35

35 dagar. Jæks. Hugsaði ég þar sem ég sat á brotna skrifborðsstólnum okkar og naut þess (ekki) að finna hvernig allt vatn í líkamanum stefndi niður í fætur til að búa til Shrektær. Var á bumbuspjallinu mínu á netinu og varð litið á teljarann minn sem hefur svo skemmtilega sýnt hvernig barnið stækkar, komið með háðskar athugasemdir og talið niður fyrir mig dagana fram að fæðingu.

35 dagar fram að settum degi. Allt í einu rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds. Sjitt, hvað það er stutt í þetta.

'Varstu fyrst að fatta það þarna' spurði Hrund hneiksluð þegar ég deildi þessu með henni um kvöldið.

Uuuuuu. Já. Gerði mér nú alveg grein fyrir því að það væri farið að styttast í þetta en fattaði ekki að það væri svon stutt. Og krílið gæti alveg komið fyrr (og seinna auðvitað en ég reyni að hugsa sem minnst um það). Hrund er voða stressuð. Segist ekki meika það ef ég þarf að fara í keisara, meikar ekki að horfa á mig kveljast í fæðingu, meikar ekki hitt og þetta. Greyið. Ég er viss um að þegar á reynir á hún eftir að vera kletturinn minn en hún er skíthrædd um að standa sig ekki.

Er svo fegin að vera búin að undirbúa svona mikið því enn er eitthvað eftir að gera. Neyddi Hrund til að opna fyrir mig háaloftið í gær.

'Af hverju viltu fara þarna upp' vildi hún vita ströng á svip.

'Ég ætla bara aðeins að kíkja' sagði ég og flúði augnaráðið sem hún gaf mér.

Þetta var skammarugnarráðið hennar sem hún notar þegar ég reyni of mikið á mig og er að drepast á eftir. Þá þarf ég stundum að taka fyrir augun þegar hún spyr grimmt: 'Hvað varstu að gera Díana? Kallaru þetta að slaka á?'

'Það er ekkert hægt að kíkja, það er svo mikið drasl. Að hverju ætlarðu að leita' vildi hún vita.

'Taubleiunum sem hafa gufað upp og þú hefur ekki getað fundið og gallanum til að taka barnið heim í'.

Hún lét sig ekki og neitaði að opna. Ég lét mig ekki og neitaði að hætta að þrjóskast við. Spúsan gafst upp og opnaði.

Ég brölti upp. Ó, hvað ég brölti upp og um og niður og blés eins og hvalur og stundi. En ég fann bleiurnar!!! Djöfulsins snillingur er ég. Og gallann. Náði líka í ungbarnastykkið af bílstólnum sem ég ætlaði að þvo og teppið sem Rakel fór með heim af spítalanum. Núna er allt komið inn á bað og í næstu viku byrja ég að þvo allt. Er búin að kaupa besta þvottaefnið fyrir taubleiurnar (ligg á taubleiuspjalli og sanka að mér góðum ráðum) og öll krílafötin bíða bara eftir að verða þvegin og strokin. Mamma ætlar að koma á fimmtudaginn næsta og strauja hreina þvottinn (ég ekki straubretti eða neitt og er engan veginn eins spennt fyrir því að strauja og mamma) og þá er bara allt að verða tilbúið. Vantar bala fyrir bleiur og barn og sæng en annars er þetta bara komið held ég. Eftir tvær vikur fer ég svo að setja í spítalatöskuna og svona. Oh, þetta er svo spennandi.

Fór til fæðingarlæknis í gær og var ákveðið að taka mig af samdráttarlyfjunum og setja mig á háþrýstilyf sem hafa reynst vel á meðgöngu. Bara svo að þrýstingurinn hækki ekki. Komst að því að ástæðan fyrir því að kúlusúkk situr er líklega að ég er með svolítið hjartalaga leg. Um leið og læknirinn fór að tala um það sem mögulega ástæðu mundi ég að í fyrstu skoðun í tækniferlinu var mér sagt að þannig væri einmitt legið í mér. Ekki mikið og ekkert til að hafa áhyggjur af en eins og fallegt hjarta í laginu. Barninu finnst því betra að vera svona á hlið. Það er allavega enn með rassinn hátt yfir grindinn og ekki skorðað svo það gæti alveg snúið sér. Ég er eiginlega hætt að vera stressuð. Svona nokkurn veginn.

Vorum á foreldrafundi áðan og komumst að því að Rakel segir okkur eiginlega ekki neitt sem er í gangi í leikskólanum. Flott starf í gangi en ekkert sem henni finnst ástæða til þess að deila með okkur. Hún finnur voða litla þörf hjá sér til þess að tala um daginn í leikskólanum og vill bara heyra sögur úr vinnunni hjá Hrund. Ef maður spyr hvað hafi verið í hádegismat kemur fjarrænt blik í augun, löng þögn og svo segir hún bara eitthvað. Aldrei það sem var í matinn.

Allavega lýst okkur vel á komandi vetrarstarf þennan síðasta vetur sem stelpan okkar er í leikskóla. Trúi því ekki varla að að ári liðnu verði ég með eina skólastelpu og einn tæplega eins árs kút.

Magnað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl elskan, gott er að heyra að Hrund er að taka þig á beinið. Mjög stolt veit að það er ekki létt fyrir hana.

Svo stutt þangað til barnið kemur ótrúlegt, hled að þú sért sett viku eftir Sólveig Eddu frænku systur Ingu Láru.

Bý með Hrefnu vinkonu núna og kærustunni hennar, erum að leita okkur að stærri íbúð. Og er byrjuð í húkrun, haha..

Annars er ekkert að frétta héðan

knus Hildur

Hildur Hákonardóttir 26.9.2009 kl. 10:07

2 identicon

:, ) 35 dagar!?! Ertu viss?? Úff... ég veit að þér finnst það ekki... en VÁ hvað þetta er búið að líða hraaaatt!! Hetjan þú að finna dótið uppi á lofti en nú skaltu fara að hlýða Hrund og hætta að reyna á þig!!!

Rakel fyndna bullukolla... Nennir ekkert að muna ómerkilega hluti eins og hvað er í matinn :) 

 Alltaf svo gaman að lesa bloggið þitt... :)

Gyða 26.9.2009 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband