Bústaður og fleira

Vorum á Malarrifi um helgina. Löng helgi hjá okkur þar sem við Sprundin tókum okkur frí í gær. Eins og alltaf var þetta ótrúlega ljúft. Krafturinn frá jöklinum skall á okkur um leið og við stigum út úr bílnum og sól skein í heiði mestan part helgarinnar. Rakel var svo heppin að fá að fara með mömmu og co. á hádegi á föstudegi og var að sjálfsögðu úti frá því að hún mætti á svæðið og þangað til hún var neydd heim. Hafði hvorki tíma til að pissa né borða eins og venjulega og fór í göngur með öllum úr fjölskyldunni (við vorum þarna 10), algjörlega óþreytandi.

Ég neyddist hins vegar til að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég er að verða nokkuð ólétt. Ég átti mjög erfitt með að fara seint að sofa með liðinu og vakna svo með Rakel án þess að leggja mig á daginn og það er hægara sagt en gert að leggja sig með fullt hús af fólki. Varð mjög skapstygg á tímabili og grét af þreytu í fanginu á Hrund á einum tímapunkti, alveg búin á því. Svona gerir kúlusúkkið mann dramatískan, þið verðið bara að afsaka þetta.

En sumst. Dvölin var í alla staði vel heppnuð.

Annars gleymdi ég að segja ykkur að við stelpurnar mínar settum niður kartöflur í síðustu viku. Það var hörkupúl því fyrst þurfti að stinga upp allt illgresið og hreinsa beðið. Kúlan þvældist fyrir mér og bakið kvartaði en þetta var fjör. Hjálpuðumst allar að og borðuðum svo pizzu og kex í kvöldsólinni í garðinum.

'Þetta er ER strákur' sagði Rakel og hvessti á mig augun í pottinum hjá tengdó um daginn. Ég spurði hana hvort kynið hún héldi að við myndum  fá, var bara að athuga hvort hún hefði skipt um skoðun. Við mæður reyndum svo að sannfæra hana um að bæði kynin væru skemmtileg. Bentum henni líka á að mömmur fengju ekki að ráða kyninu. 'Nei, bara stóru systur', sagði þá gormurinn og synti í burtu. Útrætt mál.

Ég er allt í einu orðin spennt fyrir barninu og er að gera Hrund vitlausa með plönum. Hún þolir ekki plön. 'Við skulum tala um þetta þegar þú ert að undirbúa þig undir að fara að eiga' sagði hún í gær og gerði mig öskuvonda. Ég lofaði að hætta að tala endalaust í hringi en herberginu okkar vil ég breyta upp úr svona 34 viku ef allt er á góðu róli og hafa allt tilbúið ekki löngu seinna. Ætla þangað til að dúlla mér sjálf við undirbúning, er búin að gera tossalista yfir það sem við þurfum að eiga. Eitthvað þarf að kaupa en flest eigum við eða getum fengið lánað.

Svo er barnið farið að sparka á fullu. Finn spörk öðru hvoru allan daginn og alltaf sterkari og sterkari hreyfingar. Hrund er líka farin að finna en ég hef sjálf ekki fundið utan á enn þá. Þetta kemur allt :)

Útskrift á laugardaginn. Maður er orðinn fullorðinn. 

Ætlum í Kringluna á eftir að athuga með nærföt á stækkandi Rakel. Ætlum líka að kaupa einhver agnarlítil barnaföt á kúlusúkkið. Ég get ekki beðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband