Nokkrar mínútur

Já, mér líður eiginlega eins og það séu nokkrar mínútur í deginum enda verður mér ekkert úr honum. Eða það er ekki satt. Ég gef barninu mínu brjóst og skipti á því og knúsa það og við reynum stundum að leggja okkur. Ég set yfirleitt í vél og reyni að borða með barnið á handleggnum. Stundum næ ég að vaska upp. Svo eyði ég miklum tíma í að stressa mig út af jólaundirbúningi og lokaverkefni sem ég hef engan tíma til að sinna. Röskvu finnst algjör óþarfi að ég geri nokkuð annað en spjalla við hana á daginn. Hún vill alltaf vera vakandi þegar ég borða og helst vera með læti og hún móðgast mjög ef ég set hana sofandi í vögguna og vaknar med det samme. Hún dormar stundum í ömmustólnum sínum en passar að ég gleymi ekki að rugga honum. Amma hennar var að fara að skutla Rakel í afmæli og dúllan svaf á meðan hún var hér. Sofnaði í fanginu á henni og svaf svo í 45 mín. alsæl í vöggunni. Um leið og amman lokaði hurðinni á eftir sér og ég settist niður við tölvuna vaknaði hún og nú vill hún í mitt fang og engar refjar. Ég er hins vegar ekkert mjög góð í að skrifa með einari (eða með annarri hendi eins og sumir segja) og þess vegna hef ég ekki bloggað lengi né skrifað staf í lokaverkefni.

Ég væri ekkert að basla með að vera í skólanum ef ég þyrfti þess ekki vegna námslánanna, ég verð að fá lán fyrir þess önn, annars yrði ég að selja mig eftir áramót til að eiga fyrir salti í grautinn. Ég var að hugsa um að taka eitt fag eftir áramót en ég er jafn vel á því að sleppa því bara, mig langar bara að njóta Röskvunnar minnar og þurfa ekki að vera með eilíft samviskubit og áhyggjur.

Annars erum við búnar að skreyta, kaupa í tvær smákökusortir og ólívubollur sem og slatta af jólagjöfum svo ég þarf ekkert að vera stressuð. En svona er ég bara. Venjulega er ég samt í prófum þangað til korteri fyrir jól svo ég ætti að hafa meiri tíma. En ég bara hef það ekki. Röskva tekur hann allan eins og hún á að gera.

Náði loksins að breyta Barnalandssíðunni hennar Rakelar í systrasíðu. Sleppti því að borða og fara í sturtu á meðan barnið svaf í ömmustólnum og gat þá gert síðuna. ALLAN tíma þurfti ég að rugga unganum. Ef ég stoppaði vældi hún. Náði svo bara að klára af því að mamma og co. komu í heimsókn og gátu tekið ungann í fangið. En slóðin er sem sagt: rakelogroskva.barnaland.is og lykilorðið það sama og áður. Ef einhvern vantar það er bara að senda mér póst á drr1@hi.is og grenja það út. Settin inn albúm merkt Röskvu þar sem við eigum svoooo mikið af myndum af henni sem ég vil deila með ykkur. Í framtíðinni verða albúmin sameiginleg.

Annars erum við bara búnar að hafa það rosa gott. Er alltaf á leið út að ganga með Röskvu í vagninum. Ætluðum síðustu helgi en þá var hún svo hrikalega kvefuð (og er reyndar enn). Sprundin er á leiðinni í hnéaðgerð á morgun eftir að hafa verið draghölt í mánuði og ekki hlýtt konunni sem skipaði henni til læknis (ég reyndar pantaði tímann hjá bæklunarlækninum og hún druslaði sér en þá var það of seint fyrir greyið, það þarf að skera) svo ekki erum við á leið í göngu um næstu helgi. Þarf eiginlega að hafa hana með til að æfa mig svo ég geti svo seinna farið ein. Svo finnst mér líka erfið tilhugsun að fara með hana út í kuldann, er algjör ungamamma en það verður bara að hafa það. Það fer að koma að þessu öllu.

Rakelin er yndisleg eins og alltaf. Hef grun um að þær systur verði svolítið ólíkar. Rakel hefur alltaf verið svo sjálfstæð og lítil mömmustelpa, það er helst í seinni tíð sem hún er mikið fyrir knús og svona. Röskva er hins vegar aaaalgjör mömmustelpa og þá sérstaklega mammíarstelpa. Hún er auðvitað bara glæný enn þá en ég held að þetta sé það sem koma skal. Og allt í lagi með það. Stelpurnar mínar eru báðar fullkomnar.

Kemst ekki yfir það hvað Rakel er dugleg. Vaknar um helgar og tekur allt til sjálf fyrir morgunmatinn, skammtar sér sjálf og borðar og gengur frá. Hún er ómetanleg hjálp þegar ég er ein með báðar dótlurnar, nær í bleiur og snuð og huggar litlusystur og bara gerir allt sem ég bið hana um. Held að hún geri sér ekki grein fyrir því hvað ég er stolt af henni þótt ég reyni að segja henni það.

Sem sagt. Við lifum í lukku en ekki í krukku. Eigum fallegasta og yndislegasta stelpuheimilið í bænum. Vonandi get ég bloggað fljótlega en núna orgar unginn á athygli. Kíkið endilega á myndirnar.

Yfir og út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

:)

Gyða 2.12.2009 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband