Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Upprennandi skáld

Þá er helgin komin og farin. Letin sem hefur plagað mig er því miður ekki á undanhaldi. Og álagið eykst í skólanum. Afköst mín eru ekki í samræmi við það.

Annars góð helgi. Eitt af því sniðuga sem konan mín gaf mér í jólagjöf voru dekurmiðar. Með því að nota þá get ég t.d. fengið að sofa út um mömmuhelgi, farið í keilu mér að kostnaðarlausu eða fengið spólu og nammi, einnig notið allsherjar nudds frá konunni og so videre. Ég notaði einn miðann um helgina þar sem ég fékk að vera drottning dagsins og ráða þar með öllum athöfnum okkar í einn dag. Við vöknuðum og fengum okkur kaffi, skelltum okkur í ræktina og fengum okkur skyrdrykk á eftir, fórum í Ikea að versla eldhúsborð og stóla (eldhúsið er eins og nýtt) og kíktum svo í Egg í von um að geta eytt enn meiri pening. Því næst var haldið á skartgripakynningu þar sem Hrundin splæsti á mig hálsfesti og eyrnalokkum og síðan fórum við í boði mömmu á Pizza Hut og nutum þar einnig félagsskapar Einsa bró. Systa var að sjálfsögðu á fullu í því félagslífi sem fylgir menntaskóla og því fjarri góðu gamni.

Í gær kom svo snúllan heim frá pabba sínum og ég sagði henni spennt að koma inn í eldhús og sjá nýja dótið sem við höfðum keypt í fjarveru hennar. Hún tölti á eftir mér inn í eldhús og svipaðist um. Sá ekkert nýtt og spennandi nema batterí sem lágu á eldhúsborðinu og lyfti þeim sigri hrósandi upp. Nei, sagði ég og dró út einn eldhússtólinn, sérðu ekki nýju stólana og borðið. Hún leit á mig, lyfti einni augabrún (get svo svarið það að hæðni var í augnatillitinu sem hún gaf mér), ýtti stólnum aftur undir borðið og sagði: 'Nei, nei, ég vil sjá eitthvað annað nýtt'. Allt annað en upprifin yfir endurnýjuðum húsgögnum. Ég brá þá á það ráð að sýja henni nýja bangsakökuformið sem við höfðum keypt handa henni í Egginu. Hún potaði í formið og sagði:'Engin kaka' og fór svo út úr eldhúsinu.

Eitt af því sem Rakel, eins og flest börn, hefur ótrúlega gaman af er að láta segja sér sögur. Þar sem ég hef aldrei átt erfitt með að skálda spinn ég oft einhverjar sögur fyrir hana og nýt þess að fylgjast með þeim hæfileikum hennar að geta hætt að blikka augunum og anda því ekki vill hún láta það trufla sig þegar verið er að segja henni sögu. Amma sagði mér oft sögur af Óla lokbrá og hef ég verið að segja henni mínar útgáfur undanfarið. Í bílnum á leið heim frá tengdó í gær sagði ég henni eina slíka. Í fyrsta lagi er yndislegt að sjá hvernig hún hlustar af áfergju og segir svo 'aftur' um leið og ég segi síðasta orðið. Í öðru lagi er drepfyndið hvernig hún endursegir mér alltaf sögurnar með sínum orðum. Það gerði hún auðvitað í gær og sagði mér í mörgum orðum hvernig 'Óli prik, hann, Óli prik, hann koma að svíða mig'.

Já, já, það er ekki Óli lokbrá sem kemur og svæfir hana á kvöldin heldur er það Óli prik og hann svíður hana.

En ég er ekki frá því að dóttir mín sé upprennandi skáld. Kannski hún heimsæki mig þegar ég er komin á gamals aldur og vill kveðast á við mig. 

Eins og alltaf er ég á eftir áætlun. Forna málið er fornt og heimverkefnið fúlt sama hversu mikið ég reyni að ignora það. En mér er ekki til setunnar boðið. Illu er best af lokið.

Ps. Annars þýðir ekkert að ljúga. Ég er íslenskunörd af lífi og sál og finnst ýkt gaman í forna málinu. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband