Brjóstsviði ...

... er mér eiginlega efst í huga þessa dagana. Hann hefur farið frá því að vera heldur böggandi en viðráðanlegur í það að vera algjör viðbjóður. Fæ liggur við brjóstsviða ef ég fæ mér vatnssopa og í hvert einasta skipti sem ég borða eða leggst niður og á það til að vakna á næturnar með tárin í augunum af sársauka. Húsráð eins og sódavatn og mjólk virka ekki skít á priki og það eina sem hjálpar eitthvað eru sérstakar töflur úr apótekinu.

 Er líka að ganga inn í eitthvað svefntímabil og er að verða eins og fyrstu vikurnar á meðgöngunni í sambandi við það. Pissa líka jafn oft á nóttunni og þá og er svo að farast úr þreytu allan daginn, verð helst að geta sofið út eða lagt mig. Og svo verð ég að kvarta meira yfir bjúgnum. Líður stundum eins og skinnið ætli að springa utan af því sem eitt sinni voru fætur mínir en líta núna út eins og húðlitaðar gasblöðrur af stærstu gerð. Tærnar á stærð við bjúgu. Ökklar horfnir. Og óþægindin við að standa í lappirnar eftir því.

En ég fíla kúluna mína og spörkin í barninu mínu og lífið í tætlur. Af öllum þeim sem eru á bumbuspjallinu (og þær eru margar) eru kannski tvær sem kenna sér næstum einskins mein, hinar eru misundirlagðar af óléttunni enda farið að síga á seinni hlutann. Mér finnst verst að vera farin að finna fyrir ógleðinni aftur, hún má fara fjandans til. En ég er bara hreeeeess.

Annars gæti ég líklega lifað á fiskibollum í dós með tómatsósu (uppbakaðri, uppáhaldsrétturinn minn þegar ég var peð), íslenskum kartöflum og súkkulaðiköku í eftirrétt. Stend mig að því að hamstra kex og dreyma kökur. Ískalt vatn með helling af sítrónu kemur líka mjög sterkt inn og íííííís. Helst sjeik. Er í fyrsta skipti á ævinni í einhverjum bökunargír og hef bakað oftar síðastliðnar tvær, þrjár vikur en síðastliðin tvö, þrjú ár. Elda líka eins og herforingi. Hef nú alltaf gaman af því að elda en núna er þörfin enn meiri en venjulega. Held að hreiðurgerðin brjótist svona út, auðvitað ekkert hægt að gera heima fyrir framkvæmdum.

Sem annars mjakast. Framkvæmdirnar það er. Og þetta verður svo hrikalega flott. Æði. Algjört slot. Á eftir að eiga heima í þessu eldhúsi. Og þegar þessu stússi er lokið er komið að því að fara að undirbúa betur komu nýjasta fjölskyldumeðlimsins. Allt að gerast.

Annars kvíðum við mamma fráhvarfseinkennunum sem við eigum eftir að fá þegar ég get aftur verið heima hjá mér. Er búin að vera hérna nær alla daga í rúmar tvær vikur, með og án Rakelar. Er núna ein þar sem skotta er hjá pabba sínum. Erum samt farnar að sofa allar heima á næturnar og það er yndislegt. Sofum ekkert almennilega annars.

Sprundin mín er algjör hetja. Vinnur alla daga og brunar svo heim og heldur áfram. Ég reyni að skipa henni að borða og dreg hana í rúmið á kvöldið svo hún hvíli sig. Við mamma mætum svo annað slagið og tökum pínu til, ég set í vél og mamma sópar. Komum yfirleitt færandi hendi og reynum að troða einhverju öðru í liðið en kökum og kóki. Förum með drasl á Sorpu.

Og inn á milli vinn ég og dúlla mér með mömmu, rauðhaus og systkinum.

Er búin að plana dekur fyrir Sprundina mína þegar eldhúsið er komið í horf. Hún þarf að safna kröftum í parketlagningu og svona. Besta kona í heimi.

Pastasalat og sænsk sakamálamynd á dagskrá í kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Oj, brjóstsviði. Fæ oft brjóstsviða í þynnku, en þá virkar Rennie vel á mig:) En það er pottþétt mun vægari einkenni:)

Gaman með eldhúsið. Dugleg hún Hrund.

Hlíf 17.8.2009 kl. 16:09

2 identicon

Já, Rennie er alveg að bjarga lífi mínu þessa dagana. Borða þetta eins og nammi og ég myndi aldrei geta sofið án þess að hafa þær til taks á náttborðinu.

En já, Sprundin er ótrúlega dugleg. Er að springa úr stolti.

Vona að þið Einsi séuð að koma ykkur fyrir á fullu. Hlakk til að sjá herlegheitin.

dr 17.8.2009 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband