Andleg útrás

Já, engin önnur útrás í boði. Mér finnst ég bara vera að springa, það hefur verið mjög erfitt að blogga ekkert um óléttuna, sérstaklega þar sem hún hefur reynst mér mjög erfið og hvað þá ferlið á undan.

Þessi kraftaverkaungi var einu sinni lítill frostpinni, þ.e. frystur fósturvísir. Við fórum í 6 meðferðir á 10 mánuðum, fórum í þá fyrstu í apríl 2008 og síðustu í febrúar 2009. Eftir 3 tæknisæðingar fór ég í speglun og kom í ljós að ég var með legslímuflakk sem er sjúkdómur sem skerðir frjósemi. Það var brennt burt sem hægt var og svo fór ég í 4. tæknisæðinguna sem ekki tókst. Hver einasta tæknisæðing tók meira á en ég hefði nokkurn tíma getað ímyndað mér. Ég þurfti að örva eggbúin með lyfi og fara í ótal skoðanir, svo var það uppsetning og að lokum 2 vikna bið sem dró úr mér allan mátt í hvert einasta skipti. Vonbrigðin í hverri misheppnaðri meðferð voru gífurleg og ég grét úr mér augun í fanginu á Hrund. Ég get heldur ekki lýst þeirri tilfinningu fyrir ykkur að finnast maður gallaður, ónothæfur. Ég hafði alltaf óttast að átröskunin hefði skemmt eitthvað fyrir og sá ótti bergmálaði í hausnum á mér allt ferlið.

Við fórum í 4. tæknisæðinguna í fyrrahaust og vorum því næst settar á biðlista í glasameðferð. Tíminn í biðinni var yyyyyyyndislegur. Ég gat loksins andað aftur, við vorum með plan og ég var viss um að næsta meðferð myndi takast en á meðan gat ég notið lífsins. Ég mætti betur í skólann en ég hafði nokkurn tíma gert, ég tók félagslífið með trompi í skólanum, eignaðist nýja vini og sofnaði og vaknaði með bros á vör. Ég byrjaði svo að nota nefsprey til að bæla (þarf að stöðva allt kerfið til þess að geta stjórnað því svo aftur fyrir eggheimtu) 30. nóvember og það var vægast sagt erfitt. Ég fékk miklar svefntruflanir og svaf nokkra órólega tíma á nóttu. Fyrir utan það varð ég endalaust þreytt af lyfinu og sofnaði ítrekað þar sem ég sat og lærði fyrir próf. Þar sem jólin komu inn í hjá mér bældi ég í 4 vikur í stað þeirra 2-3 sem eðililegt er. Ég vonaðist til þess að hressast þegar ég byrjaði að örva, ein sprauta í mallann á hverjum morgni, en ég varð enn þá þreyttari og leið eins og ég byrjaði alla daga á því að taka svefntöflu en neyddist svo til að halda mér vakandi.

Ég hef aldrei örvast neitt sérstaklega vel, var lengi að örva fyrir tækni og fékk ekki svo mörg egg þegar kom að eggheimtu. Það er reyndar rosalega mismunandi hversu mörg egg nást hjá konum en oft eru að nást þetta 10-16 egg. Það náðust 8 egg hjá mér með helvíti sársaukafullri aðferð. Maður situr þarna glenntur og upp náð læknanna kominn, búinn að fá kæruleysistöflu og parkódín en samt titrandi af stressi. Fyrst er farið inn og deyft með sprautu sem var ekki svo slæmt. Svo er farið inn með aðra nál og stungið alla leið upp í eggjastokka til að ná í eggin. Augun ætluðu út úr höfðinu á mér þegar hann byrjaði hægra megin og ég grét og grét og kreisti höndina á Hrund. Ég fékk verkjalyf í æð sem mér fannst ekkert hafa að segja en sem betur fer tók þetta fljótt af og ég fann lítið til vinstra megin. Við fengum 8 egg og nú vara bara að bíða í nokkra daga til þess að fá að vita hvernig eggin frjóvguðust. Við höfðum frá upphafi notað sama gjafann, ungur, danskur háskólanemi með sama háralit og augnlit og Sprundin mín.

Þessir dagar eftir að fá að vita hvernig frjóvgunin gekk voru hell. Við spúsan vorum á nálum allan tímann því það er alveg til í dæminu að engin egg frjóvgist, fer eftir gæðum eggja. Ég er greinilega með eðalegg því 5 frjóvguðust en eitt stoppaði svo við fengum í lokin 4 fósturvísa og alla með fyrstu einkunn takk fyrir (vísarnir fá einkunn frá einum og upp í þrjá eftir því hversu góðir þeir eru). Það var fallegur vísir settur upp og við fengum bæði að sjá hann á sjónvarpsskjá og taka mynd af honum með okkur heim.

Ég man varla eftir biðtímanum, ég hreinlega datt út mér fannst þetta svo erfitt. Læknirinn var svo bjartsýnn og við líka og þess vegna leið næstum yfir mig þegar það byrjaði að blæða á 8. degi eftir uppsetningu, allt of snemma. Ég var óhuggandi og hrapaði niður í holu. Ég gat ekki hugsað mér annað en að fara beint í aðra meðferð og Sprundin leyfði mér að ráða ferðinni. Ég átti hins vegar erfitt með að takast á við þá hugsun hvað ég myndi gera ef sú meðferð tækist ekki. Ég var alveg búin á því og fór til geðlæknis sem vinnur sérstaklega með fólki með skerta frjósemi. Hann hjálpaði mér mikið, það var gott að tala við þriðja aðila. Aðeins tveimur vikum eftir misheppnuðu glasameðferðina fór ég í næstu uppsetningu. Það er komin ný, stutt meðferð þegar setja á upp frysta fósturvísA, það þarf aðeins að taka töflur í 2 vikur og svo er allt tilbúið. Einn fósturvísir kom skemmdur undan frostinu en næsti var svona líka fínn og því settur upp.

Ég gerði mér nákvæmlega engar vonir. Ég var stressuð út af skólanum þar sem ég átti erfitt með að sinna honum auk þess sem það má ekkert hreyfa sig eftir svona uppetningar og ég var föst heima. Ég var svo langt niðri og grét á næstum hverjum degi. Meira bullið. Ég þakkaði fyrir hvern dag sem ekki byrjaði að blæða en hugsaði aldrei svo langt að þetta hefði kannski tekist. Ég fékk mikla verki á 3. degi eftiruppsetningu sem er einmit festingardagur, frostpinninn hefur verið að koma sér fyrir, og svo aftur viku seinna og hélt þá að þetta væri búið. Þegar það voru aðeins tveir dagar í blóðprufu (til þess að athuga með þungun) tók ég próf vegna þess að ég vildi vita svarið fyrir blóðprufuna. Það voru 12 daga liðnir frá uppsetningu og hafði ekki getað hugsað mér að taka próf fyrr.

Þetta var fallegasta lína í heimi. Ég var varla búin að pissa á prikið þegar hún birtist og ég byrjaði hreinlega að nötra og snökta af geðshræringu. Þetta var eldsnemma um morgun og ég hentist inn til Hrundar hrópandi að það væri jákvætt. Þvílík gleði. Ég trúði þessu varla og geri það varla enn.

Ég þurfti að halda áfram á lyfjum, Hrund hafði frá því tveimur dögum fyrir uppsetningu sprautað mig í vöðva neðst á bakinu með progestroni þar sem maður framleiðir það ekki sjálfur í svona meðferðum. Greyið var hálfvolandi í fyrstu skiptin, nálarnar voru risavaxnar vöðvasprautunálar og allt annað en þægilegt að fá þetta í sig. Í rúmar 13 vikur þurfti Hrund að spauta mig á hverju einasta kvöldi eða þar til fylgjan var farin að framleiða hormónið sjálf. Ég var öll í kúlum út úr bakinu og svo stokkbólgin að mig verkjaði og í lokin þurfti Hrund oft að sprauta í bólgurnar þar sem allt svæðið var svo illa farið. Það er þvílíkur léttir að vera laus við þetta, tvær vikur frá síðustu sprautu. Ég var á hormónalyfjum krónískt frá 30. nóvember til 22. apríls, í næstum 5 mánuði og það var bara ógesslega erfitt.

Við eyddum öllum peningunum okkar í þessar meðferði, næstum hverri einustu krónu á sparireikningnum. Ég næstum missti geðheilsuna og það hrikti í stoðum sambandsins í öllu erfiðinu en þvílík laun alls þessa erfiðis. Ég þakka fyrir ungann á hverju einasta kvöldi fyrir svefninn, bið fyrir honum af öllu mínu hjarta. Það hefur blætt fjórum sinnum frá leginu, tvisvar á 7. viku og  tvisvar á 13. viku og í hvert skipti missi ég andann. Alltaf er í lagi með krílið og það er sprækt og hraust og enginn veit hvaðan blæðingin kemur. Sem betur fer er hún alltaf lítil og núna er bara að krossa putta og vona að það blæði ekkert meir svo það fari ekki að taka á krílus. Svona blæðingar eru víst nokkuð algengar og í flestum tilvikum gengur allt vel. Við tökum einn dag í einu og ég ætla að trúa því að allt muni ganga vel. JÁ, JÁ, JÁ.

Svo held ég að ég skrifi meira seinna. Þetta er nóg lesefni í bili fyrir ykkur. Framhald á morgun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: inam rakel yasin

holy babboly! aldrei hefði mig grunað að þetta væri svona svakalega mikið ferli!

inam rakel yasin, 7.5.2009 kl. 12:15

2 identicon

Gott uppgjör dúllan mín!! Þetta er og verður æði ;D

Kristín 7.5.2009 kl. 17:45

3 identicon

Elsku Díana mín. Þú ert hetja.

Tengdó 7.5.2009 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband