Nýjustu fréttir

Hitti ljósmóðurina mína í dag. Blóðþrýstingur fínn og legbotn eins og hann á að vera. Krílið á trilljón eins og það hefur verið undanfarið og sparkaði fast á móti dopplernum þegar ljósan var að hlusta hjartsláttinn. Fékk fleiri töflur til að reyna að halda samdráttunum eitthvað niðri og svo er það bara áframhaldandi hvíld. Er ótrúlega svekkt yfir því að við komumst ekki í útilegu en svona er þetta bara. Stelpurnar verða bara að vera duglegar að dúlla sér og ég get nú farið með þeim í heimsóknir og svona og legið fyrir þar bara. Ljósan sagði að ef þetta versnar ekkert ætti mér alveg að vera óhætt að fara á Malarrif 17. júlí og það var nú gott að heyra. Vonandi lagast þetta svo bara svo við getum farið í útilegu síðustu vikuna í sumarfríinu, við sjáum til. Mestu skiptir að krílið haldist inni í bumbunni í margar vikur í viðbót.

Annars fann mamma spark í fyrsta skipti í gær :)

Farin að taka því rólega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vertu dugleg að taka því rólega (get ímyndað mér að það sé ekki svo auðvelt fyrir þig;)). Gott að allt lítur vel út þrátt fyrir samdrættina. Ég er viss um að barnið fer ekkert að æða í heiminn strax.

Annars er hundfúlt að þú þurfir að taka því rólega. Við Kristín erum hálfeinmana hérna án ykkar Gyðu.:)

Hlíf 9.7.2009 kl. 15:19

2 identicon

Nei, mér finnst ekki beint auðvelt að taka því rólega. Hef líka þurft að gera það megnið af þessari meðgöngu. Í hvert skipti sem blæddi þurfti ég að taka því rólega í x langan tíma og mér finnst ég því nýkomin á gott ról, orkan á fullu blasti og hreiðurgerðin farin að segja til sín. Svo margt sem mig langar að stússast. Eða fara í útilegu. Finnst enn þá erfiðara að eyða fríinu í að hanga inni svo vonandi fer þetta að minnka sem fyrst svo ég geti notið tímans með stelpunum mínum.

Sakna ykkar. Sakna 'úsýnisins' úr glugganum mínum hjá tölvunni. Sakna hámumats. Sakna blaðurs.

dr 9.7.2009 kl. 16:46

3 identicon

Gott að heyra að ekkert er að gerast. En trúlega aldrei of oft kveðin sú vísa að taka því rólega og njóta meðgöngunnar. Og ein útilega til eða frá þetta sumarið skiptir nú litlu máli þegar lífið sem vex með þér er annars vegar. Það kemur sumar eftir þetta sumar. Luv ya. Silla.

Hér koma nokkrar spurningar og svör á doktor.is o.fl. -

doktor.is

Ég er komin á 21. viku í annarri meðgöngu og hef verið að fá mikla samdrætti í legið af og til. Legið verður allt grjóthart og stundum hefur þetta varað í 3-4 klst. þrátt fyrir hvíld. Ég fæ enga verki með þessu en finnst þetta frekar óþægilegt og gerir mig svolítið stressaða. Í fyrri meðgöngu man ég eftir samdráttum en ekki svona snemma. Gera þessir samdrættir eitthvað, t.d. geta þeir verið upphaf fæðingar og hvað get ég merkt að svo sé þannig að ég geti leitað til fæðingadeildar í tíma? Ef þetta heldur áfram að koma þarf ég að hætta að vinna?

Bestu kveðjur.

  • Svar:

Sæl.
Það er leginu eðlilegt að dragast saman mörgum sinnum á dag alla meðgönguna. Yfirleitt finna konur lítið fyrir þessu en verða helst varar við þetta ef þær hreyfa sig snöggt eða er mál að pissa. Ef þessu fylgja engin óþægindi skaltu ekki vera að hafa áhyggjur. Ástæða þess að þú finnur meira fyrir þessu núna en í fyrri meðgöngu gæti verið að þú sért einfaldlega næmari á legið en síðast. Eins geta svona samdrættir tengst kalkskorti og jafnvel því að þú sért að reyna of mikið á þig. Stundum koma ótímabærir samdrættir í legið vegna leggangasýkingar eða blöðrubólgu. Ef þú hefur mikla útferð eða óþægindi við þvaglát þarftu að láta lækni líta á þig. Sama gildir ef þér finnst samdrættirnir fara vaxandi og þeim fylgja túrverkir. Í öllu falli er betra að láta skoða sig en að velkjast um í óöryggi. Ræddu við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni og sjáðu hvort hún leysir ekki úr þessu hjá þér.

Gangi þér vel.
Dagný Zoega, ljósmóðir 

 af ljosmodir.is

Fyrirvaraverkir - komin 21 viku

Er eðlilegt að fá frekar sterka fyrirvaraverki fyrir 20 vikur. Er komin 21 viku núna með annað barn og fæ svona verki 2-6 sinnum á sólahring. Kúlan harðnar og ég fæ verki yfir magann og í bakið. Alveg eins og þegar ég fékk hríðar þegar ég átti fyrir 7 árum. Þetta stendur yfir í 1-2 mínútur í einu og er mjög óþægilegt. Mig langaði bara að athuga hvort þetta væri eðlilegt. Sá hérna í einu svarinu að það sé eðlilegt að fá samdrætti en skildist að það væri ekki eðlilegt að fá þá með verkjum.

Takk annars fyrir frábæran vef

Sæl og blessuð!

Samdrættir án verkja (kúlan verður hörð án þess að verkir fylgi) eru eðlilegir á meðgöngu en þeir ættu ekki að vera fleiri en fjórir á klukkutíma. Tíðir verkjalausir samdrættir geta verið undanfari fæðingar og þess vegna ber að taka það alvarlega þegar meðgöngulengd er ekki orðin fullar 37 vikur. Algengt er að konur finni fyrir samdráttum allt frá 20. viku en sumar konur finna þó lítið sem ekkert fyrir þessum samdráttum. Samdrættir aukast yfirleitt eftir því sem líður á meðgönguna og flestar konur finna fyrir samdráttum á síðustu vikum meðgöngunnar. Of tíðir samdrættir geta verið skilaboð frá líkamanum um að konan eigi að hvíla sig og stundum er þörf á að drekka meiri vökva. Öllu jöfnu er ekki eðlilegt að finna fyrir verkjum samfara samdráttum svona snemma á meðgöngu. Þú ættir að taka því mjög rólega núna og sjá hvernig líkaminn bregst við. Ef þú finnur fyrir fleiri en 4 samdráttum á klukkutíma, verkjum með samdráttunum, þrýsting niður í grind, „túrverkjum“ eða ef blóðugt slím kemur niður skaltu hafa samband við ljósmóður eða lækni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. maí 2008.

af heilsugæsla.is

Leg og legbönd

Strax eftir getnað er legið tilbúið til þess að vernda og næra hið nýja líf. Slímhúðin í leginu þykknar og verður blóðríkari. Það stækkar hratt og býr sig undir ört stækkandi fóstur. Það eru vægir staðbundnir samdrættir í leginu nær alla meðgönguna. Þeir eru vart greinanlegir í upphafi meðgöngu, en ágerast þegar líður á meðgönguna. Þessir samdrættir eru verkjalausir og óreglulegir.

Það er algengt að konur finni fyrir einhverjum óþægindum svo sem vægum samdráttum í leginu, stingjum og/eða togverk í nárastað, einkum á síðari hluta meðgöngunnar. Þær konur sem hafa áður gengið með barn geta átt von á að finna meira fyrir samdráttum.

Samdrættir í legi eru saklausir svo lengi sem þeir eru ekki sárir eða reglulegir og það er eðlilegt að finna þá af og til yfir daginn, tíu til fimmtán samdrætti á dag og allt að fjóra á klukkustund. 

Togverkir í nára stafa af því að legböndin eru að lengjast, þau fjórfalda lengd sína á meðgöngunni. (Rauða örin bendir á legband).

Togverkir geta komið við lítið álag eins og  það að stíga fram úr rúmi eða standa upp úr stól. Langar göngur og kyrrstöður geta einnig aukið á togverki. Þrátt fyrir að togverkir geti verið mjög sárir eru þeir algerlega skaðlausir. 

Samdrættir í legi sem koma með verkjum  á 5-10 mín. fresti og hafa staðið yfir í 1-2 klst. geta leitt til breytinga á leghálsinum og jafnvel komið fæðingu af stað.

Sára, reglulega samdrætti sem koma fyrir 37 vikna meðgöngu ber alltaf að taka alvarlega vegna hættu á fyrirburafæðingu.

Tengdó 9.7.2009 kl. 20:19

4 identicon

Takk tengdó, ég var einmitt búin að lesa þetta. Kannski Sprundin ætti að lesa þetta, henni finnst ég gera allt of mikið úr þessu held ég þegar ég reyni bara að hlýða því sem mér er sagt. Geri mér grein fyrir að það er eðlilegt að finna fyrir samdráttum en þeir eiga ekki að vera 6 á klukkustund í marga daga. Ég er búin að passa vökvann og álagið en það hefur ekki mikið að segja, samdrættirnir fara ekki en töflurnar slá svo sannarlega á þá. Annars reyni ég að velta mér ekki of mikið upp úr þessu, þá verð ég svo stressuð. Veit að það er  nokkuð algengt að konur fái svona marga, óútskýrða samdrætti en það ber að taka þá alvarlega og hvíla sig, sérstaklega ef það er verkir með. Svo ég geri það.

dr 10.7.2009 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband