Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
28.10.2007 | 16:07
Loksins
Ég var nú ekkert að rembast við að skrifa til ykkar í Madrid, nóg annað að gera. Það var frábært að láta gamlan draum rætast með mömmunni. Höfum ætlað saman í borgarferð svo lengi og núna varð loksins eitthvað úr því.
Flugið út var reyndar viðbjóður. Ég er orðin svo flughræd með aldrinum. Ég sem flaug ein til pabba á hverju ári þegar ég var peð og aldrei nokkuð mál. Núna hins vegar var ég alveg að fara á taugum. Vélin hristist svo mikið og lengi og ég varð svo hrædd að tárin láku niður kinnarnar á mér og mamma þurfti að róa mig og hugga eins og í gamla daga. Það var því ekkert sofið í vélinni sem var slæmt þar sem við sváfum tvo tíma nóttina áður. En við erum hardcore og rétt skiptum um föt þegar komið var upp á hóteli og héldum svo út með bauga undir augunum.
Ég ætla ekkert að lýsa hverju smáatriði, það er aldrei hægt. Það var iðandi mannlíf og mátulegur hiti, mengun og stórar umferðargötur, endalaust af torgum og töfrandi byggingum, örmjóum götum og þvotti á snúru. Við drukkum bjór og vín og borðuðum tapas, duttum inn í spennandi búðir og fundum flottustu kápu í heimi sem ég að sjálfsögðu keypti, fórum á þrjú söfn þar sem ég féll í stafi yfir meisturum Dalí, Picasso, Bosch og myndlistakonan Paula Rego snerti streng í brjósti mér. Við gengum um skrúðgarða og skoðuðum hitabeltisfrumskóg inn í miðri lestarstöð, létum spá fyrir okkur og ókum um borgina í tvílyftum strætó. Og hlógum. Og glöddumst. Og það var gott og gaman.
Hrundin beið mín um miðja nótt og ætlaði aldrei að sleppa mér. Hefur eiginlega ekki sleppt mér enn þá. Rakelita rumskaði við kossa mína og fagnaði mér með innilegu brosi. Vafði bústnum örmum um háls mér og þrýsti vanga sínum að mínum: 'viltu vera hjá mér' sagði hún og lygndi aftur augunum. Hafði gætur á mér daginn eftir og var svo hrædd um að ég hefði yfirgefið hana þegar ég fór í sturtu að hún þurfti að koma og kíkja á mig. Manns var saknað, það er augljóst.
Annars lést hann afi Dói hennar Hrundar í síðustu viku og er Sprundin mín svo sorgmædd að mig langar bara að taka hana og stinga henni í vasann þangaði til hún er tilbúin að koma út aftur. Það er sorg í augunum á henni og ég get ekkert gert nema knúsað hana. Dói var krúttlegur ljúflingur. Tók á móti mér í stuttbuxunum sínum á Selfossi, búinn að greiða sér og setja ilm á sig. Hann hafði mjúkan faðm og þýða rödd. Honum fannst ég merkileg og kallaði mig alltaf lögfræðinginn. Þakkaði mér alltaf fyrir að sýna sér hvar mið-Ameríka er á korti og í leiðinni kenna honum eitthvað nýtt á gamals aldri. Hann talaði við mig um Ólöfu sína sálugu og sagði að það væri eitthvað sérstakt við mig eins og hana. Hann var alltaf svo óskaplega glaður yfir því að við Hrund hefðum kynnst. Blómið hans bjarta var farið blómstra. Hann vildi ekki sjá að við værum að keyra yfir heiðina nema í sól og björtu og við þurftum alltaf að hringja þegar við komum í bæinn. Hann dekraði við Rakel og strauk okkur Hrund um vangann. Við fórum austur í sumar og tókum myndir. Ég þakka guði fyrir það. Hann var fallegur hann Dói.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.10.2007 | 20:58
Æ ...
... þið bara trúið ekki hversu glöð ég var yfir að fá fimm athugasemdir við síðustu færslu. Ég bara táraðist en passaði að láta Hrundina ekki sjá það. Verð að halda kúlinu. Fyrir utan það að ég fer svo aðveldlega að gráta og Hrund finnst það skrítið. Eða ég skrítin. 'Ég held stundum að þú sért á einhverju' varð henni að orði í gær. Þá hafði galsinn, sem ég ræð ekkert við, brotist fram með látum. Ég bullaði svo mikið í Rakel að hún var farin að hlægja taukaveiklunarhlátri og ég var næstum búin að valda árekstri með látunum í mér. Var reyndar ekki að keyra en óvænt hróp og köll trufluðu Sprundina við aksturinn. Hún hrökk t.d. í kút þegar ég gargaði skyndilega HEJA SVERIGE!
Helgin er búin að vera yndisleg. Yndisleg. Röltum Laugaveginn og keyptum nokkrar jólagjafir. Fórum á kaffihús, á Þjóðminjasafnið og í kvöldmat til mömmu og svo aftur í morgunkaffi til mömmu í dag. Það var bara yndislegt að sötra kaffi og horfa á stelpurnar mínar. Það er gott að elska. Þá sérðu fyrst alla litina í regnboganum. Þegar ástin er gagnkvæm geturðu loks snert hann. Um helgina hafði ég regnbogann í hendi mér.
Og Rakel var svo fyndin svo fyndin. Samkvæmt henni býr hún núna á 'Laugaverk' með fjórum hundum og ketti sem ekki klórar. Við megum koma í heimsókn.
Í morgun sagði ég henni svo að ég væri að fara til útlanda og yrði farin þegar hún vaknaði. 'Þá verð ég aaaaalein' sagði hún döpur. Ég benti henni á að mamma hennar yrði nú heima. Hún sagðist samt myndu sakna mín rooosalega lengi lengi lengi. Ó já. Kúrði sig svo í hálsakot mitt áðan og sagðist elska mig.
Ég ætla að fara að knúsa konuna mína núna. Besos y abrazos.
20.10.2007 | 10:32
Blót blót blót blót
Var búin að skrifa risa færslu sem hvarf. Alltaf þegar ég er byrjuð að sætta mig við tölvur gerist eitthvað svona. Maður snertir vitlausan takka og tölvan refsar þér með því að þurrka hálftíma skrif út. Ég sem var svo ánægð með þau og nenni ekki að skrifa þetta aftur. Er í fýlu og enginn til að sleikja hana úr mér. Það er ekki einu sinni til mjólk í kaffið!!! Til hvers að lifa!!!
Var búin að skrifa um athugasemdaleysi á þessu bloggi. Skrolla alltaf spennt niður og örsjaldan er nokkuð að finna. Nógu margir lesa bloggið og fimm árrisulir búnir að lesa í morgun klukkan tíu. But who are you people? Nú fér ég út á mánudaginn og þá eigið þið eftir að sjá hversu stór hluti skrif mín eru af lífi ykkar og hversu nauðsynlegt er að athugasemdast. Komaso!
Var óvænt búin með allan lærdóm gær. Meira að segja búin að læra fyrir próf sem átti að vera næsta föstudag en var frestað. Rakel var heima hjá mér þar sem lokað var á leikskólanum og fékk að horfa á Línu sína Langsokk á meðan ég rústaði herberginu hennar. Fór í gegnum allt dót, henti ónýtu, setti of smábarnalegt í geymslu og grynnkaði á bangsaflóðinu. Núna er loksins hægt að loka kistunni þar sem þeir eru geymdir. Vil því vinsamlega biðja um bangsalausar gjafir á næstunni. Það eru nokkrir pokar af þeim upp á lofti.
Fór aftur til hnykkjarans í gær. Get kannski farið að sofa verkjalaus núna. Rakel fékk svo að fara í bankann og tæma baukinn sinn. Hún fékk dvd mynd með heilbrigðu og ómannskemmandi barnaefni. Allt ættað frá Svíðþjóð. HEJA SVERIGE!!! Fékk líka nýjan sparibauk en fannst ótrúlega dónalegt að það væri engir peningar í honum. Hóf strax að betla. Fórum til afa og ömmu sem létu langömmu/afabarnið sníkja út úr sér allt klink. Héldum svo til ömmu Öllu sem einnig tók afar vel í betlið og fannst verst að eiga ekki nóg af hundraðköllum. Þetta barn er milli. Þegar hún var skírð stofnaði fólk reikninga hist og her handa henni og lagði eitthvað inn á. Ég hef enga yfirsýn yfir þessa reikninga nema kannski þann sem við Hrund leggjum inn á. Það verður vel séð um mann í ellinni greinilega.
Sóttum líka rúmar 200 myndir í framköllun í gær. Októbertilboð á netframköllun hjá Hans Petersen. Fórum svo heim og lögðum barnið, kveiktum á kertum og gerðum það sem okkur hjónakyrnunum finnst skemmtilegast. Stússuðumst. Höfðum farið í Tiger og keypt ýmislegt smádót til að lappa upp á heimilið. Þarf ekki mikla peninga til og endalaust hægt að breyta og betrumbæta. Eftir sameiginlegt stúss fór ég að raða myndum í albúm og Hrund að mála og svo horfðum við á heimildarmynd um orðið fuck sem var afar áhugaverð. Mæli með henni.
Núna er barnatíminn búinn í sjónvarpinu. Hrund búin að dorma í sófanum og bora tánum inn í mig og ég búin að tölvast í ró og næði. En nú er friðurinn úti, Rakel er vöknuð til lífsins. Ætlum að spila lottó og taka svo einn Laugara. Athuga hvort við sjáum einhverjar jólagjafir (nauðsynlegt að byrja snemma þegar súperkona heimilisins fer ekki í frí fyrr en hálf fjögur 21. desember).
Rakel getur ekki beðið. Skrifa næst eftir heimkomu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.10.2007 | 18:21
Ógeð
Hef haldið hingað til að Stundin okkar væri með því besta sem er í boði í barnatímanum. Sem annars er algjört rusl og ég oft í vafa um hvort ég eigi að vera að leyfa barninu að horfa á þennan mannskemmandi viðbjóð. Já, viðbjóð! Er öskuvond. Það er hluti af Stundinni að einverjir krakkar syngja lög. Eitt sinn var það góða mamma og þvíumlíkt en fór svo að fikra sig yfir í íslenskar þýðingar á amerískum dægurlögum. Núna er eitthvað stífmálað barn að syngja I´m a barbiegirl. Eitt ömurlegasta lag sem samið hefur verið. Svo dillar þetta gellubarn sér og syngur ´sumum finnst ég treg en ég er sætust og flottust'. Oj. Og Rakel horfir á. Úff bara. Oj bara.
Róa sig. Anda djúpt ...
Yfir í annað. Eins og ég hef margoft bloggað um er ekkert skemmtilegra en að sjá uppeldið skila sér. Ég hef alltaf hamrað á því við Rakel að hún geti allt sem hún vill. Það er mér hjartans mál að byggja upp hjá henni sjálfstraust, svo mikið að enginn geti rifið hana niður. Hún á tvær mömmur og pabba og hún er stelpa. Í grimmum heimi getur þetta verið henni í óghag. Hún verður að kunna að standa á sínu svo það verði ekki valtað yfir hana. Vera viss um að hún er frábær og geti allt til jafns við aðra. Amen.
Áðan sagði krílið við mig upp úr þurru að hún gæti allt sem hún vildi. Hún gæti staðið á höndum og haldið á poka fyrir mammí. Go Rakel!
Annars sagði hún mér áðan að hún væri með púka í nefinu. Ormarnir greinilega farnir og púkar komnir í staðinn. Hvað á sér eiginlega stað í nefinu á barninu?
17.10.2007 | 09:22
Frost er úti ...
... fuglarnir mínir. Eða reyndar ekki en kuldaboli þrátt fyrir það. Okkur mæðrunum varð það á að ræða einhvern tíma um kuldabola við Rakelitu. Sögðum henni að hún þyrfti að klæða sig vel svo hann kæmi ekki og biti hana í lærin. Hún er því skíthrædd við hann. Sefar sjálfa sig áður en hún fer út: 'kuldaboli er ekkert vondur, neeeei, bara góður, ég er í miklum fötum, hann geta ekki komið bíta mig'. Æ, æ, það þarf að vanda orðin. Mjög erfitt að útskýra fyrir litlu barni að eitthvað sé í þykjustunni. Þótt hún sé í þykjustunnileikjum alla daga og skipi mömmum sínum að fara í eitthvað hlutverk í þykjustunni þá getur hún ekki rætt þessa þykjustu. En þetta er að lagast. Hún klæðir sig eftir veðri möglunarlaust og því ávallt varinn gegn kuldabola.
Hvar í fjand**** eru íslenskar gæsalappir á þessu lyklaborði. Afrakstur af góðu uppeldi móður minnar er margvíslegur. Meðal annars lýsir hann sér í óbilandi (fanatískum?? nei nei) áhuga á ástkæra ylhýra. Allt skiptir máli. Íslenskar gæsalappir! Bil á undan þrípunkti! Hins vegar í tveimur orðum! Þágufallssýki ekki í boði! Og ég nýt góðs af í námi mínu. Bloggstíll minn er hins vegar ekki til fyrirmyndar. Byrja eiginlega alltaf á samtenginu og allt vaðandi í liðföllum (segi 'fór í búð' ekki 'ég fór í búð'). Það er áhrifameira og ég get leyft mér það hér. Í náminu er ég fjötruð þegar kemur að skrifum. Og allt í lagi með það. Gott að geta skipt á milli.
Fylltist miklu stolti í gær. Fór með mitt barn á leikskólann og kvaddi það. Var eitthvað að vesenast frammi í fatahenginu og heyrði þá á tal tveggja starfsmanna inn á deild:
'Hún er alltaf svo fín hún Rakel.'
'Já, hún er alltaf svo flott'.
Svo gaman að heyra svona. Enda tek ég fötin til handa Rakel á kvöldin. Þau eru því sérvalin og úthugsuð. Það er bara svo gaman þegar börnum er hrósað fyrir kurteisi, fyrir að vera hrein og strokin og svo framvegis. Auðvitað hefur það mikið með barnið sjálft að gera en foreldrar eiga alltaf eitthvað í því. Í þessu tilfelli ansi mikið.
Í bílnum á leið í ræktina seinna um daginn var ég að segja Hrundinni frá þessu. Leit svo á Rakel og sagði að hún væri nú heppin að eiga svona góðan stílista:
'Já, ég er heppin á mér', sagði krílið.
Að vera heppin á sér. Þú ert heppinn á þér maður. Hljómar vel.
Annars er barnið með bíladellu. Vill vita tegundir allra bíla sem við göngum framhjá á leið í og úr leikskólanum. Hún er ágæt í að segja nöfnin en sumt þvælist fyrir ungum tungum. Pabbi hennar á t. d. Subrú (Subaru) og við eigum Toyotu Rólu (Toyotu Corolu).
Við Sprundin erum eina fólkið í heiminum sem á þessa tegund. Við erum heppnar á okkur þar.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2007 | 10:31
Fyrisögnpyrisögn
Eyði ekki heilasellum í að finna fyrirsögn á bloggfærslu í dag. Þarf að finna titil á ljóðgreininguna mína og það nægir mér alveg. Ljóðgreiningin er alveg hreint ágæt eða algjört kjaftæði. Hef aldrei gert svona áður svo ég hef ekki hugmynd hvernig mér tókst til.
Hef lærdóminn under control. Er meira að segja á undan áætlun. Trúiðiessu?
Kennarinn minn í ritlist hefur hins vegar ákveðið að ignora mig og svarar ekki pósti mínum þess efnis að ég sé að fara til útlanda og myndi vilja fá að taka prófið hjá henni seinna. Ég á nebla að vera í prófi hjá henni föstudaginn eftir að ég kem heim. Og ég kem heim um nóttina og nenni ekki að taka próf hálfsofandi. En hún var veik akkúrat þegar ég ætlaði að ræða þetta við hana, núna er verkefnavika og enginn tími og hún ignorar tölvupóst minn. Er henni illa við mig?
Ég og Hrund gerðum nákvæmlega ekki neitt um helgina sem var yndislegt. Ég fór reyndar á frændsystkinakvöld á föstudaginn og eins og alltaf var það snilld. Mér fannst það svo mikil snilld að ég ákvað að blanda rauðvíninu með matnum saman við bjór. Ó, ó. Reyndi nú að mótmæla en Rósa frænka sussaði á mig. Svo ég drakk mitt rauðvín úr einu af ógesslega flottu rauðvínsglösunum hennar alveg með kúkinn í buxunum yfir að brjóta það. Er svo hræðileg brussa. Sullaði til dæmis niður á jóladúkinn sem hún fórnaði á borðið vegna þessa sérstaka tilefnis. Sullaði olíu niður á hann. Ó, ó. Líðan mín daginn eftir verður einmitt best líst með ó, ó. Ég hjúkraði mínu ó, ó-i upp í sófa, undir sæng í faðmi sjónvarps og konu allan daginn. Notalegt. Á sunnudaginn var ég ekki ó, ó en ennþá ó svo ég þreif svolítið, lærði og slappaði af. Fór því ekkert út. Nema aðeins á laugardagskvöldið. Fór í göngtúr í brjálaðri rigningu, fór út á videoleigu og út í Rangá og kom svo heim og eldaði nautsnitzel. Ég er ekki eðlileg. Leið ennþá verr eftir þessa orkusprengju.
Er að fara til hnykkjara á morgun. Er að farast í bakinu. Hrund þarf að hjálpa mér að reisa mig við á morgnana. Ætla því að láta hnykkja áður en hún verður komin í það hlutverk sem var eitt sinn mömmu, að klæða mig og reima skóna mína. Og þá meina ég ekki þegar ég var krakki heldur þegar ég var tvítug og einstaklega slæm af brjósklosi.
Þetta er leiðinleg færsla. Enda er ég bara að hugsa um spænskuna sem ég á eftir að læra. Hasta luego.
11.10.2007 | 10:25
Örsnöggt
Er svo óendanlega þreytt. Hef verið að læra á milljón þar sem ég er að fara til Madridar með mömmu 22. október. Í þeirri viku er einmitt mjög mikilvægur tími í bókmenntafræði, próf í báðum spænskuáföngunum, ritgerðarskil og verkefnaskil í spænsku. Hvurslags vika er þetta eiginlega. Fyrir utan að gera það þarf ég að lesa fyrir tímana fram í tímann og gera verkefni í forna málinu. Þau fylgja mér eins og skugginn. Sem betur er verkefnavika í næstu viku sem þýðir engir tímar. Sá hins vegar fram á það að ég myndi ekki komast yfir allt sem ég þarf að gera svo ég hef verið að rembast við að gera eitthvað í því undanfarnar tvær vikur. Með hinum heimalærdómnum og lífinu sjálfu er erfitt að koma því að. En allt í lagi. Minns er að fara til útlanda!!!
Á hins vegar eftir að sakna stelpnanna minna mikið. Hrund kvíðir þeim verkefnum sem hún þarf að taka að sér þegar ég er í burtu. Eins og t.d. að elda ofan í barnið og velja föt á hana í leikskólann (ég bað vinsamlegast um að fá að taka að mér það hlutverk að klæða barnið um leið og mér fannst það við hæfi. Það er um leið og við fluttum inn saman. Gat ekki hugsað mér að fara með barnið til dagmömmu klædda eins og ég veit ekki hvað. Blessuð Sprundin. Skilur ekki mikilvægi þess að klæða sig í stíl). Og hundrað hlutir í viðbót. Ansi margt sem Díana súperkona sér um. En það á allt eftir að ganga vel. Hrund æfði sig til dæmis í morgun að greiða Rakel. Sá ekki afraksturinn þar sem ég var farin en er viss um að það tókst vel til.
Eins og ég segi. Er þreytt á sál og líkama. Í fyrradag var Rakelita líka þreytt á sál og líkama. Við fórum því í heimaföt þegar við komum heim af leikskólanum, upp í sófa og undir sæng, knúsuðumst, kysstumst og héldum lestrarmaraþon. Létum svo Sprundina sjá um að töfra fram pítur og með því í kvöldmat, vaska upp, brjóta þvott og baða okkur (reyndar baðaði ég mig sjálf en H baðaði gorminn). Mjög notalegt og kærkomið.
En núna bíður mín ljóðgreining. Ekki verkefni í forna málinu aldrei þessu vant. Er búin með það. Enn ein örsagan í safnið þar á ferð. Fékk reyndar 2,5 af þremur í einkunn um daginn. Örsögur mínar virðast hafa eitthvað sannleiksgildi þrátt fyrir allt.
Ætli það sé ekki við hæfi að setja eitt ljóð frá mér í færsluna. Líður akkúrat svona núna:
Ef ég syndi stanslaust móti straumnum
fæ ég harðsperrur í handleggina
ef ég læt mig fljóta með honum
verður mér bumbult
ef ég stend í stað
verð ég ein eftir
8.10.2007 | 18:02
Korn
Verð að bæta við einu korni. Úr því ég er búin með verkefnið í forna málinu og svona.
Ég fór að sækja Rakel í leikskólann áðan eins og venjulega. Sem ég er að hjálpa henni í útifötin hringir Hrund í farsímann minn. Ég leyfi Rakel að svara. Eftir að hafa heilsað mömmu sinni fer hún að benda á mig eða réttara sagt pota í brjóstið á mér. Hún hefur ekki enn skilið að mannskjan á hinum endanum sér ekki það sem hún sér. Hún á að það meira að segja til að leggja símann upp að hlutnum sem hún vill sýna viðmælandanum í von um að hann sjái hann þá.
'Þú verður að segja hver þetta er' segi ég. 'Það er ekki nóg að benda'. 'Og talaðu hátt og skýrt svo mamma heyri' Einu skiptin sem þetta barn sparar röddina er þegar hún talar í símann. Þá hvíslar hún.
Rakel gerir eins og henni er sagt, potar í brjóstið á mér og segir hátt og snjallt 'brjóst'. Enda sá líkamspartur á mér sem hún var að benda á.
'Já, þettar er brjóst' segi ég. 'En ég er mammí og er hér til að sækja þig'. (Ályktaði sem svo að Hrund væri að spyrja um mig).
Krakkagormurinn tekur sig þá til og æpir (í leikskólanum) á meðan hún hoppar upp og niður:
'Mammí brjóst, mammí brjóst, mammí brjóst'.
Þá ríf ég af henni símann, við það að hníga niður af hlátri og heyri Hrund standa á öndinni af hlátri hinu meginn á línunni.
Ég náði loks að þagga niður í krakkanum. Eins gott að maður hefur húmor fyrir sjálfum sér.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2007 | 13:40
Gullkorn
Ég og Hrund erum búnar að safna svo mörgum gullkornum fyrir í höfðinu á okkur að við erum farnar að gleyma. Verðum að vera duglegri við að skrifa þau niður. Gullkorn Rakelar. Bullið og viskan, oft saman, sem vellur upp úr henni er drepfyndið. Margt er fest niður á blað og margt hverfur með líðandi stund. Það er ekki hægt að skrifa allt niður, eigum ekki diktafón til að elta barnið með.
Rakelita:
-Getur ekki vaskað upp 'af því að hún er ekki strákur'. Greinilegt að karlmennirnir á hennar heimili sjá alfarið um uppvaskið meðan við hjónakyrnurnar höfum það ljúft.
-Trúir því að ég geti galdrað augað úr mér, komið því fyrir í þvottapoka og galdrað það svo aftur í mig. Ein fyndnasta stund í lífi okkar allra var í kvöldmatnum á föstudaginn. Ég var bún að elda ógesslega góðan mat auk þess að hreinsa fræin úr ferskum chillipipar sem ég ætlaði að þurrka. Auðvitað setti ég puttann í augað á mér í matnum og var nær liðið yfir mig. Náði mér í kaldan þvottapoka og kældi augað sem ég gat ekki opnað. Datt mér þá í hug að galdra það burt fyrir Rakel. Ég get ekkert lýst hvernig ég gerði það en Hrund hristist og skalf af hlátri af viðbrögðum Rakelar,sem og ég, sem voru vægast sagt fyndin.
- Saknaði mín 'vel og vandlega' á laugardaginn þegar ég var heima að læra og þær mæðgur hjá tengdó. Rósu frænku og Tryggva frænda var líka saknað vel og vandlega.
-Hefur gaman af 'veitingastöðum' í bardaga og fylgist með því ár hvert á víkingahátíðinni í Hafnarfirði. Við hin horfum á víkinga berjast en ekki Rakel. Veitingastaði.
-Spurði mig hvort komið væri 'hraurt' þegar hún sá mömmum sína (hina svakalegu kuldaskræfu) klæða sig í kuldagalla fyrir göngutúrinn í gær. Ég sagði það rétt athugað hjá henni, það er komið haust.
Og margt margt fleira. Þarf bara að rifja það upp. En verkefnið í forna málinu er næst á dagskrá.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2007 | 15:50
Þráhyggja
Veit ekki af hverju ég ákvað að blogga núna, er alveg að pissa á mig, alvega að missa af strætó og alveg að deyja úr hungri.
Held að þetta sé algjör þráhyggja í mér. Eða þá að ég vinn best undir álagi. Sem væri ágætt þar sem ég er alltaf undir álagi, ef ekkert í lífi mínu veldur álagi á mér bý ég álagið til. Þess vegna er ég manneskja sem fríka út ef ég man ekki hvað það er langt síðan ég skipti um handklæði á baðinu. Var það í gær? Var ég ekki líka að hugsa um þetta fyrir þremur dögum og skipti þá? Svona held ég áfram þangað til ég kemst annað hvort að þeirri niðurstöðu að handklæðið sé skítugt og best að skipta eða að það sé ekkert svo skítugt og mig langi ekki til að skipta alveg strax af því að handklæðið sem er næst í röðinni í handklæðahillunni er ekkert svo flott. Það má ekki rugla röðinni.
Nei, ég þarf ekki að fara á hæli. Þar hefði ég allt of mikinn tíma til að bókstaflega velta mér upp úr þráhyggjunni og þyrfti að fara í tíma til geðlæknis og láta sálgreina mig. Það vil ég ekki. Ég hræðist útkomuna.
Ég ætti eiginlega að skrifa eitthvað eðlilegt á eftir þessu svo að þið verðið ekki of hrædd við mig. Eitthvað um sólina og vorið og eitthvað.
En það er kalt og ég er á strætó (ekki á bíl). Og ég er alveg að missa af honum ...
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar