Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Trú og trúboð

Verður nokkuð allt vitlaust ef ég set þetta hérna inn ... Nei, nei.

Hvað finnst ykkur um ályktunina um samskipti leik-og grunnskóla við trúfélög sem meirihluti Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar (eða fulltrúar í því) hefur lagt fram?
 
Bara svona að velta þessu fyrir mér. Sjálf er ég trúuð en ég vil ekkert með kirkjuna hafa og vil ekki sjá trúboð í skólum og leikskólum. Ég vil fá að sjá um trúaruppeldi barna minna sjálf. Þetta stuðar Hrund líka mikið enda er hún trúlaus með öllu. Ég var mjög lengi að komast að því hvort ég tryði og á hvað ég tryði og ákvað í framhaldi af því að segja mig úr Þjóðkirkjunni. Svo er þetta alltaf að þróast. Ég hætti að biðja bænir með Rakel og ætla ekki að kenna Röskvu neinar og svo signi ég þær ekki lengur, kyssi þær á ennið í staðinn og lít á það sem alla þá vernd sem ég get boðið þeim. Mér finnst allt í lagi að þær læri bænir við Hrund ætlum ekki hafa það sem hluta af kvöldrútínu að fara með þær. Við getum alveg beðið saman um styrk eða gott til handa góða fólki en þá verður það með okkar eigin orðum. Annaðhvort iðka ég trúarbrögð eða ekki og ég ætla ekki að gera það. Ég vil auðvitað fyrir allan muni að börnin mín læri um allt milli himins og jarðar en ég vil bara að það sé ljóst að sumir trúi einhverju og aðrir öðru, það er ekkert eitt réttara en annað.
 
Rakel er algjörlega heilaþvegin af trúboðinu sem fór fram í leikskólanum hennar og við mamma hennar vorum hreinlega of seinar að kippa henni út úr þessu öllu. Kona er svo vön þessu. Svo er auðvitað glatað að maður þurfi að gera það. Vera heima með barnið því það er það eina í stöðunni ef maður vill ekki að það fari í kirkju. Svo kom líka prestur sem talaði um Jesú og ég veit ekki hvað, ýmislegt bara sem ég trúi ekki á.
 
Ég vil ekkert endilega að dætur mínar trúi því sem ég trúi eða verði trúlausar. Ég vil bara að þær fái fresli til að velja sjálfar og mér finnst þær ekki fá það eins og staðan er í dag.
 
Ég vil heldur ekki leggja af jólaball og jólaföndur og svoleiðis en ég vil ekki hafa jólahelgileik þar sem Rakel leikur Jesúbarnið. Hún má (og ég vil það) gjarnan læra um guð og jésu og kristni yfir höfuð og hvaða áhrif hún hefur haft á menningu okkar og hvað hún spilar stórt hlutverk, ég vil bara ekki að trúin sé boðuð umfram aðrar.
 
Ég var svo roooosalega lengi að móta mér mínar eigin skoðanir og þær eru enn í mótun. Við Hrund vorum t.d. að pæla í gær hvað við ættum að gera með aðventukransinn þar sem hann vísar beint í trú. Ég vil gjarnan hafa hann áfram og við getum gefið honum þá merkingu sem við viljum, niðurtalning í jólin, hátíð ljóssins fyrir okkur. Það er oft svo erfitt að greina á milli menningarlegrar hefðar og trúar ...
 
Ég ólst alls ekki upp við neitt trúaruppeldi þótt amma hafi kennt mér bænir og svona. Ég lærði hins vegar óhemju mikið af kristinfræði, fékk gefins Nýja testamentið, fór í kirkju, hlustað margoft á presta í skólanum og fór í fermingarfræðslu á skólatíma. Sem sagt ólst upp í kristinni trú og var heillengi að brjótast út úr viðjum vanans.
 
Ég veit bara að ég verð pirrandi mamman í skólanum og leikskólanum ef þetta heldur svona áfram, get ekki sætt mig við kirkjuferðir og þvíumlíkt. Ekki frekar en að börnunum sé gefið snakk og ís þrjá daga í röð þegar það er afmæli í leikskólanum, vil bara ekki láta taka fram fyrir hendurnar á mér.
 
Efast ekki um að margir séu ósammála og það er líka allt í fína:)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband