Gubb

Oh, ég er svo svekkt að vera enn þá svona flökurt alltaf. Mér var flökurt alveg frá 3. viku en svo hjaðnaði ógleðin smá, þó bara til að hellast yfrir mig á 6. viku. Oh my, ég vissi ekki að það væri hægt að vera svona flökurt. Ég hef samt aldrei ælt og er svo þakklát. Var búin að kvíða því svo mikið ef ég yrði alltaf ælandi þar sem það að æla eftir mat er tengt mjög slæmu tímabili í mínu lífi og ég átti mjög erfitt með að hætta því þegar á hólminn var komið. Ég var svo hrædd um að eitthvað rugl myndi fara af stað í hausnum á mér ef ég færi að æla lon og don. En nei, bara óglatt. Ég vaknaði á nóttunni til að pissa og ætlaði aldrei að geta sofnað aftur vegna ælunnar í hálsinum. Þegar ég vaknaði náði ég yfirleitt ekki á fætur og inn í eldhús að troða upp í mig þurru seríosi til að slá á ógleðina áður en ég byrjaði að kúgast með látum. Rakel hélt alltaf að ég væri að hnerra þegar ég byrjaði og sagði svo sætt 'Guð hjálpi þér mammí.' Takk sætust. Allur dagurinn fór í það að finna eitthvað sem ég gat hugsað mér að borða. Ég gat gleymt því að mæta í tíma klukkan átta á morgnana. Í fyrsta lagi gat ég ekki labbað rösklega án þess að byrja að kúgast og í strætó sat ég bara og kyngdi gubbunni. Svo stóð ég fyrir utan stofuna og svitnaði köldum svita og stóð varla í lappirnar. Jú, einu sinni ældi ég í fríminútunum. Ég fór bara heim og gafst upp á þessu.

Ég fann vonda lykt út um allt. Í margar vikur fann ég lauklykt af greyið Sprundinni og gat ekki verið nálægt henni. Ég fékk ógeð af handsápunni okkar og get ekki enn þá þvegið mér með handsápu með rósarlykt. Ég var oft gráti næst af vanlíðan þegar ég fór að sækja Rakel af því að mér fannst svo vond matarlykt í leikskólanum og Bónus var hell. Ég stóð bara í kælinum og kúgaðist og reyndi að æla ekki. Úff, ég byrja að svitna bara af því að lesa þetta.

Á þessu hræðilega tímabili fram að 12. viku blæddi svo tvisvar sem gerði það að verkum að ég þorði varla að hreyfa mig og var bara að taka því rólega heima. Ég neyddist til að leggja BA-ritgerðina til hliðar sökum skorts á heilastarfsemi og komst ekkert í tíma í skólanum. Sem betur fer er ég að klára og á því bara eitt námskeið eftir. Stressið út af skólanum, endalaus æla í hálsinum, ótti við að það færi að blæða og svo eeeeeeendalaus þreyta gerðu þetta tímabil bara að helvíti. Ég fékk algjöra ritstíflu og ætlað aldrei að geta klárað ritgerðina fyrir spænskunámskeiðið og svo var ég missa vitið á daginn þar sem það voru endalausar viðgerðir í götunni svo ég gat ALDREI lagt mig og ég náði að sofa kannski 3-4 tíma á nóttunni. Oj.

Þegar ég var búin með 12 vikurnar minnkaði ógleðin. Hún er samt ekki enn farin. Mér er ALLTAF óglatt, bara mismikið. Og alltaf með æði fyrir einhverju. Þegar ég var rosa slæm af ógleðinni varð ég alltaf að fá eitthvað sérstakt í kvöldmat af því að þá leið mér skást. Ég eldaði marga lítra af kjötsúpu, sendi Hrund út að kaupa lasagne á meðan hún og Rakel borðai það sem ég hafði eldað í kvöldmat og þar fram eftir götum. Fæst af þessu get ég borðað núna. Og ég eyðilagði alveg rjómaost fyrir mér með því að fá mér hann á pizzu og verða svona svakalega flökurt á eftir. Get varla skrifað rjómaostur.

Núna vara æðin lengur. Appelsína er góð. Ís með frosnum berjum eða niðursoðnum perum er æði. Gæti lifað á frostpinnum og krapi. Juicy Fruit tyggjó er best í heimi. Ég ét heilan pakka á 5 mín. Set upp í mig plötu (eða tvær) og tygg þar til bragðið er farið, hendi og fæ mér aðra. Stundum borða ég líka tvo. En ég kyngi aldrei. Undanfarnar vikur hef ég verið að drepast úr kaffilöngun. Ég hef ekkert koffín drukkið síðan tveimur vikum áður en ég fór í uppsetningu og ætla ekkert að byrja á því núna. Hrund fann koffínlaust kaffi í vélina okkar svo ég fór í gær og keypti og ætlaði að búa til ískaffi, við eigum svo góða ískaffiblöndu sem maður hellir út í kaffið, skellir klaka í og namm. Ég fór næstum að gráta þegar ég fattaði að það voru ekki til klakar. Hellti samt upp á kaffi og setti inn í ísskáp. Gat svo ekki beðið eftir því að kaffið yrði kalt svo ég setti duftið út hrærði og næstum þambaði. Var ekkert svo gott svona hálfvolgt. 

Núna er mér svo viðbjóðslega flökurt og dauðkvíði því að þurfa að taka strætó upp í skóla að hitta leiðbeinandi minn í BA- ritgerðinni. Ég var alveg að setja mig í skrifgírinn fyrir tveimur vikum en þá byrjaði að blæða og ég datt svolítið úr gír. Núna er ég aftur komin í gír og bið til guðs að það blæði ekki meir, annars ætla ég samt að reyna að halda mínu striki, þetta verður allt í lagi. Langar að reyna að ná að klára ritgerðina svo ég geti útskrifast núna en held að það sé lítil von um það. Er samt búin að skrifa næstum 6000 orð og ritgerðin þarf að vera 8000-10.000 orð. Er búin að biðja leiðbeinandann minn að vinsamlegast sleppa því að koma með of margar athugasemdir. Ég ætlaði svo innilega að skrifa ritgerð upp á 9 því ég veit að ég get það en ég gerði ekki ráð fyrir því að meðgangan yrði svona erfið og krílið gengur víst fyrir ritgerðinni. Er skíthrædd um að hann hakki í sig það sem ég er búin að skrifa. Hann var allavega með mikið af athugasemdum um innganginn og ég er búin að laga hann svo oft að ég er farin að hata hann (innganginn).

Já, þetta var vælupistill en ég hef ekki fengið að skrifa neinn þannig svo þið fáið hann bara allan í einu.

Annars gæti ég drepið fyrir kjúkling í sterkri, indverski sósu núna. Eldaði þannig um daginn og ég fékk næstum fullnægingu. Nýjasta æðið.

Svo er Sprundin ekki glöð með mig. Ég er nú heitfeng venjulega og galopna glugga hérna heima og við Rakel göngum um berfættar. Svo kemur Hrund heim og lokar gluggum og klæðir Rakel í sokka. Á kvöldin sit ég berfætt í náttkjól en Hrund í flísnáttbuxum, náttkjól, peysu og ullarsokkum. Hún er samt engin eðlileg kuldaskræfa, hef aldrei vitað annað eins. Hún var búin að viðra þær áhyggjur sínar áður en ég varð ólétt hvernig hitastigið í líkama mínum myndi breytast við óléttuna og hvað við ættum að gera ef það væri rok og ekki hægt að hafa opinn glugga inn í svefnherbergi þar sem gardínan skellist þá í með látum. Ég leysti það þannig að hafa alla aðra glugga í húsinu galopna og skrúfa niður í ofninum. Í nótt til dæmis lá ég og bölvaði hitanum í engu nema nærbuxum á meðan Hrund lá við hlið mér í náttbuxum, síðerma náttbol og ullarsokkum og það glömruðu í henni tennurnar. Sorrý Hrund. En eins og ég sagði við hana í nótt þá getur hún klætt sig í, ég get ekki klætt mig úr þegar ég er ekki í neinu.

Hvernig ætli þetta verði í sumar? Kannski eins og síðasta sumar þegar ég var í nálastungum til þess að örva blóðflæðið um líkamann og styrkja legið. Blóðið fór um líkamann af svo miklum krafti að ég var alltaf að kafna úr hita. Hékk við gluggann og strauk af mér svitann á meðan stelpurnar húktu á sínum stólum í peysum sökum kuldans. Oh my.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jahérna, hef ekki kíkt á bloggið þitt í smá tíma ...og það er aldeilis að maður missir af :)

Innilega til hamingju með krílið :)  Gaman að heyra að þetta hafi tekist eftir þrautagönguna.  Farðu vel með þig og ég hugsa til ykkar

kv. arna

Arna 8.5.2009 kl. 18:49

2 identicon

Mikið er ég fegin að þú ert farin að skrifa aftur. Það var ekki alveg að virka fyrir mig að lesa ekki bloggið þitt á hverjum degi. 

Ógleðin getur verið í einhvern tíma í viðbót og svo yfirleitt hverfur hún allt í einu. 

Og það er alveg undarlegt hvað þú er heitfeng miðað við suðræna blóðið þitt. Þetta ætti eiginlega að vera öfugt.

Nokkuð viss um að þú klárar þig á ritgerðinni. Og ég er ótrúlega spennt yfir væntanlegu barnabarni. 

Silla

Tengdó 8.5.2009 kl. 19:39

3 identicon

Arna: Takk. Já, það þýðir ekkert að slugsa það að lesa bloggið mitt. Alltaf eitthvað nýtt og spennandi.

Tengdó: Þetta er nefnilega mjög skrítið með hitann. Því þegar ég er á heimaslóðum úti í Mið-Ameríku þoli ég hann mjög vel. Þar er reyndar alltaf allt galopið og þá þrengir ekki svona mikið að mér. Ég fæ aldrei eins mikla innilokunarkennd og þegar allir gluggar eru lokaðir.

Ég er viss um að krílið er spennt fyrir ömmu sinni líka:)

dr 9.5.2009 kl. 09:28

4 identicon

Úff. Þetta er svakalegt!!! Voðalega ertu nú dugleg.

B.A.-ritgerð versnar ekkert þó að maður fresti því að skila. Það væri samt örugglega mjög gott fyrir þig að losna við hana og mér heyrist þú líka vera komin svo langt að þú ættir að geta klárað. En enginn er verri þótt hann fresti hehe.

Hlíf 9.5.2009 kl. 12:10

5 identicon

Illu er best slegið á frest! Þú stendur þig svakalega vel! Og vá hvað þú ert komin langt með þessa ritgerð, þetta fer bara alveg að klárast hjá þér :)

Gyða 10.5.2009 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband