann. Við pabbi höfðum iðulega keypt inn saman. Hann hjólaði með mig aftan á bögglaberanum niður í bæ þar sem við gleymdum okkur á mörkuðum innan um hauga af grænmeti, kryddum og hnetum. Svo bárum við allt heim í bakpoka og ég fékk að raða öllu í skálar og skápa.
Eftir matinn var alltaf lítið uppvask því pabbi vaskaði upp að minnsta kosti þrisvar á með hann var að elda. Það geri ég líka núna þegar ég er orðin stór. Ég fékk svo uppáhalds eftirréttinn minn, banana í ofni með kanil, hunangi og púðursykri og ís með. Í í ferhyrndu pappaformi sem maður skar sneiðar af. Frystirinn var inni í forstofu og ég mátti alltaf ná í ísinn.
Við horfðum svo á bíómynd á meðan við lágum á meltunni. Lágum yfirleitt í hjónarúminu sem mamma og pabbi keyptu einu sinni. Snérum sjónvarpinu svo við gætum horft undir sæng. Pabbi hélt alltaf fyrir augun á mér ef í myndinni var kynlífssena eða eitthvað ofbeldi. Hendurnar á honum ilmuðu ávallt af sítrónum, kryddi og hvítlauk og ég fann beygluðu löngutöngina hvíla á nebbanum. Heimtaði svo söguna um það hvernig hann sem krakki braut puttann í Nicaragua og amma reyndi að rétta hann við. Ég reyndi alltaf að sjá pabba fyrir mér í landinu sem ég hafði aldrei komið til, með fjölskyldunni sem ég hafði aldrei hitt. Einhverjum 10-15 árum seinna sá ég einu myndina af pabba litlum sem ég hef séð. Á myndinni var hann um 3 ára og með bróður sínum Raúl sem er dáinn. Amma sýndi mér myndina.
Ég þekki hverfið hans pabba eins og handarbakið á mér. Þarna eyddi ég mínu fyrstu dögum, mínu fyrsta ári og einhverjum vikum á hverju sumri eftir það. Einum eða tveimur jólum líka og áramótum. Ég þekki áferðina á dúknum á gólfinu, lyktina í stigaganginum, skápinn inni á baði, kryddin í hillunum, sólbakaðar svalirnar, hart rúmið, myndirnar óteljandi af mér á veggjunum, vatnið í hálftíma fjarlægð, tungumálið, barnatímann, tónlistina hans pabba og pabba sjálfan.
Góðu stundirnar okkar pabba voru góóóóðar. Og í hvert einasta skipti sem ég elda verður mér hugsað til pabba. Og skiptisins þegar ég eldaði súpuna mína fyrir hann í fyrsta skipti.
Ég vildi að Rakel gæti hitt hann oftar. Vildi hún kynntist sænska sumrinu og kryddunum hans pabba. Fengi að vakna á morgnana og dansa. Þetta skipti sem við fórum allar þrjár til pabba líður mér seint úr minni.
Ég vona að við komumst fljótt aftur til hans.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 22.3.2009 kl. 08:36 | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ótrúlega fallega skrifað Díana mín og ég veit að svona minningar mun Rakel eiga um þig þegar hún er orðin stór. Þú ert gull af manni.
Tengdó 21.3.2009 kl. 10:29
sá faðir er ekki á flæðiskeri staddur sem á dóttur sem hugsar svona fallega til hans ...
mamma 21.3.2009 kl. 16:48
Fallegt...
Oddný 21.3.2009 kl. 20:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.