Uppskeruhátíð

Við héldum smá uppskeruhátíð heima í gær. Ég og Rakelin bökuðum kanilsnúða í tilefni dagsins og þegar Hrund kom heim fóru þær mægður út og tóku upp kartöflurnar okkar. Uppskeran var ekkert rosaleg enda settum við ekkert það mikið niður en þetta er bara akkúrat mátulegt fyrir okkur. Ég eldaði lambafillé með pótötlunum og kryddaði með helling af hvítlauk og auðvitað heimaræktuðu rósmaríni. Namminamm!

Svo er rauðhaus að byrja að æfa fótbolta á laugardaginn og ætlum við í leiðangur á eftir að reyna að finna einhverja íþróttaskó og stuttbuxur. Spennan er í hámarki og það eina sem vantar að Rakelar mati er að Arnór Ingi, besti vinurinn, byrji að æfa líka. Hún er einmitt heima hjá honum núna í góðu yfirlæti vænti ég og líklega að reyna að selja vininum hugmyndina um fótboltann.

Fór í 36 vikna vaxtarsónar áðan og krílið hefur aðeins bætt á sig, er ekki lengur undir meðaltali heldur akkúrat á línunni. Sáum bollukinnar og hendur og lítinn mallakút sem reis og hneig en ljósan sagði það hraustleikamerki, barnið væri að gera öndunaræfingar. Sprundin kom með og við ljómuðum báðar þegar við sáum að krílið var búið að snúa sér og komið á haus!!! Nú er bara að vona að það skorði sig sem fyrst og haldi kyrru fyrir. Mig var farið að gruna að það væri búið að snúa sér þar sem það gekk svo mikið á um helgina. Hendur og fætur stungust út í bumbuna og voru fyrirvaraverkirnir nokkuð sárir. Vaknaði aðfaranótt sunnudags að farast í lífbeininu og þurfti að vagga mér í mjöðmunum og labba aðeins um gólf meðan það versta gekk yfir. Duglegi unginn minn örugglega að koma sér fyrir.

Er á fullu að þvo barnaföt og bleiur og rúmföt og svo kemur mamma á morgun og við ætlum að strauja. Við Sprundin keyptum um helgina sæng handa krílinu, lök og bala með skiptborði sem hægt er að festa á baðkarið og þá er bara allt að verða komið.

Er að verða pínu spennt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá! Er ekki bara allt tilbúið? Frábært maður! Gleðilega straujun á morgun :)

Gyða 29.9.2009 kl. 20:17

2 identicon

kvittkvitt - kíki reglulega Díana mín til að athuga hvernig gengur. gott að krílið sé búið að skorða sig, muna svo bara að taka því rólega á endasprettinum!

hafið það sem allra allra best fallega fjölskylda!

xxx nmr

nína 2.10.2009 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband