10.11.2008 | 15:53
Freytt
Úff, já ég er svo þreytt. Er aldrei jafn þreytt og eftir helgar. Annaðhvort sef ég ekkert út af djammi eða morgunhressum rauðhaus. Eða bara bullinu í hausnum á mér. Æ, #geisp#
'Augun mín lýsa í myrkri' tilkynnti rauðhaus okkur Hrund í gær.
Noh!
'Og þegar ég snerti puttann minn þá fæ ég straum.'
Aldeilis rafmagnað barn.
Hún sagði okkur líka að köngilær væru ekki með lýsandi augu (ekki skrítið miðað við hvað Rakel finnst þær ljótar og leiðinlegar).
'Þær sjá ekkert í dimmunni, bara í morginum.'
Ég skil. Í morginum.
Í gær þegar búið var að lesa og syngja og signa og kyssa og allt það dró hún skyndilega lítinn fót undan sænginni.
'Ég er með straum í fótinum' kvartaði hún og ég nuddaði og strauk og kyssti allar litlu tærnar.
'Af hverju ertu með straum í fætinum' vildi ég vita. ' Ertu að meina að þú sért með náladofa' spurði ég.
'Nei, ég er með straum í honum' (stupid ég).
'Hvernig fékkstu hann' vildi ég þá vita.
'Ég var bara að gera mitt besta og þá fékk straum í'ann'
Það er nefnilega það. Hún var bara að gera sitt besta barnið.
Sat hér heima á föstudagskvöldið og lærði í gríð og erg. Drakk tvo litla bjóra við ritstíflu og var hörkudugleg. Hrund var að líma eða smíða eða eitthvað fyrir mömmu sína á verkstæðinu. Horfðum á vin minn Wallander leysa morðgátu þegar hún kom heim og fórum svo að sofa. Svo þreyttar og gamlar.
Snúsuðum aðeins á laugardagsmorguninn en drusluðum okkur svo á fætur og drukkum kaffi. Hrund fór aftur á verkstæðið og ég lærði (ji, en spennandi líf). Við tókum okkur svo til og fórum á árlegt dekur og djamm hjá Léttsveitinni með mömmu og Rósu og tengdó. Vorum búnar að opna einn kaldan um þrjú og héldum svo bara áfram í rólegheitum eftir það.
Fórum heim eftir dekrið og Tryggvi og Katla, kærastan hans, bættust í hópinn. Fórum svo aðeins til Rósu og þar á eftir niður í bæ. Það var bara svaka fjör. Drama líka að sjálfsögðu. En fjör. Annars verður líka fínt að taka sér drykkjupásu þegar prófin byrja.
Ég og Sprundin þurftum svo mikið að tala og bauka eitthvað að við vorum ekki að sofna fyrr en upp úr sex um morguninn. Vorum samt bara hressar í gær. Gengum frá þvotti, vöskuðum upp, horfðum á sjónvarpið, drukkum kaffi, hlustuðum á Bob Marley og kveiktum á reykelsi, föndruðum og lærðum.
Fengum Rakelina okkar heim, skveruðum okkur upp, keyptum blóm og fórum til tengdó sem var afmælisbarn dagsins. Borðuðum kjúkling og höfðum það kósý.
Hrund fór svo að smíða og ég eitthvað að dingla mér. Horfðum svo á Hulk og borðuðum ís og fórum allt of seint að sofa.
En halelúja. Náði loks að byrja á ritgerðinni í dag. Það er alltaf erfiðast að skrifa fyrstu efnisgreinina en núna er ég búin með hana. Stefni á að klára svona 3-5 bls. í þessari viku. Komaso.
Sjitt, verð að fá mér kaffi, er handónýt hérna.
Er bara komin með valkvíða yfir fuglum og búrum og eitthvað. Vil samt grænan gára, held bara einn frekar en tvo (en við erum samt ekki alveg búnar að ákveða okkur) og væri til í að sjá búrið hennar Gunnsu áður en við tökum öðrum tilboðum.
Rakel á eftir að tryllast úr gleði þegar hún sér gaukinn. Það er spurning hvort hann verði jafnoki hennar, krakkinn þagnar sjaldan (talar meira að segja upp úr svefni) og hef grun um að það sé svipað með fuglinn.
Það verður bara bla bla bla allan daginn.
Flott.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.11.2008 | 15:37
Gleði og glaumur
Í gær bauðst kona/stelpa, sem þekkir mig aðeins í gegnum spjall á netinu, til að gera ótrúlega fallegan hlut fyrir mig og Hrund (ég get ekki sagt hvað það er, ekki enn þá allavega svo þið verðið bara að vera forvitin). Þessa ókunnugu konu langaði til að hjálpa mér bara af því bara sem er yndislegt. Á tímum kreppu og bara hvenær sem er.
Gyða er búin að lána okkur fuglabækur og búin að bjóðast til að lána okkur búr og hitt og þetta og myndi líklega gefa mér annan fótinn á sér ef ég bæði hana um það ... Nei, segi svona, en hún er algjört gull þessi stelpa.
Tinna er líka búin að bjóðast til að lána okkur búr og Arna til þess gefa okkur fugla.
Ég þarf nú ekki að nefna mæður okkar sem ávallt bera okkur á höndum sér.
Í dag sagðist leikskólastjórinn á leikskólanum hennar Rakelar jafn vel vera búin að redda Hrund vinnu ef hana vantaði eina enn þá.
Kristín hlustar endalaust á röflið í mér og Hlíf stappar í mig stálinu þótt hún sé sjálf að drukkna í vinnu og bara öllu sem fylgir lífinu.
Katlan fylgist vel með okkur og gleðst fyrir okkar hönd og Oddný er alltaf alltaf alltaf á sínum stað.
Svo á ég yndislega fjölskyldu.
Þetta er bara allt svo yndislegt að ég leyfi mér að vera væmin svona síðdegis á föstudegi.
Svo má ég ekki gleyma að ég á konu sem dýrkar mig og fullkomið barn sem er svo fyndið að ég hef aldrei vitað annað eins. Í gær sagði gullið mitt:
'Mér er svo freytt að halda á þessari sleipu'
Hún hafði verið beðin að halda á sleif þar sem hún sat við eldhúsborðið og fylgdist með mér, Rósu og Hrund að stússast. Hún tók hlutverk sitt alvarlega og hélt sleifinni á lofti (datt ekkert í hug að leggja hana bara á borðið). Undir lokin var hún orðin svo óskaplega þreytt af því að halda á henni, blessað barnið, og því fegnust þegar hún fékk leyfi til þess að leggja hana frá sér.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.11.2008 | 16:13
Algjört kraftaverk!
Já, það er sko algjört kraftaverk að Sprundin skuli vera KOMIN MEÐ VINNU á þessum síðustu og verstu. Hún byrjar á mánudaginn á leikskólanum Maríuborg og við gætum ekki verið sáttari. Takk fyrir allan stuðninginn elskurnar mínar, ég hefði ekki getað þetta án ykkar þótt þetta hafi verið stutt tímabil. Áttaði mig á því hversu mikil áhrif þetta hefur haft á mig þegar Hrund hringdi í mig áðan til að segja mér fréttirnar. Ég titraði og skalf og var nær brostin í grát, kunni ekki alveg við það þar sem við vorum nokkrar heima hjá Gyðunni. Núna get ég einbeitt mér að náminu og skrifað eitt stykki ritgerð.
Við ætlum að panta okkur pizzur á eftir á Rizzo (fancy í tilefni dagsins) og fá okkur boozt í eftirrétt (sem ég er með æði fyrir núna, úr því að ég er búin að ná í matvinnsluvélina/blandarann er ég ekkert að fara að setja græjuna upp á hillu aftur). Rósa ætlar að kíkja á okkur og gleðjast með okkur og við ætlum allar að jólagjafastússast eitthvað.
Svo vorum við Hrund búnar að ákveða að gefa Rakelinni páfagauk í afmælisgjöf (mig hefur langað í páfagauk í mörg ár) ef Sprundin fengi vinnu og þar sem sú er raunin fjölgar líklega í fjölskyldunni í desember. Gyða er búin að lána mér úber kúl fuglabækurnar sínar svo núna getum við undirbúið okkur.
Gaman, gaman!
Ég geri mér vel grein fyrir því hversu lánsöm fjölskylda mín er og ég þakka fyrir það á hverju kvöldi áður en ég loka augunum.
Ég samdi eitt lítið ljóð í tíma áðan eftir að hafa fengið þessar gleðifréttir frá spúsunni:
Eins og ofurlétt snerting engils
á vanga
er fögnuðurinn
uppfullur af létti
Besos
4.11.2008 | 09:13
Litla ljósið
Litla ljósið mitt er svo sannarlega gleðigjafi í lífi mæðra sinna.
'Mammí, þessi hyrningur, á hann þetta skott, þessi hyrningur?'
Já, Rakel mín, þetta er sporðurinn á háhyrningnum.
Nú er Rakelitan mín orðin svo stór að við erum búnar að stækka rúmið hennar (vorum með það í minnstu stillingu og erum núna með það í annarri af þremur). Við fengum kodda hjá mömmu og dúnsæng hjá Valdísi móðu og svo lumaði mamma á einum Mulanrúmfötum og einum með myndum af Kardemommubænum síðan systkini mín voru lítil. Litla, dekraða ömmubarnið fékk svo líka glæný rúmföt, sérvalin í Ikea frá mömmu og hefur því nú allt til alls. Við fórum líka í gegnum allt dótið hennar og týndum úr óþarfa og röðuðum því sem eftir var upp á nýtt. Rauðhaus lítur út eins og lítil baun í þessu stóra rúmi með þessa stóru sæng í þessu fullorðinslega herbergi. Og bráðum verður hún 4 ára. Og svo heimtar hún tvö systkini þessa daga. Júlíus einn og sér dugir ekki lengur. Bráðum Rakel mín, ef guð lofar, bráðum.
'Sjáðu mammí sængina mína, ég er með svo fína gúmmísæng'
Hu?
Það endaði með því að hún dró skilningslausa mammí inn í herbergið sitt og benti á sængina sem sást glitta í innan í rúmfötunum. 'Gúmmísæng!!!!'
Já, Rakel mín, ég skil, þú átt við að þú eigir dúnsæng. Það mun vera rétt.
Anginn minn fór svo að skæla í gær þegar ég sagðist vera að fara í ræktina og að amma myndi koma og lesa fyrir hana. 'Mér finnst svo leiðinlegt að þú farir' grét hún eins sæt og hún gerist með úfið hár, skeifu á fínu vörunum, í einum sokk og hálf í nærbuxunum enda á leið í bað. Ég lofaði henni því að amma myndi lesa eina bók fyrir hvert ár sem krílið hefði lifað og sættist hún að lokum á það.
Annars er ég ekki enn byrjuð á ritgerð sem ég á að halda fyrirlestur um og skila núna í nóvember. Það hefur aldrei aldrei aldrei gerst áður að ég hafi ekki verið byrjuð á ritgerð á þessum tíma. Ég er eitthvað biluð. 12 blaðsíður á spænsku. Heimildaritgerð. O my lord. Best að fara að hlusta á tónlist bara.
Hrund segist trúa því að við munum komast í gegnum þessa erfiðleika bara ef ég fer ekki yfir um. Ég get ekki lofað neinu en ég skal reyna.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.11.2008 | 18:38
...
Ég held ég þurfi að fá eitthvað kvíðastillandi
Ég get ekki lært
Ég get ekki hugsað
Ég get ekki sofið
Ég er dauðhrædd
Ég er ekki viss um að ég geti þetta
Ég veit að ykkur finnst ég öll svaka skipulögð og skynsöm og ráðagóð og að við munum komast í gegnum þetta.
Óttin er samt eins og eldhnöttur í maganum.
1.11.2008 | 20:40
Kreppudagur
Já. Kreppan er eitthvað að reyna að læsa krumlum sínum í Skipasundsstelpurnar. Sprundin og allir á hennar verkstæði (sem eru um 5-6 manns) eru búin að missa vinnuna. Þetta er auðvitað pínu sjokk en það dugar ekkert annað en að vera jákvæður og trúa og vona. Við trúum og vonum að hún muni fá vinnu sem fyrst og að allt verði í lagi. Sem betur fer eigum við góða að, erum hraustar og elskum hvor aðra. Var að horfa á fréttir áðan og fór næstum að grenja þegar talað var um að kannski þyrfti að leggja niður hjálparstarf Íslendinga í Afríku, það væri hræðilegt.
Mér er hlýtt, ég er södd og ég er elskuð. Það dugir manni ansi lengi.
Vildi bara láta ykkur vita.
Og ef þið vitið um vinnu þá hafið þið bara samband.
30.10.2008 | 11:41
Smá mont
Æ, nú verð ég bara að monta mig pínu, er bara svooo glöð. Rakel Tanja frænka mín, forkunnarfagra og feikna klára (enda skyld mér) var að senda mér tölvupóst. Játaði þar á sig að lesa bloggið mitt og finnast skrifin æði. Játaði líka að hafa notað ljóð, sem ég skrifaði á bloggið einhvern tímann, í íslenskutíma í Kennaraháskólanum, sem dæmi um órímað ljóð án stuðla og höfuðstafa. Kennarinn var svona líka hrifinn af ljóðinu og vildi vita allt um mig og vildi að frænka mín kær skilaði því til mín að ég þyrfti nauðsynlega að gefa út ljóðabók. Vei, vei. Þetta er kannski ágætt spark í rassinn því ég á haug af ljóðum heima, alveg nóg í bók, og er bara að bíða eftir trúnni á sjálfa mig því þá ætla ég að sjóða saman eitt stykki bók og reyna að gefa hana út. Mér finnst bara svo gaman þegar fólk hrósar mér fyrir skrifin mín því þau eru mér hjartans mál og mér eins nauðsynleg og að draga andann. Eruði ekki stolt af mér?
Annars fór ég í afró í gær og mikið svaðalega var það gaman. Núna eru allar konurnar og stelpurnar sem byrjuðu af krafti í átaki í september búnar að gefast upp og aðeins hardcore lið á borð við sjálfa mig eftir. Loksins er því hægt að gera flóknari spor og dansa meira í stað þess að eyða öllum tímanum í að kenna örfá spor þeim sem eru nýjar (sjitt, geðveikt hrokafull eitthvað). Trommarinn var veikur í gær svo núna reyndi fyrst á að dansa eftir tónlist sem er mun erfiðara. Það er erfiðara að finna taktinn og skipta um hreyfingu á réttum tíma. Ég upplifði algleymi og brjálaða nostalgíu. Það er svo gaman að dansa og þessi tegund af tónlist rifjaði upp svo margar góðar minningar. Mi papito á vini frá hinum ýmsu heimshornum og ég man eftir nokkrum frá Vestur-Afríku síðan ég var krakki. Ég var krúttibolla og skemmtileg og þeir dýrkuðu mig jafn mikið og pabbi. Og gáfu mér jafn mikið af tónlist og hann. Ég get svo svarið það að sum lögin sem við hlustuðum á í gær á ég á 20 ára gömlum kasettum heima.
Tónlist hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og ég hlustaði ekki á neitt nema salsa (og hina ýmsu afrísku tónlist) þangað til ég var að verða 12 ára. Mamma er fædd í vitlausri heimsálfu, talar spænsku eins vel og móðurtunguna, verður svört í sólinni sem hún fær aldrei nóg af og veit ekkert eins skemmtilegt og að hlusta á og dansa við salsa. Ef hún hlustaði á tónlist þegar ég var lítil var það salsa á kasettum sem hún kom með heim frá Svíðþjóð. Þegar ég var hjá pabba á sumrin vaknaði ég og sofnaði við salsa. Við hlustuðum á tónlist allan daginn og byrjuðum morgnana á því að taka smá dans. Pabba lyfti mér upp á háhest og ég upplifði taktinn í hreyfingum hans. Hann dró fram dillið í mínum hálf-latinomjöðmum og snéri mér í hringi um alla stofuna. Við vorum berfætt, hann með sínar dökku krullur og ég með mínar ljósbrúnu. Þessar stundir eru meðal þeirra sem ég held mest upp á.
Pabbi gaf mér hárautt kasettutæki í afmælisgjöf þegar ég var fimm ára. Þá gat ég byrjað að hlusta á mínar eigin kasettur í mínu eigin tæki. Í mörg ár (þangað til ég uppgötvaði, Blur, útvarp og geislaspilara) byrjaði ég alla laugardags og sunnudagsmorgna á því að koma tækinu fyrir uppi í rúmi og hlusta á mitt salsa á meðan ég las frá mér allt vit eða dúllaði mér eitthvað. Þótt tónlistarsmekkur minn hafi orðið þróaðri með árunum lifi ég ekki af heila viku án þess að dansa smá salsa og hlusta á smá salsa. Kasetturnar frá pabba hafa orðið að geisladiskum og ég á heilan haug af þeim. Nú er það ég sem tek rauðhausinn minn í fangið svo hún geti upplifað taktinn í gegnum mig. Og það sem henni finnst það gaman.
Og þetta mun vera ástæðan fyrir því að ég kann engin íslensk dægurlög. Það var einfaldlega ekki hlustað á þetta heima hjá mér. Þau lög sem ég kann hef ég lært eftir að ég varð tvítug. Oddný og Hrund hafa stundum misst andlitið yfir mér þegar við höfum verið að spila á gítar og syngja og ég kann ekki rass í bala. Og finnst flest lögin bara alveg hundleiðinleg.
Það er bara svo sérstök tilfinning að alast upp við einhverja eina ákveðna tegund af tónlist, hún verður hluti af þér. Ég get ekki einu sinni lýst fyrir ykkur kikkinu sem fylgdi því að fara í fyrsta skipti til Nicaragua og dansa salsa við föðurbróður minn. Þetta var bara eins og að koma heim.
Ég er sko Íslendingur í húð og hár en ég er ekki minni latina fyrir vikið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.10.2008 | 11:40
Kannski komið að því
Ætli það sé ekki komið að því að blogga. Ég hef eiginlega ekki haft kjark í það í smá tíma. Ég er bara búin að vera svo steikt í hausnum að ég hef ekki treyst mér til þess að skrifa. Mælt mál hefur brugðist mér sem og skrifað. Ég tala um að draga að landi þegar ég á við að draga til baka og skrifa vigta með k-i. Svo tók mig langan tíma að muna hvernig realismo-mágico er á íslensku. En það verður að hafa það, ég hreinlega skulda ykkur og mér blogg. Mamma hringdi einmitt á sunnudaginn steinhissa á því að ég hefði ekkert bloggað um helgina, hún hafði bara áhyggjur. Kannski hélt hún að ég væri enn á djamminu bara.
Í einum af þeim fáu flíkum sem ég kemst enn í skutlaði mamma mér til Gyðu á föstudaginn. Ég fékk mér einn lítinn bjór og svo fórum við upp í Árbæ þar sem búið var að leigja sal undir Kraptakvöld íslenskunema. Það var, eins og alltaf, mikið gaman, mikið fjör. Og drama.is að sjálfsögðu. Já, ég er greinilega orðin 18 ára aftur, aðeins of full, aðeins of rugluð og umkringd grátandi kvenfólki og áþreifanlegri greddu. En það er bara allt í lagi þótt ég verði stundum pínu uppgefin, og já, heldur steikt í höfði.
Laugardagurinn var ótrúlega krúttlegur og kósý. Við Sprundin báðar létt þunnar og ótrúlega skotnar hvor í annarri. Við vorum bara eitthvað svo mikið að knúsast og spjalla og þrifum svo allt húsið hátt og lágt. Ég er að segja ykkur að eftirtalin ráð svínvirka gegn þynnku:
(skal framfylgja þeim í þessari röð):
drekka vatn og bursta tennur
stunda þynnkukynlíf sem aldrei bregst (annars ættuð þið eitthvað að athuga málin)
hoppa í sturtu
þrífa þrífa þrífa (það er án gríns skothelt ráð)
borða pasta og drekka ískaldan kristal (já eða vatn Gyða og þið hin sem ekki drekkið gos)
hlusta á tónlist
Eftir að hafa samviksusamlega farið eftir þessu á laugardaginn var ég tilbúin í frændsystkinakvöld (-Davíð sem var í útlöndum). Rósa, Tryggvi og Unnur mættu með öl og vín og tónlist og svo borðuðum við asískan mat (get ekki gefið ykkur nákvæmari lýsingu), spiluðum og spjölluðum. Þetta var reyndar steiktasta spil sem spilað hefur verið. Við vorum bara ekki í sambandi: bíddu, er ég að gera eða?, hver var spurningin?, á hvaða reit er ég aftur? er ég grænn? ég er búin að vera að færa appelsínugulan allan tímann, hvar er helvítis teningurinn? hver á að gera? drííííífa sig maður ...
Við fórum svo öll niður í bæ þar sem við hittum Sprundina. Ég bara fann ekki á mér en varð bara þreyttari og þreyttari og endaði með því að stinga af heim. Djöfuls viðbjóður er að drekka tvo daga í röð. Á meðan Hrund svaf á sínu græna eyra á sunnudaginn spjölluðum við Rósa frá okkur allt vit. Við familían fórum svo í ljúffengt lambalæri til tengdó sem er líka ansi gott í þynnku.
Já, já, ekkert nema áfengi og þynnka hér á þessum bæ. Og endalaus íslenskudjömm. Ætli við Gyða og Kristín (sem er reyndar formaður) séum ekki búnar að fara á nær allt sem er í boði. Píííínu sorglegar. En samt erum við flottastar sko. Æ, maður má nú smá, ég er búi að vera svo stillt og góð í mörg ár. Og er ekkert óþekk núna samt. Æ, ég nenni ekki að tala um þetta.
Að öðru. Rakelita mömmu- og mammíarsál er alltaf jafn yndisleg. Segist dreyma köngulær og sakna okkar þótt við séum heima. 'Kemurðu aftur?' spyr hún alltaf þegar maður bregður sér af bæ. Sagði mér um daginn að Andrea Magdalena og Arnór Ingi væru hennar bestu vinir: 'Andrea er bara alveg sjúk í mér mammí'. Ætli við verðum þá ekki bara að bjóða henni í heimsókn svo hún losni við sýkina.
Að enn öðru. Komst að því að með því að blogga um átröskun (já, maður, ég skrifaði orðið, húrra fyrir mér) gæti ég verið að hjálpa stelpu sem á við hana að stríða. Er það ekki yndislegt? Á ég að segja ykkur leyndarmál? Það er búið að taka mig laaaangan tíma að geta talað um þennan sjúkdóm og þau áhrif sem hann hefur haft og hefur á líf mitt (og annarra). Ég skammast mín svo mikið. Og minn stærsti ótti er að einhvern tímann muni þessi sjúkómur vera notaður gegn mér. Það er bara kominn tími til þess að horfast í augu við þennan ótta helda ég. Mér er það nauðsynlegt.
Það er svo skrítið. Ég var svo viss um að þegar mér loksins tækist að létta mig eitthvað þá myndi ég vera í skýjunum. Og ég var það fyrst. En núna er ég farin að finna fyrir öllum gömlu hugsununum, þeim sem segja mér að þetta sé ekki nóg, ekki nógu gott. Það er bara alls ekki gott. Hreint ekki. En í akkúrat þessu felst hin eilífa barátta. Fyrir mér er ekki það erfiðasta að hætta að svelta sig og æla heldur að byrja ekki á því aftur. Láta ekki undan freistingunni, pína mig til þess að borða eins eðlilega og ég get, minna mig á af hverju ég er að þessu.
Ég gefst ekki upp. Þið gefið mér öll styrk elskurnar mínar. Sumir meira en aðrir og ég er alveg búin að segja það við ykkur. Takk innilega fyrir mig. Ætla núna að fara að fá mér hádegismat.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.10.2008 | 16:01
Hahahahaha
Það er námskeiðsdagur á leikskólanum hjá Rakel í dag svo hún var heima hjá mér í morgun. Pabbi hennar kom og sótti hana á hádegi og þau töltu af stað út í helgina. Næstum. Bjöllunni var hringt og ég hljóp niður. Robbi kominn aftur að ná í gallann hennar Rakelar, ekki veitir af í kuldanum. Hann fer, ég sest. Bjöllu hringt aftur. Robbi mættur með þetta fína glott á andlitinu og ég er ekki frá því að hann hafi roðnað.
Robbi: Ég geri ráð fyrir því að þú hafir ekki ætlað að láta þetta fylgja með'.
Og rétti mér nærbuxur.
AF MÉR!
Gallinn hékk á herðartré á handklæðastandinum inni á baði þar sem ég þvoði hann í gær og hengdi upp til þerris. Hvað þessar nærbuxur voru að gera þarna veit ég ekki. Íþróttbuxurnar mínar héngu þarna líka, var að þurrka þær eftir ræktina í gær (aldrei að setja blaut föt í þvottakörfuna Díana Rós sagði mamma). Ég minnist þess ekki að hafa hengt nærbuxurnar sem ég var í til þerris, hélt ég hefði skellt þeim í þvott. Eða ekki kannski?
Ég: Já, nei, ætlaði ekki að gera það, nei, ok, takk.
Djöfull er þetta ógeðslega fyndið. Hrund sagði þegar ég sagði henni frá þessu:
'Bara verið að reyna við hann'
Já, með sveittum nærbuxum.
Oh my lord.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.10.2008 | 11:18
Feisbúkk
Díses maður. Ég hef bara ekki fundið fyrir eins miklum hópþrýsting síðan ég var í gagnfræðiskóla. Af hverju af hverju af hverju á ég að vera á feisbúkk? Mér finnst þessi endalausu tölvusamskipti krípi. Ég er bara gamaldags og rosalega lengi að taka allt í sátt sem tengist tölvum. Var komin í menntskóla þegar mamma keypti fyrstu tölvuna, var komin í háskóla þegar ég fékk fyrstu fartölvuna, neitaði að blogga fyrr en ég flutti til Costa Rica, vildi aldrei vera á mæspeis og hrýs hugur við að eiga einhverja 200 "vini" sem skoða af mér feitabollumyndir á hverju kvöldi.
Ég er í sambandi við það fólk sem mig langar að vera í sambandi við. "En þú addar bara þeim sem þú vilt hafa sem vini, ignorar hina" segja einhverarnir sem styðja netsamskipti. Á ég þá að adda sex manns eða svo? Sko, ég meira að segja nenni varla að vera á msn. Var með billjón manns á skrá eftir að ég kom heim frá Costa Rica en nennti svo aldrei að vera í tölvunni eða þá að ég var að læra og hafði ekki tíma til að spjalla (ég skrifa þeim bréf sem ég hef áhuga á að vera í sambandi við, enda á það fólk ekki tölvur). Viðurkenni reyndar að það er gaman að hitta Inamovich þarna öðru hverju og Kötluna sem núna býr úti. En annars ...
Hrund er inni á þessu öll kvöld og skoðar myndir og talar við fólk sem hún var með í barnaskóla. Ég bara gæti ekki haft minni áhuga á því. Kannski er ég bara ekki nógu forvitin. Því mín tilfinning fyrir feisbúkk og fólki þar inni er ekki að sú að það sé svo gaman að vera vinir heldur hreinlega að fólk er bara að skíta á sig úr forvitni, vill bara vita endalaust hvað annað fólk er að gera. Þetta er eins og einhver Big brother martröð.
Mér finnst best að tala við fólk augnliti til augnlitis eða í símann og heyra í því röddina. Þótt ég geti ekki lifað án sms-a þá finnst mér það alveg nógu ópersónuleg samskipti og svoooo auðvelt að misskilja skrifuð orð. Ef það væri ekki fyrir alla þessa broskalla (sem ég er í alvöru nýbúin að uppgötva og bjarga miklu þótt það sé heldur grátlegt að geta bara tjáð 6-9 tilfinningar eða svo eða hvað sem þessir kallar eru margir) væri ég bara hætt að nota þessa samskiptaleið. En ég finn að ég nota sms til þess að segja það sem ég er of feimin til þess að segja. Í stað þess að taka á honum stóra mínum og tala bara við fólk um það sem mér liggur á hjarta skrifa ég heilu sms-ritgerðirnar. Ætli ég myndi ekki bara hanga heima og fylgjast með fólki á feisbúkk ef ég myndi láta undan þrýstingnum. Ég myndi bara aldrei þurfa að taka á feimninni og koma mér út, horfast í augu við félagsfælnina, vera innan um fólk og segja það sem mig langar til að segja.
Og eitt. Inam, manstu eftir stalkernum sem var með altari heima hjá sér og tilbað mig, þessi sem þú lést heyra það eitt sinn á Sirkus? Hann myndi örugglega finna einhverja leið til þess að tilbiðja mig á fiesbúkk. Oj.
Æ.
Æ,æ.
Það getur vel verið að ég geri þetta einhvern tímann. En ekki strax. Held að ég fari eftir ráðum Höllu samnemanda og láti ekki verða af þessu fyrir próf. Tímþjófur.
Sjitt, hvað ég er hryllilega gamaldags. Meira að segja Oddný er á feisbúkk. Segi ekki meir. En svona er ég bara. Treysti ekki tölvum.
Eldri færslur
- Janúar 2014
- Október 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Október 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar