Engin grá hár samt

Nei, ég er ekki farin að grána. En líður samt bara eins og öldungi þessa dagana. Var lasin fyrra hluta síðustu viku og komst því ekki í ræktina og eftir svakalegar vinnutarnir og margra klukkutíma setu á óbakvænum stólum Hámu var ég alveg farin í bakinu. Það er fáránlegt að vera 25 ára og hökta um sökum bakverkja. Reyndar var enn þá fáránlegra að vera tvítug og geta ekki klætt mig sjálf sökum bakverkja. En sumst. Komst ekkert í ræktina seinni hluta vikunnar út af brjósklosinu og kom mér ekki einu sinni í afró á mánudaginn síðastliðinn. Í gær fórum við fjölskyldan svo í sund, bæði er Rakel búin að biðja um það 100x og svo er ég enn þá svo slæm í bakinu að ég get ekkert skoppað.

Ég fæ reyndar heilmikla hreyfingu út úr því að hlaupa í strætó. Ég er einhvern veginn alltaf alveg að missa af honum. Í gær var ég alveg að missa af honum. Fattaði þá að ég hafði gleymt að fara með flíspeysuna hennar Rakelar á leikskólann. Vildi ekki eyða tíma í það að ná í skólatöskuna á leiðinni til baka frá leikskólanum svo ég hljóp eins hratt og gat með hana á bakinu út í leikskóla. Á leiðinni til baka fattaði ég að ég hafði gleymt veskinu mínu og þar sem ég ætlaði að kaupa spænskubók í skólanum varð ég að ná í það. Ég hefði því ekki þurft að hlaupa með töskuna sem hafði ekki góð áhrif á mitt auma bak. Ég var bara þrjár mínútur að hlaupa á leikskólann og til baka og tvær mínútur í viðbót að hlaupa upp að ná í veskið og út á strætóstöð. Þetta hlýtur að vera eitthvað met. Og djöfull var ég sveitt þegar ég lokskins settist niður í strætó. Ég sem var nýkomin úr sturtu. Og þetta er ekkert einsdæmi, ég er alltaf hlaupandi um með töskuna á bakinu, löðursveitt og blótandi.

En aftur að sundinu. Sem ég fór í. ÉG. Sem get ekki hugsað mér að annað fólk sjái spikið mitt. Mér finnst reyndar voða gott að sjá svona illa, þá sé ég fólkið í kringum mig í móðu. Og svo er gott þegar það er svona dimmt og plús að fara á veturnar því þá er mun minna af fólki en á sumrin. Og ég bara synti og fílaði það í tætlur. Gott að fá öðruvísi hreyfingu en venjulega. Og Rakel var á fullu allan tímann og talaði og skríkti stanslaust af tómri gleði. Lét sig hafa það í kuldanum að fara tvisvar í rennibrautina. Var reyndar orðin alveg frosin þegar við fórum aðeins í pottinn og gufu. Fengum okkur svo pulsu á eftir. Æ, þetta var svo gott.

Það er svo fyndið með hana Rakel. Eins og hún er mikill gaur, veltir sér í drullu, leikur sér bara við stráka, dundar sér með bíla og turtles og dýrkar Spiderman, þá er hún svooooo mikil stelpa. Það er oft pínu erfitt að fara með henni í sturtu því hún vill vita hvað allt er á líkama mæðra sinna, af hverju það er þarna, til hvers og af hverju hún sé ekki með svona. Við matarborðið í fyrradag fór hún skyndilega að athuga hvort það væru komin hár undir hendurnar á henni. Hún er að bíða eftir að þau komi svo hún megi raka þau með rakvélinni minni. Hún er pínu svekkt yfir því að vera ekki með brjóst, bara vörtur eins og hún segir, og bíður spennt eftir unglingsárunum (ég og mamma hennar hins vegar ekki svo mikið). Hún vill helst fá svitasprey og kókosolíu og hárnæringu og gel í hárið þó hún sætti sig nú við þá skýringu mína að það sé svo góð lykt af henni að hún þurfi ekki að vera að bæta neinni á sig. Hún fær nú stundum samt að maka á sig kókosolíu krúttið.

Um daginn þegar hún og mamma hennar voru að koma úr sturtu vildi hún fá að vita tilgang alls sem má finna í tveimur bastkörfum inni á baði. Hrund taldi upp þangaði til hana brast þolinmæði og sagðist ekki vita hvað þetta væri. Rakel skildi það nú vel: 'Já, ég skil, ég má ekki vita það.' Kom svo fram til mín og sagðist hafa séð oddísprey. Oddísprey? Það endaði með því að hún dró mig inn á bað þar sem Hrundin stóð og hristist úr hlátri. Rakel átti þá við bodysprey, einu ólífrænu hreinlætisvöruna sem við eigum og sú sem vekur mestan áhuga hennar. 'Má, ég fá svona oddípsrey bað barnið' og ég spreyjaði út í loftið einhverjum metra frá henni. En hún var sátt. Er líka farin að greiða sér sjálf eftir sturtu og vandar sig ekkert smá. Tekur líka stundum snúninga fyrir framan spegilinn og sveiflar hárinu til. Gaurinn minn er ekki lengur bara gaur!

En núna verð ég að fara að lesa heimildirnar fyrir ritgerðina mína. Ég ætlaði ekkert að blogga.

Helgin nálgast. Ég segi ekki meir.


Eitt fyndið og annað ekki svo fyndið

Fyrst það ófyndna.

Þetta samtal á sér stað nær hverjum degi á mínu heimili:

dr: Finnst þér ég feit?

Hrund: Nei

dr: Í alvöru? Finnst þér ég ekki vera feitabolla?

Hrund: Þú ert ekki feitabolla

dr: En sérðu þetta spik og þetta og þetta. Hvað er þetta þá?

Hrund: Þetta er húð. Þú er gorgeous

dr: Ertu viss um að þér finnist ég falleg?

Hrund: Þú ert ótrúlega falleg

dr: Í alvöru alvöru?

Hrund: Í alvöru, ég á fallegustu konuna

dr: Myndirðu ekki vilja hafa mig mjóa?

Hrund: Ég myndi ekki vilja hafa þig neitt öðruvísi, þú ert fullkomin

dr: Ég er ekki sammála þér

Hrund: Díana, þú átt við sjúkdóm að stríða

 

Þetta síðasta er víst rétt. Og þegar hann heltekur mig á einhvers konar útgáfa að samtalinu hér að ofan sér stað. Ég vildi að ég gæti útskýrt þennan ótta við mat og fitu og það að fitna og vera feit fyrir ykkur. Hann hellist skyndilega yfir mig og alltaf af svo miklum þunga að ég þarf að setjast. Hann er eins og eldhnöttur í maganum og öskur í hálsinum. Það byrjar að suða fyrir eyrunum á mér og umhverfið í kring verður allt úr fókus. Ég spenni hvern einasta vöðva í líkamanum.

Ég er misfljót að koma mér úr þessum transi. Í gær var ég nokkuð fljót. Það sem skiptir mig meira máli en allt er að láta Rakel ekki heyra mig tala um þetta. Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef hún fengi fitu á heilann.

Málið er að ég veit alveg að Hrund finnst ég flott. Hún þarf ekki að segja það, ég sé það á því hvernig hún horfir á mig og kemur við mig. En samtöl á borð við þetta að ofan eru til að róa mig, þau sefa mig og hjálpa mér að komast yfir óttann. Guð blessi Sprundina fyrir að hjálpa mér alltaf við það.

Það fyrsta sem ég spurði Hrund að þegar ég hitti hana fyrst var: 'Finnst þér ég vera feitabolla' (yes, i was drunk). Þá var ég 20 kílóum léttari en ég er núna og Hrund hélt að ég væri að grínast. Hún sagði því í kaldhæðni 'já, svaka feit'. Oddný tók hana á eintal stuttu seinna og harðbannaði henni að segja nokkuð þessu líkt nokkurn tíma aftur. 'Var hún ekki að grínast' spurði Hrund steinhissa. Nei, ég grínast ekki með þetta.

Og nú er ég búin að koma þessu frá mér. Þið eruð kannski komin með ógeð af því að lesa um þetta vandamál mitt en lesið þá bara eitthvað annað elskurnar mínar. Þetta er hluti af mínum bata. Að skrifa um þetta án þess að skammast mín fyrir það.

Og svo fyndið. Ég er eins og gömul kerling og get aldrei sofið heila nótt. Vaknaði um þrjú í nótt og fór á klósettið og hugsaði aðeins. Þegar ég var að skríða aftur upp í var Hrund komin á koddann minn svo ég þurfti að ýta aðeins við henni. Eins og venjulega þegar ég geri það fór hún að tala upp úr svefni:

Hrund: Gjörðu svo vel (í þessum líka syngjandi afgreiðslutón)

dr: Uuuuuu, takk???

Hrund: Það var ekkert, gjörðu svo vel

dr: Hmm, hvað ertu að gefa mér?

Hrund: Ekkert, þú varst að kaupa það (í svona 'kjáninn þinn' tón)

dr: Já, ok. Hvað var ég að kaupa?

Hrund: Alls konar skrúfur!

dr: Já, já. Einmitt.

Hrund: Þetta er samt allt að seljast upp, ég þarf að panta meira ...

dr: Góða nótt, Sprundin mín

Hrund: Já, takk fyrir!

 

Það var nú samt best þegar hún heimtaði Spidermanbollann sinn undir kaffið. Enginn slíkur bolli á þessu heimili.

 

Farin í strætó!


Jæja

Ég ætla þá að gera aðra tilraun til að blogga. Sumst. Ég hafði einfaldlega hvorki tíma né orku til að blogga í síðustu viku. Ég var hundlasin mánudag, þriðjudag og miðvikudag án þess að hafa nokkurn einasta tíma til þess. Ég dröslaði mér upp á Hlöðu alla dagana og lærði frá mér allt vit. Ég gerði meirihlutann af ömurlegu íslenskuverkefni, las rosalega þykka bók fyrir spænskuritgerð og aflaði mér heimilda og eyddi 15 tímum samtals í hópavinnu. Við og hópavinnufélaginn vildum klára ritgerðina og fyrilesturinn sem við eigum að skila og halda í næstu viku og okkur tókst það næstum. Gáfumst upp eftir nær átta tíma törn á föstudaginn og áttum þá bara eftir að fínpússa fyrirlesturinn aðeins. Geri aðrir betur segi ég nú bara!

Ég sinnti vinkonum mínum líka vel og vandlega í vikunni. Eins og áður sagði talaði ég við Oddnýju í símann og Kötlu á Skype, ég átti líka gott spjall við Maríu og hitti Ragnheiði, samnemanda og sálufélaga minn í íslensku máli að fornu I og II, og mæltum við okkur mót í næstu viku, ég fór á kaffihús og í bíó með vinnufjölskyldunni og fékk Hildi mína í heimsókn eitt kvöldið. Allt saman mjög notalegt.

Rakelin er búin að vera svo háð mæðrum sínum undanfarið og er alveg límd við rassgatið á okkur. Hún bara má ekki af okkur líta og þannig hefur það bara aldrei verið áður. Þar sem ekkert sérstakt hefur komið fyrir höldum við að þetta sé bara aldurinn og eitthvað tímabil. Við pössum því extra vel að veita henni alla þá ást og umhyggju sem hún þarf, litli kúturinn. Hún vill helst alltaf sofa í stórrúmi þessa dagana og hafa okkur báðar hjá sér hvort sem hún er sofandi eða vakandi. Við reynum því að vera alltaf saman í kvöldmat (högum matartímum bara eftir skóla og ræktinni hjá mér og Hrund) og spjalla og leika okkur. Á föstudaginn þurfit krílið að hringja tvisvar í mig og tala við mig og stökk svo í fangið á mér með látum þegar ég loks kom heim eftir maraþonhópavinnu.

Við dúlluðum okkur eitthvað eftir að ég kom heim og við Sprundin fórum ekki löngu á eftir afkvæminu að sofa, við vorum alveg úrvinda. Vöknuðum nokkuð sprækar daginn eftir og horfðum inn í tóman ísskápinn. Á endanum sauð ég egg og við fengum okkur faltkökur og vatn með. Alveg kominn tími til að versla.

Við ærsluðumst íþróttaskólanum, tókum bensín á lækkuðu verði, skruppum aðeins í Heilsuhúsið, keyptum byggingaplast í Húsasmiðjunni til að setja yfir hjólin okkar og keyptum inn í Bónus. Eftir að hafa komið vörunum fyrir héldum við á Náttúrugripasafn Kópavogs og skoðuðum skeljar af risaskjaldbökum, ýmis uppstoppuð dýr og steina. Restinni af deginum eyddum við svo í góðu yfirlæti hjá tengdó. Ég lærði með hjálp hennar að setja tónlist inn á ipodinn minn. Loksins. Og en hvað það er gaman.

Þormar frændi Hrundar og kærasta hans vildu endilega fá okkur á djammið svo við buðum Rakel að gista hjá ömmu Sillu sinni sem hingað til hefur alltaf verið mikið stuð. Í þetta skiptið harðneitaði hún því hins vegar. Það kom skeifa á litla andlitið og neðri vörin titraði og hún grúfði sig í hálskotið mitt og tautaði eins og biluð plata: 'Ég vil bara gista hjá ykkur, mömmu og mammí, ég vil bara vera hjá mömmu og mammí'. Við reyndum að freista hennar með því að hún gæti gefið fiskunum og leikið við hundana og að við skyldum leggja hana og koma og sækja hana snemma en hún hélt nú ekki. Þannig að við fórum bara heim með kút, komum honum fyrir í stórarúmi, lögðumst hjá honum, lásum sitthvora bókina, báðum bænir og  bíuðum. Þormar og co. komu svo í heimsókn og tóku Sprundina með sér á djammið, eitthvað sem hún átti inni hjá mér blessunin (að fara út um mömmuhelgi meina ég).

Meðan Hrund svaf á sínu græna á sunnudagsmorguninn höfðum við Rakel það kósý, horfðum á smá barnatíma, perluðum og hlustuðum á Pétur og úlfinn. Við fórum svo til ömmu í spjall og kaffi, náðum eftir það í Sprundina og héldum til mömmu. Ég kláraði íslenskuverkefnið á meðan Hrund las Skakka turninn og Rakel lék sér í turtles. Vinkona mömmu kom í mat og ég eldaði kjúkling ofan í liðið. Best í heimi að borða með fullt af fólki sem manni þykir óendanlega vænt um.

Yndisleg helgi bara. Fyrsta helgin í langan tíma sem ég fór ekkert út. Ég væri að ljúga ef ég segði að ég hefði ekki verið eirðarlaus og langað út að dansa. En næsta helgi er pabbahelgi. Íha!


Elskurnar mínar

Ég var of upptekin í dag til þess að blogga. En ég held ég muni finna þörfina og tíma til þess að sinna henni á morgun. Ekki gefast upp á mér strax!

Annars erum við Sprundin búnar að setja fullt af myndum inn á síðuna hennar Rakelar, endilega kíkið á það. Ætla að setja hlekkinn hérna inn á síðuna hjá mér. Ef ég get.

 Ég er samt búin að læra að setja tónlist inná ipodinn minn sko þannig að ég held að ég sé nú fær í flestan sjó. 


Kannski

Kannski nenni ég að skrifa aðra svona langa færslu á morgun. Ekki núna. Er brjáluð.

Neeeeeei

Var búin að skrifa svoooo langa færslu sem allt í einu datt út. Langar að klóra úr mér augun.

Kalt

Rosalega er kalt eitthvað. Það er kannski ekki að marka mig þar sem ég er lasin. Eftir nokkra tíma á Hlöðunni í gær og smá hópavinnu fór ég út á stoppustöð. Það voru 10 mín. í næsta strætó. Fór að spjalla við Bjarndísi í sms-um og sem ég lít upp eftir eitt þeirra sé ég strætó bruna fram hjá. Hálftími í næsta strætó og gaddur úti. Flúði í vinnuna til mömmu. Sat svo þar í þykkri peysu, með ullarsjal og ullarponsjóið hennar utan um mig og skalf úr kulda.

Fékk far með mömmu heim. Fór í tveimur lopapeysum og úlpu með ullarsjal að sækja Rakel. Við fengum okkur hrökkbrauð og mandarínur í eldhúsinu og spjölluðum. Svo fór ég í Bangsímonnáttkjólinn minn, sem er úr flísi, og ullarsokka og við Rakel skriðum undir dúnsængina hennar Hrundar og horfðum á Ísöld. Allt má þegar maður er veikur.

Hrund kom heim með pizzur og sá svo um kríli á meðan ég lá eins og skata í sófanum. Lærði, spjallaði við Kötlu mína á Skype og Oddu poddu í símann. Ótrúlega svekkt yfir því að komast ekki í afró sökum orkuleysis. Og ótrúlega fegin að ég þreif allt á sunnudaginn svo ég þurfti ekki að liggja í skítnum.

Svaf ömurlega. Það kostaði mig ofurmannlegt átak að fara í sturtu í morgun, gefa okkur Rakel morgunmat og labba með henni á leikskólann. Get núna ekki hugsað mér að fara upp á Hlöðu. Kannski ég læri bara hérna heima. Þarf samt í tíma eftir hádegi og í hópavinnu eftir það. Úff.

Annars er Hildur mín á landinu. Ég verð að hressa mig svo ég geti farið með henni á kaffihús.

Mér finnst samt verst af öllu að komast ekki í ræktina. Mikið djöfuls nagandi samviskubit fæ ég. Bara finn hvernig ég fitna.

 


Einmitt

Í gærkvöldi var ég að elta Hrund í ullarsokkunum sem hún gaf mér þegar ég rann til og skall næstum í gólfið. Ég kom í veg fyrir skellinn með því að grípa í beltið á náttsloppnum hennar Hrundar og hanga þar. Ef mér hefði ekki tekist þetta hefði ég skollið með höfuðið í gólfið og skemmt það sem eftir var af heilanum eftir að ég rotaði mig í gær á hoppi.

Hrund sagðist vera pínulítið hrædd við mig.

Eftir svefn og dúll á laugardaginn fórum við Hrund á danssýningu í Salnum. Þar dansaði frábær dansflokkur frá Ecuador í rúma tvo tíma. Magnað. Náðum okkur svo í samlokur og spólu og höfðum það kósý.

Vaknaði um níu í gær og fékk mér kaffi og banana. Tölvaðist og las eitt stykki bók fyrir spænsku. Sprund kom á fætur stuttu seinna og við fengum okkur kakó og ristað brauð og spjölluðum. Fórum svo að púsla 1000 bita púsl sem við keyptum okkur um daginn. Djöfull er það gaman. Vorum boðnar í súkkulaðiköku og kaffi til Rósu og Gests og röltum okkur þangaði í haustblíðunni. Rakelin kom þangað frá pabba sínum og spilað brjálaðan fótbolta við Tryggva frænda sinn. Barnið öskraði: 'ég varði, stönginn inn, út á kanti, skallaðu boltann' og eitthvað fleira á fótboltamáli. Guð má vita hvar hún lærði þetta allt saman. En hún dýrkar fótbolta, krakkinn minn.

Borðuðum góðan kvöldmat og eftir að rauðhaus var kominn upp í rúm í nýju sjóræningjanáttfötunum sínum, héldum við Hrund áfram að púsla.

Ég svaf ekki nógu vel og svaf yfir höfuð of lítið um helgina svo ég ætlaði aldrei að geta vaknað í morgun. Náði því þó að vera mætt hingað upp á Hlöðu klukkan níu. Það er verkefnavika svo ég ætla að nýta tímann vel.

Ég held hins vegar að ég hafi ofkælst á djamminu á föstudaginn. Ég er með hálsbólgu og kvef og ótrúlega tuskuleg eitthvað.

Shocking Mér líður svona


Á!

Áðan var ég að hoppa í rúminu sem endaði með því að ég hoppaði upp í súðina og meiddi mig allsvakalega í höfðinu. Svo hlunkaðist ég ofan á hina skelþunnu Hrund sem kippti sér nú lítið upp við það, vön klikkinu í mér.

Mér er hins vegar helvíti illt. Vonandi fékk ég ekki heilahristing.

Ótrúlegt fjör hjá Gyðu. Fimbulfamb, spjall og drykkjulæti. Nei, segi svona. Við erum öll svo settleg. Eða þannig. Þrátt fyrir ótæpilegt magn af kokteilum og fjögurra tíma svefn er ég eiturhress. Eða þannig. Eins og hægt er að vera.

Svöng.


Pínu kreppukvíði

Ég er nú ekkert að stressa mig í hel yfir þessu öllu saman þar sem það er lítið sem ég get gert nema taka einn dag í einu, hætta að kaupa lífrænt og hafa kjötfars einu sinni í viku.  Ef ég eyði tíma í að velta þessu fyrir mér verður mér samt óglatt. Nú erum við Hrund að borga af bíl og íbúð og hafa afborganirnar alltaf verið alveg nógu háar, við höfum ráðið við þær og samt átt pening eftir en það verður mjög erfitt að borga af þessu ef afborganirnar rjúka upp úr öllu valdi. Þar sem við lifum að öllu leyti mjög sparsömu lífi er ekki mikilla breytinga þörf. Gætum drukkið minni bjór og djammað minna. Kostnaði við jólagjafir verður haldið í lágmarki og mikið af þeim verða heimatilbúnar.

Það er bara svo hryllilegt að þjóðin skuli vera gjaldþrota. Hver ætlar að lána okkur og hver í ósköpunum verða skilyrðin? Ég er skíthrædd við þessi skilyrði. Allur gróði í þjóðfélaginu er einkavæddur og svo tekur ríkið við gjaldþrotinu. Það sem ég er hræddust við er atvinnuleysið. Hvað ef útlendingarnir sem lán okkur vilja losa sig við alla ríkisstarfsmenn sem þeim er alveg sama um? Mamma og co. rekin. Hvað ef Hrund og þau á verkstæðinu fá ekkert að gera? Allt í steik. O.s.frv. Og ég er ekkert bara að hugsa um mig og mína heldur alla. Ríkið verður auðvitað að gera eitthvað, það er ekki hægt að láta allt fara á hausinn. Eins og mamma segir er ótrúlega klikkað að brjáluð neysla skuli skila hagvexti. Svo þegar enginn hefur efni á neinu lengur þá stöðvast allt og það má ekki gerast núna. Hvað verður um námslánið mitt? Mun ég kvíða hverri einustu afborgun að loknu námi?

Það er spurning um að flytja til Svíþjóðar eftir BA-námið ef þetta verður enn þá svona. En þá verðum við nú að geta keypt gjaldeyri ...

Sick Óglatt

Að öðru. Önn hálfnuð, búin að vera brjáluð, á eftir að verða enn þá meira kreisí.

Ótrúlega merkilegt að eftir því sem Rakelita verður eldri því meira þarf hún á mæðrum sínum að halda. Áður voru það bara grunnþarfir, peli, bleiuskipti, bað, snerting. Núna má hún bara ekki af okkur sjá. 'Er mamma heima, hvar er hún, hvenær kemur hún, af hverju er hún ekki heima, af hverju er hún ekki komin, hvað er klukkan, klukkan hvað kemur mamma ...?' Svo þegar ég fer í ræktina: 'Hvert ertu fara, er mamma að fara með þér, má ég koma með, ég vil koma með búhú, hvenær kemurðu aftur, verð ég sofnuð, verðuru hérna þegar ég vakna, af hverju ertu alltaf að fara ...?' Hún vill hafa okkur báðar hjá sér og þótt hún sé ótrúlega dugleg að dunda sér þá þarf að passa að veita henni 100% athygli í X-langan tíma á hverjum degi eftir leikskóla og leika við hana.

Var að tala um þessi merkilegaheit við mömmu og þennan 'hvert ertu að fara ekki skilja mig eftir-kvíða'. Mamma rifjaði þá þá upp þegar hún fór til Finnlands í vinnuferð og Elísabet fallegasta Rósin var tæpra fjögurra ára. Barnið var skelfingu lostið yfir því að mamma væri að yfirgefa hana og þrábað hana að gleyma því ekki í útlöndum að hún ætti börn. Barnið var ekki alið upp í öryggisleysi og aldrei nokkurn tíma hafði mamma skilið hana eftir.

Við Hrund pössum því að veita Rakel alla þá umhyggju og ást sem hún þarf. Ég hef farið í seinna lagi í ræktina á þriðjudögum og jafn vel sleppt henni á fimmtudögum til þess að við gætum átt góða stund allar saman. Rakel er ekki alveg að fíla það að bara önnur sé heima og hin í kvöldskóla eða ræktinni.

Í gær ákvað ég að það besta við kreppukvíðanum væri að sækja Rakel snemma og dúlla mér með henni. Náði í hana upp úr þrjú og við hófumst handa við að baka. Gerðum nokkurs konar eplaböku úr lífrænum höfrum og hrásykri. Rakel fékk að hnoða smjöri út í þetta og raða eplum ofan á og var alsæl. Ég bjó svo til gartöflugratín og sallat og skellti svína-einhverju inn í ofn. Ég er að segja ykkur, ef maður gramsar nóg í Bónus þá finnur maður góðan kreppumat. Fann til dæmis þessi svínabuff falin í einhverri hillunni, voru þrjú í pakka og á 40% afslætti svo á endanum borgaði ég 200 kr. fyrir þau. Og þau voru mjög góð. Við höfðum meira að segja djús með matnum í tilefni dagsins og skemmtum okkur vel yfir þessum veislumat. Eftir hann komum við okkur allar fyrir upp í sófa og undir sæng og horfðum á Kirikou og villidýrin, yndisleg mynd um lítinn strák í Afríku. Og Rakel átti varla til orð yfir því að vera að horfa á baratímann í miðri viku (hún fær bara að horfa um helgar hér heima núorðið og gerir enga athugasemd við það). Við fengum okkur svo eplaböku og ís í eftirrétt, Rakelin fór í sturtu með mömmu sinni og fékk svo sögu, söng, bænir og koss hjá mér.

Það er svo fyndið hvað Rakel hefur gaman af því að láta mig leika fyrir sig. Hún dýrkar þegar ég segi henni sögur með tilþrifum og þá sögur sem ég segi en les ekki eins og Geiturnar þrjár og þvíumlíkt. Svo á hún þrjár músabækur sem eru ekki með neinum texta en í hverri bók er ákveðið þema (langt síðan bækurnar komu út, mörg ár). Í gær las/lék/skáldaði ég bókina um litina. Barnið mitt var eitt bros allan tímann og hló og skríkti, henni finnst þetta það besta í heimi. Og aumingja þeir sem reyna að leika þetta eftir, hún til dæmis leiðréttir mömmu sína alltaf þegar hún er að reyna að leika þetta fyrir hana: 'ekki soooona, mammí gerir aldrei sona ...'

Þegar ég þarf ekki að mæta eldsnemma í skólann leyfi ég Rakel að vekja mig. Hún er eins og klukka og vaknar alltaf rétt um átta. Þar sem hún þarf á svo mikilli mömmuást að halda þessa dagana er hún farin að skríða upp í mömmuholu (mamman þá farin á fætur og er á leið í vinnu) og nudda sér upp við mig. Stríkur köldum tám eftir lærinu á mér, vefur liltum handleggjum um hálsinn og mér og kemur höfði fyrir í hálskoti. Besta vekjaraklukka í heimi.

Áðan var hún að kyssa mömmu sína bless og að kossi loknum sagði hún:´Þetta var nú blautur koss'. Ég veit ekki af hverju henni finnst mömmukossar okkar svona oft blautir en hún segir þetta líka oft á leikskólanum, hátt og snjallt. Pínu vandræðalegt þegar hún talar um þessa blautu kossaBlush

Jæja, þá er ég búin að svara spurningum úr þeirri mest brútal, spænsku mynd sem ég hef séð. Ætla að fara að lesa bók fyrir spænsku áður en ég fer í skólann.

Í dag held ég svo að það eina í stöðunni sé að fara í partý. Svei mér þá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband