Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Fljótt skipast veður ...

Lundin er léttari.

 Átti gott samtal í morgun og einhvern veginn hvarf þunginn úr sálinni og drunginn úr höfðinu. Samt var þetta bara við konu út í bæ. Stundum þarf ekki meira.

Komst loooooksins í prófgír. Kláraði að glósa forna málið svo ég hef góðan tíma til að lesa það yfir fyrir prófið á föstudaginn. Er tilbúin fyrir ritþjálfunarprófið á morgun, kvíði því ekkert þar sem ég get vel skrifað á spænsku eins og á íslensku.

Sprundin er hins vegar ekki búin með gripinn og er því ekki enn komin heim. Þarf líklegast að smíða á morgun og hinn líka svo hún falli nú ekki í þessu og fái engin námslán (shjitt shjitt, gæti dáið úr stressi yfir þeirri tilhugsun). Svo þarf hún að finna sér tíma til að læra fyrir stærðfræðiprófið sem hún fer í á föstudaginn. Og ég verð víst að halda áfram að taka mér pásur og sjá um krílið mitt.

En þetta verður í lagi. Ég segi mér það einu sinni á mínútu.

Við getum þetta. Við náum báðar þrátt fyrir allt vesenið og fáum okkar lán og endum ekki á götunni.

Ætla að gefa mér og rauðhaus að borða, lesa, biðja bænir, syngja, kyssa og læra svo fyrir spænsku. Glósa eins og mother fo**** til miðnættis og fara þá að sofa.

 


Algjör ...

... geðveiki. Segi ekki meir. Eða jú.

Þessi prófatörn hefur verið algjör vitleysa. Og lítið um lærdóm. Það er svo skrítið þegar allt hringsnýst í höfðinu á manni og utanaðkomandi öfl gera manni erfitt fyrir. Þegar tilfinningarnar vilja vera með í íslenskri útrás og reyna að brjótast út úr líkamanum með látum. Mér hefur verið troðið í rússíbana, ég bundin niður og ýtt af stað. Ég get ekkert gert nema beðið eftir því að ferðinni ljúki, vonað að ég lifi þetta af, veit að ég lifi þetta af þótt mér líði ekki þannig. Og á meðan þýtur allt fram hjá og ég heyri ekkert nema öskrið í vindinum sem reynir að þrengja sér inn í eyrun.

Hrund hefur verið að smíða sig í hel hjá mömmu sinni síðan á föstudag. Hún svaf fjóra tíma aðfararnótt sunnudags, ekkert í fyrrinótt og kvaddi mig í gær glær í augum og föl á vangann. Hún var að fara að smíða. Í alla nótt. Síðasti dagurinn í dag.

Við hittumst á sunnudaginn og okkur leið eins og við hefðum ekki hist í viku. Ég hef þarfnast hennar svo mikið þessa helgi til þess að halda í höndina á mér og hana langað það svo mikið en aðstæður bara leyfðu það ekki. Hún kemur heim á eftir og þá ætla ég að baða hana og gefa henni að borða, leggja hana í bólið og breiða yfir hana svo hún geti sofið í hundrað ár.

Það er alveg sama hvað maður verður fullorðinn, maður ræður stundum ekkert við sig. Æpir á barnið sitt af þreytu af því maður var andvaka og svaf í þrjá tíma eða fer að gráta af því að allt er svo erfitt og maður á svo bágt og langar mest að hvíla sig og láta hugsa um sig.

En það er bara ekkert í boði.

Það verður engum að kenna nema sjálfri mér ef ég þarf að taka endurtektarpróf í öllu.

Elsku litli kúturinn minn sagðist ætla að passa mig. Labbaði svefndrukkin og alveg sjálf á klósettið í fyrrinótt þar sem ég er svo slæm í bakinu að ég lofta henni ekki. Kyssir á bágtið þegar ég emja í miðri skeiningu, svo vont að beygja sig svona yfir hana. Prílar sjálf í og upp úr baðinu og kyssir mig á kinnina af því að hún heldur að ég sé lasin. Og sefur í mömmubóli þegar hún er í burtu og svæfir mig með andardrætti sínum.

Þessum undraverða andardrætti sem segir mér að allt verði í lagi, Hrund muni ná að klára verkefnið og fá námslán, ég muni ná prófunum og geð mitt muni aftur komast í jafnvægi svo ég geti haldið áfram að vera kletturinn í lífi stelpnanna minna.

Þangað til er best að ég drekki mikið kaffi og reyna að glósa eitthvað fjandinn hafi það. 


Þung í skapi

Pabbi er í Ástralíu, mamma er í svaðilför upp á jökli, tengdó er í Berlínarferð, Rakel er hjá pabba sínum, Oddný er á Akureyri (af hverju, af hverju, af hverju, lífið er innantómt án þín), Sprundin sefur, garðurinn vill láta taka til í sér, bíllinn vill láta skiptu um peru í framljósi og lífið í formi slöngu hefur vafið sig um háls mér og herðir að.

Ég get ekki andað.

Ég er með tak í bakinu og klemmda taug sem veldur mér hræðilegum kvölum.

Ég lít hræðilega út í bikiní.

Ég lít hræðilega út.

Ég er á eftir áætlun í lærdómi.

Kaffið mitt er vont.

Ég er að bíða. Alltaf að bíða og vona.

Hrund bara smíðar og passar systkini sín hjá mömmu sinni í fjarveru hennar.

Vorið fyrir utan gluggann hæðist að mér.

Ég vil fá mömmu mína. 


Kvart

Ég get svo svarið það að próf eyðileggja fyrir mér námið. Ég hreinlega þoli þetta ekki. Ok, ég fæ pínu kikk út úr því að læra í tólf tíma á dag í þrjár vikur, taka fullt af prófum og ganga út eftir síðasta prófið FRJÁLS MANNESKJA. En biðin eftir þessari tilfinningu er heldur löng.

Er bara búin að læra á fullu í þrjá daga og langar tússa með yfirstrikunarpennanum yfir allar glósurnar, tússa, tússa, fast og fastar þangað til það kemur gat á blaðið og svo berst ég við löngunina til að stinga skrúfblýantinum í handarbakið á mér í von um að sársaukinn dragi athygli frá sársaukanum í heilanum sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið og neitar að taka við öllum þessum upplýsingum.

Kannski ég sé allt of þreytt núna. Var nú hressari í morgun.

Hrund er að labba inn úr dyrunum með ís. Ísbúðin í hverfinu er opin til tólf á miðnætti.

Hallelúja. Geðheilsu minni er bjargað.

Í bili. 


Prófatörn

Ætla ekki að hafa mörg orð um helgina þar sem hún var í einu orði sagt dásamleg. Malarrif er uppáhalds staðurinn minn í heiminum.

Þarna voru ég og stelpurnar mínar, mamma og systkini mín, Edda móða og Unnur og Rósa, dætur hennar, og svo Valdís móða. Við eyddum allri helginni úti og létum orkuna frá jöklinum umvefja okkur og endurnæra. Rakel var í úti í tólf tíma á dag og var aldrei svöng og þurfti aldrei að pissa. Hún fór líklega í nálægt 500 gönguferðir með hinum ýmsu fjölskyldumeðlimum og ég hef aldrei vitað til þess að ein manneskja, hvað þá kríli eins og hún, geti búið yfir jafn endalausri orku.

Ég tók mér langan göngutúr meðfram fjörunni og tók svo hraunið á leið til baka. Var löðursveitt og hamingjusöm þegar ég kom til baka. Svo var bara lesið og spilað og spjallað og drukkið kaffi og borðað. Yndislegt.

Ég náði meira að segja að lesa tvær langar greinar í spænsku. Húrra fyrir mér.

Síðasti dagur Hrundar í skólanum er á miðvikudaginn. Þar sem hún var veik alla síðustu viku hefur hún bara fram á miðvikudagskvöld til að klára kommóðuna sína. Hún á víst eftir að gera allar skúffurna. Hún býr því upp í skóla núna og ég tek mér pásu frá lærdómnum og sé um Rakelina. Í staðinn tekur Hrund hana að sér á sumardaginn fyrsta og líklega eitthvað í næstu viku þótt hún þurfi auðvitað  líka að læra sjálf.

Það er svolítið sérstakt að vera í prófum þegar maður á barn. Allur lærdómur verður að vera skipulagðir í kringum þarfir þess og svo kemur tími þar sem þú sérð það ekert og ert algjörlega vængbrotinn. Sem betur fer er þetta bara tvisvar á ári og svo fer ég nú kannski líka að klára þetta nám. Þetta eru síðustu prófin mín á vorönn. Þangað til ég fer að læra eitthvað meira. 

Við Hrund ætluðum að vakna eldsnemma í morgun, hún ætlaði að vera komin í skólann klukkan átta og byrja að smíða og ég ætlaði að byrja að læra þar sem það tekur endalausan tíma að lesa allar þessar greinar. Við vöknuðum hins vegar um fimm í morgun við mjálmið í pissublautu og eldhressu barni. Skiptum á rúmi og skipuðum barninu í það aftur að sofa. Vorum allar þrjár lengi að sofna aftur og sváfum allar til hálf tíu. Ég er ekki enn byrjuð að læra. Þurfti að stússast eitthvað og fá mér að borða.

Það hefur hvorki gefist tími til að þrífa né versla ansi lengi núna. Það átti að gerast í síðustu viku en Hrundin lá fyrir og ég var ekkert að vasast í þessu ein. Mér ofbauð skíturinn áðan, náði mér í Clif hreinsiklút og þurrkaði mesta skítinn, vaskaði upp og setti í vél. Maður losnar víst ekki við það þótt maður sé að læra. Í gær borðuðum við Rakel hjá mömmu, á eftir ætlum við að ná okkur í pizzu og á sumardaginn fyrsta förum við í mat til tengdó. Ég hef ekki enn fundið út úr morgundeginum. Það verður naglasúpa líklega. Á föstudaginn vonast ég til að við getum látið setja sumardekkin undir bílinn (við gleymdum alveg að nýi bíll var ekki á heilsársdekkjum og svo þegar við ætluðum að gera það varð Hrund veik og allt það) og keypt inn.

Gud i himmelen. Bæði litli og stóri vísirinn er á tólf og ég ekki enn byrjuð að fræðast. Yfir og út. 

Aðeins inn aftur: ég er ekki enn orðin veik svo ég vona að ég hafi sloppið við þessa inflúensu og Rakel líka. Djöfull erum við hraustar. Það er af því að við tökum alltaf vítamín og lýsi og drekkum nýpressaðann appelsínusafa með. Það gerir Hrund ekki en neitar að það skipti máli í þessu tilfelli. Ég hélt öðru fram um daginn og varð ekki vinsæl. Hún vill ekki að ég röfli í henni út af þessu svo ég geri það bara hér:

Taktu vítamín Hrund og hættu þessari vitleysu!

Ha, ha. Út aftur. 


Krosslagðir fingur

Sprundin fór læknavaktina áðan þar sem henni hefur versnað eftir því sem liðið hefur á vikuna. Sjúkdómsgreining: inflúensa. Og ekkert við því að gera nema bíða. Ég trúi þessu ekki. Ég sárfinn til með konunni minni sem er eitthvert óþekkjanlegt hrúgald, annaðhvort í sófa eða rúmi. Man líka hvernig þetta var í janúar í fyrra þegar ég fékk inflúensu, var með 40 stiga hita og grét af vanlíðan, fullorðin manneskjan. Sprundin hjúkraði mér og varð svo sjálf veik þótt það væri ekki fyrr en rúmri viku eftir að ég lagðist í rúmið.

Ég get því enn þá átt von á því að verða veik. Og þá get ég ekkert lært og prófin fara í vaskinn og líf mitt endar og allt það. 

Sprundin er sem betur fer ekki eins veik og ég var í fyrra.  

Er ekki frá því að ég finni fyrir hausverk.

Nei. Og aftur nei. Ég ætla ekki að verða veik.

Annars varð Sprundin skyndilega sprækari áðan. Varð sjálfri sér lík og deildi sínum einkahúmor með mér. Núna situr hún hér hjá mér og unir sér í Playstaition (eða hvernig sem þetta er skrifað). Úr því hún getur farið í bílaleik þá hlýtur hún að verða frísk bráðum.

Eins gott líka því við erum að fara á Malarrif á morgun. Er búin að pakka fyrir okkur og ætlum að reyna að leggja af stað upp úr hádegi.

Engill er hjá pabba sínum. Ég stakk upp í því að við breyttum kerfinu og hún færi til hans annan hvern fimmtudag (yfir nótt) og annan hvern föstudag (yfir helgi). Þannig hittast þau einu sinni í viku en áður fór hún til hans aðra hverja helgi og svo á mánudegi eftir mömmuhelgi sem þýddi að þau hittust tvisvar í sömu viku og svo ekkert í rúma viku. Betra svona held ég.

Er bara að draga það á langinn að fara að sofa. Þori ekki að vakna á morgun ef ég skyldi vakna veik.

Annars lærði ég ekkert í dag. Gott hjá mér. 

Ljósi punkturinn þessa stundina er brósi minn sem brilleraði á sýningunni í gær þar sem hann lék af tærri snilld og söng Allt fyrir ástina. Kvenfólkið í fjölskyldu hans (í meiri hluta eins og alltaf) plús afi og pabbi hans fylltist stolti þegar drengurinn steig nýklipptur og spangarlaus á svið, eins og snýttur út úr nös á mömmu en hafði þó yfir sér sama sjarmann og pabbi hans. Svo vel upp alinn, góðhjartaður og vel skapur í alla staði.

Ég sé þann dag fyrir mér þegar hann hefur lokið hraðbraut, útskrifast úr leiklist og leikið aðalhlutverkið í kvikmynd sem Davíð frændi framleiðir og Valdís frænka klippir. Hann mun stíga á stokk á frumsýningu og þakka móður sinni og systrum tveimur, en án þeirra hefði hann ekki orðið sá maður sem hann væri í dag, þær væru allar kjarnakonur og hefði hann alist upp í faðmi þeirra, sem blómi í eggi og ætlaði hann sér í ókominni framtíð að skýra dóttur sína því nafni sem aðalkonurnar í lífi hans bera allar, Rós.

Ég tárast. 


Hvað er í gangi?

Það hefur engin skrifað athugasemd við síðustu fjórar færslur! Óvenjulegt.

Mamma benti mér á að ég hafði skrifað 'sýna' með einföldu í einhverri færslunni. Svona villu myndi ég aldrei gera ef ég væri að skrifa á blað. Mér finnst í alvöru heilinn á mér virka öðruvísi þegar ég nota lyklaborð. Hann er alltaf kominn á undan mér. Ég held til dæmis að ég hafi verið að hugsa um orðið 'mínum' sem kom seinna í setningunni (sýna stelpunum mínum) og þess vegna skrifað með einföldu. Eða eitthvað álíka. Ég hef allavega aldrei átt í vandræðum með einfalt og ufsilon.

Mér líður ekki vel með þetta. Ímyndið ykkur að þið mynduð finna einhvern óeðlilegan hnúð á öðrum fótleggnum. Þið væruð viss um að hann væri ekki hættulegur en samt sem áður væri hann óútskýranlegur og pirrandi. Þannig líður mér þegar ég geri undarlega stafsetningarvillu á blogginu.

Sprundin er lasin. Ég er ógesslega leiðinleg og banna henni að anda með opin munn nálægt mér svo ég smitist ekki. Það er hins vegar nær ógerlegt fyrir greyið þar sem nefið er alveg stíflað.

Innskot: Elísabet Rós systir rifjaði upp fyrir mér í fyrradag að grey þýðir útriðin hundstík. Kannski óþarfi að kalla konuna sína það. Ekki það að útriðnar hundstíkur eiga alveg örugglega bágt.

Sprundin kom heim úr skólanum á mánudagsmorguninn (rétt eftir að ég var búin að blogga síðast)og rétt hafði það upp stigann inn í íbúðina. Hún lagðist svo undir sæng og svaf til sex um kvöldið. Ég og Rakel vorum hins vegar úti að leika okkur og nýttum frídaginn okkar vel saman.

Tókum strætó niður í bæ og fórum út hjá Háskólanum. Rakel skottaðist með mér að skila verkefni í Nýja-Garði og svo löbbuðum við niður á Austurvöll og fórum í vinnuna til mömmu. Hún bauð okkur í hádegismat með hinu Alþingisliðinu og gaf okkur ís í eftirrétt.

Meðan ég drakk kaffi á skrifstofunni hennar mömmu sat Rakel og skrifaði. Hún er svo mikill snillingur, blessað barnið. Hún heldur eins á blýanti og ég. Hún er þriggja ára! Það þarf að kenna mörgum börnum í sex ára bekk að halda rétt á blýanti. Svo skrifaði hún og sagði stafina og orðin sem hún var að skrifa upphátt. Hvert orð samanstóð af misstórum hringjum. Þetta var glæsilegt hjá henni og mamma hengdi myndina upp hjá sér, alveg að rifna úr stolti yfir rauðhausnum sínum.

Innskot: Ég sit hérna í tölvuverinu í Árnagarði og þykist vera að hlusta á aukatíma í forna málinu á netinu. Það er hins vegar mjög erfitt þegar ég er að blogga um leið ...

Ég og snillingurinn fórum svo og keyptum brauð og gáfum öndunum. Héldum því næst út á stoppustöð, valið stóð á milli þess að taka einn strætó upp á Hlemm og skipta svo eða labba aftur út í Háskóla. Við gerðum það og undrabarnið sýndi engin merki um þreytu þrátt fyrir allt labbið. Eða skoppið í hennar tilfelli. Ég var oft við það að fara úr axlarlið þegar ég leiddi hana þar sem hún tók sífelllt einhverjar skyndilegt dýfur og hoppaði og prílaði upp á allt sem á vegi hennar varð. Hún fékk að leika lausum hala, eins mikið á hægt er niður í miðbæ, og naut sín í botn. Hún var samt orðin lúin í strætó á leið heim, sagði varla orð en það gerist bara þegar hún er orðin mjög þreytt, annars stoppar hún ekki í malinu.

Við ákváðum að fara bara heim til mömmu og gefa lasaranum frið heima. Gripum því bara eitthvað dót þegar við komum heim og vorum svo farnar aftur. Við fórum í sturtu heima hjá mömmu og svo eldaði ég nokkra lítra af grjónagraut á meðan Rakel lék sér. Hún kvartaði yfir þreytu og þurfti aðeins að pústa í mammíarfangi áður en hún gat haldið áfram að leika sér. Það er hægt að segja að hún hafi sofnað vel, litli ástarengillinn minn.

Sprundin var alveg jafn slöpp í gær, hef sjaldan séð hana svona lasna og vona og bið til guðs að ég smitist ekki, má ekki alls ekki vera veik í próflestrinum sem byrjar á morgun. Á morgun. Ég trúi þessu ekki. Get ekki sagt að ég sé í einhverjum próflestragír.

Allavega. Við horfðum á spólu undir sæng og svo skreiddist hún í skólann og ég lærði. Hún ætlaði að nýta flest kvöld þessarar viku til þess að leggja lokahönd á kommmóðu sem hún er að smíða í einu námskeiðinu. Heilsan hefur hins vegar ekki leyft það. Hún var alveg búin á því eftir tímann í gær og hafði enga orku til þess að smíða meira. Hún kom því bara heim í konufaðminn sem gerir allt betra.

Klukkan sex í kvöld er sýning hjá Einsa bró í Sönglistinni. Núna er hann kominn í framhaldshóp og það verður gaman að sjá  framfarirnar hjá honum. Hann losnaði við spangirnar í gær og mamma ætlaði eitthvað að snyrta á honum krullulubbann svo ég er viss um að hann verð glæsilegur í kvöld. Hrund kvíðir því að yfirgnæfa krakkana á sviðinu með hnerrum og snýtingum. Hún vill þó ekki missa af þessu.

Svo er aldrei að vita nema við kíkjum vestur á Snæfellsnes um helgina, á Malarrif, besta stað í heimi. Ég er búin að reikna nákvæmlega út hvað ég þarf marga daga í mesta lagi til að læra fyrir prófin og hef komist að því að ég ætti að hafa efni á því að kíkja í sumarbústað. Ætla nú samt að hafa með mér efni til að lesa svo mér líði betur.

Róandi rödd Jóns kennara er eins og lækjarniður í eyrum mér og bara ansi gott að skrifa með hann berandi fram hina undarlegustu forníslensku.

Skólinn að verða búinn. Er að fara í síðasta tímann. Tilfinningin 'ég skil ekki neitt í neinu og hvað er ég eiginlega búin að vera að gera í öllum þessum tímum og ég á eftir að falla í öllu af því að ég er hvorki góð í spænsku né íslensku' er að færast yfir mig.

Eða kannsi ég sé bara svöng.

Best ég fái mér eitthvað að borða um leið og Jón Axel er búinn að tala.

 


Síðustu dagarnir ...

... í skólanum framundan. Ótrúlegt.

Við höfðum það gott um helgina, Rakel í sveit með pabba sínum og við kyrnur hér heima. Vorum boðnar í partý á föstudagskvöldið en þreytan eftir vikuna varð viljanum til að fara yfirsterkari og við sátum heima og spjölluðum. Vorum komnar snemma í bólið sem er alltaf gott.

Hrund fór í skólann á laugardagsmorguninn og ég mamma þeyttumst um allt og útréttuðum. Fengum okkur svo brunch á Gráa kettinum og litum inn á magnaða myndlistarsýningu hjá Óla Lár, pabba hans Davíðs frænda. Fórum líka í Ikea og mamma keypti það sem hana vantaði. Núorðið ýtir maður Ikeaferðum á undan sér. Þetta er svo út í rassgati eitthvað. Hér áður þegar verslunin var í Holtagörðum fór maður alltaf einn hring eftir að hafa keypt inn í Bónus.

Hrund eyddi kvöldinu hjá mömmu sinni og ég hjá minni. Alltaf gott að fá tíma í sitthvoru lagi og láta mömmurnar dekra við sig. Í staðin eyddum við spúsan sunnudeginum saman og höfðum það ótrúlega kósý. Vorum vaknaðar snemma og náðum okkur í spólur og ís og héldum heim. Fengum okkur indverska súpu og brauð og ísinn í eftirrétt. Horfðum á sjónvarpið og stússuðumst og fyrr en varði var Rakelin komin heim.

Eftir kjötbolluát var Rakel svo illt í maganum, sagðist hafa borðað grjót. Verkurinn fór eftir strokur og loforð um tvær bækur fyrir svefninn. Hrund fór með hana inn í rúm og söng og bað bænir. Ég leit inn og sá Hrundina krjúpa á gólfinu við rúmstokkinn og knúsa krílið. Gat ekki setið á mér og lagðist á bakið á Hrund og faðmaði stelpurnar mínar báðar í einu. Rakel var fljót að stoppa það: 'Hey, mammí, bara einn í einu, fyrst mamma, svo þú.' Ok, ok. Fyndið hvernig hún byrjar allar setningar á Hey!

Mamma og Edda frænka komu aðeins í heimsókn um kvöldið sem var mjög skemmtilegt. Á meðan Hrund dúllaði sér í tölvunni bjó ég til heimagert bodyscrup. Lífrænt bodyscrub er svo dýrt og en þar sem við notum bara lífrænar snyrtivörur kom ekkert annað til greina. Ég ákvað því að malla þetta sjálf. Setti himalayasalt í krukku og bætti lífrænni möndlu- og ólívuolíu út í. Bætti svo olíum frá Kollu gras út í (hver olía hefur sína lykt og sinn mátt) og voila: ilmandi og heilnæmur skrúbbur tilbúinn.

Ætla í sturtu í kvöld og skrúbba mig frá toppi til táar.

Þar sem prófin eru að byrja og ég ekki í skólanum í dag, ákvað ég að eyða deginum með Rakel. Hef svo lítinn tíma fyrir hana í prófunum svo það er um að gera að nýta tímann þangað til. Við erum búnar að borða og klæða okkur og hún bíður óþreyjufull inn í herbergi eftir því að komast út. Ætlum að taka strætó niður í bæ og fá okkur hádegismat með mömmu, gefa öndunum brauð og eitthvað fleira.

Mér er ekki til setunnar boðið, adios. 


Pínupistill

Þetta hefur verið erilsöm vika, eða þannig, vorloftið fyllir fjölskylduna atorku og gleði svo löngunin til að hanga heima eftir daginn er ekki mikil.

Rakel fór til pabba síns á mánudaginn og ég lærði á meðan Hrund var í skólanum. Hún var að heiman frá 17 til 22 svo ég hafði íbúðina út af fyrir mig. Það er allt öðruvísi að vera ein heima og geta gert það sem ég vil heldur en að vera heima að læra. Þá er ekkert í boði að dúlla við sig. Ég naut mín því í botn, búin að læra, enginn barnarass að þrífa eða kvöldmatur að elda og ég gat verið ein með hugsunum mínum. Fékk mér samloku í kvöldmat, dúllaði mér í tölvunni, sýslaði eitthvað og horfði á sjónvarpið. Yndislegt.

Það var líka yndislegt að fá konuna heim. Ekkert eins gott og að liggja í kuðli upp í sófa með henni, allar flæktar saman. Og ekkert eins skemmtilegt og láta hana fríka út með því að horfa á hana. Hún bara höndlar það ekki þegar ég glápi svona ástaraugum (eða stíðnisaugum á hana). Augun fara að flökta og hún roðnar af feimni, svo þurrkar hún sér um munninn ef vera skyldi að einhverjar matarleifar væru þar, fingurnir fara á flakk og hún byrjar að klóra sér og dæsa af óöryggi. Þetta er sætast í heimi. Mér finnst æðislega krúttlegt að hún skuli enn þá verða feimin við mig eins og þegar við kynntumst fyrst.

Við kíktum í heimsókn til tengdó á þriðjudaginn, sníktum spjall og pizzur og Rakel brunaði um húsið á plastbílnum sínum (sem guði sé lof er ekki pláss fyrir heima, það eru bölvuð læti í honum). Á miðvikudaginn var veðrið slíkt að það kom ekki til greina að fara heim og fórum við í staðinn niður að Tjörn og gáfum aggresívum gæsum og scary svönum brauð. Vorum í lífshættu á tímabili og Rakel kvartaði yfir því að komast ekki að vatninu til að gefa öndunum (vegna óðra, hvæsandi gæsa sem Hrund var farin að stugga ansi harkalega í burtu á endanum). Fengum okkur kvöldmat á Icelandic fish and chips sem var guðdómlega gott. Fyrir þá sem ekki vita er allt hráefni lífrænt, fiskurinn steiktur upp úr repjuolíu og deigið búið til úr bankabyggi. Svo er hægt að fá ofnbakaðar kartöflur eða laukhringi og margar tegundir af salati með, skyronessósur (búnar til úr skyri, ekki majonesi), heimatilbúið límonaði og rjómalagað skyr með fíkjum eða berjum í eftirrétt. Og verðið er viðráðanlegt.

Haldiði svo að ég hafi ekki unnið 25% afslátt af mat á staðnum á Núinu áðan.

Í gær var ömmu- og afadagur á leikskólanum og fékk Rakel mæðraömmur sínar í heimsókn. Við Rakel fórum svo til ömmu sem er alltaf notalegt og núna er helgin framundan.

Ljúfa líf, ljúfa líf.

Annars réðst á mig aspassúpa á miðvikudaginn. Var búin að hella sjóðandi vatni í bolla og hellti duftinu úti (þetta var bollasúpa). Gaus þá ekki upp sjóðheitur aspasstrókur og lenti á mér og allt um kring. Í gær opnaði ég skápinn fyrir neðan slysstaðinn og fann aspassúpu í plastboxi sem og þornaðan aspassúpublett á hillunni. Það var aðeins lögg eftir í bollanum að gosi loknu. Mér finnst að það ætti að vara við þessu á umbúðunum.

Farin í tíma. Góða helgi.


Viðbjóður

Mæli með því að þið farið inn á vefritid.is og lesið grein Evu um mannréttindabrotin í Tíbet. Djöfulsins, helvítis viðbjóður alltaf hreint. Afsakið orðbragðið.

Engin skepna leggst eins lágt og maðurinn. Værum við vara sem væri nýkomin á markað værum við bönnuð hið snarasta. Innihald okkar er stórhættulegt okkur og öðrum.

Eitt sinn vorum við lífrænt ræktuð. Nú samanstöndum við af kemískum efnum og kemískum efnum einungis. Við brotnum ekki einu sinni niður í náttúrunni, svo fjarri erum við henni. 

Við lifum eins og sníkudýr hvert á öðru.

Við eigum að skammast okkar.

Annars eru komnar nýja myndir inn á rakelsilja.barnaland.is. Þið sem viljið lykilorð, sendið mér póst á drr1@hi.is 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband