Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
30.8.2007 | 16:41
Hjálp
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.8.2007 | 16:31
Ofurkona
Vegna fjölda áskorana hef ég ákveðið að taka ruslvörnina af. Man reyndar ekki eftir að hafa beðið um hana og vona að hún sé nú farin. Ef ekki látið mig vita og segið mér hvernig ég geri það.
Mér finnst ég aldrei hafa eins mikið að gera og þegar ég er í fríi. Rauk upp með andfælum í morgun og hnút í maga yfir öllu því sem ég þurfti að gera. Er þetta eðlilegt? Neyddi mig til að slaka á og horfa á mynd í náttfötunum. Hrund segir að ég þurfi að læra að slaka á. Ég sagðist kunna það og vildi sanna það í morgun. Hún var reyndar ekki heima en hún hringdi úr skólanum þannig að ég gat sagt með stolti að ég væri bara upp í sófa að horfa á mynd. Ég verð að viðurkenna að ég leit ansi oft á klukkuna til að fylgjast með tímanum, svo margt sem ég átti eftir að gera. Myndin var næstum tveir tímar svo að um leið og hún var búin rauk ég á fætur, vaskaði upp, setti í vél, gekk frá fötum, raðaði skóm, tók til inni hjá Rakel og snurfusaði inn í stofu. Svo hringdi ég um það bil 10 símtöl og punktaði hjá mér ýmis atriði, reiknaði út mánaðarlegar greiðslur og gerði það sem gera þurfti í heimabankanum. Núna er klukkan korter yfir fjögur, ég var að fatta að ég gleymdi að fara í sturtu og klæða mig og borða! Og Hrund kemur heim eftir smá stund og ég er búin að bjóða henni út að borða. Ég er ekki tilbúin. Ég gleymdi sjálfri mér!
Vitiði það. Ég er ekki ofurkona. Og þekki engar slíkar. En mér finnst samt alltaf að ég eigi að vera hrikalega dugleg og aldrei að kvarta. Síðasti vetur var erfiður fyrir okkur Hrund. Hún vann alla daga og var í kvöldskóla þrisvar í viku. Þess á milli lærði hún og svaf. Ég var í skóla alla daga, lærði eins og brjálæðingur en átti samt alltaf eitthvað eftir. Ég var ein með Rakel og heimilið þegar Hrund var í skólanum og þegar allt sem þurfti að gera var gert átti ég ekki eina kaloríu eftir sem ég gat eytt í meiri lærdóm. Aldrei kvartaði Hrund. Og aldrei kvartaði ég. Ég fékk bara kvíðaköst inn í mér, vaknaði aðeins fyrr og fór aðeins seinna að sofa. Það var ekki fyrr en um daginn sem mér var bent á að þetta var heilmikið, fyrir okkur allar þrjár og að það væri eðlilegt að ég hefði verið þreytt. Ó!!!
Þessi vetur verður betri. Við verðum alltaf saman í mat og á kvöldin og eins og áður hefur komið fram ætlum við Hrund að vera góðar við okkur og fara í ræktina.
Hver sagði mér eiginlega að ég mætti aldrei vera þreytt og finnast eitthvað erfitt? Að ég þyrfti að standa mig óaðfinnanlega í öllu? Það var ég sjálf. Og ég á eftir að drepa mig á þessum kröfum ef ég læt ekki af þeim.
Það að vera þreyttur er ekki það sama og gefast upp. Ef ég vaska ekki upp eftir kvöldmatinn er ég ekki aumingi og letibykkja.
Ég fæ stundum svo illt í magann af stressi að ég þarf leggjast fyrir. Og svo ligg ég hugsa um að ég hafi ekki tíma til að eyða honum í svona vitleysu.
En nú munu renna upp breyttir tímar. Ég ætla leyfa mér að vera manneskja og hætta að halda að ég sé vélmenni.
Á eftir fer ég út að borða með konunni sem þarf ekki að annað en að segja :'þetta verður allt í lagi' og friðurinn færist yfir mig.
Og á morgun kemur litli rauðhaus sem eins næmur og hann er hallar undir flatt, leggur heita barnshönd á vanga minn og segir með fallegustu röddinni:'þetta vera allt í lagi mammí, rakel passar þig', eins og ég er vön að segja við hana þegar hún á bágt.
Hversu heppin er ég? Nú er að duga eða drepast, kúppla mig úr fimmta gír, slaka á og njóta heppninnar.
Ég verð samt að þjóta núna áður en Hrund kemur heim, þarf að gera nokkra hluti fyrst ...
29.8.2007 | 17:21
Kaflaskipti
Þá er ég búin að vinna. Síðasti dagurinn í dag. Hef verið að vinna heima undanfarna tvo daga (allir í vinnunni á ráðsefnu og ég nenni ekki að hanga ein svo ég get alveg eins verið hér) og gekk það ekki vel. Í fyrsta lagi þurfti ég að nota alla þá sjálfstjórn sem ég bý yfir til að hlekkja mig andlega við stólinn og pikka á tölvuna. Svo var ég bara með allt of mikið af spurningum sem enginn gat svarð. Ofsótti aumingjans vinnufélagann sem er á ráðstefnu í London með tölvupóstum.
Það versta er að vinnan hefur fengið mig til að efast alvarlega um getu mína í setningafræði. Ég hefði svo sem alveg getað sagt mér það sjálf, setningafræðiprófið í vor er eina prófið sem ég hef grátið yfir. Eða næstum. Ég var viss um að ég væri fallinn og enginn trúði mér! Enginn sagðist nenna að hlusta á svona vitleysu og bla bla. Svo fékk ég reyndar fína einkunn (og í framtíðinni mun fólk enn þá síður nenna að hlusta á mig grenja út af prófi) en kennaranum hlýtur að vera einstaklega vel við mig. Eða þá að ég kann meira en ég held.
Ég hef svo sem lært heilmikið þótt þetta hafi verið blóð, sviti og tár. Það sem stendur upp úr er þó fróðleikurinn um sagnir sem ég hef sankað að mér. Íslenskar sagnir eru erfiðar og flóknar .Við eigum í ástar-hatursambandi.
Mig langar svo að tilnefna vinnufélagann konu ársins. Hún hefur svarað mínum spurningum með endalausri þolinmæði og aldrei farið að hlægja ef ég spyr heimskulega (kannski gerir fullorðið fólk það ekki). Mig langar bara að þakka henni fyrir þá sáluhjálp sem hún hefur veitt mér í vinnunni og fyrir að vera stundum jafn rugluð og ég.
Annars er ég yfirhöfuð að springa úr þakklæti yfir þessu tækifæri. Að fá að vinna við þetta verkefni og kynnast fullt af fólki. Mér finnst bara frábær tilfinning að kennarinn í verkefninu (sem hefur kennt mér nokkur námskeið)skyldi treysti mér í þetta.
Ég er svo fullorðin eitthvað. Gud i himmelen.
Við Hrund er byrjaðar í ræktinni. Lítið af fötum eftir sem passa á okkur og alltaf spurning hvort við komumst upp stigann og inn í íbúðina án þess að falla í yfirlið. Í dag er mér illt í hverjum einasta vöðva. Það er frábært.
Á föstudaginn kemur litla ljósið heim. Það verður yndislegt að fá einhvern sem skipar manni fyrir og syngur allan daginn. Þekkið þið einhvern svoleiðis? Pottþétt ekki.
Ljósið er afar músíkalskt og finnst gaman að hlusta á tónlist. Ekki hvað sem er, því hef ég komist að. Þegar Hrund var í skólanum í vetur tókum við mæðgur oft nokkur tryllt danspor áður en ég fór að elda. Ég reyndi að veita henni alla athyglina í einu svo ég gæti svo stungið í vél og eldað á meðan hún lék sér. Það hefði einhver átt að segja mér að þetta virkar ekki. Svo að hún setti með mér í vél og fylgdist með matseldinni og vildi svo dansa meira, endalaust alltaf. Allavega, hún vildi salsa og reggae og marenge. Enga popptónlist. Og hún dillaði mjöðmunum eins og hreinræktuð latina. Get ég beðið um meira.
Hún deilir líka áhuga mínum með mér á sænsku hljómsveitinni The Knife sem ég hef elskað og dýrkað í fjögur ár. Í bílnum vill hún fá música (eins og hún segir eftir að hún hitti afa douglas) og 'lagið' sem er uppáhaldslagið okkar. Svo syngur barnið með tilheyrandi höfuðhnykkjum: is it medicine, is it medicine, is it medicine or social skills.
Ég segi medicine, en þið?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.8.2007 | 11:04
Dagur tvö í lífi bloggsins
Ég og Hrund erum ýkt spenntar yfir því hvort einhver les bloggið okkar. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég gerði fólki lesturinn ansi erfiðan þar sem ég sendi öllum vitlausta vefslóð. Sem betur fer voru einhverjir sem reyndu að fara inn á litlahusid.is og sáu ... ekki neitt. Svo að í dag gleðst litla ég yfir því að vinir mínir í fyrsta lagi lesi póst frá mér og í öðru lagi nenni líka að lesa um líf mitt og þá sem eru í því.
Ekki það að ég hafi verið lögð í einelti í æsku eða verið hafnað mikið í lífinu eða eigi enga vini sem lesa póst frá mér. Mér finnst bara stundum þessi bloggmenning óskiljanleg (segir bloggarinn). Af hverju lesum við um það sem vinir okkar gerðu um helgina eða í vinnunni. Erum við að metast? Nennum við ekki að hringja? Erum við fúl af því að okkur var ekki boðið með? Og af hverju lesum við hvað ókunnungt fólk er að bralla í lífinu? Erum við svo viðurstyggilega forvitinn að við getum ekki stjórnað okkur? Lifum svo leiðinlegu lífi að við viljum helst lifa því í gegnum aðra? Og hvað varð um að halda persónulega dagbók sem læst er með lykli og falin inn í fataskáp (svo var líka oft ótrúlega góð lykt af þeim og lásinn ótrúlega aumingjalegur og lykillinn svo viðkvæmur að hann brotnaði ef þú reyndir að opna lásinn með honum. Átti fullt af svona)?
Svarið er einfalt. Það er gaman. Það er gaman að lesa vel skrifuð og hnyttin blogg. Eins og að glugga í góða bók. Það er gaman að halda úti vel skrifuðu og hnyttnu bloggi. Eins og að skrifa sögu. Og það er gaman að vera forvitinn.
Svo að þegar ég dett niður í það að finnast bloggmenning óskiljanleg og þrá gamla tíma þar sem bréf voru send og fólk skrifaði í dagbækur sínar með penna (ég er tímskekkja, ég veit) þá minni ég sjálfa mig á það hvað þetta er gaman. Að lesa og skrifa list er góð krakkar mínir.
ps. Mamma er búin að skrifa í gestabókina og er himinlifandi yfir að vera fyrst til. Hún hrósaði nýyrðinu 'hjónakyrnur' sem ég notaði í færslunni gær enda frábært orð. Hún Silla tengdamamma mín á heiðurinn að nýyrðinu, allavega hef ég aldrei heyrt það fyrr en hún notaði það um mig og Hrund. Ég bíð bara eftir að þessu verði bætt í íslenska orðabók sem og 'mammí'. Spurning hvort Rakel vill ekki fá sér einkaleyfi á því (þ.e. mammí) áður en fleiri fara að nota það (við vitum um aðra stelpu sem notar þetta en hún fékk hugmyndina hjá Rakel). Það er einhver peningalykt af þessu.
27.8.2007 | 11:47
Jæja...
Við hjónakyrnurnar tókum þá ákvörðun í gærkvöldi að verða hipp og kúl og byrja að blogga eins og allir hinir. Reyndar var ég andvaka eða hálfsofandi þegar ég fékk þessa hugdettu og spurði konu mína sem líka var andvaka eða hálfsofandi (guð hvað við erum samstíga og samhentar) hvernig henni litist á. Henni leist vel á og því sit ég hér og er alveg að fara að vinna en vildi deila þessum gleðifréttum með ykkur fyrst.
Við skulum svo vona að einhver lesi um líf okkar á þessari síðu. Kannski best að láta fólk vita af henni ... Allavega slæ ég tvær flugur í einu höggi, fæ útrás fyrir skrifþörf mína og leyfi ykkur að fylgjast með því hvernig tvær mömmur í sambúð ala upp dóttur sína og barnföðurins.
Barnið er einmitt í sumarfríi hjá pabba sínum núna svo það er kannski svolítið glatað að byrja með þessu síðu akkúrat núna. Og þó. Við erum ekki allar alltaf saman en fjölskylda þrátt fyrir það svo skrifin eiga alltaf jafn mikinn rétt á sér.
En núna er samviskan við það að kæfa mig svo ég ætla að snúa mér aftur að vinnunni. Hasta más tarde, Dr.
Vinir og fjölskylda | Breytt 28.8.2007 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar